Skessuhorn


Skessuhorn - 12.06.2019, Blaðsíða 23

Skessuhorn - 12.06.2019, Blaðsíða 23
MIÐVIKUDAGUR 12. júNÍ 2019 23 Þann 7. júní síðastliðinn var Sig- urlín Gunnarsdóttir frá Steins- stöðum kvödd frá Akraneskirkju, eftir langa og gifturíka ævi. Akra- nes skartaði sínu allra fegursta henni til heiðurs og athöfnin var öll í hennar anda; falleg og látlaus. Hún var hógvær höfðingi hún Sig- urlín. Það er með þakklæti fyrir ómetanleg brautryðjendastörf sem við höfum löngun til að minnast hennar hér. Sigurlín helgaði líf sitt alfarið hjúkrun frá unga aldri og aflaði sér víðtækrar menntunar og reynslu bæði hérlendis og erlendis. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1951 og var önnur tveggja hjúkrunarkvenna sem hófu störf við opnun Sjúkrahúss Akra- ness árið 1952. Hún markaði djúp spor við upphafsrekstur sjúkra- hússins, þeirrar stofnunar sem svo lengi var beðið eftir. Sjúkrahúsið var sannarlega óskabarn í hugum Skagamanna og er enn. Frá þeim árum sem hún vann hér er Sigur- línar minnst sem fallegu krafta- verkakonunnar. Víst er að hún sparaði aldrei krafta sína né færni þegar skjólstæðingar hennar áttu í hlut. Viðtal var tekið við Sigur- lín í tilefni sýningar, sem nefnd var „Saga líknandi handa“ og var sett upp til heiðurs kvenna sem höfðu lagt mikið af mörkum í þágu heil- brigðismála á Akranesi. Þar kom svo berlega í ljós við hvað var að glíma á upphafsárum sjúkrahúss- ins þegar tækjabúnaðurinn var nánast enginn og mikill skortur á fagmenntuðu fólki. Hún jafnt undirbjó sjúklinga fyrir skurðað- gerðir, bjó til vökva til að gefa í æð, lærði að krossprófa blóð og tryggði síðan fasta blóðgjafa úti í bæ. Hún svæfði sjúklingana fyr- ir aðgerð og vakti síðan yfir þeim jafnt daga sem nætur. Hún lærði að gera ýmsar grunnrannsóknir á blóði - svo eitthvað af þeim fjöl- þættu störfum séu nefnd sem hún gegndi við spítalann á Akranesi. Hún var þó fyrst og fremst virt og elskuð vegna hlýjunnar sem hún sýndi öllum sem hún um- gekkst, bæði skjólstæðingum og samstarfsmönnum. Hún vildi læra meira og eftir veru sína á Skag- anum lagði hún land undir fót. Hún kynnti sér bæði skurðtækni og spítalastjórnun, ásamt heilsu- vernd bæði í Englandi og Dan- mörku. Hún vann m.a. í Bretlandi um tíma en aðal starfsvettvangur hennar varð síðar forstöðukvenn- astarf - sem svo var kallað í árdaga Borgarspítalans í Fossvogi. Þar var henni falið að undirbúa alla inn- viði fyrir opnun sjúkrahússins, sem var mikil nákvæmnis vinna, inn- kaup og uppsetningu fjölbreyttra deilda. Þá kom sér vel sú mennt- un sem hún hafði aflað sér í hinum stóra heimi og einnig störf hennar við Landspítalann. Hæfileikar Sigurlínar nutu sín vel sem hjúkrunarforstjóri Borg- arspítalans. Hún var yfirveguð, fagleg fram i fingurgóma og hafði frábæra yfirsýn yfir starfsemina. Svo var það nærvera hennar sem fólk kunni svo vel að meta. Hún var nægjusöm fyrir sjálfa sig en krafðist ætíð alls þess besta fyrir sjúklinga sína og samstarfsmenn. Á 25 ára afmæli Borgarspítal- ans skráði hún upphafssögu hans og er það merkileg heimild. Hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra hjúkrunar- fræðinga og var heiðursfélagi þess. Fálkaorðuna fékk hún fyrir störf í þágu heilbrigðismála. Við undir- rituð erum snortin af hennar af- rekum og þeim sporum sem hún markaði á upphafsárum Sjúkra- húss Akraness. Minning hennar mun lifa. Með þakklæti og virðingu. Ingibjörg Pálmadóttir og Ólafur Adolfsson. Við opnun sýningarinnar „Saga líknandi handa“ í Safnaskálanum í Görðum í júní 2015. Regína Ásvaldsdóttir, Sígurlín Margrét Gunnarsdóttir og Ólafur Adolfsson. Sigurlín Margrét Gunnarsdóttir. Sigurlín önnur frá hægri ásamt nokkrum vinkonum sínum úr hjúkrunarstétt. Á Akranesi er látinn í hárri elli Kjartan Guðmundsson, blikk- smiður að iðn og fyrr á árum formaður Sveinafélags málm- iðnaðarmanna, sé það nafn rétt munað. Mig langar að skrifa nokkur minningarorð um þenn- an félaga minn sem vert væri. Verkefnið er af því tagi sem mér hefur alla tíð þótt mest varið í - verkefni sem ég er ekki alveg viss um að ráða við. Ég hafði fyrir nokkrum miss- erum tekið við starfi fram- kvæmdastjóra járnblendifélags- ins meðan á byggingu verk- smiðjunnar þar stóð og það var orðið tímabært að ráða til starfa mannskapinn sem átti að reka þessa verksmiðju. Um þær mundir var Kjartan Guðmunds- son tilnefndur af hálfu verka- lýðsfélaga og landsambanda sem þessir starfsmenn voru í, sem aðaltrúnaðarmaður þeirra á staðnum. Þar með hófst sam- starf okkar, sem stóð í 15 ár eða svo. Fyrstu árin var járnblendi- félagið ekki aðili að Vinnuveit- endasambandi Íslands og þess vegna var það mitt hlutskipti að semja við þessi verkalýðsfélög og landssambönd um kaup og kjör. Á fyrsta fundi mínum með genginu, sem hafði það verk- efni að semja af þeirra hálfu, varð mér ljóst að viðsemjend- urnir þekktu ekki þann rekst- ur eða þau störf, sem þeir áttu að semja fyrir. Ég greip til þess ráðs að bjóða þeim í vikuferð til Noregs, þar sem þeir gátu ráðg- ast við framámenn landssam- bands þess konar starfsfólks í samskonar verksmiðjum og svo fór ég með þá lengst norður í Noreg, þar sem þeir kynntu sér þá verksmiðju, sem í raun var fyrirmyndin að verksmiðjunni á Grundartanga. Þar gátu þeir ráðgast við forystumenn starfs- manna, jafnframt því að kynnast því hvernig þessi verksmiðju- rekstur var. Í framhaldinu fór- um við syðst í Noreg þar sem er önnur verksmiðja af svipaðri tegund, þar sem raunar tólf af okkar mönnum voru komnir til sex mánaða þjálfunar í ofn- rekstri. Þessi ferð hristi hópinn saman og sjálfum fannst mér ég vera orðinn einn af genginu. Þegar heim var komið var geng- ið til samninga og þeir voru í sjálfu sér einfaldir, því að krafan var um samskonar samning og starfsmenn Ísal höfðu. Það gekk að mestu eftir, en í framhaldinu þróuðust þessir samningar eftir sínum eigin leiðum. Kjartan varð lykilmaður í öll- um tengslum trúnaðarmanna- samfélagsins á svæðinu inn- byrðis og við stjórnendur fyrir- tækisins. Hann rak erindi starfs- mannanna gagnvart mér og öðr- um stjórnendum og ógnarlega þráttuðum við um margt, smátt sem stórt, í þau 15 ár sem við störfuðum þar saman. Samstarf okkar Kjartans var engu að síður gott og ekki minnist ég annars en að við höfum leyst úr hverj- um vanda í sátt. Margt annað bar á góma. Þar sem okkur kom ekki saman. Mér var mjög í nöp við verkfallsrétt- inn og taldi hann ætti að heyra sögunni til. Ég taldi verkföll vera sóun bæði fyrir launafólk og ekki síður fyrirtækin sem það vinnur hjá og gera þeim erfiðara fyrir að greiða laun. Þá taldi ég verkföll gagnast þeim helst, sem mest kverkatök höfðu á samfé- laginu og iðulega síst höfðu þörf fyrir kauphækkanir. Kjartan var hvort tveggja gegnheill krati og verkalýðssinni af gamla skólan- um svo um þetta var hann mér allsendis ósammála. Okkar í milli var það öldungis skýrt, að kæmi til verkfalls á Grundar- tanga liti ég svo á að starfsmenn hefðu sagt mér upp störfum. Í síðasta skiptið sem við hittumst, á haustmánuðum, gat ég þó ekki betur heyrt ofan í hann, en að hann væri farinn að hallast að mínum skoðunum í þessu efni. Um eitt í Straumsvíkursamn- ingunum vorum við hins vegar algerlega sammála. Það var sú ósanngirni, sem þá tíðkaðist, að laun verkakvenna væru miklu lægri en laun verkamanna. Þessu töldum við þurfa að breyta. Í öllum samningum sem við gerð- um og Kjartan hafði forystu um af hálfu starfsfólksins stigum við skref í þá átt að jafna þennan mun. Það tókst raunar ekki að fullu á meðan Kjartan var við störf sem aðaltrúnaðarmaður, en skrefin voru áfram stigin og í síðustu samningunum mínum vorið sem ég hætti störfum hjá járnblendifélaginu var jöfnuðin- um náð, en það tók líka 18 ár. Í daglegum störfum í gegnum árin hélt Kjartan utan um trún- aðarmennina á hverjum tíma. Ég ræktaði þetta samband hins vegar með tvennum hætti, með spjalli úti á svæðinu og svo með nokkuð reglubundnum heim- boðum þar sem trúnaðarmenn og makar þeirra ásamt stjórn- endum og fleiri starfsmönnum sem trúnaðarmennirnir þurftu að eiga við, var boðið heim til okkar hjóna til kvöldverðar og samneytis eina kvöldstund. Þetta gerðist kannski ekki al- veg árlega, en var aðferð til að rækta tengslin milli trúnaðar- mannanna og stjórnenda fyrir- tækisins. Eftir á að hyggja var allt þetta starf, þar sem Kjartan lék aðal- hlutverk og okkar nána sam- starf, lykill að því andrúmslofti og samfélagi sem varð til á þess- um vinnustað og fleytti okkur í gegnum erfiðleikana sem urðu á veginum. Eftir að hann hætti störfum og ég nokkru síðar höf- um við haldið tengslum allt fram undir það síðasta. Að leiðarlok- um sé ég ekki ástæðu til að flytja fólkinu hans samúðarkveðjur - öllu fremur hamingjuóskir með að hafa átt slíkan öðling að. Jón Sigurðsson. Höf. er fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins. Minningarorð um Kjartan Guðmundsson Minning: Sigurlín Margrét Gunnarsdóttir Fædd 16. febrúar 1927 - dáin 25. maí 2019.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.