Morgunblaðið - 16.01.2020, Blaðsíða 53
MINNINGAR 53
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. JANÚAR 2020
Margt er skrýtið
mannheimi í og
margur fær að
kynnast því. Þessi
fleygu og sönnu orð urðu í vax-
andi mæli framlag ömmu minnar
hvað umræður varðaði í heim-
sóknunum síðustu árin og sitja
nú eftir í minningunni þegar ég
lít til baka. Það er þungbær en
ekki síður innhverf reynsla að
hafa nú í annað sinn þurft að
horfa á eftir ömmu minni lenda í
heljargreipum óvægins sjúk-
dóms og hverfa, skref fyrir skref,
út á tímans gráa rökkurveg.
Hugurinn leitar til baka og
minningarnar eru margar og
kærar. Lítill og „orkumikill“
snáði átti marga skemmtilega og
lærdómsríka daga með ömmu
sinni sem enn renna fram ljóslif-
andi þótt áratugirnir sem liðið
hafa séu fleiri en ljúft er að telja.
Prakkarastrikin voru æri mörg
en aldrei minnist ég þess að hafa
heyrt eitt einasta skammaryrði
frá þessari ljúfu konu sem hafði
til að bera svo einstakt þolgæði
og gæsku að undrum sætir. Í eitt
skipi tókst þó hvatvísum og uppá-
tækjasömum drengnum að gösl-
ast svo hressilega yfir strikið að
amman hvessti róminn hressi-
lega, það augnablik gleymist ei
og sjaldan hef ég iðrast eins inni-
lega og orðið fyrir eins einlægum
vonbrigðum með sjálfan mig.
Í okkar sambandi sannaðist
fljótt að leiðin að hjarta snáðans
lá rakleitt í gegnum magann,
pönnukökubakstur þar sem rýrn-
unin var umtalsverð og fullfáar
pönnsurnar lifðu af svaðilförina
af pönnunni yfir á eldhúsborðið
koma þar upp í hugann. Rúg-
brauðsleiðangrar á hverasvæðið
við Laugarvatn voru einnig ófáir
og fátt veit ég betra en nýbak-
aðan hveraþrumara, snarpheitan
beint úr Macintosh-dallinum með
ríflegu magni af smjöri. Ekki má
svo gleyma frystikistunni í
búrinu á Sunnuveginum sem var
þeirrar merkilegu náttúru að þar
mátti alltaf finna góðgæti af ýms-
um stærðum og gerðum eða
„klessur“ eins og húsmóðirin
iðjusama jafnan kaus að kalla
terturnar.
Svo var að fornu kveðið að
fjórðungi brygði til fósturs og er
þar að mínu viti síst gert of mikið
úr mikilvægi þess fólks sem við
berum gæfu til að umgangast og
vísar okkur veginn á lífsleiðinni.
Er það mín einlæga von að ég
hafi borið gæfu til þess að tileinka
mér, þótt ekki væri nema að litlu
leyti, þá einskæru manngæsku
og þolgæði sem alltaf geislaði af
ömmu minni þau fjölmörgu ár
sem ég bar gæfu til að vera henni
samferða á lífsins vegferð. Sú
vegferð heldur áfram mannheimi
í, minningin lifir og veganesti
ömmu minnar til afkomenda
sinna þar með.
Leifur Ingi Vilmundarson.
Elsku yndislega og besta
amma mín.
Það eru svo ótal margar
dásamlegar samverustundir og
minningar sem koma upp í hug-
ann.
Frá hinum töfrandi Sunnu-
vegi, þar sem alltaf var hægt að
finna nýtt og nýtt herbergi til að
bralla ýmislegt ævintýralegt í.
Frá Þrastarhlíð, þar sem okkur
barnabörnunum var svo oft boðið
með ykkur afa, þar sem alltaf var
veðurblíða (nema þegar allt var á
kafi í snjó) og asparilmur og við
Vilborg
Vilmundardóttir
✝ Vilborg Vil-mundardóttir
fæddist 29. júlí
1931. Hún lést 5.
janúar 2020.
Útför Vilborgar
fór fram 15. janúar
2020.
höfðum ávallt nóg
fyrir stafni. Frá
notalegu Nausta-
hlein, þar sem þið
afi komuð ykkur vel
fyrir og dekruðuð
við okkur barna-
börnin sem aldrei
fyrr. Og loks frá
Hrafnistu, þar sem
við vorum samferða
inn í upphafi, ég sem
starfsmaður og þið
afi sem íbúar. Þar sem barna-
barnið ég naut heldur betur góðs
af því við upphaf starfa þegar
barst í tal hverra manna ég væri,
að vera barnabarn Villu og
Steina. En þið afi voruð vel þekkt
meðal íbúa, hlýja og hugulsama
gæðafólkið sem þið voruð. Að
sjálfsögðu var ég sem barnabarn
ykkar með það á hreinu hve frá-
bær þið voruð, en sú staðreynd að
flestir ef ekki allir sem maður
hitti fyrir hefðu þörf fyrir að tjá
sig um það að fyrra bragði er
bara eitthvað svo lýsandi fyrir
ykkur afa. Þið voruð einhvern-
veginn alltaf almennileg, hlý og
hreinskilin.
Og það verður að segjast, því-
lík forréttindi að alast upp með
slíkar fyrirmyndir.
Þú virtist stundum vera allt að
því göldrótt.
Ávallt með brosandi móttökur
með faðmlagi, hnyttnar vísur eða
ljóð á reiðum höndum til svara,
fullar skúffur af fagurri handa-
vinnu, endalaust af skemmtileg-
um sögum, eldhússkáp sem virt-
ist framleiða dýrindis rudda-
brauð og jólakökur, hús og
innvols sem var ávallt glansandi
hreint og alltaf var stutt í gleði,
glens og jafnvel nokkur dans-
spor.
Alltaf á fullu við eitthvað, en
áttir samt sem áður alltaf tíma
fyrir fólkið þitt, vandamenn sem
vini.
Ég og mínir munum búa að því
alla ævi að hafa notið þeirra for-
réttinda að eiga þig sem ömmu og
að hafa fengið svona mikinn tíma
með bæði þér og afa. Þið voruð
bæði frábærir sögumenn og lífs-
ins kennarar og við sem eftir
stöndum munum eiga það hlut-
verk að láta sögurnar lifa og
halda lærdómnum áfram.
Takk fyrir allt!
Þín nafna og ömmustelpa,
Vilborg Kolbrún
Vilmundardóttir.
Í dag kveðjum við Vilborgu
föðursystur okkar systkina eða
Villu frænku. Við eigum margar
kærar minningar um Villu
frænku okkar. Það fyrsta sem
kemur upp í hugann er hversu
myndarleg hún var á öllum svið-
um. Hún annaðist stórt heimili og
oft á tíðum var mjög gestkvæmt
og fólk utan af landi fékk að gista
og margir heimalningar. Alltaf
var gott að koma til hennar og
fjölskyldunnar og öllum tekið
opnum örmum. Við systkinin eig-
um það sameiginlegt að minnast
þeirrar miklu hlýju og væntum-
þykju sem jafnan fylgdi frænku
okkar og framkomu í okkar garð.
Villa og eiginmaður hennar, hann
Steini voru sterk saman. Það löð-
uðust að þeim vinir og ættingjar
og heimilið var alltaf opið fyrir
gestum og gangandi. Í minning-
unni var þar alltaf rólegt og nota-
legt andrúmsloft. Villa var alltaf
að gera skemmtilega og fallega
handavinnu, enda menntuð á því
sviði og aldrei var búrið tómt.
Heimilið var einstaklega fallegt
og innanstokksmunir sérstaklega
vandaðir. Húsið og garðurinn á
Sunnuveginum var listrænt og
þangað var einstaklegar gott að
koma. Það var mikill samgangur
á milli fjölskyldnanna sem er
okkur kær og minnisstæður t.d.
aðfangadagskvöld í Króki í
Garðahverfi hjá afa og ömmu þar
sem öll fjölskyldan kom saman
síðla kvölds. Og mörg og
skemmtileg fjölskylduboð og al-
menn væntumþykja við okkur
systkinin og foreldra okkar er
ómetanleg. Síðustu árin átti
frænka okkar erfitt og var veik.
Henni fylgdi samt alltaf sama
hlýjan.
Við drúpum höfði og kveðjum
með kærri þökk. Eftir lifir ljúf og
björt minning.
Guðrún Gísladóttir,
Vilmundur Gíslason,
Hafliði Stefán Gíslason
og Guðný Gísladóttir.
Við fráfall Villu systur minnar
hrannast upp minningar frá
bernskudögum okkar í Kjarn-
holtum í Biskupstungum, æsku-
árunum í Króki í Garðahverfi og
samleið okkar á fullorðinsárun-
um. Hvert aldurs- og þroskastig
á sinn fasta sess í minningunni.
Þótt Villa hafi verið yngst okk-
ar systkinanna og meðal þeirra
yngri í hópi leikfélaganna í
Hverfinu var hún ávallt mjög virk
í leikjum okkar og starfi. Því réði
sjálfstæði hennar, skapfesta og
ósérhlífni. Hið sama gilti í námi
hennar í barnaskólanum á Garða-
holti og í Flensborg.
Hugur hennar beindist fljótt
að handmenntum, enda var hún
handlagin á besta máta og hug-
myndarík á því sviði. Það má því
heita sjálfgefin ákvörðun hennar
að innritast í handavinnudeild
Kennaraskólans. Þar nýttust
hæfileikar hennar vel og þekking
hennar jókst á þessu sviði. Jafn-
framt aflaði hún sér starfsrétt-
indi til kennslu, sem hún nýtti sér
um skeið sem handmenntakenn-
ari í grunnskóla.
Það að fara í Kennaraskólann
varð Villu einnig til þeirrar gæfu
að þar kynntist hún lífsförunaut
sínum, Þorsteini Gíslasyni frá
Krókvelli í Garði, kennara og
landskunnum skipstjóra og síld-
arkóngi. Þeirra sambúð var far-
sæl og börnin þeirra fjögur urðu
öll manndómsfólk.
Það má segja að það hafi verið
happ okkar systra að búa lengst
af í nábýli. Við höfðum ómetan-
legan stuðning hvor af annarri,
ekki síst á meðan börn okkar
voru ung. Yndislegar sumar-
stundir áttum við til dæmis sam-
an með barnahóp okkar í Katla-
gili. Æði margt unnum við saman
í handiðnum og saumaskap. Þá
var oft mikill handagangur í öskj-
unni, raunar kom það iðulega fyr-
ir að við gleymdum að sofa.
Í mörg ár, þegar mesta barna-
stússið var að baki, fórum við
systur ásamt eiginmönnum okk-
ar og vinum í jeppaferðir um há-
lendið. Skemmtilegt var að kynn-
ast náttúru landsins í þessum
góða félagsskap.
Strax á unga aldri var Villa af-
skaplega natin við að hjálpa til á
heimilinu í Króki og ekki síður að
hjálpa mömmu þegar hún var
orðin ein í Króki og farin að eld-
ast. Eftir andlát mömmu unnum
við systkinin í Króki ásamt fleir-
um að því að tryggja að æsku-
heimili okkar, hús og innbú, yrði
varðveitt í óbreyttri mynd sem
dæmi um smábýli frá 20. öld.
Þungbært er að hugsa til þess
hve hinn alvarlegi sjúkdómur alz-
heimer heltók Villu síðustu árin.
Þegar vitund hennar fór að
hverfa og ekki var lengur hægt
að eiga við hana samtal, þá tók
hún lengi vel undir þegar ég sat
hjá henni og raulaði gömul ljóð og
lög. Þá ljómuðu brúnu augun
hennar.
Góð minning um Villu lifir í
hjarta mínu. Börnum hennar og
ættingjum öllum vottum við hjón-
in samúð. Villu þökkum við sam-
fylgdina og biðjum henni, eins og
amma hefði sagt, Guðs blessunar.
Elín Vilmundardóttir.
Mig langar að minnast með
nokkrum orðum Villu minnar og
jafnframt Steina hennar sem ég
var svo lánsöm að hafa í lífi mínu.
Ég kynntist þeim hjónum í
Garðinum þegar ég hóf að passa
fyrir þau Gísla son þeirra sem þá
var ársgamall. Þetta var árið
1958 og ég á ellefta aldursári.
Villa og Steini fluttu úr Garðinum
til Reykjavíkur að mig minnir á
fermingarári mínu, 1961. Leiðir
okkar lágu aftur saman þegar ég
sótti gagnfræðaskóla til Reykja-
víkur og voru þau svo góð að
leyfa mér að búa hjá sér. Fór það
svo að ég hélt áfram að búa hjá
þeim þegar ég nam sjúkraliða og
einnig fyrstu árin eftir útskrift er
ég hóf vinnuferilinn í mínu fagi.
Við áttum saman ófáar stundir
við handavinnu en Villa var ein-
staklega flink í höndunum svo
eftir var tekið. Saman saumuðum
við brúðarkjólinn minn, ballkjóla
og ýmislegt annað. Þau áttu það
reyndar sameiginlegt hjónin að
vera einkar laghent en Steini
smíðaði og renndi marga fallega
hluti.
Villa og Steini voru mér ætíð
svo góð og sinntu mér sem einu af
sínum börnum og óhætt er að
segja að ég hafi að miklu leyti al-
ist upp hjá þeim á mínum ung-
lings- og skólaárum. Mikill sam-
gangur var ætíð hjá okkur og
ólust börnin mín upp við að eiga
Villu og Steina að sem ömmu og
afa. Ár hvert var farið á Sunnu-
veginn í fríum okkar suður.
Ég minnist þeirra hjóna með
miklu þakklæti fyrir allt það sem
þau gerðu fyrir mig og mína. Þau
voru algjörlega einstakt, gjafmilt
og gott fólk sem gott var að eiga
að.
Guð geymi ykkur.
Sendi innilegar samúðarkveðj-
ur til ykkar allra elsku Villi, Gísli,
Hrefna, Tobba og fjölskyldur.
Ykkar,
Guðný og fjölskylda,
Húsavík.
Nú hefur hún Villa mín kvatt
þetta jarðlíf. Villa var ein af þeim
góðu konum sem ég kynntist
strax í æsku og höfðu mótandi
áhrif á mig. Villa var æskuvin-
kona mömmu minnar, hennar
Fjólu. Þær ólust upp saman í
Garðahverfinu. Villa í Króki en
mamma í Hlíð. Þær vinkonurnar
í Garðahverfinu héldu góðu sam-
bandi alla tíð og var mikill kær-
leikur á milli þeirra. Þegar ég var
17 ára og á öðru ári í Verslunar-
skólanum hafði ég ekkert hús-
næði í Reykjavík og fór frá Kefla-
vík með rútu á hverjum degi í
skólann. Rútuferðirnar pössuðu
illa við stundatöfluna og þurfti ég
að sitja lengi á umferðarmiðstöð-
inni á hverjum degi. Þegar Villa
frétti þetta þá bauð hún mér að
dvelja hjá sér og fjölskyldu sinni
á Sunnuveginum. Ég flutti til
þeirra um áramótin og var síðan
hjá þeim í tvo og hálfan vetur eða
þar til ég útskrifaðist. Ég fór
heim um helgar. Þetta lýsir Villu
vel, hve greiðvikin hún var og góð
manneskja. Hún var skapgóð og
talaði aldrei illa um nokkurn
mann. Hún var víðsýn og sá það
góða í öllum. Hún gerði aldrei
mannamun og virti alla jafnt.
Villa var handavinnukennari að
mennt en hafði ekki mikið verið
að kenna en helgað sig húsmóð-
urstarfinu og uppeldi barnanna.
Hún var mikil handavinnukona
og saumaði mikið og taldi það
ekki eftir sér að hjálpa öðrum við
sauma. Ég saumaði föt á mig
þegar ég var hjá henni og fékk að
nota hennar saumavél og aðstöðu
og gott var að geta leitað til henn-
ar um hjálp. Á þessum árum fór
Villa í viðbótarmenntun í handa-
vinnukennslu og fór síðan að
kenna handavinnu. Ég gat aðeins
borgað fyrir greiðann með því að
passa stundum Hrefnu og Tobbu
á meðan Villa var í skólanum en
það var seinnipartinn. Villa og
Steini voru samhent hjón og aldr-
ei heyrði ég styggðaryrði fara á
milli þeirra. Þau voru þó ekki allt-
af sammála og gerðu þau oft góð-
látlegt grín að hvort öðru. Mikið
var oft spjallað við matarborðið
og andinn á heimilinu var góður
og þarna var gott að vera. Ég
kveð Villu mína með söknuði og
þakklæti í huga og votta börnum
hennar, Villa, Gísla, Hrefnu og
Tobbu og öðrum aðstandendum
samúð mína.
Ragnheiður Gunnarsdóttir.
Villa. Klettur, þar sem hún sat
í eldhúsinu á Sunnuveginum með
kaffibolla. Þangað voru allir vel-
komnir, það var stöðugur gesta-
gangur í kringum stóru fjölskyld-
una þeirra Steina, einhverjir með
praktísk erindi sjálfsagt en allir
vegna þess að þangað var gott að
koma.
Og Villa var til staðar fyrir
alla, aðstoðaði, ráðlagði, hlustaði
og spjallaði, yfirleitt alltaf með
ljóð eða vísukorn á takteinum.
Það sem hún mundi var með ólík-
indum, ljóðin reyndust svo vel
skorðuð í minninu að þegar það
fór að bresta voru það þau sem
hurfu síðast.
Villa. Hún var dökk yfirlitum,
falleg og hlý, rótgróin en líka opin
fyrir nýjungum. Dæmalaust
handlagin. Á milli þess að elda
rammíslenskan mat reyndi hún
fyrir sér með makróbíótíst fæði,
löngu, löngu áður en slíkt komst í
tísku. Hafði ekkert alltaf mörg
orð um hlutina, var bara til taks
til að hlusta á og taka utan um
unglingsstelpur sem vissu ekki
alltaf hvað sneri upp eða niður á
milli þess sem þær héldu að þær
vissu allt. Villa vissi svo miklu
meira, hún skildi lífið, hún var af
þeirri kynslóð sem þurfti að hafa
fyrir hlutunum og kunni að vera
þakklát fyrir það sem gott var.
Hún skildi lífið svo vel að við
höfðum stundum á tilfinningunni
að hún sæi inn í og gegnum
okkur. Sæi, vissi og skildi hvað
raunverulega bærðist innra með.
Takk fyrir allt, Villa. Takk
fyrir að segja okkur til þegar þér
fannst þess þurfa, takk fyrir
stuðninginn og áhugann, fyrir
hjálpina við saumaskapinn, en
fyrst og fremst; takk fyrir að
vera alltaf til staðar.
Að lokum eftir langan, þungan dag,
er leið þín öll. Þú sest á stein við
veginn,
og horfir skyggnum augum yfir
sviðið,
eitt andartak.
Og þú munt minnast þess,
að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir
löngu
lagðir þú upp frá þessum sama stað.
(Steinn Steinarr)
Urður Gunnarsdóttir
og Olga Bergmann.
Elsku mágkona mín hefur
kvatt eftir gjöfula og góða ævi
þrátt fyrir að síðustu æviárin hafi
verið henni erfið vegna veikinda.
Ég var rúmlega 18 ára þegar
ég kynntist Villu þar sem ég var
farin að slá mér upp með Gísla
bróður hennar. Nú eru liðin sjö-
tíu ár. Mikið óskapleg fannst mér
hún falleg og hjartahlý sem
breyttist aldrei. Það hafa ævin-
lega verið miklir kærleikar og ná-
ið samband á milli okkar. Ég
stend ávallt í þakkarskuld við þau
hjónin Villu og Steina. Þau
studdu okkur á ýmsan hátt í
gegnum tíðina. Mikill samgangur
var á milli okkar alla tíð og voru
þau höfðingjar heim að sækja
hvort sem það var á heimili
þeirra í bænum eða uppi í sumar-
bústað á Laugarvatni.
Þakka samfylgd og dýrmætan
tíma sem við áttum saman. Ég
votta börnum og fjölskyldu mína
dýpstu samúð.
Sigríður Stefánsdóttir.
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma,
langamma og langalangamma,
GUÐNÝ ÁSGEIRSDÓTTIR,
lést miðvikudaginn 8. janúar.
Útför hennar fer fram frá Árbæjarkirkju
mánudaginn 20. janúar klukkan 13.
Höskuldur Guðmundsson Margrét Jóhannsdóttir
Bragi Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson Hlíf R. Heiðarsdóttir
Ásgeir Guðmundsson Gróa Friðgeirsdóttir
Ingibjörg P. Guðmundsdóttir Magnús Garðarsson
barnabörn, barnabarnabörn
og barnabarnabarnabarn
Elskulegur eiginmaður minn, faðir,
tengdafaðir, móðurbróðir, afi og langafi,
GÍSLI GUÐGEIR GUÐJÓNSSON
Sóleyjarima 1, Reykjavík,
andaðist á Landspítalanum í Fossvogi
10. janúar. Útför hans fer fram frá
Grafarvogskirkju fimmtudaginn 23. janúar
klukkan 13. Blóm og kransar vinsamlegast afþökkuð en þeim
sem vildu minnast hans er bent á Framþróunarsjóð
skilunardeildar, kennitala 640394-4479, banki 513-26-22243.
Guðrún Alexandersdóttir
Guðlaug Gísladóttir Theodór Sveinjónsson
Aldís Bára Gísladóttir Þröstur Már Þrastarson
Jóna Rún Gísladóttir Sveinn Fjalar Ágústsson
Anna Dögg Gísladóttir Úlfur Gunnarsson
Þorgerður Ernudóttir Reynir Jónsson
og afabörn
Innilegar þakkir til allra þeirra sem
auðsýndu okkur samúð og hlýhug
við andlát og útför elskulegs föður okkar,
tengdaföður, afa og langafa,
PÁLS GEIRS MÖLLER,
Brekatúni 2,
Akureyri.
Friðný Möller
Arna Möller
Alfreð Möller
tengdabörn, barnabörn og langafabörn