Morgunblaðið - 28.12.2019, Page 52
52 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. DESEMBER 2019
Gjald hugsunar
Þótt mikill munur sé á mann-
tegundum eiga þær allar nokkur
sameiginleg einkenni. Óvenjustór
heili í samanburði við önnur dýr
er þar mest áberandi. Sextíu kílóa
spendýr hefur að meðaltali 196
rúmsentimetra stóran heila. Heili
fyrstu karlanna og kvennanna fyr-
ir 2,5 milljónum ára var um það
bil 590 rúmsentimetrar. Sapiens
nútímans hafa að meðaltali 1196-
1393 rúmsenti-
metra heilabú.
Heilar Neander-
dalsmanna voru
ennþá stærri.
Okkur finnst
óþarfi að brjóta
heilann um það
hvers vegna
stærri heilar
hafi orðið ofan á
í þróunarúrvalinu. Við erum svo
heilluð af miklum gáfum okkar að
við göngum út frá því að stærð
heilans skipti meginmáli. En ef
svo væri myndi kattaættin líka
eiga afsprengi sem réði við flókna
stærðfræði og froskar væru nú
þegar komnir með geimferða-
áætlun. Hvers vegna eru risastór-
ir heilar svona sjaldgæfir í dýra-
ríkinu?
Staðreyndin er sú að risaheili er
gríðarleg byrði á líkamanum. Það
er ekki auðvelt að rogast með
hann, ekki síst þegar hann er um-
lukinn þykkri höfuðkúpu. Það er
ennþá erfiðara að sjá honum fyrir
eldsneyti. Hjá Homo sapiens er
heilinn um 2-3 prósent af heild-
arþyngd líkamans en neytir fjórð-
ungs allrar orku hans þegar lík-
aminn er í hvíld. Til samanburðar
þarf heili annarra apa ekki nema
átta prósent orkunnar í hvíld.
Forsögulegir menn greiddu tvenns
konar gjald fyrir stóra heilann
sinn. Í fyrsta lagi vörðu þeir meiri
tíma í matarleit. Í öðru lagi rýrn-
uðu vöðvar þeirra. Líkt og ríkis-
stjórn sem beinir fé frá vörnum til
menntunar beindu menn orku frá
upphandleggsvöðvum til taugunga.
Það er varla sjálfgefið að slíkt
auki lífslíkur á gresjunni. Simp-
ansi getur ekki farið með sigur af
hólmi í rökræðum við Homo sapi-
ens en apinn getur aftur á móti
slitið manninn í sundur eins og
tuskudúkku.
Í dag skilar stóri heilinn okkur
sínu því að við getum framleitt
bíla og byssur sem gera okkur
kleift að hreyfa okkur miklu hrað-
ar en simpansar og skjóta þá úr
öruggu færi í stað þess að slást
við þá. Bílar og byssur eru hins
vegar nýleg fyrirbæri. Í meira en
tvær milljónir ára hélt tauganet
mannsins áfram að vaxa og vaxa
en að frátöldum nokkrum tinnu-
hnífum og oddmjóum prikum virt-
ust mennirnir harla lítið græða á
því. Hvað var það þá sem knúði
áfram þróun þessa gríðarmikla
mannsheila í þessar tvær milljónir
ára? Við vitum það satt að segja
ekki.
Annað séreinkenni okkar mann-
fólksins er að við göngum upprétt
á tveimur fótum. Sá sem stendur
uppréttur á auðveldara með að
skyggnast yfir gresjuna eftir
veiðibráð eða óvinum, og hand-
leggi sem ekki þarf til að komast
úr stað má nota til annars, svo
sem til að fleygja steinum eða
gefa merki. Því meira sem lausu
hendurnar gátu gert, þeim mun
betur vegnaði eigendum þeirra, og
því beindist þróunarþrýstingurinn
að meiri samþjöppun tauga og fín-
stilltra vöðva í lófum og fingrum.
Af því leiðir að manneskjur geta
leyst afar flókin verkefni með
höndunum. Einkum geta þær búið
til og notað margbrotin áhöld.
Fyrstu dæmin um áhaldagerð eru
frá því fyrir um 2,5 milljónum ára
og framleiðsla og notkun áhalda
er viðmiðið sem fornleifafræðingar
nota til að bera kennsl á forna
menn.
Það hefur þó vissa ókosti að
ganga uppréttur. Beinagrind prí-
matanna, forfeðra okkar, þróaðist
í milljónir ára til að bera uppi dýr
sem gekk á fjórum fótum og hafði
tiltölulega lítinn haus. Það tók því
talsvert á að aðlagast uppréttri
stöðu, ekki síst þegar stoðirnar
þurftu að halda uppi sérlega stórri
hauskúpu. Mannkynið galt fyrir
sína háleitu sýn og iðnu hendur
með bakverkjum og stirðum hálsi.
Konur greiddu enn hærra gjald.
Til að geta gengið uppréttar þurfti
mjórri mjaðmir, sem þrengdi að
fæðingarveginum – og það einmitt
þegar höfuð barna stækkuðu sí-
fellt. Dauði af barnsförum varð ein
helsta hættan sem steðjaði að
konum. Þeim sem fæddu fyrir tím-
ann, meðan heili og höfuð ung-
barnsins voru enn tiltölulega lítil
og eftirgefanleg, vegnaði betur,
þær héldu lífi og eignuðust fleiri
börn. Þar af leiðandi ýtti nátt-
úruvalið undir skemmri
meðgöngutíma. Og í samanburði
við aðrar dýrategundir fæðast
mannabörn vissulega fyrir tímann,
á meðan mörg líffærakerfi eru enn
óþroskuð. Folald getur skokkað
um skömmu eftir fæðingu; kett-
lingur fer frá móður sinni og leit-
ar sér sjálfur að æti aðeins nokk-
urra vikna gamall. Mannabörn eru
hjálparvana og árum saman háð
sér eldra fólki um næringu, vernd
og menntun.
Þetta hefur átt ríkan þátt jafnt í
óvenju mikilli félagslegri færni
mannkynsins sem einstökum fé-
lagslegum vandamálum þess. Ein-
stæðar mæður áttu bágt með að
sjá afkvæmum sínum og sjálfum
sér fyrir nógu mikilli fæðu með
þurftarfrek börn í eftirdragi. Til
að ala upp börn þurfti stöðugt
hjálp frá öðrum fjölskyldu-
meðlimum og nágrönnum. Það
þarf ættbálk til að ala upp mann-
eskju. Þess vegna var þróunin vil-
holl þeim sem gátu myndað sterk
félagsleg tengsl. Þar sem menn-
irnir fæðast vanþroska er auk
þess hægt að kenna þeim og auka
félagsfærni þeirra mun meira en
nokkurra annarra dýra. Flest
spendýr koma úr móðurkviði eins
og glerjað leirker úr brennsluofni
– allar tilraunir til meiri mótunar
myndu bara rispa þau eða brjóta.
Manneskjur koma úr móðurkviði
eins og bráðið gler úr bræðsluofni.
Þá er hægt að spinna, teygja og
móta furðu frjálslega. Þess vegna
getum við á okkar dögum kennt
börnunum okkar að verða kristin
eða búddistar, kapítalistar eða
sósíalistar, herská eða friðelsk-
andi.
Við gefum okkur að stór heili,
notkun áhalda, yfirburðanámsgeta
og margþætt samfélagsbygging
veiti okkur mikið forskot. Við telj-
um augljóst að þetta hafi gert
mannkynið að máttugasta dýri á
jörðinni.
Samt naut mannkynið allra
þessara kosta í tvær milljónir ára
en var þrátt fyrir það veikburða
og jaðarsett skepna. Þrátt fyrir
stóran heila og egghvöss áhöld
lifðu mennirnir sem voru uppi fyr-
ir milljón árum í stöðugum ótta
við rándýr, veiddu sjaldnast stór
veiðidýr og héldu aðallega í sér
lífinu með því að tína plöntur,
krækja sér í skordýr, elta uppi
smádýr og éta hræ sem aðrar afl-
meiri kjötætur höfðu skilið eftir.
Eitt algengasta hlutverk fyrstu
steináhaldanna var að brjóta bein
til að komast að mergnum. Sumir
fræðimenn telja að það hafi verið
okkar upprunalega sérstaða. Líkt
og spætur sérhæfa sig í að ná
skordýrum úr trjábol hafi fyrstu
mennirnir sérhæft sig í að ná
merg úr beinum. Af hverju merg?
Nú, segjum sem svo að við sjáum
ljónahóp fella gíraffa og éta hann.
Við bíðum þolinmóð þangað til þau
hafa étið nægju sína. En röðin er
ekki enn komin að okkur því að
fyrst koma hýenur og sjakalar –
og við þorum ekki að kássast upp
á þau – og rífa í sig leifarnar. Það
er ekki fyrr en þá sem við í veiði-
hópnum okkar þorum að nálgast
hræið, skimum varkár til allra
átta – og köstum okkur yfir allt
ætilegt sem eftir er.
Þetta er lykillinn að því að
skilja sögu okkar og sálarlíf. Sess
ættkvíslarinnar Homo í fæðukeðj-
unni var, þar til mjög nýlega,
tryggilega í miðjunni. Í milljónir
ára veiddu mennirnir lítil dýr og
söfnuðu því sem þeir gátu á með-
an stærri rándýr veiddu þá. Það
var ekki fyrr en fyrir 400.000 ár-
um að nokkrar tegundir manna
tóku að veiða reglulega stærri
bráð og ekki fyrr en síðustu
100.000 árin – með tilkomu Homo
sapiens – sem maðurinn stökk upp
á topp fæðupíramídans.
Svona feiknarlegt stökk frá
miðju upp á topp hafði gríðar-
miklar afleiðingar. Önnur dýr á
toppi píramídans, eins og ljón og
hákarlar, þróuðust smám saman
upp í þá stöðu um margra milljón
ára skeið. Við það gafst vistkerf-
inu færi á að koma upp gátkerfi til
að tryggja að ljón og hákarlar yllu
ekki of miklum spjöllum. Eftir því
sem ljónin urðu skeinuhættari
þróuðust gasellur upp í að hlaupa
hraðar, hýenur fóru að vinna bet-
ur saman og flóðhestar urðu skap-
styggari. Ólíkt þeim stökk mann-
kynið svo hratt upp á tindinn að
vistkerfið fékk engan tíma til að-
lögunar. Mannkyninu sjálfu mis-
tókst líka að aðlagast þessu. Flest
helstu rándýr jarðar eru tignar-
legar skepnur. Margra milljóna
ára yfirráð hafa fyllt þau af sjálfs-
öryggi.
Í samanburði við þau erum við
líkari einræðisherra banana-
lýðveldis. Svo skammt er liðið frá
því að við vorum minnimáttar á
gresjunni að við erum full af ótta
og áhyggjum af stöðu okkar og
verðum fyrir vikið helmingi
grimmari og hættulegri. Margar
hörmungar sögunnar, allt frá
mannskæðum styrjöldum til vist-
fræðilegra hamfara, stafa af þessu
fljótræðisstökki.
Fljótræðisstökk mannkynsins
Bókarkafli | Í bókinni Sapiens fer sagnfræði-
prófessorinn Yuval Noah Harari yfir mannkyns-
söguna, frá árdögum til nútímans, og notar meðal
annars líffræði, mannfræði, fornleifafræði og
umhverfisfræði til að sýna hvernig sagan hefur
mótað manninn og maðurinn söguna. Magnea
J. Matthíasdóttir þýddi, JPV gefur út.
Þróunarþrýstingur Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari hefur skrifað um þróun mannkyns í þremur bókum.
Sapiens er fyrsta bókin í þríleiknum, hefur komið út í 49 löndum og selst í meira en fimm milljónum eintaka.