Bændablaðið - 25.01.2018, Page 16

Bændablaðið - 25.01.2018, Page 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. janúar 2018 Nú á dögum tengja Íslendingar hákarl helst við þorrablót. Í hugum margra er hákarl fyrst og fremst hvítu teningarnir sem menn skola niður með brennivíni af mismikilli ánægju í góðum félagsskap. Færri vita að hákarlinn var einn verðmætasti nytjafiskur Íslendinga á 19. öldinni og undirstaða þilskipaútgerðar í landinu. Beinar hákarlaveiðar við Ísland heyra næstum sögunni til. Aðeins örfáir smábátar leggja hákarlalóðir. Meirihluti hákarlaaflans sem berst á land slæðist óvart í veiðarfæri togskipa. Á síðustu fjórum árum hefur landaður afli á ári verið á bilinu 17–27 tonn, samkvæmt skrá Fiskistofu. Jón Svansson, sem rekur fyrirtækið Íslandshákarl á Vopnafirði, gerir út tvo smábáta til hákarlaveiða. Hann sagði í samtali við höfund þessa pistils að veiðarnar á síðasta ári hefðu gengið mjög vel. Alls hefðu þeir fengið 22 hákarla á tímabilinu frá apríl og fram í byrjun júní. Mest hefðu fengist fimm hákarlar á 18 króka en línurnar eru helst ekki látnar liggja lengur en í þrjár nætur í senn. Hákarlinn og ammóníakið Eftir að hákarlinn hefur verið skorinn þarf að kasa hann sem kallað er. Ólíkt mörgum öðrum hryggdýrum hafa hákarlarnir ekkert þvagkerfi. Skömmu eftir að hákarl er drepinn tekur þvagefnið að brotna niður og eitt af myndefnum þess er ammóníak. Það flæðir um allt hold dýrsins og styrkur þess getur verið svo mikill að sá sem neytir þess getur fengið eitrun og jafnvel dáið, að því er fram kemur á Vísindavefnum. Dæmi eru um að ísbirnir hafi étið hræ af grænlandshákarli og orðið skammlífir eftir átið. Erlendis eru hákarlar blóðgaðir strax eftir að þeir eru drepnir og síðan kældir. Við blóðgunina næst þvagefnaríkt blóðið úr dýrinu og þá er hægt að neyta kjötsins án þess að finna keim af ammóníaki. Á Íslandi hefur kæsing verið notuð frá alda öðli til þess að losna við eituráhrif ammóníaks. Lengst af fólst hún í því að láta hákarlinn gerjast í 1–3 mánuði í moldar- eða malargryfju og síðan var hann þurrkaður. Nú til dags eru gjarnan notaðar trégrindur í fiskikössum með afrennsli og fargi við þessa verkun. Vonarpeningur Eftir að kæsingunni lýkur er hákarlinn hengdur upp í hjalla til þurrkunar. Þá getur brugðið til beggja vona um hvernig til tekst. Þar er veðurfarið ekki hvað síst örlagavaldurinn. Jón sagði að tíðin haustið 2016 hefði verið sérstaklega góð til hákarlaverkunar en haustið 2017 hefðu veðurfarslegar aðstæður aftur á móti verið afar óhagstæðar, blautt og rakt loft vikum saman. Ofan í það komu svo frosthörkur sem leiddu til þess að verkunin stöðvaðist. Þá gerist ekkert fyrr en hákarlinn þiðnar á ný. „Veiðarnar eru eitt og verkunin annað. Þetta er vonarpeningur. Það er ekkert í hendi fyrr en verkuninni lýkur,“ sagði Jón. Hann sagði að veiðarnar gætu gefið ágætlega af sér ef allt gengi upp, en svo gætu menn þurft að borga með þessu þegar verr gengi. Hættulaus skepna Hákarlinn sem veiddur er hérlendis er af tegundinni grænlandshákarl. Hann getur orðið 6–7 metra langur, en algengasta lengdin er á bilinu 2–5 metrar. Einhverjir kynnu að halda að þetta gætu verið árásargjarnar og hættulegar skepnur litlum bátum sem stunda þessar veiðar, minnugir kvikmyndarinnar frægu Jaws og frásagna í heimsfréttunum af sundfólki sem orðið hefði hákörlum að bráð. Jón segir að þvert á móti sé hákarlinn hér við land hægur í hreyfingum og hugsi um það eitt að sleppa ef hann festist á krók. Hann bregðist við með því að velta sér en við það flæki hann línunni gjarnan utan um sig og þar með séu dagar hans taldir. Bátum á hákarlaveiðum hér við land stafi því engin hætta af bráð sinni. Reyndar virðist vera gert alltof mikið úr árásargirni hákarla í heiminum ef marka má erlenda vefsíðu sem upplýsir að árið 2015 hafi slíkar árásir á fólk verið 98 talsins í veröldinni allri, þar af hafi sex þeirra leitt til dauða. Í því sambandi er bent á að yfir 100 milljón hákarlar séu drepnir á ári, vægt reiknað, aðallega vegna ugganna. Af því megi ráða hvor sé hættulegri hinum, hákarlinn eða mannskepnan. Af tæplega 500 hákarlategundum í heiminum stafi manninum aðeins hætta af örfáum tegundum og þá aðeins við sérstakar aðstæður. Hákarlaveiðar fyrr á öldum Nýting hákarls til matar á sér langa sögu á Íslandi. Þegar á 14. öld voru þær orðnar allmiklar og fóru svo vaxandi. Farið var í svokallaðar hákarlalegur á opnum bátum og tók hver veiðiferð frá 2–4 dögum og allt upp í eina til tvær vikur ef afli var tregur eða veður óhagstætt. Þóttu þessar sjóferðir æði slarksamar. Í bókinni Sjósókn og sjávarfang eftir Jón Þ. Þór segir að á 17. og 18. öld hafi Vestfirðingar og Norðlendingar verið mestir hákarlaveiðimenn hér á landi. Veiðarnar náðu svo hámarki á 19. öldinni þegar þilskip komu til sögunnar auk áraskipanna. Upphaflega var þilskipunum trúlega ætlað að veiða þorsk og hákarl jöfnum höndum en þegar kom fram yfir 1830 voru hákarlaveiðarnar orðnar burðarás þilskipaútgerðarinnar. Olli þar mestu að verð á lýsi hækkaði hlutfallslega gagnvart fiskverði. Lifrin úr hákarlinum var brædd í landi og lýsið flutt út og notað sem ljósmeti til að lýsa upp borgir Evrópu. Lýsisverðið hækkaði ár frá ári vegna aukinnar eftirspurnar. Hákarlaveiðarnar gáfu mikinn og skjótfengan gróða og sköpuðu fyrsta umtalsverða uppgangsskeiðið í sögu íslensks sjávarútvegs á síðari öldum, segir Jón Þ. Þór í bók sinni. Þegar best lét gátu eigendur þilskipanna greitt kaupverð skipanna eftir eina vertíð. Margir tugir þilskipa stunduðu þessar veiðar. Blómaskeiðinu lýkur En engin gósentíð varir að eilífu. Upp úr 1860 var blómaskeið hákarlaveiðanna senn á enda þegar farið var að nota steinolíu í stað hákarlalýsis sem ljósmeti. Hákarlaveiðar á þilskipum héldu að vísu áfram allt til 1925 en eftir 1870 drógust þær saman ár frá ári. Ekki liggja fyrir tölur um hversu mikill hákarlaaflinn var hér við land hér áður fyrr eða hversu miklum verðmætum hann skilaði, en þegar lýsisútflutningurinn var sem mestur nam hann 13.000 tunnum á ári. Það er lifur úr æði mörgum hákörlum. „Hákarlinn er sennilega vanmetnasti fiskur Íslandssögunnar,“ sagði Jón Þ. Þór í viðtali við Morgunblaðið fyrir allmörgum árum. Það eru orð að sönnu. Við hjá Bændablaðinu höfum eins og flestir gaman af því að létta okkur upp og reynum eftir megni að halda þeim þjóðlega sið að blóta þorrann, borða íslenskar landbúnaðarafurðir, drekka mysu og dansa hringdans. Margir kannast við það vandræðalega ástand sem getur skapast í fyrstu við slík tækifæri áður en mysan fer að virka. Fátt er betur til þess fallið að hrista saman gesti og létta andrúmsloft í þorrablótið en skemmtilegir samkvæmis- eða helgileikir. Þekkir þú hljóðið? Leikurinn gerir miklar kröfur til heyrnarinnar og er erfiðari en virðist í fyrstu. Stjórnandinn fer inn í herbergi og skilur dyrnar eftir opnar, þar framkallar hann ýmiss konar konar hljóð sem aðrir viðstaddir reyna að þekkja. Áheyrendur skrá niðurstöður sínar á blað og sá sem þekkir flest hljóðin sigrar. Möguleikarnir eru gífurlegir því það veldur oft miklum vandræðum að þekkja hljóð ef menn sjá ekki það sem framkallar hljóðið. Til dæmis má hrista eldspýtustokk, rífa bréf, hræra í bolla fullum af vatni eða bíta í epli. Skemmtilegast er þó að finna upp á hljóðum sjálfur sem tengjast daglegum athöfnum manna án þess að þeim sé veitt sérstök athygli. Sölumannsleikur Þetta er leikur án orða og byggist á látbragði. Einhver viðstaddur, til dæmis fermingarbarnið, tekur að sér að vera fyrsti sölumaðurinn. Hann eða hún fer út úr stofunni eða salnum þar sem gestunum hefur verið safnað saman og kemur aftur inn með ferðatösku. Sölumaðurinn fer síðan að tína upp úr töskunni allt sem honum dettur í hug að selja. Taskan er vitanlega tóm en sölumaðurinn reynir að sýna það sem hann tínir upp með látbragði. Það geta hugsanlega verið ýmiss konar handverkfæri, hamar, sög eða hallamál, sölumaðurinn getur einnig reynt að selja fermingargestum undirföt eða baðfatnað með viðeigandi látbragði. Sá sem áttar sig fyrstur á því hvað er verið að selja vinnur leikinn og verður næsti sölumaður. Fræg pör Leikurinn felst í því að finna eins mörg pör og hægt er, tvær persónur sem í hugum allra eru samtengdar. Þetta geta verið karl og kona eða tveir einstaklingar af sama kyni. Sá sem finnur flest pör innan ákveðins tíma vinnur leikinn. Sem dæmi um fræg pör má nefna Tomma og Jenna, Gög og Gokke og Adam og Evu. Blásið í blöðrur Þátttakendum er skipt í tvö eða fleiri lið. Allir fá blöðru í hendurnar, síðan stillir sá fyrsti sér upp á móti einhverjum úr öðru liði. Þegar merki er gefið eiga þeir að byrja að blása í sína blöðru og halda því áfram þar til hún springur. Þá tekur sá næsti við og þannig er haldið áfram þar til eitthvert liðanna er búið að sprengja allar blöðrurnar og vinna leikinn. Flöskustútur eða bingó Leikir af þessu tagi eru vinsælir víða erlendis og möguleikarnir óþrjótandi. Það má spila á spil, fara í Twister eða leika flöskustút eða bingó. Það er engin ástæða til að vera of formlegur og láta fólki leiðast. Njótum lífsins og leikum okkur hvenær sem tækifæri gefst. /VH Samkvæmisleikir fyrir þorrablótið STEKKUR HLUNNINDI&VEIÐI Guðjón Einarsson gudjone3@gmail.com Hákarlinn fyrr og nú Kuldakast í Norður-Ameríku í janúarbyrjun: Hákarlar frusu og krókódílar í ís Kuldinn sem gengið hefur yfir Bandaríki Norður-Ameríku olli gríðarlegri snjókomu og frosthörku víða í Norðurríkjunum. Kuldinn við Cape Cod í Massachusetts-ríki var svo mikill að hákarlar hreinlega frusu í hel og skoluðu upp á ströndina. Að minnsta kosti þrem dauðum nánast beinfreðnum hákörlum skolaði á land við stendur Cape Cod í Massachusetts-ríki í kuldakastinu sem gekk yfir austurströnd Bandaríkjanna fyrir skömmu. Talið er að hákarlarnir hafi fengi kuldasjokk þegar tálknin í þeim frusu þegar sjórinn í kringum þá kólnaði skyndilega og í framhaldi af því hafi þeim skolað á land þar sem þeir drápust og gegnfrusu endanlega. Kuldinn í Norður Karólínu- ríki varð til þess að það sást til krókódíla sem rekið höfðu trýnið upp í gegnum göt á frosnu yfirborði vatna sem þeir lifa í. /VH Frosinn hákarl við strönd Cape Cod. Hákarl þurrkaður. Mynd / Íslandshákarl. Hákarli landað. Mynd / Af vef Íslandshákarls

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.