Bændablaðið - 15.11.2018, Síða 47
Bændablaðið | Fimmtudagur 15. nóvember 2018 47
Bókin Í Gullhreppum segir frá
þjóðsagnapersónunni séra Þórði
í Reykjadal og hinu mikla veldi
Skálholtsstaðar á 18. öld. En um
leið mannlífi þessarar aldar og
harðindum en þráfaldlega varð
þá mannfellir. Höfundur er Bjarni
Harðarson.
Blaðið grípur ofan í frásögn af
Þórði þegar hann kemur í heimsókn
til amtmannsins í Bræðratungu en
ástand í sveitum er þá með versta
móti.
Á mánudagsmorgni á hörðu
vori er Reykjadalsprestur kominn
heim á höfuðbólið Bræðratungu.
Amtmaðurinn Magnús, sem þessa
dagana undirbýr flutning vestur
að Faxaflóa, kemur sjálfur út
að heilsa guðsmanninum. Hann
lofar komumann fyrir alla hans
miskunnsemi við fátæka enda sjálfur
þekktur fyrir gjafmildi, að gefa þeim
aumu en draga svo að sér frá þeim
sömu þegar þeir hafa aðeins hjarnað
við. Gefa og taka. Með því má gera
þetta tvennt. Að tryggja jafnt velferð
sína á jörðu og himni.
Þeir Þórður hafa ekki heilsast
fyrri, þessir grannar, enda staldraði
amtmaður stutt við í þessari sveit.
Reykjadalsprestur undrast með sér
hve smár maðurinn er og grannur.
Í uppvextinum skildist honum að
alltaf væri eitthvað tortryggilegt við
þá menn sem bæði voru grannir og
ríkir. Gátu vitaskuld verið innanmein
og óþrif í maga en litaraft amtmanns
er gott og þá er eins víst að óþrifin
nái aðeins til höfuðsins. Hann er að
hugsa þessar vafasömu hugsanir
þar sem amtmaður leiðir hann inn í
blámálaða stofu í frambænum.
– Harðindin hafa ekki náð
svo mjög hingað vestur? spyr
komumaður og reynir að losna
undan þeirri synd að dæma hinn
háttsetta embættismann.
– Ooo, jæja. Þeir komu hingað frá
yður flækingarnir og svo aðrir utan
af Nesjum. Margir farið í garðinn hér
í Bræðratungu og sumt enn ókasað.
Það er hreint voðalegt um allt.
– En lifir hér á kotunum?
– Nei, það gerir það ekki allt. Ég
er hræddur um að það hafi drepist
eitthvað á öllum bæjum hér á
torfunni í vetur og þar með einbúinn
í Fjósakoti, svo nú er það laust.
Svar mannsins er kalt og í því
bæði harmur og óþol. Kornskeppur
hinnar matarmiklu Bræðratungu eru
að tæmast. Ævagamlir heystabbar
hafa látið á sjá og amtmanni leiðast
harðindi þegar kotabörnin hætta að
skríkja hér á hlöðunum. Þau sem
hjara standa nú starandi með þaninn
kvið. Dauðamörk undir vatnsbláum
augum. Á vori sem þessu saknar
þessi drengur frá Mávahlíð
námsáranna.
– Þér hafið ekki farið að dæmi
fógetans og látið opna hér skemmur
kaupmanna að bjarga megi þeim
fátækustu frá hungurmorði?
– Guð sé oss næstur, síra Þórður.
Það hef ég ekki gert. Hvar endar
það þegar yfirvöld temja sér slíkt
ráðslag? Við höfum gripið til okkar
ráða. Sýslumaður var hér í gær og ég
veit ekki nema að úti í Ytritungunni
sé verið að rétta þá illræðismenn sem
ógna fátæku fólki í vondu ári. Þar í
er mikilvæg hjálp.
– Jamm, segir Reykjadalsprestur
og þakkar fyrir klarettvín og köku
sem ráðskonan hefur borið hinum
virðulegu embættismönnum.
Samtalið er kalt og eftir nokkra þögn
bætir amtmaður við:
– Í verunni er fátt sem við
megnum að gera, en trúin, Þórður,
og þolgæðið er það dýrmætasta.
Ef þú ferð þessa sömu leið til baka
taktu þá hjá mér eilítinn bagga að
það megi bjargast fram á vorið. Þér
eruð búlaus, er ekki svo? Já, búlaus
... búlaus maðurinn. Reynið að fá
betra brauð, góði maður, eða farið
að ráðum mágs míns, hann vill yður
í Skálholt.
– Bagga já, þökk, þökk. Ég er
einmitt á leið til mágs yðar, hans
Finna míns, en hvort ég fer úr
Reykjadal í Skálholt eða úr Skálholti
í Reykjadal kemur kannski allt í einn
stað. En af því að þér töluðuð um
úrræðin og viljið ekki í skemmurnar.
Ég man ekki betur en þér hafið líkt
og við Sigurður heitinn sýslumanns
rekið nefið ofan í nýjar kenningar
og nýja tíma. Okkur Sigga skildist
á forboðnum bókum að það muni
hrein bábilja að einungis yfirvöld og
aðall þiggi sitt beint og milliliðalaust
af Guði almáttkum. Nú ku þeir vera
farnir að skilja þetta aðeins, þeir háu
í Danmörku, og svo smá kemur þetta.
Maðurinn er guðleg vera og
á sinn náttúrlega rétt. Þann rétt
þiggjum vér öll frá Guði sem ríkir
yfir náttúrunni og er í henni, allri
heimsins náttúru og vélan. Að láta
fátæklingana drepast fyrir það eitt að
það kunni að kosta eilitla rekistefnu
fyrir kóngi og kaupmanni þegar
vorar, það er ekki bara aumt, það er
óguðlegt. Þegar það smám saman
upplýkst fyrir fátæklingum að þeirra
réttur sé einnig Guðs gjöf þá verður
á stundum ögn erfiðara og ekki alltaf
i fuld sikkerhed að vera höfðingi á
stóru búi með stritandi hjáleigukrans
allt um kring.
– Þér takið stærra upp í yður nú en
þér ráðið við að kyngja enda vissara
fyrir yður, karl minn, að þetta sé þó
ekki nema tveggja manna tal.
– Æ, herra amtmaður, þér eruð
hreint ágætur. Og hvað skjattann
þann arna snertir þá sendið hann
fyrir mig, ég kemst víst varla hér
efri leiðina austur aftur, sendið hann
bara hér upp í Fjósakotið og það
verður vitjað um hann þar og verið
þér sælir.
Amtmaður stendur höggdofa
á hlaðinu og horfir eftir þessum
ófyrirleitna bónbjargaklerki.
Hélt maðurinn virkilega að
amtmaður sunnan og vestan
færi að leggja matarbagga ofan
í hústóft fyrir farandi lýð? Nei,
hann skyldi muna eftir að láta
ráðsmanninn taka niður húsin
í Fjósakoti. Öll.
Þórður Jónsson er
kominn fram á túnhalann í
Bræðratungu þegar öldurmenni
bandar honum til sín.
– Hún er ónýt.
– Hver er ónýt, góði maður?
– Nú, ferjan, stólsferjan frammi
í sporði. Skálholtshyskið
hirti ekki um að koma henni af
eyrinni og vorísarnir náðu að brjóta
hana. Þú verður að fara á Króki.
Því fer svo að ferðalag Þórðar
lengist um nokkra tíma
og það er liðið að nóni
þegar hann kemst yfir
Tungufljót.
Spölkorn sunnan
v i ð f e r j u b æ i n a
gengur hann fram á
aðgjörðir valdsmanna
við harðindunum. Í
Gálgaklettum í landi
Stóra-Fljóts eru sex hangar
sem teknir voru af um
morguninn. Vinnumenn
eru í óðaönn að taka grafir
í valllendi rétt upp af
fljótsbakkanum.
Prestur gengur nær og
þekkir þar sinn kæra vin,
Þorbrand þann sem kallaður
var þjófur. Hina hafði hann
og séð heima í Reykjadal en
þekkir ekki nöfnin. Guðsmaðurinn
staldrar stutta stund, fer með bænir
fyrir sálum hinna dauðu og talar
við sinn Guð.
Sumt er enn ókasað!
MENNING&BÆKUR
LESENDABÁS
Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna
Allt land er auðlind, landið sjálft,
jarðvegurinn og gróðurinn sem
þar þrífst. Sumt land nýtist til
matvælaframleiðslu, annað til
útivistar og auk þess geta fylgt
landi önnur gæði sem enn auka
verðmæti þess, t.d. veiði og
vatnsréttindi.
Meðferð og notkun alls landsins
skiptir alla landsmenn máli bæði nú
og til framtíðar. Það felast miklir
almannahagsmunir í ráðstöfun og
meðferð lands, því geta ekki gilt
sömu reglur um kaup og sölu á landi
eins og hverri annarri fastegin.
Eignarhald, ráðstöfunarréttur
og ábyrgð á landi þarf að
vera í höndum landsmanna.
Stjórnvöld og almenningur
geta haft áhrif á landnýtingu
í gegnum skipulagsáætlanir
þar sem sveitarfélög geta sett
landnýtingu mismunandi skorður
eftir náttúrufari, eðli ræktunar og
manngerðs umhverfis.
Stjórnvöld geta beitt ýmsum
tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun
lands. Án tafar þarf ríkisvaldið
að setja skilyrði um að sá sem vill
eignast land eða jörð hafi búsetu á
Íslandi eða hafi áður haft hér fasta
búsetu í a.m.k. 5 ár. Þessa reglu
þarf að aðlaga EES samningnum á
málefnalegan hátt og það er einfalt
að gera.
Einnig þarf að fylgja eftir
áliti starfshóps um endurskoðun
eignarhalds á bújörðum frá því
í september 2018, um aðrar
mögulegar breytingar á jarðalögum
og ábúðarlögum til að viðhalda
ræktanlegu landbúnaðarlandi og
búsetu í sveitum landsins. Þessum
tillögum voru gerð ítarleg skil í
Bændablaðinu þann 1. nóvember
s.l. og þegar hefur verið boðað
að forsætisráðuneytið mun
leiða áframhaldandi vinnu með
tillögurnar.
Sveitarfélög geta notað
skipulagsáætlanir betur en nú
er gert til að setja kvaðir um
landnýtingu. Sveitarfélög geta
skilgreint landbúnaðarland sem
halda skal í ræktanlegu ástandi í
skipulagi. Einnig væri athugandi
að skilgreina í skipulagi, jarðir
þar sem heilsársbúseta er
æskileg og geta þar komið inn
fleiri sjónarmið en nýting til
landbúnaðar, s.s. öryggissjónarmið,
eftirlit lands og náttúruvernd. Í
Landsskipulagsstefnu er nú þegar
gert ráð fyrir að sett verði fram
leiðarljós um landnotkun í dreifbýli
til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð
sveitarfélaga.
Þá geta stjórnvöld beitt
skattlagningu til að hafa áhrif á
nýtingu fasteigna eins og jarða og
húsa sem á þeim standa. Þannig
mætti beita fasteignaskatti sem hvata
til nýtingar eigna í strjálbýli með því
að leggja hærri skatt á eignir sem
ekki eru í notkun.
Bætt skráning landeigna er
forsenda þess að hægt verði að
beita stjórntækjum markvisst við
ráðstöfun lands. Til þess þarf að
byggja upp miðlæga landeignaskrár
sem inniheldur hnitsetta afmörkun
allra landeigna; þjóðlenda, jarða og
lóða.
Tæknin fyrir Landeignaskrá er
til staðar, aðeins þarf að setja reglur
um skráningu og ganga skipulega
til verks. Landeignaskrá Íslands
yrði gunnur að skynsamlegri og
sjálfbærri nýtingu á auðlindum
jarðar með hagsmuni komandi
kynslóða að leiðarljósi.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
alþingismaður,
Framsóknarflokki
Líneik Anna Sævarsdóttir.