Bændablaðið - 14.02.2019, Page 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. febrúar 20196
Ég leyfi mér að fullyrða að engin búgrein
á Íslandi er í jafnmikilli alþjóðlegri
samkeppni og minkaræktin hefur verið í
gegnum árin. Minkaskinn eru framleidd í
rúmlega 30 löndum víðs vegar um heiminn.
Stærstur hluti framleiðslunnar er seldur við
hamarshögg í uppboðshúsum hér í Evrópu
eða vestan hafs.
Í uppboðshúsunum eru skinnin flokkuð
óháð uppruna og síðan seld í einsleitum
búntum þar sem öll skinn í viðkomandi
búnti eru eins af gæðum, stærð, lit o.s.frv.
Okkar markmið sem bænda er því alltaf að
framleiða og skila af okkur skinnum sem
flokkast í búntin sem seljast á besta verðinu
hverju sinni. Þetta eru frjáls viðskipti þar
sem framboð og eftirspurn ráða verðmyndun
skinnanna. Kaupendur fá skinnin flokkuð ef
þeir versla í gegnum uppboðshús og fá þá um
leið tryggingu fyrir því að uppruni skinnanna
sé frá búum með vottaða og viðurkennda
framleiðslu þar sem umhirða og aðbúnaður
dýranna er eins og best verður á kosið.
Ekki allir vottaðir
Hluti framleiðenda í heiminum selur hins vegar
beint til saumastofa eða sjálfstætt starfandi
kauphéðna/kaupsýslumanna sem gera engar
kröfur um upprunamerkingar. Seljendurnir eru
oft og tíðum bændur í fjarlægum löndum sem
ekki fá leyfi til að selja á uppboðshúsum í t.d.
Evrópu vegna þess að þeir starfa fyrir utan öll
lög og reglur um aðbúnað og velferð dýra.
Hér í Evrópu kemur af og til upp umræða
um að banna minkarækt, samanber umræðuna
í Noregi núna. Ekki er ennþá ljóst hvernig
norska þingið muni ljúka því máli en hitt er
ljóst að það er ekki verið að banna notkun á
skinnavörum í Noregi, heldur einungis að
banna framleiðslu þeirra í landinu. Engar
hugmyndir eru um hertar kröfur um uppruna
skinnavara sem fluttar eru inn. Þeir sem krefjast
bannsins eru því fyrst og fremst að vinna gegn
dýravelferð og koma í veg fyrir að skinnin
sem notuð eru í heiminum komi frekar frá
vottuðum bændum hér í
Evrópu. Að mínu viti
er þetta röng þróun, en
dýravelferð er í hávegum
höfð í Noregi, búin eru
flest lítil og framleiðslan
persónutengd eins og hér
á Íslandi.
Minkarækt er
umhverfisvæn
Minkarækt er eins og
hver önnur búfjárrækt,
það þarf að ala dýrin og
passa að bæði aðbúnaður
og hirðing sé eins og
best verður á kosið.
Eldisminkurinn hefur
verið í búraræktun frá
því fyrir árið 1900,
ættliðabilið er stutt og
því gengur ræktunin hratt
sem gerir ræktunarstarfið
spennandi. Við fram-
leiðslu á hverju skinni
eru notuð um 53 kg
af fóðri, þar af eru tæp 50 kg af afskurði
frá matvælavinnslu, mest sláturhúsum og
fiskvinnslum. Þetta eru í flestum tilfellum
hráefni sem ekki nýtast í aðra matargerð og
væru því oftast urðuð ef þau væru ekki nýtt
í fóðurgerð. Nú er það eitt af markmiðum
aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar um
loftslagsmál að banna urðun á lífrænum
úrgangi en það ferli byrjar á næsta ári með
skattlagningu, að lágmarki 10 kr. á kg af
urðuðum lífrænum úrgangi. Í framhaldinu
verður svo bannað með öllu að urða lífrænan
úrgang á Íslandi samkvæmt áðurnefndri
aðgerðaáætlun um loftslagsmál. Hér gæti
minkaræktin og fóðurstöðvarnar lagt sitt
á vogarskálarnar því það hlýtur að vera
skynsamlegt að nýta þetta hráefni í fóður til að
ala dýrin og skapa þannig útflutningsverðmæti
og um leið atvinnu á landsbyggðinni. Skíturinn
frá búunum nýtist einnig vel sem áburður á
tún eða til uppgræðslu.
Lítil umræða
Um þessa fyrirhuguðu
gjaldtöku er samt ekki
mikil umræða í gangi
en þegar hún skellur á
þá mun sá skattur ekki
fara neitt annað en til
enn frekari hækkunar á
matarverði til neytenda
eða til lækkunar á
afurðaverði til bænda.
Hér er því kjörið tækifæri
fyrir fóðurstöðvar sem
framleiða minkafóður
og afurðastöðvar að
taka höndum saman
og efla úrvinnslu
þessara hráefna í
fóðurstöðvunum en þar
er ákveðinn grunnur til
af bæði tækjabúnaði
og þekkingu í meðferð
á hráefnum sem
þessum. Fóðurstöðvar
framtíðarinnar gætu því haft það að
markmiði að safna lífrænum úrgangi frá
matvælavinnslunni og finna honum annan
farveg en að hann sé urðaður. Framleiðsla
minkafóðurs gæti verið stór þáttur í þessari
nýtingu en síðan má þróa hluti eins og
framleiðslu á gæludýrafóðri og/eða flytja út
flokkuð hráefni til fóðurgerðar eða frekari
vinnslu erlendis.
Það er allra hagur að við sem stöndum í
búvöruframleiðslu á Íslandi vinnum saman og
horfum á stóru heildarmyndina. Það munar
um hvert starf og því betur sem við náum að
nýta allt það sem við framleiðum, því betra
er það fyrir umhverfið og það hagkerfi sem
við lifum í.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.900 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.450 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Það þarf að byggja upp innviði
þjóðfélagsins hljómaði úr digurbörkum
frambjóðenda fyrir síðustu kosningar.
Peningarnir eru til, það þarf bara að
forgangsraða.
Þessi orðræða hljómaði að heita
má á hverjum einasta framboðsfundi
og öllum kappræðum sem haldnar
voru á ljósvakamiðlunum í aðraganda
kosninganna. Samgöngumál voru þar
þráfaldlega nefnd, enda vegakerfið
orðnar slitrur einar og stórskemmt eftir
viðhaldsleysi í fjölda ára.
Nú hefur íslenska þjóðarskútan rétt
sig þokkalega af eftir brotsjóinn 2008.
Greiddar hafa verið niður skuldir í stórum
stíl og stofnanir ríkisins þenjast út eins og
risastórir loftbelgir.
Í byrjun kreppunnar kom makríllinn
syndandi upp í hendurnar á okkur og
breyttist í gull og svo voru það blessaðir
ferðamennirnir. Peningar hafa flætt um
bankakerfi og lífeyrissjóði sem aldrei fyrr
enda hafa menn þar á bæjum gott vit á
hvernig eigi að komast hjá því að aurarnir
staldri nema örstutt augnablik í götóttum
vösum hins skítuga almúga. Ef þessir sjóðir
ná ekki aurunum þá þurfum við ekkert að
örvænta, stjórnendur ríkisins hafa þar haft
ráð undir rifi hverju að hrifsa til sín restina.
Þeir sem verst eru settir geta að óbreyttu
verið öruggir með að hafa það að meðaltali
nokkurn veginn jafn skítt og áður.
Já, það var dagsatt hjá öllum
frambjóðendunum að peningarnir voru
til og eru það enn. Það er hægt að gera
eitt og annað, en aðeins ef menn festast
ekki í sömu kennisetningunum og komu
okkur á hausinn 2008. Almenningur í
þessu landi þarf sannarlega ekki að hafa
það skítt, þetta er nefnilega bara spurning
um forgangsröðun.
Einn þáttur í að efla lífsgæði þjóðarinnar
er styrking innviða. Það er nauðsynlegt til
að koma okkur upp úr hjólfari gærdagsins.
Það hefur sannarlega verið unnið mjög gott
verk í lagningu ljósleiðara úti um landið
og nú huga menn að því að flýta lagningu
þriggja fasa rafmagns um sveitir landsins.
Þá komum við að þeim þáttum sem alltaf
virðast sitja á hakanum, en það er vegakerfið
og flugvellirnir. Heilbrigðiskerfið situr
ekki endilega á hakanum í þessum efnum.
Þar er hins vegar verið að gera hrikaleg
og margþætt mistök sem verða okkur
dýrkeypt. Það mun því soga upp allt það
fjármagn sem þangað er ausið inn um
ókomin ár og mun samt ekki duga til.
Við státum af því að hafa laðað hingað
milljónir ferðamanna, en það er til lítils
ef þeir komast ekki út fyrir girðingu
Keflavíkurflugvallar vegna ónýtra
og hættulegra vega. Það er borið við
peningaskorti og nauðsyn á að plokka enn
meira en þá 80 milljarða sem þegar eru
kreistir úr vösum allra annarra bíleigenda
en rafbílaeigenda. Stjórnmálamenn verða
að fara að átta sig á að fólk er búið að fá nóg
af þessu rugli. Það er nóg til af peningum
og ágætlega stöðugt innstreymi. Leggjum
bara á hilluna næsta áratuginn eða tvo
áform um að veita raforkugróða í sjóði
fyrir fjárglæframenn til að leika sér með.
Breytum í það minnsta einum banka í
raunverulegan samfélagsbanka, lækkum
vexti stórlega og afnemum verðtryggingu
á lánum til almennings. Þannig vinnst
tvennt. Klafanum verður létt af almenningi
og nægt fé verður til að byggja upp
samgöngumannvirki á stuttum tíma.
Nú hefur kviknað vonarneisti í þessum
efnum. Samgönguráðherra hefur viðrað
hugmynd um að Landsvirkjun og bankar
verði látnir standa undir uppbyggingu
samgöngukerfisins. – Guð láti gott á vita
eins og presturinn sagði. /HKr.
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – augl@bondi.is Vefur blaðsins:
www.bbl.is bbl@bondi.is
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Samgöngur í lag
Mynd / Hörður Kristjánsson
Einar E. Einarsson
formaður Sambands íslenskra
loðdýrabænda einaree@simnet.is
Vottuð framleiðsla og nýting aukaafurða