Morgunblaðið - 31.12.2019, Side 26

Morgunblaðið - 31.12.2019, Side 26
26 STJÓRNMÁL MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2019 Þ að er hefð fyrir því að sprengja burt gamla árið um áramót. Hvort sem árið var gott eða slæmt eru allir sammála um að það er liðið og um að gera að fagna nýju upphafi. En nýtt ár og nýr áratugur ber með sér bæði von og ótta. Það er ómögulegt að spá ná- kvæmlega um framtíðina. Margir kvíða framtíðinni, sjá hana sem ógn. En þótt ekki sé hægt að birta nákvæmar spár um komandi tíð er engu að síður hægt að komast nærri því hvernig framtíðin verður. Sérstaklega á þetta vel við þegar kemur að þjóðfélaginu í stóra samhenginu, því sú framtíð er mótuð af okkur öllum á lýðræðislegan máta. Svona oftast, en klárlega ekki alltaf þegar íhaldsöfl berjast um á hæl og hnakka við að halda í fortíðina, eins og sannast best á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá. En alla jafna er þjóðfélags- umræðan aflið sem knýr fram breytingar. Inn á milli koma svo tæknibreytingar, sumar gríðarlega umfangsmiklar, og blessuð náttúruöflin. Þar er mun erfiðara að segja fyrir um framtíðina. En reynum samt! Hamfarahyggja Á komandi árum má búast við auknum veðurofsa. Hann er bein afleiðing útblásturs mannkyns á gróðurhúsalofttegundum undanfarna áratugi. Margt bendir til að fjöldadauði tegunda sé þegar hafinn, að ákveðnar auðlindir muni klárast, og að þeim sem flýja ólífvænlegt umhverfi muni fjölga. Allt eykur þetta óstöðugleika í heiminum þegar til lengri tíma er litið. Sumt gerist fyrr: Áhrif Brexit munu fara að koma fram á komandi ári, og mögulegt er að forsetatíð vestra muni fram- lengjast um fjögur ár. Úr sér gengið stjórnmálakerfi er að skila vondum niðurstöðum mjög víða og lítið sem bendir til þess að það muni breytast. En þetta er neikvæða leiðin til þess að horfa á framtíðina. Þetta er líka langt frá því að vera raunsæ eða gagnleg leið til að horfa á hana. Einhvers konar dystópísk sjálfspíning þeirra sem óttast það eina sem er öruggt; breytingar. Skoðum bara aðeins þær breytingar sem hafa átt sér stað á þessari og síðustu öld. Fyrst og fremst ber að nefna gúmmístíg- vél! Gúmmístígvél eru ágætis táknmynd 20. aldarinnar, þar sem gríðarleg framþróun í notkun ólíkra efna og efnasambanda ásamt tæknibyltingu gerði það að verkum að daglegt líf flests fólks varð miklu, miklu betra. Breytingarnar kostuðu þó sitt, vinnsla hrágúmmís hefur haft gríðarleg áhrif víðs vegar um heim og stuðlað meðal annars að aukinni losun koltvísýrings. Nú eru sem betur fer komnir mun umhverfisvænni valkostir þegar kemur að því að halda fótum sínum þurrum í leik og starfi. Bylting í samskiptum og meðferð upplýsinga er þó líklega stærsti áhrifavaldurinn á líf okkar allra þessa dagana. Aukin samskipti eru af því góða, færa okkur nær hvert öðru, tengja saman ólíka menningarheima og búa til vini um allan heim. Og það þrátt fyrir að breytingarnar hafi verið ótrúlega miklar og hraðar. Breytingar næstu ára … Ég hef notið þess heiðurs undanfarin misseri að gegna for- mennsku í framtíðarnefnd forsætisráðherra, en þar eiga sæti fulltrúar allra þingflokka. Á árinu skoðuðum við hvernig laga skuli íslenskt samfélag að þjóðfélagsgerð morgundagsins. Því allir sem með nefndinni starfa eru sammála um eitt: breyting- arnar eru á leiðinni. Og þær eru spennandi ef við undirbúum okkur rétt! Nefndin lagði til að við ættum að búa til sveigjanlegra menntakerfi þar sem gengið er út frá því að fólk bæti við sig dýrmætri þekkingu innan og utan hefðbundna skólakerfisins alla ævi. Raunfærnimat og sveigjanleg símenntun myndi hjálpa til við að verðlauna þá þekkingaröflun. Þetta myndi falla vel að þjóðarmarkmiðum um uppbyggingu atvinnu, í formi heildstæðrar nýsköpunar, atvinnu- og iðnaðar- stefnu. Kortleggja þarf vaxtartækifæri sem skapast við tækni- breytingar, einkum í hátæknigeirum. Loftslagsbreytingar eru ógn sem þarf að svara, en íslenskt hugvit gæti vel fundið leiðir til að leiða heimsbyggðina út úr því svartnætti og íslenskt hagkerfi gæti blómstrað við það. Fjöldinn allur af möguleikum og tækifærum býðst, bæði samfélaginu öllu og okkur öllum sem búum í því. Árin líða Allt frá tímum Hippókratesar höfum við vitað að land- fræðilegar breytur hafa áhrif á þjóðfélagið. En rétt eins og menn sýndu aðlögunarhæfni þá er okkur í lófa lagið að aðlagast núna heimsmynd þar sem Ísland er ekki eyland nema í mjög þröngum skilningi þess orðs. Mannkynið allt er á einni plánetu og tengslin milli okkar hafa aldrei verið meiri. Þannig er ljóst að hlýnun lofthjúps jarðar mun hafa ólík áhrif á Íslandi en til dæmis í Ástralíu, þar sem tugir þúsunda ferkíló- metra af gróðri hafa orðið skógareldum að bráð. Ástralía er langt í burtu í huga okkar – en við búum að sömu örlögum og Ástralar og allir aðrir á jörðinni. Óhjákvæmilegar breytingar eru einmitt það. Óhjákvæmi- legar. En það er ekki það sama og slæmar. Sumar breytingar munu koma illa við okkur, en því meira sem við fjöllum um framtíðina á yfirvegaðan máta, því líklegri erum við til að minnka neikvæð áhrif og ýta undir, og búa til, jákvæðar breyt- ingar. Framtíðin kemur. Tökum henni fagnandi. Horfum sem sam- félag raunsætt á hvað við getum gert og gleymum ekki að hugsa stórt. Fyrir hönd Pírata óska ég öllum gleðilegs og gæfuríks nýs árs. Sjáumst hress í framtíðinni. Smári McCarthy, þingmaður Pírata Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Óhjákvæmilega áhugaverð framtíð Bylting í samskiptum og meðferð upplýsinga er þó líklega stærsti áhrifavaldurinn á líf okkar allra þessa dagana. Aukin samskipti eru af því góða, færa okkur nær hvert öðru, tengja saman ólíka menningarheima og búa til vini um allan heim. Og það þrátt fyrir að breytingarnar hafi verið ótrúlega miklar og hraðar.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.