Spássían - 2010, Qupperneq 14
14
Á litlu sviði, fyrir framan hóp af fólki, stendur
venjuleg ung kona með dagbók. Hún er að segja
sögu sína og velta því fyrir sér hvernig hún geti
hætt að vera alltaf svona venjuleg. Hvað sem
það kostar.
Dagbók Önnu Knúts – helförin mín er uppi-
standssýning eftir Önnu Knútsdóttur og
Gunnar Björn Guðmundsson sem jafnframt
leikstýrir henni. Gunnar segir í viðtali við
Spássíuna að þessi sýning hafi verið í fæðingu
í þrjú ár: „Hún var tilbúin fyrir tveimur árum
en við vorum alltaf að fá vinnu einhvers staðar,
stundum úti á landi, og því var sýningin unnin
til hliðar þegar tími gafst.“ Loksins þvinguðu
þau sig á svið síðasta vetur og voru 6 sýningar
á Café Rosenberg nú í vor svo og 5 sýningar í
júní á ýmsum stöðum á landsbyggðinni, við
frábærar viðtökur.
Gunnar segir að sýningin brúi bilið milli
leikhúss og uppistands. Handritið er djarft og
afdráttarlaust og var unnið upp úr dagbókum
Önnu og vinkvenna hennar en á sýningum er
hún líka að spila á salinn. Fyrst og fremst er
hún að segja eigin, kunnuglegu sögu. „Sýningin
fjallar um það hversu ógeðslega venjuleg
henni fannst hún vera og hversu óþolandi og
óásættanlegt það var. Því fór hún að prófa eitt
og annað til að vera óvenjulegri, t.d. eiturlyf og
lystarstol.“ Verst af öllu var að vera venjuleg
og segir Gunnar það vera vandamál sem flestir
geti þekkt.
Anna Knútsdóttir útskrifaðist úr Leik-
listarskóla Íslands 2007 og hefur birst reglulega
í Stundinni okkar í vetur sem hin kraftmikla
Fransína mús. Gunnar Björn hefur leikstýrt
bæði leikritum og kvikmyndum um árabil, m.a.
Astrópíu. Saman stóðu þau á bak við síðasta
Áramótaskaup sem Gunnar leikstýrði einnig.
Þegar þetta er skrifað er Anna nýkomin
heim úr stuttu leikferðalagi en Gunnar segir að
viðtökurnar hafi verið það góðar að áformað sé
að fara í annað ferðalag nú í sumar. Anna er vön
að slá tvær flugur í einu höggi á ferðum sínum
um landið og halda á daginn fría barnasýningu í
gervi Fransínu músar. „Barnasýning á daginn,“
segir Gunnar og hlær, „klámsýning á kvöldin.“
Verst að vera venjuleg
Leitin að sérstæðunni
Á sumarsíðdegi þyrpast barnafjölskyldur í lítið skógarrjóður og koma
sér fyrir á teppum eða fataplöggum. Jafnvel fjörugustu prakkararnir
sitja grafkyrrir og fylgjast með af fullri athygli þegar ævintýrapersónur
stilla sér upp milli trjánna og hefja leik sinn. Það er komið að enn einni
barnasýningunni hjá Leikhópnum Lottu.
Þótt Lotta setji upp nýja sýningu á hverju ári eiga allar sýningarnar
það sameiginlegt að sækja í ævintýraheima og að hópurinn nýtir sér
náttúrulegt umhverfið sem hluta af leikverkinu. Dæmi um það er
samtal Öskubusku við fuglana í skóginum sem stóðu sig með prýði í
sínu hlutverki.
Lotta hefur m.a. sett upp Dýrin í Hálsaskógi og Galdrakarlinn í Oz.
Í fyrra fór hún hins vegar þá leið að sjóða saman leikverk úr mörgum
ævintýrum undir yfirskriftinni Rauðhetta. Í ár fer hópurinn sömu leið.
Sýningin heitir Hans klaufi en efniviðurinn er sóttur í fjölmörg ævintýri.
Fyrir vikið verður söguþráðurinn nokkuð margþættur en megináhersla
lögð á innri rökvísi ævintýra. Þetta hafa höfundar á borð við Terry
Pratchett gert með afburðaárangri. Hér vantaði þó upp á úrvinnsluna
til að verkið væri nógu bitastætt fyrir eldri áhorfendur. Til dæmis hefði
mátt taka kynjahlutverkin til skoðunar.
Nánd leikara við áhorfendur á væntanlega sinn þátt í því að börn lifa
sig svo sterkt inn í leiksýningar Lottu. Leikhópurinn gætir þess jafnframt
að skemmta foreldrum ekki síður en börnum svo enginn fer fýldur heim.
Þetta árið var atburðarásin stundum full flókin fyrir yngri áhorfendur.
Það breytir því þó ekki að falleg náttúran, fjörugur leikurinn og nándin
við leikarana gera sýninguna að einni skemmtilegustu leikhúsupplifun
sem í boði er fyrir börn á Íslandi.
Leikhópurinn Lotta verður á ferð um landið í sumar. Dagskrána má
finna á vefsíðunni http://leikhopurinnlotta.is.
Öskubuska mætir
Hans klaufa
Söguþráðurinn er að miklu leyti
fenginn úr Öskubusku þar sem ljótu
systurnar halda uppi fjörinu.
Klaufinn og draumaprinsinn í froskgervinu
mynda fallegt tvíeyki sem jafnast á við
Batman og Robin eða Sancho Pancha og
Don Kíkóta. Ekki er þó fullkomlega ljóst
hvor er kómíska hjálparhellan og hver er
aðalhetjan.
Alvöru prinsessa fundin.
Söngur, dans og
gleði í lokin að
góðra ævintýra sið.