Spássían - 2010, Blaðsíða 20

Spássían - 2010, Blaðsíða 20
 20 Hugmyndasmiðir sjónvarpsþáttanna The Wire eru David Simon og Ed Burns. Simon var um árabil sakamálafréttamaður hjá Baltimore Sun og þekktur af yfirgrips- mikilli rannsóknarblaðamennsku þar á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Viðfangsefnið voru undirheimar Baltimore og þau gríðarlegu félagslegu vandamál sem sú borg á við að etja og að miklu leyti tengjast fátækt, eiturlyfjasölu og -neyslu. Í starfi sínu lagði Simon sig fram um að kynnast undirheimum borgarinnar jafnframt því sem hann kom sér upp samböndum innan lögreglunnar. Simon hefur einnig gefið út skáldsögurnar The Corner og A Year on the Killing Streets sem sjónvarpsþættirnir Homicide: Life on the Street (1993–1999) voru byggðir á. Ed Burns starfaði sem lögreglumaður í Baltimore í 30 ár og fékkst mest við eiturlyfja- og morðmál. Einnig fengu þeir við gerð þáttanna til liðs við sig fólk sem þekkti til á ýmsum vígstöðvum innan borgarsamfélagsins. Auk þess er í þáttunum leitast við að gefa raunsanna mynd af samfélaginu og stundum er byggt á raunverulegum atburðum og persónum. Þáttaraðirnar hafa unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal BAFTA og Emmy. Hér verður drepið á efnistökum í framvindu þáttanna. Þeir sem ekki hafa séð þá þurfa þó ekki að óttast uppljóstranir sem eyðileggja upplifunina af því að horfa á þá. Þetta eru ekki hefðbundnir „lögguþættir“ þar sem spennan hverfist um rannsóknina á því hver eða hverjir sökudólgarnir eru. Það er ljóst frá upphafi. The Wire gerist í Baltimore og fylgst er með mörgum þáttum þess borgarsamfélags, frá mörgum og mis- munandi sjónarhornum. Þetta gerir það að verkum persónugalleríið er afar stórt og nokkuð snúið að henda reiður á því, í upphafi. Í rauninni eru líka töluð nokkur tungumál í þáttunum, þar sem talsverður munur er á tungutaki hæst settu embættismanna og slangurmáli götubarna. Síðan má heyra margvísleg afbrigði af tungutaki ýmissa stétta og starfsgreina þess á milli. Það fer því ekki hjá því að mönnum geti þótt þeir hafa ofmetið enskukunnáttu sína þegar farið er að ráða í samskipti á tungumáli sem helst kemur kunnuglega fyrir hlustir af rapptextum. Nú er velmegun í mörgum hlutum Baltimore-borgar í raunveruleikanum, en sögusvið The Wire eru fyrst og fremst fátækrahverfin í austur- og vesturhluta Baltimore. Í þeim hluta Baltimore sem þættirnir gerast eru eiturlyfin hin markaðsráðandi, og í raun allsráðandi öfl. En þeir sem eru efstir í fæðukeðjunni í þeim geira eru ósnertanlegir. Tengsl þeirra og ítök í stjórnmálum borgarinnar eru marg- slungin. Pólitíkin tengist æðstu mönn- um í lögreglu og réttarkerfi. Inn í þetta fléttast svo barátta stjórnmálamanna og yfirmanna lögreglunnar við að halda tölfræðinni um glæpatíðni, morð og handtökur í borginni í lagi svo þeir haldi störfum sínum og/eða virðingarstöðum. Helst án þess að stjaka við þeim ósnertanlegu í glæpaheiminum vegna oft óræðra fjárhagstengsla. Tölfræðin er þannig mikilvægari í stjórnskipulaginu en raunveruleg velferð þegnanna. Í fyrstu seríu er myndað rannsóknar- teymi innan lögreglunnar. Það fer þannig fram að nokkrum vandræðamönnum héðan og þaðan úr lögregluliðinu er smalað saman í afskekkt húsnæði með lélegan aðbúnað og eiga þeir að þykjast rannsaka einn eiturlyfjahringinn sem talið er að maður að nafni Barksdale stýri. Þetta er sýndarverkefni af hálfu yfirmanna. Ákveðin mál sem tengjast genginu hafa komist í hámæli, sem er óþægilegt fyrir yfirvöld. Meðlimir rannsóknarteymisins eru úr ýmsum áttum. Sumir þeirra nenna ekki að vinna vinnuna sína. Aðrir eru uppá kant við kerfið. Innanum reynast nokkrir ágætir rannsakendur sem komast að ýmsu áhugaverðu en þurfa til þess og í framhaldinu að kljást við vanvirkt og spillt réttarkerfi. Áhorfandi veit alltaf hvað er að gerast á öllum vígstöðvum. Veit í raun miklu betur en lögreglumennirnir hvað gangsterarnir eru að gera. Og hvað af þessu öllu er að hreyfa við pólitíkinni á hverjum tíma. Persónur eru marglaga og allar hafa þær sína kosti og galla. Þótt stundum sé auðveldara sé finna til samkenndar með sumum en öðrum þá eru allar persónurnar breyskar og í raun mótaðar af því gallaða samfélagi sem þær koma úr. Vegferð hvers og eins í þessum fimm þáttaröðum getur líka orðið býsna margbreytileg. Margir eru fyndnir. Örlög annarra gríðarlega harmræn. Eins og gengur og gerist í lífinu. Allar persónurnar hafa góðar og slæmar hliðar; eiga góða og slæma daga. Þættirnir bera þess nokkur merki að hugmyndasmiðir þeirra hafa fengist við skáldsagnagerð. Haldið er um marga þræði í hverri þáttaröð, og nokkra í gegnum allar, þó framvindan sé nokkuð heildstæð. Stóra samhengið er til staðar þó fylgst sé með mörgum og misjöfnum persónum innan þess. Það þýðir hins vegar ekkert að horfa á þættina öðruvísi heldur en að sjá hverja þáttaröð frá upphafi til enda. Ekkert frekar en hægt er að sleppa úr kafla í lestri skáldsögu. Í hverri þáttaröð er lögð áhersla á mismunandi efni. Í þeirri fyrstu er rannsóknin á Barksdale-genginu miðlæg, í annarri færist fókusinn yfir til hafnarinnar og ýmissa mála, þar sem tengjast undirheimum borgarinnar, sú þriðja færir fókusinn aftur að Barksdale og öðrum eiturlyfjahringjum. Sú fjórða Sjónvarpsþættirnir The Wire (2002–2007) hafa verið nokkuð í umræðunni eftir að Jón Gnarr, nýkjörinn borgarstjóri Reykvíkinga, gaf út þá yfirlýsingu í kosningabaráttunni að hann myndi ekki íhuga meirihlutasamstarf með neinum sem ekki hefði séð áðurnefnda sjónvarpsþætti. Undarleg krafa. Eða hvað? Skylduáhorf dagsins: The Wire

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.