Spássían - 2010, Page 4

Spássían - 2010, Page 4
 4 „Er þetta nokkuð bókasafnsbók?“ Forsíðumyndin var tekin á bólakafi í Kópavogslaug og vakti myndatakan mikla athygli sundlaugargesta. Rut Ingólfsdóttir, ljósmyndari, og Vigdís Másdóttir, leikkona, dýfðu sér aftur og aftur með tilþrifum í annan enda laugarinnar einn sólríkan miðvikudag í júní. Sumir baðgesta vildu taka virkan þátt í myndatökunni, fyrir framan eða bak við myndavélina. Fleiri höfðu þó áhyggjur af því að bókum væri misþyrmt við tökurnar, sem rennir vissulega stoðum undir þá þjóðsögu að Íslendingar séu bókelsk þjóð. Við fullvissum þó lesendur um að engar alvöru bækur voru eyðilagðar við tökur á þessum myndum. Við viðurkennum líka að þrátt fyrir kæruleysislegt yfirbragð titruðu sömu bókataugarnar undir niðri og við börðumst við löngunina til að safna saman blautum blaðsíðum, breiða þær út í sólinni og bera heim á öruggan stað. Við hendum jú ekki sjúkum ættingjum okkar í ruslið eða losum okkur við lítillega bilaða vini? Jafnvel þótt gervivinir séu. Staðreyndin er sú að við tengjumst bókum tilfinningaböndum, ekki aðeins því sem inni í þeim er, heldur hinum áþreifanlega hlut. Það er stundum næstum líkamlega sárt að horfa upp á bækur eyðileggjast eða hverfa í ruslið. Í staðinn geymum við hverja aumu skruddu sem slæðist inn á heimilið sem hina mestu gersemi, laumum í besta falli poka og poka til Góða hirðisins. Einn daginn drukknum við kannski í bókaflóði en það verða þó að teljast ánægjulegri endalok en þau sem orsakast af ósvalanlegum bókaþorsta. Við getum því sagt að við, og aðrir sundlaugargestir, höfum gengið saman í gegnum andlega hreinsun þennan eftirmiðdag þegar við sáum verstu martröð bókaunnandans setta á svið. Og kannski er hollt að taka bækurnar niður af stallinum við og við og böðlast svolítið á þeim. Hugsum samt vel um þær og verndum þess á milli.

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.