Spássían - 2010, Qupperneq 8
8
virðast vera og erfitt að ráða í hvað hefur
merkingu og hvað ekki.
Tískudauðadæmd
Píslarvottar án hæfileika kallast á við
Blómin frá Maó á ýmsan hátt. Eitt
meginviðfangsefni terroristasamtakanna,
fyrir utan að finna sér málstað, er að reyna
að finna nafn á samtökin. Það tekst aldrei
og reyndar ríkir engin sátt um það hvort
samtökin þurfi nafn eða nokkurs konar
ímynd þótt markaðssamfélagið krefjist
þess. Nafngiftir koma einnig við sögu í
Blómunum frá Maó:
En af hverju ekki Ösk m-l, Öreiga-sam-
tökin, Kínakommar, spurði ég, það
hljómar þó eins og íslenska og gæti verið
fyrri hlutinn af sögninni að öskra eins og
fólk gerir þegar það mótmælir.
Formanninum fannst þessi hugmynd
satt að segja gjörsamlega út í hött og afar
barnaleg.
En hvað segiði þá um pé fyrir
Pekingendur, stakk Gauti upp á. (37)
Þótt nafnaágreiningurinn verði aldrei
meira en málamyndaandóf gegn yfirvaldi
Asparhreyfingarinnar felst í honum
kaldhæðin gagnrýni á smáborgaralega
ímyndarsköpunina sem liggur í slíkum
nafngiftum. Að auki vekur hann upp
óvelkomna tengingu við trúarsamtök:
Hún sagðist hafa heyrt ávæning af
umræðunni um péið og spurði hvort ekki
væri best að péið stæði fyrir pílagrímar,
því öll værum við pílagrímar Krists á
ferð til fyrirheitna landsins sem væri á
himnum. Ómar varð hálfskömmustulegur
og minnti mömmu sína á að þetta væru
pólitísk samtök en ekki trúarsamtök, en
hún hafði um langt skeið verið í Vottum
Jehóva. (38)
Hæfileikalausu píslarvottarnir falla ekki í
gryfju tilbeiðslunnar eins og maóistarnir.
Segja má að kaldhæðni einkenni bæði
lífsviðhorf þeirra og örlög. Samfélagið
hefur barið niður drauma þeirra og
þau eru ofurmeðvituð um það hversu
gegnumsýrð þau eru af hugmyndafræði
kapítalísks neyslusamfélags, án þess þó
að það breyti nokkru um lífsstíl þeirra.
Yfir öllu hangir fullvissan um að hvað
sem þau taki sér fyrir hendur verði það
„ekkert sem breytir heiminum“ (222).
Þau eru „helvítis tískudauðadæmd,
félagsdauðadæmd, hugsjónadauðadæmd,
tilgangsdauðadæmd, sálardauðadæmd,
bara fokkings heiladauðadæmd“ (125) .
Útsaumaður Fönix
Píslarvottarnir eru fastir og innilokaðir
í sínum eigin persónulega harmleik. Þótt
einn þeirra eigi foreldra sem prófuðu
kommúnulíf á sínum tíma eru þessi
ungmenni algjörlega áhugalaus um
fortíðina og velta því ekkert frekar fyrir
sér af hverju sú tilraun gekk ekki upp.
Þau eru reyndar jafnáhugalaus um
nútíðina, þ.e.a.s. það sem snertir þau
beint, nánasta umhverfi sitt. Það eina sem
virðist kveikja hjá þeim óljósan áhuga eru
fjarlægar hetjur á borð við Che Guevara,
sem fyrir löngu er orðinn söluvarningur á
stuttermabolum líkt og Maó. Og á meðan
búsáhaldabylting vekur nýja von á Íslandi
æða þau til Palestínu, á staðinn þar sem
allar hugsjónir hafa fyrir löngu drukknað
í blóðugum hversdeginum. Stærra
samhengi lokar þau aðeins enn frekar inni
í veröld tilgangslauss ofbeldis.
Undir lok Blómanna frá Maó situr
Bogga og saumar út fuglinn Fönix á meðan
hún horfir á fréttirnar. Hið heimilislega
og persónulega rennur saman við það
pólitíska en togstreitan þar á milli er eitt
af viðfangsefnum bókarinnar. Það eru svo
sem engin ný tíðindi að hugsjónamaðurinn
sem vill bjarga heiminum gleymir oft
sínum nánustu og að hið persónulega vill
flækjast fyrir þegar kemur að því að lifa
samkvæmt hugsjónunum. Þegar Sigurborg
bjó í kommúnunni reyndi hreyfingin
sífellt að stýra einkalífi hennar sem gerði
það að verkum að hún spyrnti á móti. Hið
persónulega og hið pólitíska, Bogga og
Sigurborg, urðu tveir ósættanlegir pólar.
Í útsaumnum undir lokin má þó greina
þá hugmynd að innan veggja heimilanna,
á sviði hins persónulega, geti sprottið
öðruvísi bylting úr ösku hinna gömlu. Að
byltingarvopnin úr pottaskápnum heima
bíti betur en önnur.
Auður Aðalsteinsdóttir