Bændablaðið - 14.02.2019, Blaðsíða 32
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. febrúar 201932
Víkurvagnar ehf. – Hyrjarhöfði 8. – 110 Reykjavík
Sími 577-1090 – www.vikurvagnar.is – sala@vikurvagnar.is
STYRKUR, ÞJÓNUSTA OG ÁREIÐANLEIKI
MIKIÐ ÚRVAL KERRUVARAHLUTA
VÍKURVAGNAR EHF.
RAFMAGNSBÚNAÐUR
BREMSUR
BEISLI
DEKK
LJÓS
LED LJÓS
Til Monstera-ættkvíslarinnar
teljast á milli 40 og 50 tegundir
sem allar eiga heimkynni sín í
hitabelti Ameríku. Tegundirnar
eru meira og minna sígrænar
plöntur sem klifra gjarnan upp
eftir stofnum annarra plantna.
Til klifursins nota þær loftrætur
sem smjúga inn í ójöfnur og
sprungur trjábola og greina sem
klifrað er eftir og ná sér þar í
stuðning, vatn, birtu og næringu.
Ef þær komast í snertingu við
jörð taka þær að starfa eins og
venjulegar rætur. Loftræturnar
geta orðið býsna langar og
fyrirferðarmiklar og eru í sumum
löndum nýttar t.d til körfu- og
kaðlagerðar.
Gómsæta skrímslið
Sú tegund sem algengust er í
ræktun úr þessum plöntuhópi er
Monstera deliciosa, rifblaðka.
Rifblaðkan er einkar glæsileg
planta sem skartar stórum
fagurgrænum blöðum með miklum
skerðingum, eða rifum, og þaðan
er íslenska heitið komið. Hún
getur jafnvel náð 2-3 metra hæð í
heimahúsum og nýtur sín langbest
ef hún fær ríflegt pláss.
Nafnið Monstera er sennilega
komið frá latneska orðinu
monstrum sem þýðir skrímsli.
Deliciosa þýðir gómsætt
(delicious) og vísar til ávaxtar
plöntunnar sem fullþroskaður er
ætur og sagður einkar gómsætur.
Plantan blómstrar þó sjaldan í
heimahúsum og aðrir hlutar hennar
innihalda safa sem getur valdið
ertingu ef hann berst á húð.
Götóttu laufblöðin
Rifblöðkur skarta þó ekki
einkennismerki sínu, rifnu
blöðunum, alla ævi. Ungar plöntur
hafa heil blöð, en rifnu blöðin
myndast þegar plantan eldist.
Rifurnar í blöðunum eru taldar
gegna þeim tilgangi í heimkynnum
hennar að hleypa regnvatni í
gegnum blöðin svo þau sligist ekki
undan þunga vatnsins. Þar sem
hvert laufblað getur orðið allt að
100 cm á lengd og 70 cm á breidd
er ekki vanþörf á slíkri ráðstöfun.
Umönnun
Rifblaðka er frekar auðveld í
umhirðu. Hún vill ekki vera í
beinni sól, en þarf bjartan stað til
þess að dafna sem best. Vel fer á
því að leyfa henni að leggja undir
sig eitthvert hornið í stofunni, á
móts við glugga.
Hún kýs næringarríka mold,
helst vikurblandaða, og jafnan raka.
Það er þó í lagi yfir vetrarmánuðina
að leyfa moldinni að þorna nokkuð
á milli vökvana. Mun meiri hætta
er á að gera plöntunni skaða með of
mikilli vökvun en of lítilli. Daufa
áburðarblöndu er gott að gefa
í uþb. þriðju hverri vökvun yfir
sumarið og rétt er að umpotta einu
sinni á ári og þá að vori.
Venjulegur stofuhiti hentar
plöntunni mjög vel. Þar sem
rifblaðkan á uppruna sinn í töluvert
rakara loftslagi en við bjóðum upp
á á heimilum okkar er ágætt að úða
annað slagið vatni yfir plöntuna,
sérstaklega yfir sumarið.
Loftrætur rifblöðkunnar geta
orðið ansi fyrirferðarmiklar en þær
eru plöntunni nauðsynlegar og ekki
ætti að klippa þær burtu. Mikið af
loftrótum bendir raunar til þess að
plöntunni líði vel.
Þar sem plantan er í eðli
sínu klifurplanta er best að setja
mosastöng eða bambusprik með
henni í pottinn og binda plöntuna
upp. Þannig fæst þéttara og fallegra
vaxtarlag.
Gleðitárin
Nokkuð algengt er að vatnsdropar
drjúpi af blöðum rifblöðkunnar.
Þetta er af völdum rótarþrýstings
og á sér ekki stað nema aðbúnaður
plöntunnar sé góður. Tárin eru því
góðs viti, þau benda til þess að
plöntunni líði vel og því gjarnan
haldið á lofti að plantan gráti af
vellíðan eða gleði.
Fleiri Monstera tegundir
Þrátt fyrir að Monstera deliciosa,
rifblaðkan, sé algengasta tegund
ættkvíslarinnar og sú sem lengst
hefur prýtt íslensk heimili er
úrvalið í verslunum sífellt að
aukast og smávaxnari tegundir
aðgengilegri en áður. Þar má til
dæmis nefna Monstera obliqua og
Monstera adansonii. Íbúar smærri
fasteigna geta því einnig tekið þátt
í regnskógarstemningunni án þess
að afsala sér öllu stofuplássi.
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir
nemi í garðyrkjuframleiðslu hjá
Garðyrkjuskóla LbhÍ Reykjum.
GARÐYRKJUSKÓLI LBHÍ REYKJUM
Monstera – rifblaðka:
Skrímslið sem grætur af gleði
Hratt flýgur stund
Á aðalfundi Landssamtaka
sauðfjárbænda í mars 2017 tók ég
við sem formaður samtakanna. Þar
á undan var ég varaformaður og
formaður Fagráðs í sauðfjárrækt
auk þess að sitja sem fulltrúi á
Búnaðarþingi. Ég hef nú ákveðið
að gefa ekki kost á mér áfram til
formennsku í Landssamtökum
sauðfjárbænda.
Formannssetan hefur verið
krefjandi og skemmtileg. Starfið
hefur verið erfitt á köflum enda staða
greinarinnar á tímanum grafalvarleg.
Við höfum tekist á við fordæmalaust
verðhrun á afurðum okkar, þar sem
öryggisnet voru nánast engin til
staðar. Það er fáránleg og óþolandi
staða að framleiða hágæða vöru
í krafti einstakra aðstæðna sem
frumframleiðendur sjálfir fá algjört
hrakvirði fyrir. Í ofanálag orsakast
lélegt verð af ytri áhrifum sem
bændur höfðu enga möguleika á
að afstýra. Horft til baka var þó
þungbærast til þess að vita að staðan
varðaði velferð fólks í einhverjum
tilfellum og jafnvel afdrif heilu
samfélaganna. Á sama tíma vorum
við einnig að eiga við gjörbreytt og
krefjandi umhverfi í fjármögnun
samtakanna. Umgjörð um
markaðsstarfið hefur verið í hraðri
mótun. Þá hafa samningaviðræður
við ríkið krafist orku og tíma en eru
nú farsællega að baki.
Einhverjum kann að þykja
það heldur stutt ending að sitja
á formannsstóli í tvö ár. Ég bið
þá sömu að hafa hugfast að
formannsdrauminn bar ég aldrei í
maganum þótt ég hafi fyrir tveimur
árum ákveðið að taka þessari
áskorun. Þrátt fyrir að kunna
ágætlega við embættið þá stendur
hugurinn til annarra verkefna á
þessum tímapunkti. Ég fer sátt frá
borði.
Á þeim tíma sem ég sat sem
almennur stjórnarmaður lét ég mig
landnýtingarmál talsvert varða.
Ég hef á þeim tíma talað fyrir því
að koma á vöktunarkerfi á gróðri.
Árið 2017 náðist samkomulag
við stjórnvöld um mat og vöktun
á gróður- og jarðvegsauðlindum
Íslands. Verkefnið er að stórum
hluta fjármagnað af rammasamningi
búvörusamninga. Ef fram heldur
sem horfir mun verkefnið byggja
upp mikilvæga fagþekkingu á þróun
jarðvegs og gróðurfars ásamt áhrifum
beitar á úthaga. Sú fagþekking mun
styrkja okkur í öllum ákvörðunum
um sjálfbæra landnýtingu. Forysta
bænda í þessu efni er forsenda sáttar
um nýtingu á landi til beitar. Það er
því sérstaklega ánægjulegt að sjá
þetta verkefni verða að veruleika hjá
Landgræðslunni undir faglegri stjórn
Bryndísar Marteinsdóttur.
Endurskoðun sauðfjársamnings
og þörf á hagræðingu innan
afurðageirans
Endurskoðun samnings um
starfsumhverfi sauðfjárræktarinnar
er lokið. Ég tel að þær breytingar
sem þar eru lagðar til vera til bóta
fyrir greinina og niðurstöðuna mjög
ásættanlega miðað við aðstæður. Í
samkomulaginu koma inn verkfæri
og ferlar til að takast á við sveiflur
á mörkuðum. Sagan segir okkur að
við eigum áfram eftir að takast á
við sveiflur í framboði, eftirspurn
og verði. Þá er mikilvægt að geta
brugðist fljótt við.
Áfram verður að huga að
hagræðingaraðgerðum innan
afurðageirans. Um það eru
samningsaðilar sammála
líkt og kemur fram í bókun
samkomulagsins. Það er gríðarlega
mikilvægt til að styðja við og
tryggja til framtíðar afurðaverðið,
okkar mikilvægustu tekjustoð.
Það er dregið úr framleiðsluhvata
s tuðningsgre iðs lna v ið
framgang samningsins, þar sem
hægt verður á niðurtröppun
beingreiðslna. Samhliða því
verður stofnsettur markaður fyrir
greiðslumark. Markmið okkar
með stofnsetningu markaðsins er
að jafna stöðu framleiðenda innan
greinarinnar og halda niðri verði
á greiðslumarkinu. Að mínu mati
er markaðurinn mikilvægur til að
tryggja meiri sanngirni og sátt um
kerfið. Breyting á niðurtröppun
greiðslumarks, til ársins 2022, er
sett fram í samræmi við ályktun
aðalfundar LS en eftir það er lögð
til niðurtröppun sem ég tel að eigi
að sætta sjónarmið mismunandi
hópa sauðfjárbænda.
Það er ekkert launungarmál
að staða bænda innan kerfisins
er misjöfn. Ég tel breytingu
endurskoðunarinnar við framgang
samningsins vera millilendingu
sem að flestir ættu að geta sæst á.
Sátt innan greinarinnar er mikilvæg
og til að skapa hana verða aðilar
af báðum endum að gefa eitthvað
eftir.
Það er rétt að taka fram að
ég hef aldrei staðið ein, stjórn
og framkvæmdastjóri hafa
unnið saman sem einn maður
og hvert eitt einasta þeirra verið
frábærir liðsmenn. Þá hafa
samtökin notið styrk og liðsinnis
Bændasamtakanna, sem skiptir
miklu máli. Ég hef sinnt þessu
embætti af alefli enda frá fyrsta
degi ljóst að það þyrfti til, en hvort
það var nóg á líklega tíminn eftir
að leiða í ljós. Mig langar að þakka
sauðfjárbændum viðkynninguna,
samtölin og símtölin sem hafa
verið ófá og mörg hver afskaplega
uppbyggileg. Einnig þeim
fjölmörgu öðrum sem ég hef haft
samskipti við vegna starfsins.
Samstarfsfólki og samstjórnarfólki
mínu í gegnum tíðina þakka ég
kærlega samstarfið og góð kynni.
Oddný Steina Valsdóttir
Formaður Landssamtaka
sauðfjárbænda
Oddný Steina Valsdóttir.
Butra í Fljótshlíð. Mynd / HKr.