Spássían - 2010, Page 30

Spássían - 2010, Page 30
 30 Leshringurinn Ungfrú Bennet Í leshringnum Ungfrú Bennet eru níu konur sem hittast níu sinnum á vetri og spjalla um bækur. Þær koma úr öllum áttum og spanna breitt aldurssvið en eiga það sameiginlegt að vera óforbetranlegri lestrarhestar og vinna flestar á bókasöfnum. Leshringurinn hefur starfað í 10 ár og er jafn virkur í dag og hann var í byrjun. Um þessar mundir liggur hann í dvala, enda sumartími, en okkur tókst þó að smala saman sex meðlimum á Kaffi Krús á Selfossi og spjalla við þá um heima og geima. Á tímabili var líkt og við værum staddar á fundi hjá þeim þegar áhugaverða bók bar á góma. Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir, Edda Björg Jónsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Rósa Traustadóttir, Valgerður Sævarsdóttir og Margrét J. Ásgeirsdóttir voru ósammála um sumt en sammála um miklu fleira, töluðu gjarnan í kapp við hver aðra svo samtalið flæddi stöðugt úr einu í annað og útkoman er viðtal við eina ósamstillta heild: Leshringinn Ungfrú Bennet. Spássían: Hvaðan er nafnið á leshringnum komið? Ungfrú Bennet: „Það fæddist í Bretlandi sumarið 2007 þegar við fórum í yndislega ferð á slóðir Jane Austen. Þetta var gert í gríni á bar eftir ofboðslega góða máltíð en við erum mjög ánægðar með þetta nafn. Þegar við erum kynntar erum við allar ungfrú Bennet.“ S: Eru bækur Jane Austen sérstakt áhugamál leshringsins? UB: „Það er bara búið að þýða eina bók eftir hana á íslensku en við höfum allar gaman af myndunum og höfðum líka farið saman í sumarbústað þar sem við horfðum á bresku sjónvarpsþættina um Pride and Prejudice alla nóttina. Svo er þægilegt að ferðast og búa til ferðaplan í kringum Jane Austen. Ein okkar er sérfræðingur í Austen og hún skipulagði ferðina og á allan heiðurinn af henni.“ Ferðalög eru þeim ofarlega í huga og eftir svo vel heppnaða för eru ýmsar hugmyndir á lofti. Ein er að fara til Kanada á slóðir Önnu í Grænuhlíð, Prins Edward eyjarnar sem Lucy Montgomery skrifaði um. Einnig hefur sú hugmynd komið upp að fara til Dublin á Írlandi og kanna slóðir James Joyce. UB: „Svo var ákveðið að fara í kreppufrí til Reykjavíkur og njóta listar og menningar á kaffihúsum og galleríum og kannski einu litlu safni.“ Frá fyrsta fundi hafa þær samviskusamlega haldið fundargerð í lítilli innbundinni bók. Þar eru upplýsingar um fundarstað og gesti, þema, bækur sem ræddar voru o.fl. Alls hafa þær haldið 87 fundi á þeim 10 árum sem leshringurinn hefur starfað en alltaf er tekið frí yfir sumarið. Þegar fyrsti fundurinn var haldinn ákváðu þær að lesa Glataða snillinga eftir William Heinesen. Aðeins tvær kláruðu að lesa þá bók fyrir fundinn en þær létu það alls ekki letja sig og setti það tóninn fyrir komandi fundi. Allar bækur sem þær hafa lesið eru ræddar óháð því hversu margar hafa lesið þær. Segja þær að leshringurinn hafi opnað fyrir þeim nýjan heim, gefið þeim tækifæri til að kynnast örlítið höfundum sem þær hefðu annars ekki lesið og kveikt þannig í þeim löngun til að kynna sér hann betur. UB: „Við látum svo illa að stjórn. Það er ekki hægt að láta okkur allar lesa sömu bókina. Stundum er einhver að segja frá bók og kannski þrjár aðrar hafa lesið hana og þá verðum við að ræða hana.“ Fyrst og fremst er það félagsskapurinn sem heldur hópnum saman en þær segjast hafa smollið strax saman. Í upphafi áttu þær það allar sameiginlegt að vinna á bókasöfnum. Frá héraðsbókasafninu á Selfossi sem þá var, til Hvolsvallar, Hveragerðis og Flúða, svo og bókasafni bæði Fjölbrautarskólans og Grunnskólans á Selfossi. Síðan þá hafa orðið einhverjar breytingar á högum en ástríðan fyrir bókmenntum síst minnkað. Þær segja leshringinn búa yfir margræðum persónuleika því þær eru með ótal bækur í takinu í einu og fari það gjarnan eftir því í hvaða skapi þær eru hverju sinni hvaða bók verður fyrir valinu. Stundum hefur verið reynt að koma skipulagi á kaosið með því að hafa fyrirfram ákveðin þemu, til dæmis uppáhalds barnabókin, teiknimyndasögur, bók sem þér þykir vænt um o.s.frv. Einhvern tímann var kínverskt þema og þá var sagt frá Kína, kenndir stafir og orð. Þær hafa einnig haft ástarsöguþema með bleikum blæ og hattaþema. S: Er þetta galdurinn? Að gera nógu mikið í kringum hringinn? UB : „Okkur finnst bara gaman að vera saman. Við upplifum svo mikla fjölbreytni þegar við hittumst því við erum alltaf að gera og heyra eitthvað nýtt.“ Þær segjast í raun ræða allt milli himins og jarðar, líka þjóðmálin og það sem brennur á þeim hverju sinni. Ekki er mikið rifist en rökrætt og hver með sína skoðun. „Stundum er þetta alveg eins og fuglabjarg“ segja þær og hlæja. Eitt af þeim umræðuefnum sem gjarnan er bryddað á eru bókakápur. Þær fara að ræða Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shaffer og Annie Barrows sem fjallar einmitt um sérstakan leshring. Þær sem hafa lesið bókina eru sammála um að hún sé yndisleg en bókakápan sé misheppnuð. Auður gluggar í ferðabókina Í te með herra Darcy sem leshringurinn lét útbúa eftir velheppnaða reisu til Englands á slóðir Jane Austen.

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.