Bændablaðið - 11.05.2017, Qupperneq 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. maí 2017
Carlo Petrini, stofnandi og forseti
Slow Food-hreyfingarinnar, er á
leið til landsins. Hann kemur
hingað í boði Slow Food Reykjavík
sem skipuleggur heimsóknir fyrir
hann í Háskóla Íslands og til
bænda og smáframleiðenda sem
hafa haldið hugsjónum Slow Food
í heiðri.
Að sögn Dominique Plédel
Jónsson, formanns Slow Food
Reykjavík, hefur Petrini átt boð inni
hjá henni í ein fimm til sex ár, en það
sé ánægjulegt að hann sjái sér fært að
þiggja það nú. Hann sé vel meðvitaður
um það góða orðspor sem litla Ísland
eigi innan hreyfingarinnar, sem
lengi hefur verið í fararbroddi meðal
Norðurlandaþjóða. „Ísland hefur sett
fjölda afurða um borð í Bragðörkina
og svo höfum við barist fyrir því að fá
skyrið og geitina inn í Presidia, þetta
hlýtur allt að hafa vakið forvitni hjá
honum að heimsækja landið,“ segir
Dominique. Í Bragðörk Slow Food
eru afurðir skráðar sem talið er að
búi yfir sérstöku menningar- og
hefðarverðmæti – sem ákveðin hætta
er á að glatist. Slow Food Presidia
stuðlar til að mynda að verndun á
framleiðsluaðferðum, búfjárkynjum
og vistgerðum sem hafa sérstakt
gildi og eru í útrýmingarhættu.
Framleiðendum og bændum er
þannig hjálpað að þeir geti haldið
áfram framleiðslu.
„Þá hefur árangursrík barátta
okkar gegn GMO (erfðabreyttri
ræktun) vakið athygli og við
höfum státað af virkum og
ástríðufullum smáframleiðendum
og matreiðslumeisturum á Salone
del Gusto & Terra Madre í Torino
á Ítalíu, sem er hátíð Slow Food
og er haldin annað hvert ár,“ segir
Dominique.
Carlo Petrini mun þiggja gistingu
á Hótel Sögu og málsverð á Grillinu
í boði Bændasamtaka Íslands.
Merkur ferill
Stofnun Slow Food-hreyfingarinnar
má rekja til andófs nokkurra
ítalskra ungmenna gegn
skyndibitavæðingunni árið 1986,
en þá mótmæltu þau við Spænsku
tröppurnar í Róm byggingu
McDonald’s matsölustaðar sem þar
var fyrirhuguð. Carlo Petrini var þar í
broddi fylkingar og var kosinn fyrsti
formaður hreyfingarinnar í París
árið 1989 – þegar stefnuyfirlýsing
Slow Food var undirrituð í París –
og hefur leitt hana síðan. Í dag starfa
deildir Slow Food í 150 löndum og
eru félagar um 100 þúsund.
Helsti boðskapurinn sem
hreyfingin breiðir út um heiminn
er að matur eigi að vera góður
á bragðið, eigi að vera hreinn og
ómengaður og að framleiðslu-
og söluferlið sé sanngjarnt fyrir
alla; framleiðandann, salann og
neytandann. Það séu mannréttindi að
borða góðan mat en ekki forréttindi.
Blaðamaðurinn og rithöfund-
urinn Carlo Petrini fæddist 1949
í smábænum Bra skammt frá
Torínó á Norður-Ítalíu. Hann hefur
margsinnis fengið viðurkenningu
ýmissa fjölmiðla. Hann fékk meðal
annars nafnbótina „European Hero“
hjá Time Magazine árið 2004 og The
Guardian útnefndi hann árið 2008
meðal 50 einstaklinga sem gætu
bjargað heiminum.
Árið 2003, var hann sæmdur
heiðursgráðu í menningarmannfræði
við Istituto Universitario Suor Orsola
Benincasa háskólann í Napolí og í
maí 2006 hlaut hann heiðursnafnbót
í hugvísindum frá University of New
Hampshire (BNA) fyrir árangur í
starfi sínu sem „byltingarkenndur
boðberi [og] stofnandi háskólans í
matargerðarlist“. Starf Carlo Petrini
hefur einnig hlotið viðurkenningu
háskólans í Palermo en árið 2008
var hann sæmdur heiðursgráðu
í landbúnaðarvísindum við
háskólann.
Sameinuðu þjóðirnar útnefndu
hann einn tveggja handhafa
Champion of the Earth-verðlaunanna
árið 2013 fyrir „innblástur og
aðgerðir“ og árið 2016 var hann
útnefndur sérstakur sendiherra
FAO fyrir Evrópu í tengslum við
alheimsátak stofnunarinnar sem
kallast Ekkert hungur þar sem
unnið er að því að útrýma hungri í
heiminum.
Afkastamikill rithöfundur
Hann hefur gefið út fjölmargar
bækur: The Case for Taste (2001);
Slow Food Revolution (2005); Slow
Food Nation: Why Our Food Should
be Good, Clean and Fair (2007, þýdd
úr ítölsku á ensku, frönsku, spænsku,
þýsku, pólsku, portúgölsku, japönsku
og kóresku); Terra Madre (2011,
þýdd á ensku, frönsku og þýsku).
Meðal síðustu verka hans má
einnig nefna „Cibo e libertà. Slow
Food: storie di gastronomia per la
liberazione“ (2013), Un’idea di
felicità sem hann skrifaði ásamt Luis
Sepùlveda (Guanda 2014), og Voler
bene alla terra (Giunti e Slow Food
Editore 2014). Árið 2016 var „Buono
Pulito e Giusto“ endurútgefin tíu
árum eftir fyrstu prentun. /smh
Forseti Slow Food á leið til Íslands
– Carlo Petrini er merkur og margheiðraður leiðtogi
Hrossabændur - hestamenn!
Vantar hross til slátrunar á næstu vikum.
Forðist biðlista í haust.
Bjóðum tímabundið hækkað verð!
Sláturpantanir í síma 480 4100.
Sláturfélag Suðurlands
Selfossi
Keðju og tannhjóla sett í Polaris, 6x6 hjól.
Verð samkeppnisaðilans um 130.000 kr.
Okkar verð 67.800 kr.
Á Salone del Gusto & Terra Madre hátíðinni haustið 2012 heilsaði Carlo Petrini m.a. upp á Gísla Matthías Auðunsson
matreiðslumeistara og Hrefnu Frigg Guðmundsdóttur frá Ytri-Fagradal í eldhúsi baksviðs. Þar voru þau að elda
og undirbúa Hvannarlamb frá Höllu Steinólfsdóttur í Ytri-Fagradal fyrir gesti. Gísli er hér í miðju hópsins, en yst til