Bændablaðið - 14.03.2019, Side 32
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. mars 201932
LÍF&STARF
Ásta Stefánsdóttir var ráðinn sveitarstjóri Bláskógabyggðar eftir kosningarnar á síðasta ári:
„Gaman að finna kraftinn í samfélaginu”
– Mikill uppgangur í sveitarfélaginu og boðið upp á fríar máltíðir fyrir leik- og grunnskólabörn frá síðustu áramótum
Bláskógabyggð er sveitarfélag í
uppsveitum Árnessýslu, sem varð
til í júní 2002 við sameiningu þriggja
sveitarfélaga, Biskupstungna
hrepps, Laugardalshrepps og
Þingvallahrepps.
Nafn sveitarfélagsins er fengið
að láni úr Þingvallasveit og tengist
birkinu og bláma vatnsins. Eftir
síðustu sveitarstjórnarkosningar
var auglýst eftir nýjum sveitarstjóra
í Bláskógabyggð og var Ásta
Stefánsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri
í Sveitarfélaginu Árborg, ráðin í
starfið. Ásta, sem er búsett á Selfossi,
svaraði nokkrum spurningum um
sig, starf sveitarstjóra og segir
okkur frá helstum framkvæmdum
og fréttum úr sveitarfélaginu.
Kraftur í samfélaginu
„Já, ég er búin að starfa hér í um
sjö mánuði og er enn að læra nýja
hluti og kynnast nýju fólki. Mér
hefur verið mjög vel tekið, bæði
af starfsmönnum sveitarfélagsins,
sveitarstjórnar- og nefndafólki
og íbúum. Ég kann mjög vel við
mig í þessu starfi, þetta er mjög
lifandi og fjölbreytt starf. Það er
mjög gaman að finna kraftinn í
samfélaginu hérna, það er mikil
uppbygging á svæðinu. Það eru
talsverðar framkvæmdir í gangi, svo
sem í ferðaþjónustunni, hér standa
líka yfir virkjanaframkvæmdir,
sveitarfélagið er að vinna að
metnaðarfullum verkefnum og
margir að sinna frumkvöðulsstarfi
sem skilar sér margfalt út í
samfélagið,“ segir Ásta, aðspurð
um nýja starfið og um það helsta
sem væri að gerast í sveitarfélaginu.
Samhentur stjórnendahópur
hjá Árborg
Ásta byrjaði að vinna í Ráðhúsi
Árborgar haustið 2006, sem
bæjarritari. Árin hennar voru því
tæplega 12, fjögur sem bæjarritari
og átta ár sem framkvæmdastjóri
sveitarfélagsins, eða bæjarstjóri.
„Það var mjög annasamt starf, en
líka bæði skemmtilegt og gefandi.
Það var farið í mikla hagræðingu
hjá Árborg eftir kosningarnar 2010
og stöðugildum millistjórnenda
og sérfræðinga fækkað talsvert.
Stjórnendahópurinn hjá Árborg
var mjög samhentur, hafði mikla
þekkingu á sveitarfélaginu og
starfsemi þess, og það gerði það
að verkum að það var hægt að
reka þetta stórt sveitarfélag með
tiltölulega fáum yfirmönnum,“ segir
Ásta um leið og það kemur fram hjá
henni að starfið í Bláskógabyggð
er ekki allt öðru vísi en starfið
hjá Árborg, sveitarfélögin séu í
grunninn öll að sinna sams konar
verkefnum og veita þjónustu á sömu
sviðum.
„Ég finn þó aðeins mun
á málaflokkum eins og t.d.
félagsþjónustunni. Bláskógabyggð
sinnir félagsþjónustu í
byggðasamlagi ásamt nokkrum
öðrum sveitarfélögum, þannig að
sem sveitarstjóri verð ég ekki mikið
vör við þau mál sem heyra þar undir,
svona dagsdaglega, en hjá Árborg
komu mál tengd félagsþjónustu oft
inn á mitt borð.“
25% íbúa með erlendi ríkisfang
Íbúar í Bláskógabyggð voru 1.115
um síðustu áramót, fyrir fimm
árum síðan voru þeir 897, þannig
að fólkinu fjölgar smátt og smátt í
sveitarfélaginu. Hlutfall íbúa með
erlent ríkisfang er nokkuð hátt,
eða um 25%. Ástæðan er sú að
það er mikið af erlendu starfsfólki
í ferðaþjónustunni og garðyrkjunni.
Skortur á leiguhúsnæði
Ásta er næst spurð um húsnæðis-
málin, hvernig staðan sé í þeim
málaflokki í Bláskógabyggð.
„Eins og mjög víða annars
staðar er skortur á leiguhúsnæði.
Leigufélög eiga íbúðir í
sveitarfélaginu og nokkur af stærri
ferðaþjónustufyrirtækjunum hafa
byggt þó nokkuð af íbúðum fyrir
sitt starfsfólk. Sveitarfélagið á líka
leiguíbúðir sem það nýtir fyrir sitt
starfsfólk, einnig á það nokkrar
félagslegar leiguíbúðir og íbúðir
fyrir eldri borgara.“ Hún segir
að rekstraraðilar Hótel Geysis
séu að byggja íbúðir í Reykholti,
Friðheimar eru með húsnæði fyrir
starfsfólk og Fontana á Laugarvatni
einnig, svo dæmi séu nefnd.
„Eins og kom fram hér fyrir
ofan þá er mjög hátt hlutfall íbúa í
Bláskógabyggð með erlent ríkisfang.
Sumt af því fólki stoppar ekki mjög
lengi við, en það er ánægjulegt
hve margir hafa fest hér rætur og
jafnvel keypt sér húsnæði,“ segir
Ásta. Þá má taka fram að í sumar
stendur til að byrja að leggja nýja
götu í Reykholti, þar sem nokkrar
íbúðarhúsalóðir verða í boði. Það er
verið að staðfesta nýtt deiliskipulag
um þessar mundir fyrir þéttbýlið í
Reykholti og ráðist verður í hönnun
nýju götunnar um leið og skipulagið
hefur verið staðfest. Á Laugarvatni
eru lausar lóðir, en hluti þeirra er á
svæði þar sem jarðvegsaðstæður eru
ekki sem heppilegastar. Vinna er um
það bil að hefjast við endurskoðun
á deiliskipulagi þorpsins og verður
hugað að lóðaframboði í þeirri
vinnu.
Fríar skólamáltíðir
Bláskógabyggð rekur grunn- og
leikskóla bæði á Laugarvatni
og í Reykholti. Nemendur í
Bláskógaskóla í Reykholti eru 86.
Á Laugarvatni eru leikskóli og
grunnskóli reknir saman og eru
þar alls 73 börn. Sveitarfélögin
í Árnessýslu utan Árborgar reka
sameiginlega skólaþjónustu, þar
sem sinnt er m.a. kennsluráðgjöf og
talmeinaþjónustu, einnig er samstarf
um stöðugildi námsráðgjafa. Í
skólum sveitarfélagsins er mikill
metnaður fyrir góðu skólastarfi. Ásta
segir að börn í leik- og grunnskólum
fái skólamáltíðir án endurgjalds.
„Já, sveitarstjórn tók þá ákvörðun í
vetur að hætta að rukka fyrir máltíðir
og með því er tryggt að börn fái
hollan og góðan mat á skólatíma,
óháð efnahag.“
Nýr leikskóli fyrir 60 börn
Leikskólastarf er í miklum blóma í
Bláskógabyggð en leikskólabörnum
hefur fjölgað mikið og því var
ákveðið að ráðast í byggingu á
nýjum leikskóla í Reykholti.
„Nýja húsið mun rúma um 60 börn,
en nú eru leikskólabörn í Reykholti
27 talsins. Meðan á byggingu nýja
hússins stendur höfum við fengið
pláss fyrir nokkur leikskólabörn í
nágrannasveitarfélögunum. Nýi
leikskólinn verður þriggja deilda,
alls um 550 fermetrar og verður
tekinn í notkun um miðjan október.
Verkið var boðið út í tvennu lagi og
nú styttist í að fyrri áfanga ljúki. Við
hönnun hússins var mikil áhersla
lögð á að húsið væri hagkvæmt í
uppbyggingu og rekstri og hentaði
vel þeirri starfsemi sem það er ætlað
til. Fulltrúar sveitarfélagsins unnu
þétt með VA arkitektum og Verkís
að hönnun hússins. Þetta samstarf
gafst vel og það er líka sérlega
ánægjulegt að það hefur afar lítið
borið á svokölluðum aukaverkum
það sem af er framkvæmdum,“ segir
Ásta.
Fleiri vinnufúsar hendur óskast
Þegar talið berst að atvinnumálum í
Bláskógabyggð kemur fram hjá Ástu
að það sé frekar að það sé skortur á
starfsfólki heldur en hitt.
„Mest hefur aukning í störfum
verið í kringum ferðaþjónustuna,
en einnig starfa margir í garðyrkju.
Margir starfa einnig við skóla
sveitarfélagsins og Menntaskólann
á Laugarvatni. Þá eru einnig mörg
þjónustufyrirtæki í sveitarfélaginu
og eins og annars staðar eru næg
verkefni fyrir iðnaðarmenn. Það
hefur ekki verið auðvelt að manna
leikskóla sveitarfélagsins, en við
höfum getað mannað stöður í
grunnskólunum eftir þörfum.“
Lífrænn úrgangur flokkaður
Bláskógabyggð, eins og önnur
sveitarfélög á Suðurlandi, leggur
mikla áherslu á sorpmálin og
flokkun á sorpi.
„Já, við erum að hefja flokkun
á lífrænum úrgangi núna í mars.
Íbúar fá fjórðu sorptunnuna til að
hafa við heimili, fyrir var flokkun
á pappír og plasti. Sveitarfélagið
hvetur íbúa jafnframt til að flokka
gler og málma og skila á eitthvert
þriggja gámasvæða í sveitarfélaginu.
Aukin flokkun hefur verið innleidd í
skrefum, ástæða þess að við erum að
fara út í enn meiri flokkun núna er sú
að það eru vandræði með urðunarstað
fyrir sorp frá Suðurlandi og það
mun hafa í för með sér talsverðan
kostnaðarauka, því flytja mun þurfa
sorp um talsverðan veg til að koma
því til meðhöndlunar,“ segir Ásta og
bætir við: „Um leið og við hvetjum
fólk til að vera duglegt að flokka
til að halda kostnaði í lágmarki þá
er auðvitað líka verið að stuðla að
minni mengun og það græða því
allir á þessu. Bláskógabyggð og
Grímsnes- og Grafningshreppur hafa
staðið sameiginlega að útboðum í
sorphirðu og eru samstiga í því að
taka upp lífræna flokkun nú. Með
þessari breytingu komast þessu
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, sem kann vel við sig í nýja starfinu. Hún segir að sér hafi verið mjög vel tekið, bæði af starfsmönnum
sveitarfélagsins, sveitarstjórnar- og nefndafólki og íbúum. Hér er hún með Héraðsskólann á Laugarvatni í baksýn. Myndir / Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Haldið var upp á 20 ára afmæli Bláskógabyggðar 9. júní 2017 en þá heimsóttu forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson
og Eliza Ried, sveitarfélagið þar sem boðið var upp á glæsilega dagskrá allan daginn. Hér er Halldór Páll Halldórsson,
skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni að ræða við Guðna og Elizu.