Spássían - 2010, Qupperneq 36
36
Sagan gerist á milli svefns og vöku
gamals manns – í endurminningum
og fantasíu – á meðan hann bíður
eftir því að suðan komi upp á tekatli.
Ekki er um eiginlegan söguþráð að
ræða heldur lýsingu á ástandi. Gamli
maðurinn liggur í rúminu og lætur
hugann reika um minningarnar, nær
og fjær í tíma. Dauðinn vomir yfir allri
frásögninni og kemur þar teketillinn
inn sem rauður þráður og boðberi
hans. Þegar sýður á katlinum klárast
eitthvað ferli og nýtt ástand tekur við.
Gamli maðurinn er allan tímann að
bíða eftir þessari breytingu en skýtur
henni í sífellu á frest á meðan hann
reynir að gera upp líf sitt og skilgreina
þetta undarlega ástand, elli, sem hann
stendur skyndilega frammi fyrir:
Fólk er forviða um ellina, „hvernig
líður henni, komin á þennan aldur?“
en enginn vill gera neitt. Fólk bíður,
líka börnin, bæði synir og dætur,
afkomendurnir, ættingjarnir. Hver
sér um hana? Var hún verri í dag?
Er dagamunur á henni? Fólk hnýsist
í sjúkdóminn, í hrörnunina. Þetta er
eitthvað sem laðar að eins og ólykt,
svitalykt, táfýla, andremma, hlandlykt,
það sem kemur fram á okkur, og eins
og ellin. Hún á eftir að bitna á öllum
sem lifa nógu lengi, síðan dauðinn, en
enginn vill annast þá sem eru komnir
í aðdraganda endalokanna. Að þeim
loknum er spurt: „Hvernig dó hún?“
eins og til að átta sig á væntanlegri
eigin för fremur en för þeirra sem fóru.
(90-91)
Eitt af umfjöllunarefnum bókarinnar
er gróteska ellinnar og sú andúð
sem það ástand vekur hjá flestum,
einnig þeim sem eru komnir á háan
aldur. Veruleikinn í Missi er mun
meira ógnvekjandi en í meðalreyfara
eða vampíruspennusögu. Gróteska
ellinnar er í senn sú fjarlægasta,
raunverulegasta og algengasta ógn
sem manneskjan stendur frammi
fyrir. Enginn vill eldast en flestir þurfa
að upplifa ellina með minnisleysi
sínu, sambandsleysi, getuleysi,
veruleikafirringu og frelsishöftum.
Allir þessir þættir sameinast á
fráhrindandi hátt í eiginkonu gamla
mannsins.
Þegar sagan gerist er stutt síðan hún
dó. Lesandi fær í upphafi þá tilfinningu
að hún hafi verið frekar ómerkileg
kerling og sennilega best geymd í
gröfinni. Söknuður gamla mannsins
eftir henni virðist a.m.k. rista grunnt.
Þótt hún sé til í einstaka minningum
hans sem einhvers verð, kona sem
hann þráði og elskaði, er hún ferskari
sem skrímslið sem saug úr honum líf
og sál. Veikburða gömul kona sem
maðurinn sá um, þreif og eldaði fyrir.
Sísuðandi og kvartandi, uppþornuð og
illa lyktandi. Hún var ekki einu sinni
góður kokkur eins og hann kemst að
þegar hann neyðist til að taka að sér
matseldina á heimilinu:
Í nýjasta verki sínu, smáskáldsögunni Missi, hleypir Guðbergur
Bergsson lesendum inn í heim hinna öldruðu og hrörnuðu í öllum
sínum ljótleika.
saga um
tvo líkama