Spássían - 2010, Qupperneq 28
28
Gyða Margrét Pétursdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við stjórn-
málafræðideild Háskóla Íslands, fjallaði um fataval og karlmennsku
á alþjóðlegu ráðstefnunni After the Gold Rush sem fram fór á vegum
Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands 27.-28. maí síðastliðinn. Gyða
Margrét nýtir sér kenningar Connells og Messerschmidts en þeir lýsa
stigveldi karlmennskunnar sem menningarlegu forræði. Það þýðir
að stigveldið byggir ekki einungis á styrk og valdbeitingu heldur
er því að einhverju leyti viðhaldið með því að framleiða dæmi um
karlmennsku eins og það sem lýst var hér í upphafi. Þessi dæmi verða
ráðandi karlmennskutákn þrátt fyrir að flestir karlar og drengir nái
ekki að fylgja þeim fullkomlega eftir.1
Viðskiptakarlmennskan
Í fyrirlestri Gyðu Margrétar kom fram að á Íslandi hefur ímynd
karlmannsins sem fyrirvinnu verið ríkjandi, þrátt fyrir mikla þátttöku
íslenskra kvenna á vinnumarkaði. Karlar vinna að meðaltali lengur
en konur, jafnvel þótt íslenskar konur vinni næstum jafnlangan
vinnudag og norskir karlar. Virði íslensks karls sem manneskju er
mælt í stundunum sem hann eyðir á vinnustaðnum og launum hans.
Þetta endurspeglast m.a. í launamun kynjanna, en á Íslandi er hann
meiri en annars staðar á Norðurlöndum.
Árin 2005 og 2006 tók Gyða Margrét viðtöl við 48 manneskjur, 24
karla og 24 konur, stjórnendur og almenna starfsmenn í opinberum
stofnunum og einkareknum fyrirtækjum. Að auki heimsótti hún
fyrirtækin og fylgdist með. Var þetta liður í doktorsverkefni hennar,
en niðurstöðurnar voru m.a. þær að margir karlar virðast byggja
sjálfsmynd sína að miklu leyti á því að vera í launaðri vinnu og á því
að vinna langan vinnudag.
Ég hef alltaf bara unnið og alltaf 12 til 14 tíma ... ég er bara vanur
þessu. Ég hef ekkert verið að pæla neitt í því hvað klukkan er maður
bara klárar verkið og þó að maður byrji fimm á morgnana þá bara
klárar maður það sem þarf að gera. (Knútur)2
Nátengt þessu er löngunin til að afla góðra tekna og vera þar með
talinn alvöru þátttakandi í atvinnulífinu. Flesta karlana sem rætt
var við væri hægt að flokka sem „Homo economicus“, sagði Gyða,
hinn skynsama mann sem setur peninga í fyrsta sæti. Þriðja einkenni
ráðandi karlmennsku fyrir kreppu var vinnuumhverfi sem byggðist
jöfnum höndum á samkeppni og samvinnuanda.
Að byggja mikið sem maður lærir í íþróttunum... það er skorið...
í fyrsta lagi, allar mælingar verða að vera uppi á borðinu, það
verður að vera hægt að sjá hvernig þú stóðst þig í síðustu viku,
náðir þú inn 240 þúsund eða 380 þúsund, þetta verður bara að
sjást svart á hvítu, ein tala, krónur. Hvernig á ég að geta stýrt þessu
fyrirtæki ef ég hef ekki eitthvað svona og hvernig átt þú að geta
leiðrétt það sem þú ert að gera ef þú hefur ekki svona, þetta er svona
ámóta eins og að segja, heyrðu nú skulum við spila körfubolta, það
verður engin markatala, þið fáið að vita útkomuna úr leiknum eftir
mánuð, kannski, þannig að höfum þetta svona einfalt og skýrt og
skorinort. (Árni)3
Spáð í framtíð karlmennsku
Eftir bankahrunið gekk þessi mynd manna á milli í tölvupósti. Í stað
„Range Rover“ stendur „Game Over“. Á myndinni sést einnig hin
dæmigerða skrautfjöðureiginkona frá tímum góðærisins.
• Vinnustundir karla
– 2006: 47.5 klst. á viku
– 2009: 43.8 klst. á viku
(Heimild: Hagstofa Íslands)
• Atvinnuleysi karla
– 2008: Minna en 1%
– apríl 2010: 9.8%
(Heimild: Vinnumálastofnun)
• Atvinnuþátttaka 25-54 ára árið 2006
– Konur: 85%
– Karlar: 95%
(Heimild: Hagstofa Íslands)
Karlmaður sem gekk í svörtum jakkafötum, starfaði í banka eða í fjárfestingarfyrirtæki,
keyrði um á Range Rover og átti fallega eiginkonu var á tíma góðærisins ímynd hinnar
fullkomnu karlmennsku. Þetta hefur breyst. Rétt eftir bankahrunið varð karlmaður í
jakkafötum táknmynd gjaldþrots. En hver er þá ný ímynd karlmennskunnar og breytir
hún einhverju um ójafnræði kynjanna?