Skessuhorn - 20.02.2019, Blaðsíða 26
MIÐVIKUDAGUR 20. FEBRÚAR 201926
Vísnahorn
Tveir hafa haft samband
við mig út af vísunni um
Bjarna Bauk sem kom
í síðasta þætti en ekki bar aðilum þó saman.
Halldóra Ásmundsdóttir í Hólkoti í Hruna-
mannahreppi eignaði vísuna Bjarna Jónssyni
frá Unnarholti sem lengi var bankastjóri á
Akureyri og hafi ort hana ungur sem sjálfs-
lýsingu. Árni Guðmundsson frá Beigalda tel-
ur að hún hafi verið ort um Bjarna Ásgeirsson
þegar hann var að alast upp í Knarrarnesi og
skal ég engan dóm á leggja en aldrei er hægt
að útiloka að tveir yrki sömu vísuna.
Svo sem alþjóð er kunnugt andaðist eðal-
hundur fyrrverandi forsetafrúar vorrar nú á
dögunum en ekki er fullvíst á þessari stundu
hvort hann mun af klónun aftur upp rísa. Svo
mikið er þó víst að móðir náttúra notar ekki
sama mótið tvisvar ef hún er ein í ráðum en
þegar Svanur í Dalsmynni heyrði lát Sáms
varð honum að orði:
Nú er kalt á norðurslóð.
Nú er margur hallur.
Nú er hnípin norræn þjóð.
Nú er Sámur allur.
Einhvern tímann var sagt að menn yrðu
ekki ríkir á að afla mikils heldur á að eyða
litlu. Þar af leiðandi þarf að fara spart með.
Högni hét maður og bjó í Garðaseli, sem var
hjáleiga frá Görðum á Akranesi. Lá það orð á
honum að hann væri árrisull þegar hann vit-
jaði grásleppuneta en gæti villst á duflum. Um
hann kvað Eyjólfur Ljóstollur:
Lifir á farða lúnóttur
og lambasparðaméli,
heggur skarð í hrognsleppur
Högni í Garðaseli.
Ekki man ég nú hver svaraði fyrir Högna.
Hef þó séð það einhversstaðar. Vandamálið er
bara að hausinn á mér lekur en held samt að
þetta sé svarvísan:
Ljóst fyrir glósur lyga út flæmdur
land um snjós er kjöftugur,
öllu hrósi tíðum tæmdur,
tollur ljósa Eyjólfur.
Aldurinn fer misjafnlega í menn enda líka
eldast menn bæði misjafnlega og aðstæður
þeirra breytilegar. Þessi er eftir Kristján Óla-
son:
Gleðivaki enginn er
örlög sín að gruna.
Verið er að murka úr mér
mannvitsóveruna.
Samt er það svo að það er algjörlega
óhjákvæmilegt til þess að eldast að viðkoman-
di hafi fæðst fyrst og þar að þarf helst að hafa
orðið nokkur aðdragandi. Séra Jón Þorláks-
son á Bægisá kvað um Ragnheiði Gísladóttur
á Leirá:
Ein er stúlkan yndisleg
öðrum vífum fegri,
hana vildi eiga eg
ef hún væri megri.
Ingibjörg Gísladóttir mun hafa ort um
nágranna sinn sem þótti ekki leggja það í vana
sinn að sólunda heyjum að óþörfu:
Fékk sér konu feitlagna,
fannst sú ráðdeild betri.
Hún mun síður horfalla
á hinum fyrsta vetri.
Séra Sigurður á Auðkúlu þótti sérstakur um
margt og sagt var að hann hefði eitt sinn átt
að jarða efnaðan bónda úr nágrenni sínu sem
þó hafði verið tregur til að borga gjöld sín til
kirkjunnar í lifanda lífi. Gekk þá að kistunni
og segir:
Þú liggur þarna, laufaver,
lúnóttur í grafarhver.
Fleira eg ekki þyl yfir þér,
þú þrjóskaðist við að gjalda mér.
„Nú megið þið fara með hann, piltar,“ og
þar með var þeirri líkræðu lokið og fékkst
klerkur ekki til að tala meira yfir þeim brott-
kvadda bróður enda líkræður ekki endilega
jafn sjálfsagðar á þeim tíma og okkur þykir
nú. Hvað sem öðru líður mun þessi vera eftir
séra Jón Skagan:
Ætíð þessa hugsun haf
Við hverja skyssu gerða
„Af þeim sem lífið lítið gaf
mun lítils krafist verða.“
Kristján Ólason hugsaði hinsvegar til
eilífðarmálanna með þessum hætti:
Köld er okkar fósturfold
þó feli eld í leynum.
Það er aðeins undir mold
sem ekki slær að neinum.
Það er þó allavega skjól undir torfunni hvað
sem manni verður nú hlýtt þegar þar að ke-
mur. Veturinn 1918 var tekin gröf í Reyk-
holtskirkjugarði og tekin í fulla dýpt, 7 fet
eða tvo og tíu en rétt aðeins í einu horninu
hafðist niður úr klakanum. Nú á dögunum
rauk hann upp eina nóttina þannig að Sig-
mundur Benediktsson hrökk upp af værum
blundi og kvað:
Griðum víkur gustur slíkur,
gjörðin ýkist byljarík.
Snjórinn fýkur, rán upp rýkur,
rokið líkist pólitík.
Hann hefur nú svosem rokið upp á suðvestan
fyrr og stundum með einhverjum afleiðing-
um. Um hríð var í Tímanum hagyrðingaþát-
tur og þar orti meðal annarra maður sem kal-
laði sig Búa. Eftir hann er þessi feluvísa:
Hann rauk upp með suðvestan roki og
rigningarhryðjum á föstu-
daginn. Þá kom ég í Kópavog
og keypti þar notaða Mözdu.
Önnur kemur hér svipaðrar gerðar og úr
sömu smiðju:
Orð mín virðast ekki lýsa
andagift, samt liggur hér
undir falin ágæt vísa
en enginn virðist trúa mér.
Sá ágæti hagyrðingur, Sigurður Óskars-
son í Krossanesi, var yfirleitt orðvar í sínum
kveðskap og lagði ekki illt til að fyrra bragði
að minnsta kosti. Nágranni hans einn, sem að
vísu var ekki hagyrðingur svo ég viti, þótti af-
tur á móti nokkuð dómharður og stóryrtur
um menn og málefni. Honum mun tileinkuð
þessi vísa Sigga:
Þú hefur aldrei mann við mælt
á máli er kælir sinnið.
Engan lastað, öllum hælt.
-Orðvar jafnan skinnið.
Jón Kr Lárusson sem bjó í Arney og Arnar-
bæli átti bát sem Hildur hét og reiðhryssu að
nafni Freyja og kvað um þær:
Mig forsmáir meyjaskarinn,
mjókka tekur gæfustrengur,
Hildur seld en Freyja farin
fátt er nú til gamans lengur.
Hildur kætir hrygga lund
Hrönn þó syngi og kveði.
Máske við sofnum síðsta blund
saman á lúnum beði.
Það er ekki alltaf gott fyrir ókunnuga að
átta sig á hvað gæti orðið öðrum til gagns og
gleði. Gæti fullt eins verið eitthvað sem eng-
um dytti í hug. Nú eru flestir hættir að beita
sauðfé að vetrinum og beitarlykt í húsum þek-
kist þar af leiðandi varla en Hrönn Jónsdóttir
saknaði hennar þó:
Engan betri ilm ég veit
en af skít úr kindum
sem höfðu á vetri viðarbeit
og voru ekki á grindum.
Með þökk fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 og 849 2715
dd@simnet.is
Hana vildi eiga eg - ef hún væri megri!
Velferðar- og mannréttindaráð
Akraneskaupstaðar samþykkti á
síðasta fundi að óska eftir tilnefn-
ingum í öldungaráð bæjarins. Er
óskað eftir tilnefningu þriggja full-
trúa frá Félagi eldri borgara á Akra-
nesi og nágrenni og einum fulltrúa
frá heilsugæslu Heilbrigðisstofn-
unar Vesturlands. Bæjarstjórn mun
tilnefna þrjá fulltrúa í öldungaráð-
ið. „Velferðar- og mannréttinda-
ráð leggur áherslu á að við skipun
í ráðið verði gætt að kynjahlutföll-
um og aldursdreifingu eins og segir
í samþykkt fyrir öldungaráð,“ seg-
ir í fundargerð. Stofnun öldunga-
ráðs er til komin vegna breytinga
á lögum um félagsþjónustu sveit-
arfélaga sem tóku gildi 1. október
síðastliðinn. Þar segir m.a. til um
að öldungaráð taki við því hlut-
verki sem þjónustuhópum aldr-
aðra hefur hingað til verið falið að
sinna. Gert er ráð fyrir öldunga-
ráði í hverju sveitarfélagi. Er þeim
fyrst og fremst ætlað að vera form-
legur samráðsvettvangur við not-
endur um öldrunarþjónustu. Skipa
skal ráðið að loknum sveitarstjórn-
arkosningum. Í því eiga að sitja að
lágmarki þrír fulltrúar kosnir af
sveitarstjórn, þrír tilnefndir af fé-
lagi eldri borgara og einn fulltrúi
heilsugæslunnar. Sveitarstjórnir
hafa í hendi sér hve margir sitja í
ráðinu hverju sinni umfram lög-
bundið lágmark.
kgk/ Ljósm. úr safni/ ki.
Öldungaráð stofnað
á Akranesi
Á degi leikskólans miðvikudaginn
6. febrúar síðastliðinn var opið hús
í leikskólanum Uglukletti í Borg-
arnesi eins og svo víða annarsstað-
ar. Við það tilefni fór fram form-
leg vígsla á klifurvegg í sal leikskól-
ans. „Klifurveggurinn er lengi búin
að vera draumur allra í Uglukletti,“
segir Kristín Gísladóttir leikskóla-
stjóri. „Það var því mikil tilhlökkun
sem greip börn og starfsmenn þeg-
ar smíði hans hófst og gleðistund
þegar Gunnlaugur Júlíusson sveita-
stjóri ásamt elstu börnum leikskól-
ans klipptu á borða í tilefni af vígsl-
unni. Gildi klifurveggs fyrir leik-
skólabörn er ótvírætt, þar æfa þau
meðal annars kjark, hugrekki, sam-
hæfingu og líkamlegan styrk og nú
geta allir sem klifra í veggnum sagst
hafa klifrað upp á Hafnarfjall,“ seg-
ir Kristín.
Hún segir að nokkrir aðilar eigi
þakkir skyldar fyrir að vinna í sjálf-
boðastarfi við uppsetningu veggsins
og gert starfsfólki og nemendum á
Uglukletti kleift að láta drauminn
rætast. „Það eru þeir Agnar Daði
Kristinsson, Hlynur Ólafsson,
Andri Þór Kristinsson og Kristinn
Óskar Sigmundsson. Listaverkið á
vegginn máluðu Elín Friðriksdótt-
ir og Margrét Halldóra Gísladóttir
en ákveðið var að mála fjallgarðinn
sem við sjáum út um gluggann hjá
okkur, sem stundum gengur undir
nafninu sjö tindarnir,“ segir Kristín
Gísladóttir.
mm/ Ljósm. Ugluklettur.
„Ég er komin upp á Hafnarfjall“
Klifurveggur vígður í leikskólanum Uglukletti
Veggurinn vígður.
Hér er veggurinn í smíðum. Vaskir sjálfboðaliðar komu að því.
Elín og Margrét mála fjallgarðinn.