Spássían - 2010, Qupperneq 27
27
Hin stóra frásögn um bókmenntagagnrýni
og rithöfunda á Íslandi lýsir höfundum sem
viðkvæmum skepnum með lágt sjálfsálit og mikið
skap – tilfinningasömum og bitrum grátkonum sem
reiðubúnar séu að leggja líf sitt undir smánarlegar
skærur við aumingjans gagnrýnendurna, sem hafa
ekkert af sér gert annað en að segja sannleikann.
Þessi frásögn þjónar bæði höfundum og
gagnrýnendum, enda styður hún annars vegar við
mýtuna um höfundinn sem ofurnæman snilling
sem allir verði að sýna tillitssemi og hins vegar
mýtuna um gagnrýnandann sem hugrakkan
boðbera sannleikans. Og þannig fá allir að vera
píslarvottar; fá allir að vera glaðir.
Ég hef setið beggja vegna borðsins og upplifað
allt hið yndislega spektrúm þessarar guðdómlegu
paranoju; þessa fyrirtaks ofsóknarbrjálæðis. Ég
hef reiðst heimsku gagnrýnenda, steytt hnefann
að guðunum og óskað þeim óendanlegrar
helvítisvistar án tafar. Og ég hef fussað og sveiað
yfir viðkvæmni höfunda sem ekkert þola, sagt þá
grunnhyggna, hégómagjarna og barnalega kjána
sem væru kannski hótinu skárri ef þeir einbeittu sér
að bókmenntum af sömu ástríðu og þeir einhenda
sér í grátur og gnístran tanna.
Í sem stystu máli hefur rithöfundinum mér
þótt gagnrýnendur óttalegir besefar, á meðan
gagnrýnandanum mér hefur þótt rithöfundarnir
skelfilegar píkur – ef ég má bregða fyrir mig
kynjuðu málfari til útskýringar.
Þetta er ekki alveg út í bláinn. Rithöfundar
lifa meðal annars á tilfinningum sínum; lifa
meðal annars á því að rækta næmi sitt fyrir
veröldinni og djöflast á sjálfum sér, rífa í sundur
skjálfandi mennskar taugar sínar einsog holdið
af kjúklingabeinum lesendum til skemmtunar.
Rithöfundar lifa við stöðugt ójafnvægi – þeir vinna
við að búa til dramatískar víddir þar sem allt morir
í undirtexta, óorðuðum vilja og óorðinni framtíð.
Allar góðar sögur spyrja til skiptis „hvers vegna?“
og „hvað næst?“ – og svörin eru undantekningalítið
„vegna þess að það er eitthvað að“ og „eitthvað
ennþá verra“. Og skal því engan furða að skáldin
séu skjálfandi, paranojuð strá sem kunni illa við sig
í roki.
Gagnrýnendur (á Íslandi) eru síðan iðulega í þeim
sporum að þurfa að tjá sig um bækur sem þeir hafa
engan áhuga á. Þeir spæna í sig jólabókaflóðinu, 30-
40 bókum á þremur til fjórum vikum, svo aðfarirnar
minna á hedónískt/masókískt kappát: „Já, mér
finnst geðveikt gaman að lesa“, segir frussandi
gagnrýnandinn sem gubbar kiljum gærdagsins um
leið og hann vaknar, útþembdur og fretandi. „Ég hef
ástríðu fyrir bókmenntum!“
Við þetta bætist ákveðin félagsleg vídd sem ætti
að segja sig sjálf – og flestir gagnrýnendur eru
áreiðanlega sjálfir meðvitaðir um innst inni: Það
tekur enginn mark á gagnrýnanda sem hefur gaman
að öllu sem hann les.
Frægð öðlast gagnrýnandinn einungis með
því að gerast slátrari. Þar getur hann látið skína
í illkvittnislega orðheppni sína (sem er jú það
sem gagnrýnendur verða frægir fyrir). Því rétt
einsog það er ekkert gaman að lesa skáldsögu þar
sem öllum lyndir frá upphafi til enda er ekkert
gaman að lesa ritdóm þar rýnirinn er fullkomlega
sáttur við bókina. Ritdómarinn þarf að feta
einstigið – finna gallana, orða neikvæðni sína á
skemmtilega miskunnarlausan máta og blása svo
duglega í lúðra þess á milli til að hann fái nafnið
sitt á bókarkápurnar sem liggja úti um allan bæ:
„Stórkostlegt meistaraverk!“ // „Gríðarlega vel
unnin bók!“ // „Einstakt þrekvirki!“
Rithöfundurinn er því í fullum rétti þegar
hann reiðist gagnrýnandanum og gagnrýnandinn
er í fullum rétti að reiðast rithöfundinum.
Gagnrýnandinn er besefi og rithöfundurinn er píka
og samfarir þeirra eru þvingaðar á báða bóga: öll
penetreisjón er nauðgun // allt kynlíf er sjálfsfróun.
Það er því ekki formálalaust (einsog þið sjáið) –
og ekki vandræðalaust – að ég hef ákveðið að gera
tilraun til þess að skrifa um (ljóða)bækur á síður
þessa tímarits. Ég hef takmarkaðan áhuga á því að
græta neinn með vanhæfi mínu eða hégómlegum
derringi. Og raunar langar mig alls ekki að eyða
pappír (og hvað þá hugsun og/eða orðum) í þá
tegund neytendaverndar sem bókmenntarýni
vill oft verða. Mig langar ekki að vernda ykkur –
elskulegastir allra lesenda – fyrir bókum eða segja
ykkur hvað þið ættuð að lesa. Ég nenni einfaldlega
ekki að taka þátt í tilgangslausu skotgrafarrifrildi
um hvaða bækur séu „góðar“ og hverjar „vondar“
– enda afskaplega litlar líkur á að sé smekkur
minn sé smekkur hvers og eins ykkar (ég er svo illa
haldinn af mótþróaþrjóskuröskun að ég er yfirleitt
aldrei sammála neinum um neitt). Í íslenskri
bókmenntaumræðu er hvort eð er nægu púðri
eytt í innantóman auglýsingatexta, kanónudaður
og smáborgaralegt röfl. Bókmenntir eru ekki
samkeppnisíþrótt.
Og til þess að þetta verði nú alveg áreiðanlega ekki
leiðinlegt ætla ég ekki að skrifa um bækur sem vekja
ekki áhuga minn. Ég hef starfað sem gagnrýnandi
áður, í þeim sporum að þurfa að skrifa um allt sem
barst í póstinum, og það er einfaldlega vonlaus
staða. Maður hefur ekki áhuga á öllum bókum.
Maður hefur ekki „eitthvað merkilegt“ að segja
um allar bækur – og hafi maður ekkert merkilegt
að segja er betra að halda sér einfaldlega saman
(eða setja það á bloggið sitt) heldur en að segja
eitthvað til þess að segja eitthvað, til þess að fylla út
í eyðublaðið svo maður fái launatékkann. Íslenskar
bókmenntir þurfa ekki á frekara metnaðarlausu
sleni að halda.
Ég kemst sjálfsagt aldrei undan því að vera
hvorutveggja besefi og píka. Það er áreiðanlega í
eðli starfanna og eðlið verður ekki flúið svo glatt –
hvað sem líður viljanum. Og ég er ekki viss um að ég
geti lofað því að þetta verði alveg sársaukalaust. En
ég skal að minnsta kosti reyna að sjá til þess að þetta
verði ekki alltof leiðinlegt.
Formáli að bókmenntagagnrýni:
Um píkur og besefa
Eiríkur Örn Norðdahl