Spássían - 2010, Page 11
11
Hvers vegna skvísubókmenntir?
Ásta Gísladóttir
bækur
Einu sinni voru til ástarsögur. Fyrir
jólin komu út fallega innbundnar
ástarskáldsögur eftir Barböru Cartland,
Theresu Charles og Snjólaugu Bragadóttur
í tonnavís og fólk, þó aðallega konur, neytti
af stakri ánægju. Á meðan voru karlarnir
(og einhverjar konur) í hasarbókum
Alistairs McLean og allir sáttir með sitt.
En kalda stríðinu lauk og Bridget Jones
lenti í tilvistarkreppu og skyndilega leit
ástar- og hasarlandslagið allt öðruvísi út.
Nú lesa allir, konur og karlar, sögulega
glæpareyfara og að ungum konum er otað
„chick-lit“. Skvísubækur kallast þær á
íslensku og eiga að hitta nútímakonuna
í hjartastað. Eins og hjá formóður
þeirra, Bridget, hefst flækjan gjarnan á
upplausn og sundrung í lífi hinnar ungu
konu – vinnan horfin, einkalífið blekking
ein og sjálfsmyndin í molum. Við tekur
uppbygging þar sem djúp sjálfsskoðun
ungu konunnar á lífi sínu og fólkinu
sem hún umgengst ásamt óvæntum
tækifærum í vinnu og einkalífi koma
ástandinu í eðlilegt horf áður en yfir lýkur.
Svona er skvísubókmenntaformúlan í
grófum dráttum. Nútímakonan er með allt
niðrum sig en með smá áræðni, heppni og
rétta manninn á hliðarlínunni má finna
hamingjuna í lokin.
Þetta er nýtanleg formúla því hún
virkar. Nútímakonan hefur fyrir löngu
komist að því að hún er ekki prinsessa
í dulargervi og er í staðinn afskaplega
þakklát að fá staðfestingu á því að til
eru fleiri sem standa sig jafn illa, ef
ekki verr, í væntingakapphlaupinu.
En er þá raunverulegur munur á
skvísubókmenntum og ástarsögum?
Spássían hafði samband við Dagnýju
Kristjánsdóttur, prófessor í íslenskum
bókmenntum við Háskóla Íslands og lagði
fyrir hana þessa spurningu.
„Munurinn á hefðbundnum skvísubók-
menntum og ástarsögum er sá að ástar-
sögur fjalla um ást tveggja einstaklinga
sem endar á farsælan hátt. Þær enda
alltaf vel en það gera skvísubækurnar
ekkert endilega. Eitt dæmi er Makalaus
eftir Þorbjörgu Marinósdóttur sem kom
út núna í vor. En þótt hlutirnir gangi ekki
eins og þær hefðu viljað eru konurnar í
skvísubókunum ólæknandi optimistar
sem trúa að einhvers staðar sé maðurinn
sem þeim er ætlaður. Þær gera miklar
kröfur en læra í gegnum frásögnina að
horfa á veruleikann en ekki drauminn.
Draumar eru fínir en þeir geta orðið að
þráhyggju. Svo eru þær gjarnan fyndnar.
Ólíkt ástarsögum sem eru alvarlegar og
tilfinningasamar halda skvísubækurnar
írónískri fjarlægð.“
Þetta má vissulega sjá í Sítrónum
og saffran sem gerir töluvert meira úr
tilraunum söguhetjunnar til að ná árangri
í starfi og gera upp fortíðina heldur en
sjálfri ástarsögunni sem mallar rólega á
hliðarlínunni. En er þá eitthvað selt af
hefðbundnum ástarsögum í dag? Dagný
bendir á Ásútgáfuna á Akureyri sem gefur
út pakka með fimm ástarsögum í hverjum
mánuði í mörg þúsund eintökum.
Hún segir þar mikið þýtt af Harlequin
ástarsögum og þetta vera stóran
iðnað en margir af höfundunum eru
bókmenntafræðingar. Skvísubækurnar
séu ekki hluti af þessum iðnaði þótt reynt
hafi verið að innlima þær því flottustu
höfundarnir hafi aðgang að öðrum og
virðulegri markaði. Dagný skrifaði grein
í Ritið í febrúar 2002 sem hét „Ljúft er
að láta sig dreyma“ og fjallaði um þetta
efni. Þar er farið yfir fræðileg skrif síðustu
áratuga um ástarsögur og leitað svara við
spurningunni hvers vegna konur hafi þörf
fyrir að lesa slíkar sögur. Dagný segir hins
vegar í viðtalinu að karlar séu alveg jafn
hrifnir af ástarsögum og konur. Og í vissum
ríkjum í Afríku, þar sem klám er bannað,
liggi karlar í Harlequin sögunum og drekki
í sig krassandi lýsingarnar. Aðdráttarafl
fantasíunnar sem bæði ástarsögur og
skvísubókmenntir bjóða upp á ætti því
ekki að vera vanmetið. Eftir því sem báðar
greinar þróast og betri skilningur á eðli
fantasíunnar myndast verður til skýrari
mynd af því hvaða þrá er í raun verið
að uppfylla. Jafnt menningarlega sem
sálfræðilega.