Bændablaðið - 23.02.2017, Side 16

Bændablaðið - 23.02.2017, Side 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. febrúar 2017 C8H10N4O2 er efni sem hefur mólmassann 194.19 grömm/ mól. Efnið er vatnsleysanlegt og þegar það er hreint er það í formi hvítra kristalla, ekki ósvipað salti eða sykri. Efnið er notað til manneldis, eða réttara sagt hagkerfaeldis. Efnið er koffín, það efni sem við sækjumst eftir hvort sem við erum að fá okkur tjörusvartan uppáhelltan kaffibolla eða rjóma- lagaðan kaffi latté. Kaffa heitir hérað eitt í Eþíópíu og sögur segja að forfeður þeirra sem byggja það hérað hafi fyrstir manna uppgötvað þá orkuauðlind sem kaffi er. Engin bein sönnunar- gögn eru fyrir því en saga sem fyrst var rituð á 16. öld segir frá geitasmala frá því fyrir Krist sem tók eftir auknu spennustigi meðal hjarðarinnar eftir að þær höfðu gætt sér á baunum kaffi- plöntunnar. Eftir að hafa náð tökum á flókinni stærðfræði og algebru ásamt því að kynna hana fyrir Evrópubúum á miðöldum fóru arabar líklega að drekka kaffi. Fyrstu áreiðanlegu heimildir fyrir kaffidrykkju eru frá því á 14. öld frá landinu Jemen. Það var þar sem kaffibaunir voru fyrst ristaðar eins og við þekkjum þær í dag. Strax á 15. öld hafði kaffið náð útbreiðslu í Mið-Austurlöndum, Persíu, Tyrklandi og Norður- Afríku. Jemenar héldu þó mark- aðnum í heljargreipum með því að rista allar baunir sem fluttar voru frá landinu svo ekki væri möguleiki fyrir aðra að rækta plöntuna og verðfella jemenskar kaffibaunir. Svo gerðist það að árið 1670 smyglaði maður að nafni Bada Budan sjö kaffibaun- um til Indlands og voru þær gróð- ursettar í Mysore, þar með lauk einokun Jemena á kaffibaunum. Blómleg viðskipti Feneyja og Norður-Afríku á þessum tíma urðu svo til þess að kaffi barst til Ítalíu sem svo opnaði á flutnings- leiðir til Evrópu allrar. Háværar raddir heyrðust úr samfélaginu sem börðust fyrir því að blátt bann yrði lagt á þennan íslamska drykk. Það var ekki fyrr en Klement VIII páfi lagði mat sitt á drykkinn árið 1600, sagði hann kristilegan, að drykkurinn varð viðurkenndur í samfélaginu. Fyrsta evrópska kaffihúsið opnaði árið 1645. Kaffilaust var í Brasilíuborg allt þar til árið 1727 þegar portú- galskur sæfari smyglaði með sér plöntu frá Evrópu og var hún gróðursett í ríkinu Pará í norður- hluta Brasilíu. Kaffiframleiðsla í landinu var þó lítil þar til landið varð sjálfstætt árið 1822 og jókst þá gífurlega. Hins vegar var fram- leiðsla mjög mikil á Haítí og í kringum 1790 voru þeir með um helming alls kaffis í heiminum. Á meðan á öllu þessu stóð drukku Bretar bara te. Í mörgum löndum Afríku og ríkjum Mið-Ameríku er kaffi mikilvæg útflutningsvara í dag og lifibrauð tugmilljóna manna. Hingað heim á Frón kom kaffi fyrst á 18. öld. Fyrst um sinn var kaffidrykkja ekki algeng og þekkt- ist helst meðal yfirstéttarfólks, enda töluvert dýr vara á þeim tíma. Á miðri 19. öld hafði kaffidrykkja náð almennri útbreiðslu á Íslandi en enn var dropinn dýr. Fluttur var inn kaffibætir eða „eksport“ eins og hann var kallaður. Sem betur fer er það tímabil búið og óhindraður aðgangur að ódýru kaffi ætti í raun að vera skrifaður í stjórnarskrá. /Jóhannes Frímann Halldórsson. Má bjóða þér kaffi? Skipulagsfræði er sjálfstæð fræðigrein. Hún vann sér víða sess á fyrri hluta 20. aldar en er enn tiltölulega ung á Íslandi. Skipulagsfræði er þverfagleg fræðigrein, en henni tengist fjöldi annarra faggreina svo sem lögfræði, félagsfræði, hagfræði, landfræði, náttúrufræði, sagnfræði, arkitektúr og verk- fræði. Mikill skortur hefur verið á skipulagsfræðingum á Íslandi og það hefur leitt til þess að ýmsir aðrir hafa verið að vinna við skipulagningu sveitarfélaga, þótt þekkingargrunninn í skipulagsfræði hafi oft vantað. Þetta þekkingarleysi á málaflokknum hefur oft orðið sveitarfélögunum dýrkeypt. Eftir að hafa starfað við skipulagsráðgjöf, kennslu og sem skipaður héraðsdómari var mér ljóst að víða var pottur brotinn þegar kom að skipulagsmálum á Íslandi. Þá ákvað ég að vinna að því að auka þekkingarstigið á skipulagsfræði í landinu og setti á stofn meistaranám í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Meistaranámið í skipulags- fræði við LbhÍ var fyrst til að hljóta viðurkenningu frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands um að það uppfyllir menntunarkröfur félagsins. Menntunarkröfurnar eru byggðar á sambærilegum kröfum erlendra fagfélaga eins og RTPI, ECTP-CEU, AICP & APA. Nám í skipulagsfræði Námsbraut í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskólann er tveggja ára MS-nám og að loknu námi geta nemendur sótt um lög- gildingu sem skipulagsfræðingur. Skipulagsfræðingur er lögverndað starfsheiti samkvæmt lögum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunar- greinum, nr. 8/1996. Meginmarkmið náms brautar- innar er að nemendur tileinki sér sérhæfingu skipulagsfræðings í að tvinna saman alla þá ólíku þætti sem koma að skipulagsgerð: nátt- úrufarslega, hagræna, félags lega, umhverfis-, lagalega og hagsmuna- tengda þætti. Aðstæður á Íslandi eru um margt sérstakar og því er mikilvægt að skipulagsfræðingar sem starfa á Íslandi hafi aflað sér þekkingar á náttúrufari, veðurfari, samfélagi, hagkerfi, lagaumhverfi, tækni, menningu og sögu landsins. Námið er sniðið að íslenskum þörfum en fylgir engu að síður nýjustu stefn- um í skipulagskenningum og fræði- greininni. Nemendur eru þjálfaðir í að beita megindlegum og eig- indlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og hagnýtri nálgun við lausn skipulagsverkefna með samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. Námið samtvinnar faglega þætti skipulagsfræðinnar og íslenskar aðstæður með sjálfbæra þróun og sköpun lífvænlegs umhverfis að leiðarljósi. Námið veitir nemend- um breiða og þverfaglega þekkingu á skipulagsfræði. Megináherslur í efni námskeiðanna er gagnrýnin skipulagshugsun þar sem blandað er saman námskeiðum um skipulags- kenningar og fjölbreyttri aðferða- fræði til að ná fram betri skipulags- lausnum sem mynda ramma mann- lífs og samfélags. Í náminu öðlast nemendur haldgóða þekkingu á skipulagsfræði sem atvinnugrein og geta unnið sjálfstætt að ráðgjöf, við lausn vandamála og að þróunarverk- efnum á sviði skipulags. Valfrelsi í hluta námsins gefur tækifæri til að sækja nám við aðra háskóla, gjarnan erlendis, auk þess sem færi gefst á nokkurri sérhæfingu t.d. á sviði borgarskipulags og hönnunar, umhverfismála, eða stjórnsýslu- tengdra sérgreina. Valgreinar tengjast því sviði sem nemendur vinna rannsóknar- verkefnið sitt á og eru hugsaðar til að gera þá betur í stakk búna til að takast á við rannsóknina og auka þekkingu þeirra á því sérsviði. Að námi loknu ættu nemendur að vera í stakk búnir til að takast á við stjórn og skipulagsgerð, og jafnframt að geta metið afleiðingar ákvarðana sem teknar eru í skipulagi og vera stjórnvöldum skipulagsmála til leið- beiningar í þeim efnum. Umsóknir Þeir sem lokið hafa BS eða BA prófi geta sótt um inngöngu í námið. Þó eru gerðar ákveðnar forkröfur. Ef nemandinn uppfyllir ekki þær kröf- ur, þá verði honum gert kleift að taka þau námskeið sem á vantar á fyrsta skólaárinu – samhliða meist- aranáminu. Allar forkröfur verða þó að hafa verið uppfylltar áður en neminn færist yfir á annað ár. Þannig gefst nemendum kostur á að þétta þekkingargrunn sinn í MS náminu. Umsóknarfrestur er til 5. júní, 2017, nánari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans lbhi.is. Meistaranám í skipulagsfræði STEKKUR Skipulagsverðlaunin 2016 voru afhend þann 14. febrúar 2017 í Hannesarholti, Reykjavík. Skipulagsfræðingafélag Íslands (SFFÍ) veitir skipulagsverðlaun annað hvert ár til sveitarfélaga, stofnana eða einkaaðila sem hafa skarað fram úr á sviði skipulags- mála og lagt sitt af mörkum til að bæta og fegra umhverfi í þétt- býli eða dreifbýli með faglegri skipulagsgerð. Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu, auka skilning á skipulagsmálum og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma. Í ár var áhersla lögð á endurnýjun svæða. Leitað var eftir skipulags- gerð þar sem unnið var með breytta landnotkun og/eða nýtingu og/eða starfsemi á þegar byggðu svæði. Við mat á tillögum var litið til þess hvernig faglega unnin skipulagsgerð getur styrkt staðaranda, nærumhverfi og samfélög. Vogabyggð - svæði 2 hlaut Skipulagsverðlaunin 2016 Þarna er verið að umbreyta iðnaðarsvæðinu í Vogahverfinu í Reykjavík í íbúðar- og þjónustu- svæði. Deiliskipulagið er unnið af Teiknistofunni Tröð, Jaakko van't Spijker (Hollandi) og Felixx (Hollandi). Í umsögn dómnefndar segir: „Deiliskipulagið Vogabyggð er vel unnið og uppfyllir mjög vel skil- mála verðlaunanna. Iðnaðarsvæði er umbreytt í íbúðar- og þjónustusvæði á sannfærandi hátt. Góð lausn sem setur fram spennandi og nútímalega borgarsýn en leysir einnig vel úr töluverðu flækjustigi. Þétt fjölbreytt byggð þar sem gert er ráð fyrir öllum ferðamátum og almenningssvæðum er gert hátt undir höfði. Tengingar yfir Sæbrautina eru ekki sannfær- andi í gögnum deiliskipulagsins en Sæbrautin liggur utan deiliskipulags- svæðis. Gott samspil er á milli núver- andi mannvirkja á svæðinu og nýrrar byggðar. Vel er hugað að staðaranda og náttúru auk þess að nærumhverfi Elliðaánna er nálgast á varfærinn en skapandi hátt. Tillagan vinnur mark- visst með leiðarljós aðalskipulags Reykjavíkur sem endurspeglast í skýrri stefnu deiliskipulagsins. Sú stefna skilar sér einnig á sannfær- andi hátt í skilmála. Auðvelt er að sjá fyrir sér að endanleg uppbygging Vogabyggðar geti orðið mikilvæg fyrirmynd fyrir önnur sambærileg þróunarsvæði.“ Heiðursverðlaun Sérstök heiðursverðlaun voru veitt eftir tillögu dómnefndar. Þau hlaut dr. Trausti Valsson fyrir framlag sitt til skipulagsmála á Íslandi í gegnum árin. Trausti Valsson lét af störfum sem prófessor í byrjun síðasta árs eftir að hafa kennt skipulagsfræði við Háskóla Íslands í 27 ár, síðustu 15 árin sem prófessor. Fjölmargar blaða- og fræði- greinar liggja eftir Trausta auk þess sem hann hefur skrifað 11 bækur og að auki 3 þeirra í enskri þýðingu hans. Hann hefur vakið athygli á skipulagsmálum með frumlegum, framsýnum og ögrandi hugmynd- um sem hafa ýtt undir frekari umræðu um skipulagsmál á Íslandi. Nemendaverðlaun Þá voru veitt verðlaun til nemenda- verkefna en þau hlaut Myrra Ösp Gísladóttir fyrir meistararitgerðina Mat á gæðum aðalskipulagsáætlana – Notagildi gátlista við aðalskipulags- gerð. Myrra varði meistararitgeð sína við Landbúnaðarháskóla Íslands haustið 2015. Leiðbeinendur voru dr. Sigríður Kristjánsdóttir og Hjalti Steinþórsson hrl. Prófdómari var dr. Bjarni Reynarsson. Ritgerðin fjallar um notkun gátlista við aðalskipulags- gerð í þeim tilgangi að bæta gæði þeirra. Dómnefnd taldi viðfangsefni ritgerðarinnar athyglisvert sem getur nýst vel við skipulagsgerð og gott innlegg í umræðuna um bætt verklag við gerð aðalskipulagsáætlana. Skipulagsverðlaunin eru annars vegar veitt fyrir skipulag, þ.e. skipulagstillögu eða staðfest skipulag og hins vegar fyrir sérstök og afmörkuð verkefni í tengslum við skipulag, svo sem frumkvöðlastarf og nýbreytni eða miðlun upplýsinga um skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt. Dómnefnd skipulags verðlaun anna 2016 var skipuð af: • Gunnar Ágústsson, formaður SFFÍ, var formaður dómnefnd- ar, tilnefndur af • Skipu lags fræðingafélagi Íslands, • Erla Bryndís Kristjánsdóttir, tilnefnd af Félagi íslenskra landslagsarkitekta, • Guðrún Guðmundsdóttir, tilnefnd af Skipulags- fræðingafélagi Íslands, • Páll Hjaltason, tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands, • Þórarinn Hjaltason, tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands. • Til hamingju með viðurkenninguna fyrir vel unnin störf. Vonandi verður þetta öðrum hvatning til að vinna gott skipulag og hljóta skipulagsverðlaun- in einn góðan veðurdag. /SK Skipulagsverðlaunin 2016 Sigríður Kristjánsdóttir lektor − auðlinda- og umhverfisdeild LbhÍ sigridur@lbhi.is SKIPULAGSMÁL Verðlaun og viðurkenningu frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands hlutu frá hægri: Sigríður Magnúsdóttir og Hans-Olav Andersen Teiknistofunni Tröð, Trausti Valsson, Myrra Ösp Gísladóttir og Gunnar Ágústsson.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.