Bændablaðið - 15.11.2018, Page 7

Bændablaðið - 15.11.2018, Page 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 15. nóvember 2018 7 LÍF&STARF F yrr en fram er haldið þessum vísnaþætti þarf að gjöra einni minni kórvillu skil. Í síðasta þætti skráði ég sr. Sigurjón brott frá Kirkjubæ árið 1965. Máni sonur hans vissi villu mína. Þaðan fór sr. Sigurjón árið 1956. Afar farsælar eru nú orðnar lyktir þeirrar fyrirspurnar sem ég gerði um tilvist vísunnar „Frjálst er í Flókadal, o.s.frv“. Einn dyggur liðsmaður vísnaþáttarins er Ingólfur Ómar Ármannsson. Næstu vísur hans eru ungar oddhendur/ hringhendur frá þessu hausti og tengdar vetrarkomu: Lyndi brátt er leikið grátt, lamast máttur slyngur. Kári dátt í dyragátt dæsir hátt og syngur. Vetur færir klakaklær, krenkir snærinn hjalla. Norðanblærinn napur hlær, nístir tær og skalla. Heyrast sköll og fellur fjúk, freðinn völl má líta. Hamrafjöllin fannadúk faldar mjöllin hvíta. En einn er sá er af öðrum ber þegar kemur að kvaki mínu og bænarefnum eftir nýjum kveðskap. Davíð Hjálmar Haraldsson á Akureyri þarf ekki að kynna lesendum. Davíð átti efni síðasta þáttar hólmalaust. Varla var sá þáttur kominn í dreifingu þegar kærkomið netbréf barst mér frá Davíð. Að vísu getur Davíð þess, að eðlislæg gjörð hans lúti jafnan að því að gera þeim gott sem góla eftir hjálp. Þar vísar hann til þess, að tíðum biðla ég til velunnara þáttarins um nýtt vísnaefni. Fleira gæti honum þó gengið til. Hér eftir fer glænýr kveðskapur frá Davíð ásamt aðfararorðum hans. Flest vísnabréf mín til þessa falla í skugga þess kveðskapar er hér fer eftir: „ Þú kvartar stumdum undan skorti á nýmeti. Þar sem ég má aldrei aumt sjá án þess að reyna að bæta úr því, þá er hér glænýtt ljóð. Þú mátt nota það í blaðið þegar skyrbjúgurinn ætlar að ganga frá þér. Bestu kveðjur, DHH“. Ljóðið nefnir Davíð „ Bjargvættur í sveitum“. Hér er lítið ljóð um það sem lesandinn þó veit um: Alltaf verður Bændablað bjargvættur í sveitum. Margir kvillar manninn hrjá: Mjólkuróþol, hósti, vænisýki, vagl á brá, verkur fyrir brjósti, innantökur, undirbit, elli, sinadráttur, ofát svimi, æðaslit og undirlægjuháttur. Skaði er að skít í kverk, skilningsleysi, heimsku, hægðastíflu, höfuðverk, hlandsperringi, gleymsku, andarteppu, yfirvigt, æðahnútum, skalla, fótaóeirð, frekju, gigt og fjölda útlitsgalla. En þó að bjáti eitthvað á má alltaf sækja lækni og þeir sem meiðast mikið spá í mannviðgerðartækni. Því bregður ýmsum ekki hót þótt ærinn virðist skaðinn; bóndi missti fullur fót en fékk sér tvo í staðinn. Annar bóndi drekkur dramm við drullupest- í leyni- þá er „ Mælt af munni fram“ mjúkt og gott í skeini. Hérna lýkur ljóði um það sem lesandinn þó veit um: Alltaf verður Bændablað bjargvættur í sveitum. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggð1@gmail.com MÆLT AF MUNNI FRAM Hestamannafélagið Léttir á Akureyri: Glæsileg 90 ára afmælishátíð „Afmælishátíðin var glæsileg í alla staði og óhætt að segja að afmælisbarninu farnist vel. Það leggur nú til móts við tíunda áratuginn fullt af bjartsýni og um leið stolt af fortíðinni,“ segir Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Léttis á Akureyri, sem fagnaði 90 ára afmæli sínu með glæsibrag í byrjun mánaðar. Afmælishátíðin hófst með mikilli sýningu á gömlum munum og hestamyndum í eigu félagsmanna. Vegleg verðlaunasöfn valinkunnra Léttisfélaga voru einnig til sýnis og alla afmælishelgina rúllaði kvikmynd sem tekin var í tilefni þess að félagsmenn fóru fræga ferð í Grímsey árið 1996 og efndi til kappreiða á flugbrautinni í eynni. Myndin þykir merkileg heimild og segir Sigfús gaman ef hægt væri að koma henni fyrir almenningssjónir einn góðan veðurdag. Gestum var boðið upp á gómsætar veitingar en borð í reiðhöll félagsins svignuðu undan kræsingum Uppskeruhátíð fyrir börn og unglinga Mikil gleði ríkti á afmælis- og uppskeruhátíð sem efnt var til fyrir börn og unglinga. Þar voru valdir knapar í þeim aldursflokkum en afreksknapi unglinga þriðja árið í röð var valinn Egill Már Þórsson og í barnaflokki varð hlutskarpastur annað árið í röð Steindór Óli Tobíasson. Þá var stór stund þegar undirrituð var viljayfirlýsing nokkurra fyrirtækja um stuðning við mótahald æskunnar hjá Létti árið 2019. Mikill hátíðleiki var yfir og allt um kring þegar Léttisfélagar mættu í sínu fínasta pússi í reiðhöllina og troðfylltu Skeifuna, sal á efri hæð hallarinnar. Þar var stórfín dagskrá allt kvöldið, m.a. kom fram Drengjakór Léttis þar sem meðalaldurinn var 55 ár og þandi kórinn raddböndin svo allt ætlaði að ærast. Söngdívurnar í Jódísi heilluðu viðstadda einnig með góðum söng. Hinn kunni Skagfirðingur Óskar Pétursson, sem Eyfirðingar reyna af fremsta megni að eigna sér ofurlítinn hlut í, stjórnaði hátíðinni af alkunnri snilld og kitlaði hláturtaugar Léttismanna. Fjölmargir heiðraðir fyrir störf sín í þágu félagsins Í tilefni afmælisins voru nokkrir félagar heiðraðir. Arna Hrafnsdóttir, Ingólfur Sigþórsson, Þórir Tryggvason, Haukur Sigfússon og Matthías Jónsson hlutu silfurmerki Léttis fyrir störf sín í þágu félagsins, auk þess sem þær Alda Skarphéðinsdóttir, Elísabet Skarphéðinsdóttir, Hólmfríður Hreinsdóttir, Júlía Sjöfn Sigurjónsdóttir og Hjördís Bjarkadóttir hlutu einnig silfurmerki en þær höfðu verið í forystusveit kvennadeildar Léttis á sínum tíma. Fimm voru sæmdir gullmerki Léttis, þau Áslaug Kristjánsdóttir, hjónin Haraldur Höskuldsson og Sigrún Aðalsteinsdóttir, Páll Alfreðsson og Örn Viðar Birgisson. /MÞÞ Formaður Léttis og framkvæmdastjóri þess, þeir Björn J. Jónsson og Sigfús Ólafur Helgason, eru báðir heiðurfélagar Hestamannafélagsins. Silfurmerkishafar, frá vinstri eru Þórir Tryggvason, Ragnar Ingólfsson, sem tók við merki Ingólfs Sigþórssonar, Matthías Jónsson, Haukur Sigfússon, Arna Hrafnsdóttir og Björn J. Jónsson, formaður Léttis. Þær Júlía Sjöfn Sigurjónsdóttir, Hólmfríður Hreinsdóttir, Hjördís Bjarkadóttir, Elísabet Skarphéðinsdóttir og Alda Skarphéðinsdóttir voru í forystusveit kvennadeildar á sínum tíma. Þær voru sæmdar silfurmerki. Með þeim á myndinni er Björn Jónsson, formaður Léttis. Sérstök veisla og uppskeruhátíð var fyrir börn og ungmenni, hér eru frá vinstri Steindór Óli og Egill Már Þórsson, afreksknapi Léttis 2018 Gullmerki Léttis afhent. Frá vinstri er Björn J. Jónsson, formaður Léttis, og þá koma þau Örn Viðar Birgisson, Karítas Thoroddsen, sem tók við gullmerki Páls Alfreðssonar, Sigrún Aðalsteinsdóttir, Haraldur Höskuldsson og Áslaug Kristjánsdóttir. Nýir heiðursfélagar Léttis, frá vinstri eru Björn J. Jónsson, formaður Léttis, Sigfús Ólafur Helgason, Ragnar Ingólfsson, Jón Björn Arason, Hólmgeir Valdemarsson og Garðar Lárusson.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.