Bændablaðið - 14.02.2019, Page 7

Bændablaðið - 14.02.2019, Page 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. febrúar 2019 7 LÍF&STARF Fyrir fám dægrum átti ég tal við Jóhannes bónda á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Svona í leiðinni innti ég hann eftir brúklegum kveðskap í blaðið. Ekkert sagði hann til sem hann myndi, en sagði að Ágúst Marinó Ágústsson, bóndi í Sauðanesi, væri hjá sér við tamningar, og sá ætti örugglega eitthvað, og rétti Gústa símtækið. Gústi tók mér bærilega vel, en sagðist sár og óánægður með hve lítið birtist eftir sig í vísnaþættinum. Ekkert myndi hann þó af sínum vísum, en auðvitað mætti hrófa einhverju saman í snatri. Þess sést staður hér eftir. Það er hins vegar satt hjá Gústa bónda, að hér hafa fáar stökur hans verið birtar sem skýrist af því að flestar hans vísna eru svo níðskældar og blautlegar að flest sómakært fólk beygir af. Margar landfleygar vísur hefur Gústi ort, enda fara þær flestar betur í muna en í kvæðasöfnum. Vísur Ágústar sem hér fara eftir, og ortar voru strax eftir símafund okkar, eru með þeim snyrtilegustu sem ég hef eftir hann séð, enda ortar allar til mín: Ei skyldi enda á blaði andans hrip er lekur, en Geirhjörtur hinn graði getur verið frekur. Ef skal ort með hraði, ekkert vandað fagið, þá Geirhjörturinn graði gengur strax á lagið. Þó að villur vaði, vísur slakar detta, Geirhjörturinn graði gamnar sér við þetta. Leirs í ljótu baði leiðist orði snjöllu, en Geirhjörturinn graði gleypir þó við öllu. Þegar þetta andans verk Ágústar hafði skilað sér í símann, þá sendi ég honum staðfestingu ásamt ríkulegum þakkarorðum. Gústi veðraðist þá allur upp, og sendi ábót: Árni G. á undan fer, á eftir hinir teymast. Skíturinn mun skila sér, -en skáldin kynnu að gleymast. Það styttist í Þorra, og Góa gengur í garð. Ingólfur Ómar orti þessa vísu af því tilefni: Herðir kló og hnyklar brá, hleður snjónum niður. Þræsin Góa þeytir snjá, þekur mó og skriður. Símon Dalaskáld kvað svo um Einar á Sauðá í formannavísum: Þó að gráðug hrönnin há hreki náðir beinar, sækir fjáður sjóinn á Sauðár ráður Einar. Stýrir gnoð af brögnum best brims um hroða völlinn, engan voða óttast sést eða boðaföllin. Litlu fyrir andlát sitt orti Jósef Schram þessar stökur: Undarleg er ævin manns angurbárum þvegin. Skal nú vera langt til lands? lending yrði ég feginn. Veit ég muni leiðarljós loga á heljarskeri. Feginn inn á feigðarós fleyti völtum kneri. Er að lokum upp við sand ýtir kyljan stranga, vona ég mér á lífsins land leyfist þó að ganga. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggð1@gmail.com 912MÆLT AF MUNNI FRAM Ritstjórn LífsKrafts við útkomu bókarinnar Fokk – ég er með krabbamein! Myndir / Jón Þorgeir Kristjánsson Fokk – ég er með krabbamein! – Ný og endurbætt bók til að auðvelda sjúklingum og aðstandendum að takast á við erfitt ferli Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, hélt útgáfuhóf á Kaffi Flóru í gær, mánudaginn 4. febrúar, á Alþjóðlegum degi gegn krabbameinum. Haldið var upp á að búið er að endurútgefa bókina LífsKraftur í algjörlega nýrri mynd. Fjölmargir kíktu í hófið og þar á meðal frú Vigdís Finnbogadóttir, sem er verndari Krabbameinsfélags Íslands, en Kraftur er einmitt eitt af aðildarfélögum þess. Skiptir bókin miklu máli og auðveldar fólki að fóta sig í hvað gera þurfi þegar fólk greinist með krabbamein. „LífsKraftur hefur fengið þvílíka andlitslyftingu,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, í útgáfuteitinu. Bókin á erindi til allra Hulda sagði í samtali við Bændablaðið að í bókinni megi finna hagnýt ráð til allra, bæði sjúklinga og aðstandenda, og leiðbeiningar um hvert skref. Þetta varði í raun alla Íslendinga, því þriðji hver landsmaður greinist einhvern tíma á lífsleiðinni með krabbamein. „Bókin kom fyrst út árið 2003 en þar sem Kraftur er 20 ára í ár ákváðum við að endurskrifa hana með það í huga að hún höfðaði betur til ungs fólks, gera hana myndrænni og láta hana svara auðveldlega spurningum sem koma upp í huga fólks þegar það greinist með krabbamein eða þegar ástvinur greinist. Undirtitill bókarinnar hittir beint í mark þó hann sé vissulega ögrandi líka en hann er Fokk ég er með krabbamein!, sem er jú kannski fyrsta hugsunin sem kemur upp þegar maður fær svona fréttir,“ sagði Hulda enn fremur. LífsKraftur inniheldur hagnýtar upplýsingar fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein, aðstandendur þeirra og vini. Tilgangur þessarar útgáfu er að safna saman á einn stað upplýsingum, fræðsluefni og bjargráðum sem koma að gagni fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur. Allir sem greinast með krabbamein á aldrinum 18–45 ára og fjölmargir fleiri fá bókina afhenta sér að kostnaðarlausu en hún liggur einnig frammi á öllum spítölum landsins. Einnig er bókin inni á vefsíðu Krafts, www.kraftur.org. Heilbrigðisstofnanir og aðrir geta sett sig í samband við Kraft til að fá bókina senda til sín. Allar nánari upplýsingar veitir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, í síma 866-9600 eða í tölvupósti hulda@kraftur. org og hún hvetur fólk til að hafa samband ef það vill fá bókina senda. Enginn fastur opinber stuðningur Hulda segir Kraft vera rekið á velvilja fyrirtækja, stofnana og einstaklinga en fái ekki föst opinber framlög. Þeir sem óska þess er hins vegar gefinn kostur á að styrkja félagið með mánaðarlegum greiðslum. Varðandi útgáfu LífsKrafts-bókarinnar þá fékkst um tveggja milljóna króna styrkur frá velferðarráðuneytinu til þess verkefnis. Njótum mikils velvilja „Við njótum mikils velvilja og gætum ekki haldið uppi okkar starfsemi án þess. Armböndin hafa verið okkar helsta söluvara til að styrkja starfsemina. Fólk hefur þá verið að koma saman og perla armbönd undir yfirskriftinni „Lífið er núna“. Það er ánægjulegt hvað þetta hefur gengið vel og hefur gert það að verkum að við höfum getað bætt þjónustuna við okkar félagsmenn.“ Margvíslegur stuðningur við sjúklinga Hulda segir að félagsmenn Krafts séu um 750 talsins. Þeim sé veittur bæði andlegur og fjárhagslegur stuðningur eftir því sem hægt er. Þar sé til taks neyðarsjóður sem veiti fólki stuðning til að takast á við fjárhagslega erfiðleika sem geti komið upp þegar það veikist. Þá sé félagsmönnum boðið upp á sálfræðiþjónustu og þeir geti sótt um styrk til lyfjakaupa sem Apótekarinn ber kostnað af. – „Þannig getur fólk sótt lyf í útibú Apótekarans sér að kostnaðarlausu,“ segir Hulda. „Við erum líka að veita fólki jafningjastuðning og erum með starfandi stuðningshópa. Einnig erum við með endurhæfingarhóp sem heitir Fítonskraftur þar sem fólk getur komið saman og æft sig eftir meðferð. Í haust vorum við svo að byrja með markþjálfa sem gefur þjónustu sína til okkar félagsmanna. Þá vorum við líka að byrja með jóganámskeið fyrir okkar félagsmenn og þannig er alltaf eitthvað á döfinni,“ segir Hulda. /HKr. Frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari Krabbameinsfélags Íslands, mætti í

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.