Bændablaðið - 25.01.2018, Qupperneq 50

Bændablaðið - 25.01.2018, Qupperneq 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 25. janúar 201850 LESENDABÁS Tekjuskerðing bænda með sauðfé Á aukaaðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda voru samþykktar tillögur vegna bágrar stöðu sauðfjárbænda. Megintillagan var að ríkið legði fram um 650 milljónir króna sem innleggjendur dilkakjöts fengju greitt aukalega til að koma í veg fyrir algjört hrun í rekstri búa með sauðfé og til að hindra stórfellda byggðaröskun eins og stendur í ályktuninni. Skilyrði fyrir aukagreiðslu miðist við að viðkomandi byggi á lögbýli og hefði haft 100 vetrarfóðraðar kindur haustið 2016 samkvæmt haustskrá Matvælastofnunar. Á lokadegi Alþingis (30. desember 2017) voru meðal annars samþykkt fjáraukalög með 665 milljóna króna framlagi til að koma til móts við tekjusamdrátt sauðfjárbænda. Oft hefur ríkið gripið inn í þegar vandi hefur verið í sauðfjárrækt en aldrei með þessum hætti. Í raun er ríkið að aðstoða afurðastöðvarnar til að greiða „ásættanlegt“ verð fyrir dilkakjöt. Ég man ekki eftir því að aðrar atvinnugreinar hafi fengið svona ríkisstyrk. Þrátt fyrir lágt fiskverð á mörkuðum grípur ríkið ekki inn í með að greiða mismuninn á markaðsverði fyrir fisk og „ásættanlegs“ verðs. Annað sem veldur furðu er að þetta framlag er í fjáraukalögum fyrir 2017 en ekki í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Sjálfsagt liggja einhverjar rökstuddar ástæður fyrir þessu en ég hef ekki „komið auga á þær“. Skilgreiningin á hlutverki fjáraukalaga var breytt með lögum um opinber fjármál (123/2015) og er mun þrengra en áður var, m.a. til að draga úr vægi og umfangi þeirra. Það er vissulega gleðiefni fyrir suma okkar sem búum með sauðfé að fá þennan viðbótarstuðning og kemur sér örugglega vel. Landbúnaðarráðherra hefur þó valið að veita einungis 400 milljónir til bænda sem eru með 150 vetrarfóðraðar kindur samkvæmt haustskráningu Matvælastofnunar. Aukreitis fara 150 milljónir til bænda sem njóta svæðisbundins stuðnings sem er skilyrt við 300 vetrarfóðraðar kindur samanber 22. grein reglugerðar nr. 1183/2017. 65 milljónum á að verja til að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu og 50 milljónunum sem eftir eru verður varið til vöruþróunar og markaðssetningar. Land- búnaðarráðherra og ríkisstjórninni finnst greinilega nóg að styrkja þorra bænda með sauðfé um 400 milljónir í stað 650 milljóna sem aukaaðalfundur LS ályktaði um. Auk þess finnst landbúnaðarráðherra og ríkisstjórninni sjálfsagt að styrkja bændur sem búa á svæðum þar sem sauðfjárbændur hafa takmarkaða atvinnumöguleika vegna fjarlægðar frá þéttbýli samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar. Reglurnar verða svona þó svo að bændur með sauðfé og búa á lögbýlum urðu allir fyrir tekjuskerðingu vegna verðlagningar sláturleyfishafa á haustinnleggi 2017. Í stjórnarsáttmála ríkis- stjórnarinnar er sérstaklega tilgreint að bregðast beri við vanda sauðfjárbænda til skemmri eða lengri tíma. Er verið að bregðast við vanda allra sauðfjárbænda með þeirri leið sem valin er? Svari hver fyrir sig. Hvað segir það að stuðningurinn er miðaður við meira en 150 vetrarfóðraðar kindur annars vegar og 300 vetrarfóðraðar kindur hins vegar? Eru bændur sem búa á lögbýlum en uppfylla ekki ofangreind skilyrði hobbý-bændur? Skilyrðin með 150 vetrarfóðraðar kindur eru hugsanlega til að takmarka stuðninginn við bændur með sauðfé (og hross) eingöngu en t.d. ekki með nautgriparækt sem aðalbúgrein. Hvaða rök eru fyrir því að hluti stuðningsins er greiddur til bænda á grundvelli 22. greinar reglugerðar nr. 1183/2017? Ég hef ekki heyrt nein rök. Með þessum aðgerðum stjórnvalda segjast stjórnvöld vera að bregðast við tekjusamdrætti bænda með sauðfé til skemmri og lengri tíma. Það kemur hvergi fram í stjórnarsáttmála að bregðast þurfi við vanda afurðastöðva (t.d. vöruþróun og markaðssetningu kindakjöts) eða að bregðast verði sérstaklega við tekjuvanda sumra bænda sem búa á svæðum sem Byggðastofnun skilgreinir sem sérstök búfjársvæði sauðfjár. Sauðfjárbændur með Landssamtök sauðfjárbænda í broddi fylkingar eiga að krefjast svara frá landbúnaðarráðherra um tilhögun stuðningsgreiðslna. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti er stjórnvaldsstofnun eins og önnur ráðuneyti. Ráðherra ber að fylgja stjórnvaldslögum og upplýsingalögum og ber að gera grein fyrir ráðstöfum þessara fjármuna ef fram koma spurningar og athugasemdir. Fyrr í greininni lagði ég fram rök fyrir því að stuðningurinn er í raun stuðningur til sláturhúsa sem ekki gátu/vildu greitt/greiða hærra verð fyrir innleggið á síðastliðnu hausti. Það hefði kannski verið betra að sláturhúsin hefðu fengið þennan stuðning með því skilyrði að þeir greiddu það áfram til innleggjenda kindakjöts. Ríflega 100 milljónir eiga að fara í að gera úttekt á afurðastöðarkerfinu, til vöruþróunar og markaðssetningar. Það er eflaust þarft að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu en ég sé ekki hvernig það leysir tekjuvanda sauðfjárbænda til skemmri eða lengri tíma. Í úttektinni þarf fyrst og fremst að finna orsök þess að sláturhúsin geti ekki greitt hærra verð en var síðastliðið haust og af hverju þau hafa verið að greiða mun hærra verð en þau réðu við undanfarin ár. Upplýsingar sem fást með úttektinni um leiðir til að bæta greiðslugetu sláturhúsa til bænda þarf síðan að setja framkvæmd innan ekki svo langs tíma. Vöruþróun og markaðssetning er góðra gjalda verð en hún á ekki heima meðal bænda nema í mjög litlum mæli (Beint frá býli). Bændur selja sína framleiðslu við sláturhúsvegg og hafa ekkert um það að segja hvernig sláturhúsin koma sinni vöru á markað. Þannig verður að skoða ferlið frá afurðastöðvum til neytenda. Bændur geta lagt hágæða vöru í púkkið þar sem m.a. kemur fram að við framleiðsluna er sýklalyfjanotkun í lágmarki, dýravelferð í hávegum höfð og framleiðslan fer fram í sátt við umhverfið. Stuðningur við sauðfé samkvæmt gildandi sauðfjársamningi nemur ríflega 4,9 milljörðum króna fyrir árið 2017. Með aukastuðningi ríkisins að upphæð 665 milljónir mun stuðningurinn á árinu 2017 nema tæpum 5,6 milljörðum. Hætt er við að þessi upphæð muni koma fram hvað eftir annað í umræðu um styrki til framleiðslu kindakjöts. Þannig munu fulltrúar bænda þurfa að leiðrétta þennan miskilning í tíma og ótíma. Skilar það uppbyggilegri umræðu um styrki til landbúnaðar? Svari hver fyrir sig. Í þessu sambandi er mikilvægt að Landssamtök sauðfjárbænda auglýsi hvernig stuðningur vegna sauðfjársamnings er samkvæmt viðauka 1 með samningnum og bæti þar við 665 milljóna stuðningnum. Gunnar Rúnar Kristjánsson sauðfjárbóndi, Akri. Gunnar Rúnar Kristjánsson. Hef ég verið svo lánsamur undanfarin ár að kúabændur í minni sveit hafa treyst mér til setu í fulltrúaráði Auðhumlu og til að hafa þar áhrif á sameiginleg málefni okkar mjólkurframleiðenda. Hefur mér fundist það gefandi, fræðandi og jafnvel skemmtilegt að hafa tækifæri til að setja mig inn í málefni þau sem skipta okkur svo miklu sem raun ber og reynt að leggja til málanna eftir föngum. Það þarf nýja sátt um mjólkuriðnaðinn við stjórnvöld og brýnt að spyrna við og snúa af þeirri braut þjóðnýtingar sem viðgengst á rekstri Mjólkursamsölunnar. Það sjá allir sem vilja sjá. Fyrirtækinu er naumt sniðinn stakkur með lögbundið lágmarksverð á hráefni og opinbera verðlagningu á vörum, og ekki sé talað um þær skyldur sem settar eru á fyrirtækið vegna markaðsaðstæðna. Stjórnvöld verða að hafa dug til að taka samtalið og þor til að koma þessum málefnum í viðunandi farveg. Stjórnvöld verða einnig að hafa í huga mikilvægi starfsstöðva fyrirtækisins á hverjum stað en þar eru stórir vinnustaðir og allir á landsbyggðinni, þetta snýst ekki bara um okkur bændur. Þó nokkuð hefur reynt á innviði Mjólkursamsölunnar vegna mikillar aukningar á innvigtun og sölu undanfarin ár, ekki síst vegna þess að sú vara sem hvað mest hefur aukist í sölu er verðlögð af verðlagsnefnd undir hráefniskostnaði. Þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá að við svo verður ekki búið um lengri tíma. Þá fer að skila sér að fullu tollasamningur við ESB sem mun þýða aukinn innflutning á ostum, það eitt og sér er í raun verðugt verkefni að takast á við, ekki síst vegna þess að okkar útflutningskvótar sem koma á móti nýtast okkur ekki sem skyldi þegar Bretland gengur úr ESB. Þegar gefur á er ánægjulegt að við mjólkurframleiðendur höfum haft gæfu til að kjósa okkur trausta stjórn sem gefst ekki upp þótt á móti blási, og mikilvægt að sú stjórn fékk afgerandi kosningu og traust umboð á síðasta aðalfundi Auðhumlu. Þessi stjórn undir formennsku Egils á Berustöðum hefur nú boðað sókn og mikla uppbyggingu í mjólkuriðnaðinum til að auka hagræðingu og ná viðspyrnu í vaxandi samkeppni erlendis frá. Samhliða þessu verður hlutafé MS aukið svo um munar, það kemur frá okkur bændum í gegnum Auðhumlu og svo frá Ks gagnvart þeirra hlut. Það er þvi enn mikilvægara að við bændur, eigendur fyrirtækisins, sameinumst um rekstur þess og tölum fyrir víðri sátt um fyrirkomulag og afkomu í framleiðslu og vinnslu mjólkurvara. Á nýlega afstöðnum auka- fulltrúaráðsfundi sammæltust við fulltrúar um að ganga þá braut sem stjórn hafði miðað og leggja í uppbyggingu fyrir miklar fjárhæðir á næstu árum. Það var ánægjulegt að taka þátt í umræðum um þessi mál og fékk ég þá tilfinningu að eftir sem á fundinn leið þá þéttust raðirnar, samstaðan var að aukast eftir erfiða tíma í nokkur misseri. Verð að segja að það var að mínu mati kærkomin tilfinning og vona ég að framhald verði á. Enda hvað höfum við ef við höfum ekki samstöðu og samhug um þessamikilvægustu hagsmuni okkar sem felast í Mjólkursamsölunni, gáttina að markaðinum? Ljóst er að mikil vinna er fram undan hjá okkar frábæra starfsfólki í iðnaðinum til að ná settu marki, en ég er viss um að því verki verður siglt örugglega í höfn. En það þarf einnig að vinna í félagsmálunum og sætta sjónarmið, stjórn verður að mínu mati að setja í gang vinnu við að móta tillögur að framtíðarskipan málefna umframmjólkur sem byggir á umræðum og vinnu undanfarinna fulltrúafunda. Best væri ef tillögur að lausnum gætu legið fyrir á aðalfundi Auðhumlu í vor. Þar gætu þá fulltrúar afgreitt það mál sem hefur fengið eina mestu umfjöllun allra mála í fulltrúaráðinu síðustu ár. Held það sé forsenda góðrar samstöðu að fá farveg fyrir þetta mál og trúi ég að við munum verða enn sterkari á eftir. – Áfram íslenskur landbúnaður. Birkir Tómasson Móeiðarhvoli Af Auðhumlu og MS Birkir Tómasson.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.