Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.11.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.11.2019, Blaðsíða 15
10.11. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 við nútíðina. Viðhorf manns eru í stöðugri mótun; tryði maður alltaf því sama gæti maður bara sungið eitt lag. Þótt maður hafi einhvern sannfæring- arkraft skrifar maður ekki út frá neinni opinberun og því hvernig heimurinn eigi að vera. Skáldskap- urinn á í endalausri samræðu við veruleikann og fyrir mér er skáldskapurinn ólgandi kvika, þar sem allt er ekkert og ekkert er allt.“ Trúi á spurningarmerkið – Ertu þá ekkert nær „sannleikanum“ eftir tæplega fjörutíu ára vegferð sem höfundur? „Nei,“ svarar Einar Már hlæjandi. „Eins og ég hef sagt í ljóði þá trúi ég á spurningarmerkið. Þetta er endalaus leit. Það breytir þó ekki því að maður hefur ákveðnar tilfinningar fyrir siðferði og rétt- læti. Ég komst að því sem róttæklingur í hruninu hversu auðvelt það er að hafa rétt fyrir sér. Mikið af gagnrýninni á frjálshyggjuna og kapítalismann á rétt á sér en samt vantar svörin. Hvað á að koma í staðinn? Þetta er ekki eins svart-hvítt og það var fyrr á tímum þegar menn sáu bara sólina í austri.“ Fyrir meira en tveimur áratugum hlustaði ég á Einar Má lýsa því í fyrirlestri hvernig það kom til að hann gerðist rithöfundur árið 1980. Hann bjó þá í Danmörku og vann við hreingerningar hjá sjóhern- um. Dag einn gekk hann á fund yfirmanns síns og tjáði honum að hann væri að fara heim til Íslands til að gerast rithöfundur. „Nú, jæja,“ sagði yfirmað- urinn með hægð og horfði í augun á unga mann- inum. „Gangi þér allt í haginn en mundu samt að þú ert alltaf velkominn aftur!“ „Jú, jú, þetta var einhvern veginn svona,“ segir Einar Már hlæjandi. „Ég skráði mig í nám í Dan- mörku til að lesa bókmenntir en hafði engan tíma fyrir einhver háskólaverkefni. Þess vegna fékk ég mér vinnu og hreingerningar lágu beint við. Síðan var þetta spurning um að hrökkva eða stökkva og ég ákvað að láta slag standa og gefa út ljóðabók, raunar tvær í einu, Sendisveinninn er einmana og Er nokkur í Kórónafötum hér inni? Sú þriðja, Rób- inson Krúsó snýr aftur, var raunar tilbúin líka en kom ekki út fyrr en árið eftir, 1981.“ Segja má að Einar Már hafi snúið skjótt aftur til Danmerkur en téðar ljóðabækur voru þýddar skömmu síðar yfir á dönsku og í seinni tíð hafa bæk- ur hans komið út á nær sama tíma í báðum löndum. Erik Skyum-Nielsen hefur annast þýðingu. Verk Einars Más hafa sem kunnugt er verið þýdd á fjöl- mörg önnur tungumál, svo sem kínversku, kóresku og spænsku. „Danir taka okkur íslenskum höf- undum alltaf best, það sést til dæmis á fornsög- unum. Þráðurinn er sterkur þarna á milli. Samt er svolítið tóm á milli höfunda; það vantar til dæmis að þýða kynslóð módernistanna á dönsku. Vonandi kemur að því,“ segir hann. „Þá voru þýddar bækur á stangli en ekkert miðað við það sem þýtt er núna.“ Ljóðið alltaf á staðnum Við endum samtalið þar sem við byrjuðum – á ljóð- inu. Og stöðu þess. „Hægt er að segja ansi margar sögur og mót- sagnakenndar þegar litið er til baka um farinn veg ljóðsins. Til að gera langa sögu stutta þá er ljóðið alltaf á staðnum, þótt það standi stundum úti í horni og enginn vilji bjóða því upp í dans. Stundum vilja allir dansa við það. En það breytir ekki ljóðinu sjálfu; það býr alltaf yfir sömu eiginleikum hvort sem það er vinsælt eða ekki. Póesía er svo mikill hluti af innra lífi okkar mannanna – og gefur lífinu gildi. Þegar rætt er um öll þessi vandamál með löngun fólks til að lifa og deyja blasir kreppan við – það vantar meiri ljóðlist. Þá er ég ekki að leggja til að allir kveði rímur og tjái sig í bundnu máli en ef ljóðið er í minnihluta þá er eitthvað sem vantar, það er póesían, dýptin, innihaldið. Miðað við allar þær breytingar sem átt hafa sér stað á tækni og sam- skiptaformum er merkilegt hvað ljóðið er alltaf líf- legt. Ljóðið er „basic“ og maður getur alltaf snúið aftur í ræturnar.“ – Þurfum við að bíða í önnur þrettán ár eftir næstu ljóðabók frá þér? „Það er ómögulegt að segja. Maður er alltaf með ákveðið plan og vinnur að ákveðnum verkum og ég býst frekar við því að næsta bók verði skáldsaga. Annars eru múrarnir þarna á milli oft ógreinilegir og maður vill eiga þátt í að brjóta þá niður. Hvernig var þetta með Íslendingasagnirnar? Þeir sem skrif- uðu þær vildu bæði vera sagnfræðingar og segja sögu eins og skáld.“ Það er líklega hægt að hugsa sér verra hlutskipti í þessu lífi. Morgunblaðið/Hari

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.