Bændablaðið - 15.11.2018, Qupperneq 48
Bændablaðið | Fimmtudagur 15. nóvember 201848
Fátt mótar sterkar búsetulandslag
dreifbýlis en tún og annað ræktað
land. Í núverandi mynd voru flest
túnin gerð um og upp úr miðri
síðustu öld, þótt enn megi víða sjá
dæmi um eldri ræktun.
Túnin eru undirstaða þess
kvikfjárhalds sem gefið hefur
mestan hluta kjöt- og mjólkurafurða
fyrir landsmenn. Mjög umræddir
framræsluskurðir í mýrlendi
setja líka víða sterkan svip á
búsetulandslagið, skurðir sem
tryggja virkni og rækt núverandi
túna, hafa undirbúið ræktunarlönd
framtíðarinnar, skapað verðmæt
beitilönd, nú eða eru verk sem hefðu
mátt bíða til óræðrar framtíðar.
Á bak við öll þessi merki um
ræktunarverk mannanna liggur
sagan um það hvernig landið var
ræktað eftir þekkingu, samfélagssýn
og getu á hverjum tíma – og miðað
við þær þarfir sem brýnastar töldust
þá: Þúfur voru sléttaðar, vatni veitt á
engjalönd, túngarðar hlaðnir, skurðir
grafnir, girðingum komið upp,
landið plægt og herfað, hagaskurðir
gerðir, korni sáð, tað malað, mykja
breidd eða felld niður... – Já,
upptalningin verður ærið löng en
dæmin duga til þess að sýna hversu
fjölbreytt ræktunarverkin hafa verið.
Ég hef um töluvert skeið,
bæði vegna kennslu minnar á
Hvanneyri og síðan starfa við
Landbúnaðarsafnið þar, tínt saman
efni tengt íslensku ræktunarsögunni,
einkum hlut hennar á 20. öld, með
það í huga að ná saman yfirliti um
hana. Ýmsir hafa lagt mér lið með
frásögnum, ljósmyndum og öðrum
ábendingum. Sumt af því hefur birst
í bókum mínum um vélvæðingu
sveitanna á síðustu öld. Annað bíður
frekari úrvinnslu.
Með þessum pistli langar mig
til þess að lýsa eftir ljósmyndum,
frásögnum og/eða ábendingum
um efni sem tengist hvers konar
ræktun landsins til fóðuröflunar.
Þar hef ég í huga athyglisverða
ræktunarhætti, vinnuaðferðir,
ræktunaraðstæður, ræktunarvélar-
og verkfæri, ekki síst ef um hefur
verið að ræða íslenskt hugvit eða
verksvit, því margt datt mönnum
og dettur enn í hug. Líka mundu
vel þegnar ábendingar um merka
ræktunarmenn og sögur af þeim.
Ekki spillti heldur að fá ábendingar
um athyglisverðar ræktunarminjar
þótt margar slíkar séu þegar og sem
betur fer formlega skráðar. Hvað
tímann snertir er ég bæði með í huga
hina eiginlegu vélaöld – eftir 1950
eða svo – og tímann þegar hand- og
hestaaflið voru enn drífandi kraftar
ræktunarverkanna.
Með slíkri samlegð gæti fengist
verðmætur auki við það efni sem
þegar má finna í bókum, tímaritum,
jarðræktarskýrslum, þjóðháttaskrám,
ljósmyndum og öðrum þegar
varðveittum heimildum.
Um leið og ég þakka þeim
mörgu, sem á síðari árum hafa sent
mér efni og annan fróðleik, er varðar
framvindu verkhátta og vinnubragða
við bústörf hérlendis, langar mig til
þess að hvetja þá, er þennan pistil
lesa og luma á áhugaverðu efni, eða
vita af slíku, að hafa samband. Það
eru meiri líkur en minni á að slíkt
efni eigi erindi inn í heildarsöguna!
Það er auðvelt að ná í mig, eða
að senda mér efni: Ég hef netfangið
bjarnig@lbhi.is, símann 894 6368
og póstkassa við Túngötu 5,
Hvanneyri, 311 Borgarnes.
Með þökkum og góðri kveðju
Bjarni Guðmundsson
Hvanneyri
LESENDABÁS
Leitað fróðleiks um
jarðrækt fyrri ára
Í umræðum um vanda
sauðfjárræktarinnar finnst
mér stundum hinn félagslegi
þáttur vanmetinn, einkum
hvað varðar afréttanýtingu
og fjallskil á haustin; göngur,
réttir og eftirleitir. Þá taka allir
höndum saman án tillits til
fjáreignar. Bændur með stórbú
standa ekki einir á meðan
fjárfærri félagar þeirra og
tómstundabændur, jafnvel með
fáeinar kindur hver, taka þátt
í lögbundnum skyldustörfum á
haustin um land allt, við ýmiss
konar aðstæður. Þá munar um
hvern og einn. Þetta þarf að
hafa í huga, ekki síst þegar bæði
fé og fjárbændum fer fækkandi.
Um þetta ræddum við Páll
heitinn á Sandhóli í Ölfusi oft en
hann lést um réttaleytið í haust.
Nú, þegar fé er að koma á hús
og verið er að fara í eftirleitir
minnist ég sérstaklega Páls sem
var einlægur dýravinur og gat
ekki hugsað til þess að fé yrði
úti uppi um fjöll og firnindi.
Í bréfi og fréttum frá honum
sem birtust hér í Bændablaðinu
fyrir fáeinum árum gerði hann
að umtalsefni kindur sem verða
úti eða er bjargað nær dauða en
lífi, vegna þess að ekki hafði
verið vandað til smalamennsku
á þessu eða hinu svæðinu. Þá
gat hvinið í Páli sem að jafnaði
var dagfarsprúður maður sem
vildi öllum gott gera og var bæði
ósérhlífinn og hjálpsamur með
afbrigðum.
„Drottinn minn dýri, við
verðum að standa saman og
hjálpast að“, sagði Páll gjarnan
við mig og gerði sjálfur allt sem
hann gat til þess að fjárskil yrðu
sem greiðust. Ekki var hann spar
á hrós og þakklæti fyrir vel unnin
verk. Hans var vissulega saknað
í réttunum í haust en þar var Páll
alltaf kátur og hress og setti svip
á réttastemninguna, hvort sem
hann var skilamaður Ölfusinga í
Fossvallarétt við Lækjarbotna, í
Húsmúlarétt neðan Kolviðarhóls
eða í Ölfusrétt, í Reykjadal á
seinni árum. Hann var höfðingi
heim að sækja, sívökull, fróður
og ákveðinn í skoðunum. Það var
líka uppörvandi og ánægjulegt að
hitta Pál í göngum og eftirleitum
en þá sem endranær fylgdu
honum tveir hundar, Lubbarnir.
Mér er til dæmis minnisstætt
þegar við hittumst um þetta
leyti árs um aldamótin, löngu
eftir lögboðnar leitir, við
Húsmúlarétt, alveg af tilviljun
en sömu erindagerða, að svipast
eftir kindum. Það var nokkurt
harðfenni, vægt frost, sæmilega
bjart og gott göngufæri. Við
skiptum með okkur svæðum,
hann fór með hunda sína norður
með Húsmúla í átt til Engidals en
ég fór í norðurjaðar Svínahrauns,
niður með Bolavöllum. Páll benti
mér sérstaklega á að huga að
sprungum og skútum í hrauninu
þar sem kindur gætu leitað skjóls
og orðið innlyksa. Enga fundum
við kindina en samt vorum við
ánægðir þegar við hittumst aftur
við réttina eftir nokkurra tíma
göngu. Því minnist ég gjarnan
Páls þegar fé vantar á heimtur
því að þá er hann mér ágæt
fyrirmynd; hinn sanni, góði
hirðir.
Þótt þessi stutti pistill eigi fyrst
og fremst að vera hugleiðing um
nauðsyn þess að leggja alúð við
smalamennskur og fjárskil á
haustin, áður en vetur gengur í
garð, í anda Páls á Sandhóli, get
ég ekki látið hjá líða að bæta við
fáeinum orðum í minningu hans.
Páll lést 10. september sl.
af völdum krabbameins á 83.
aldursárinu og var jarðsunginn
frá Kotstrandarkirkju í kyrrþey
21. september. Hann var einyrki,
bóndi af lífi og sál, sem stóð
á meðan stætt var þrátt fyrir
heilsubrest síðustu árin; sáði til
grænfóðurs fyrir smæstu lömbin,
flutti féð í afrétt á dráttarvélarvagni
eins og venjulega og heyjaði vel
í sumar þrátt fyrir afleitt tíðarfar.
Páll, Vestur-Skaftfellingur í
báðar ættir, fæddur og uppalinn á
Sandhóli, hafði tekið við jörðinni
af foreldrum sínum 1982 og
þar rak hann vænt fjárbú með
bjartsýni og dugnað í fyrirrúmi
alla tíð. Byggði meira að segja
ný fjárhús fyrir nokkrum árum.
Trú hans á sauðfjárræktina og
landbúnaðinn var alltaf söm og
jöfn þótt á móti blési. Páll er
mörgum minnisstæður.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson,
Höfundur er örbóndi með
sauðfé í Reykjavík og minnist
Páls Auðars Þorlákssonar á
Sandhóli með virðingu og þökk
(oldyrm@gmail.com).
„ Fé má ekki verða úti uppi um fjöll og firnindi”
Minnisstæður fjárbóndi
– Páll á Sandhóli í Ölfusi
Páll Auðar Þorláksson á Sandhóli í Ölfusi með hundana sína í dráttarvélinni
fyrir framan Landsbankann á Selfossi. Hann lést á Heilbrigðisstofnun
Suðurlands á Selfossi 10. september 2018. Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Kílplógur á beltavél; hugmynd Þorsteins Stefánssonar á Ósi í Skilmannahreppi. Með plógnum voru gerð kílræsi
svo spara mætti opna skurði við þurrkun ræktunarlanda.
Greinarhöfundur stendur við Skerpiplóg, norskan risaplóg, er mikilla en
skammra vinsælda naut við túnrækt hérlendis í kringum 1960.
Árni G. Eylands, mikill ræktunar-
frömuður á 20. öld, mundar pál, eitt
helsta ræktuna rverkfæri fyrri tíma.
Mynd / Úr safni Þórunnar Reykdal