Feykir


Feykir - 19.12.2018, Blaðsíða 9

Feykir - 19.12.2018, Blaðsíða 9
48/2018 9 FRÓÐLEIKUR FRÁ BYGGÐSAFNI SKAGFIRÐINGA Inga Katrín D. Magnúsdóttir Hlutverk kerta í jólahaldi Flestir kannast við kvæðið Það á að gefa börnum brauð/ að bíta í á jólunum,/ kertaljós og klæðin rauð/ svo komist þau úr bólunum. Brauð til að fóðra svanga maga, klæði til að sleppa frá jólakettinum, en hvers vegna kerti? Í dag er á hvers manns færi að eignast kerti, en fyrr á öldum var það ekki endilega svo. Áður en olíulampar og síðar rafmagnið hóf innreið sína á Íslandi notaðist fólk mest við lýsislampa og kolur til að lýsa upp húsin. Lýsi var misjafnt að gæðum, mikinn reyk og sót gat lagt um baðstofur og loftgæðin voru eftir því. Kerti voru helst notuð þegar mikið lá við, s.s. þegar virta gesti bar að garði og á jólunum. Kerti voru búin til úr tólg, ýmist steypt í formi eða kertaþráðum (rökum) var dýpt í tólg nokkrum sinnum svo tólgin storknaði í kringum þráðinn og breikkaði í nokkrum atrennum.1 Kertaform eða -mót voru mismunandi að gerð og lögun, hjá Byggðasafni Skagfirðinga eru varð- veittar tvær gerðir kertamóta; úr viði annars vegar og pjátri hins vegar. Einnig eru varðveittar ýmsar gerðir lýsislampa, kola og kertastjaka. Kerti leika stórt hlutverk í jólahaldi fyrri tíma. Til siðs var að skúra bæinn hátt og lágt fyrir jólin og víða voru ljós kveikt um allan bæ, svo að hvergi bar skugga á.2 Heimilisfólkinu öllu var tíðum gefið kerti í jólagjöf og „var þá ekki lítið um dýrðir, þegar mörg börn kveiktu hvert á sínu kerti, og brá svo ljósbjarmanum um alla baðstofuna,“3 segir Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Jólahátíðin var sá tími árs þegar ýmsar vættir og verur fóru á stjá, og sumar, til dæmis huldufólk, fluttu búferlum, ýmist á jólanótt, gamlárskvöld eða á þrettándanum. Húsfreyjusiður var víða að þegar lokið var við undirbúning fyrir jólahaldið, á jólanótt eða á gaml- árskvöldi, og búið var að tendra ljós, gekk hún um og í kringum bæinn og sagði: „Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinlausu.“4 Þjóðsagnasöfn geta oft um jóla- og nýársgleði álfa, þegar þeir halda veislur sínar í mannabústöðum sem og þegar þeir flytja búferlum.5 Kertamót (BSk-62) úr furu, frá Stekkjarflötum. Tólg var rennt í stokkinn og hann tekinn í sundur þegar tólgin var storknuð. MYND: BSK Systurnar og álfafólkið Ein sagan kallast Systurnar og álfafólkið: „Einu sinni voru tvær systur frumvaxta hjá foreldrum sínum er höfðu aðra þeirra að olbogabarni. Einu sinni um veturinn bar svo við að allt fólk af bænum ætlaði til aftansöngs á gamlaárskveld og þar á meðal langaði bóndadótturina sem út undan var höfð mjög til að fara. En sökum þess að einhver varð að vera eftir heima þá var hún látin sitja kyrr þótt henni væri það nauðugt. Og er allt fólkið var farið að heiman tók hún til að hreinsa bæinn bæði uppi og niðri og setti ljós hvarvetna. En er hún hafði lokið þeim starfa bauð hún heim huldufólki með þeim hætti sem tíðkaðist og gekk í kringum allan bæinn með hinum tíðkanlega formála („Komi þeir sem koma vilja,“ etc.). Síðan gekk hún inn á loft og fór að lesa í guðsorðabók og leit aldrei upp úr henni fyrr en dagur rann. En jafnskjótt og hún var setzt kom inn í húsið fjöldi álfafólks og var það allt búið gulli og skrautklæðum. Raðaði það um gólfið alls konar gersemum og bauð bóndadóttur; fór það og að stíga dans og bauð henni að koma í dansinn, en hún sinnti því ei, og þessu atferli hélt huldufólkið allt til dags. En er dagur rann leit bóndadóttir út í gluggann og mælti „Guði sé lof, nú er kominn dagur.“ Og er huldufólkið heyrði guð nefndan þaut það burt og skildi eftir allar gersemarnar. Þegar fólkið kom heim og systir bónda- dóttur sá gersemar þær er hún hafði eign- azt öfundaði hún hana og mælti að systir sín skyldi ekki vera heima næsta ár, heldur hún sjálf. Nú kemur annað gamlaárskvöld og situr eftirlætisdóttirin heima; hlakkar hún mjög til komu álfafólksins og býður því heim og lýsti bæinn. Síðan kom huldufólkið, eins vel búið og fyrri, raðaði meiðmum [dýrgripum] á gólfið, fór að dansa og bauð henni í dansinn, og það þáði hún. En svo fór að hún lærbrotnaði í dansinum og varð vitstola. En huldufólkið fór burt með alla gripina.“6 ___________ 1 Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 4-6. 2 Frekari upplýsingar um hreinlæti í torfbæjum má finna í Riti Byggðasafns Skagfirðinga 2: Þrif og þvottar í torfbæjum, eftir Sigríði Sigurðardóttur. 3 Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 209-210. 4 Sama heimild. Bls. 209. 5 Áhugasömum er bent á t.d. Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar; Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Rafræna útgáfu má finna á eftirfarandi vefslóð: http://baekur.is/ bok/000197670/1/Islenzkar_thjodsogur_og 6 Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. (1954). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Bls. 118-119. Kertaklemma (BSk-161) frá Kálfsstöðum.. MYND: BSK Lýsislampi (BSk-172) frá Eyhildarholti. Lýsi og kveikur (úr fífu eða ljósagarni) var sett í efri skálina, það lýsi sem dróst fram með kveiknum draup niður í neðri skálina.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.