Læknablaðið - jan. 2019, Blaðsíða 24
24 LÆKNAblaðið 2019/105
■ ■ ■ Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
„Aldrei,“ svarar María Heimisdóttir, nýr
forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, spurð
hvort hún sakni þess ekki að starfa sem
læknir sem meðhöndli sjúklinga. „Mér
finnst einkennilegt þegar fólk spyr mig
hvort ég sakni þess ekki að vera læknir.
Lýðheilsuvísindi (Public Health) ganga út
á að vinna með hópa, en ekki einstaka
sjúklinga og ég er að því á hverjum einasta
degi,“ segir hún um leið og hún viður-
kennir að hafa velt ákvörðun sinni fyrir
sér.
„Auðvitað hugsa ég stundum hvernig
hlutirnir hefðu verið hefði ég ákveðið að
fara í hefðbundnara framhaldsnám eftir
læknisfræðina. Ég er svo heppin að ég er í
góðu sambandi við kollegana og held því
áfram í þessu starfi. Ég hef því ákveðin
tengsl og auðvitað reyni ég að fylgjast
þokkalega með hvernig þróunin er. En það
er eins og fólk gerir, allir fylgjast með sínu
fagi.“
Ætlar að ná árangri
Að lágmarki 80 milljarðar fara í gegnum
Sjúkratryggingar Íslands árlega. Stofnun-
in, sem sett var á laggirnar á hrunárinu
2008, er enn að feta sig að markmiðum
sínum. Þau eru að tryggja aðgengi að heil-
brigðisþjónustu fyrir alla landsmenn óháð
efnahag, annast kaup á allri heilbrigðis-
þjónustu fyrir hönd ríkisins, kostnaðar-
greina hana og stuðla að hámarksgæðum
og rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni.
Ný manneskja í brúnni stefnir á að ná ár-
angri. María hefur nú stýrt stofnuninni frá
1. nóvember.
„Hrunið var ekki besta vöggugjöf sem
stofnunin gat fengið. Ég reikna með að
það hafi haft áhrif á framvinduna. En mér
lýst afskaplega vel á. Hér vinnur geysilega
öflugt fólk sem hefur tekið mér vel. Verk-
efni þessarar stofnunar eru mjög víðtæk
og víðtækari en margur áttar sig á. Hér er
mikil reynsla og Sjúkratryggingum ætlað
mjög stórt hlutverk í íslensku heilbrigð-
iskerfi,“ segir hún.
„Það má segja að enn sem komið er
hafi stofnunin ekki getað rækt hlutverkið
sitt að fullu en í drögum að nýrri heil-
brigðisstefnu er lögð áhersla á að styrkja
starfsemina. Engu að síður er þetta nú
þegar öflug stofnun sem býr yfir miklum
mannauði, þekkingu og reynslu,“ segir
hún.
„Ég vil að Sjúkratryggingar Íslands nái
að standa undir þeirri hugmyndafræði
sem liggur að baki því að þær voru settar
á laggirnar,“ segir hún þar sem við sitjum í
litlu fundarherbergi í þessum jólamánuði.
Það er rólegt yfir starfsstöðinni, sem þó er
rekin í opnu sérhönnuðu skrifstofurými að
Vínlandsleið við rætur Grafarholts. Engin
skrifstofa, ekkert fast skrifborð, engar hill-
ur með bókarekkum. María vinnur nú í
fyrsta sinn í opnu rými.
Í opnu rými í fyrsta sinn
„Mér finnst þetta fínt,“ segir þessi þraut-
reyndi leiðtogi og vart við öðru að búast.
„Þetta er skemmtilegt, bjart og opið hús-
næði. Mjög góð vinnuaðstaða. Hér eru
margskonar rými, hægt að velja um að
sitja í kyrrðarrými eða þar sem margir
vinna og spjalla saman yfir borðin. Svo er
hægt að stinga sér inn í herbergi. Maður
kynnist fólki og verkefnum hratt. Þetta
er hagkvæmt og stofnunin gat fækkað
fermetrum mikið við þessa breytingu. Það
er ákjósanlegt um leið og þetta er áskor-
un. Maður þarf að læra að vera með alla
skrifstofuna í tölvunni. Það gengur vel.”
Hún viðurkennir þó að sakna stundum
bókanna sinna. „En þær eru svo sem líka
til í rafrænu formi,“ segir hún svo örlar á
söknuði.
Það lá ekki beint við að María færi í
stjórnunarstörf eftir að hún lauk embætt-
isprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands
árið 1990. „Ég fór þessa venjulegu leið.
Tók ameríska prófið og var á leið í fram-
haldsnám í Bandaríkjunum. Ég ákvað hins
vegar að fara fyrst í MBA-nám því ég var
heima með strákinn minn og vildi nota
þann tíma vel,” segir hún. Þessi ákvörðun
átti eftir að reynast afdrifaríkari en hún
hugði í fyrstu og til góðs.
Stýrir stofnun sem
fékk hrunið í vöggugjöf
María Heimisdóttir leiðir Sjúkratryggingar Íslands. Hún vill
brýna stefnuna, styrkja eftirlit með heilbrigðisþjónustunni
og telur arðgreiðslur ekki eiga við í þjónustu sem
fjármögnuð er með skattfé
„Áreiðanlega hefði einhver
viðskiptamaður getað leitt
fjármál spítalans vel. Ég gerði
þetta öðruvísi af því að ég er
læknir. Peningarnir eru ekki
aðalatriðið í sjálfu sér, sjúk-
lingurinn er aðalatriðið en það
þarf að huga að peningnum til
þess að geta aðstoðað fleiri
sjúklinga.“