Morgunblaðið - 02.03.2020, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 2. MARS 2020
Þennan bíllausa sunnudag fórum við
okkar venjubundna kirkjurúnt sem
endaði eins og venjulega í hvítu
kirkjunni. Þegar við gengum út úr
Rosebank Union var orðið dimmt og
við vorum ein. Þetta hafði verið
endalaus dagur í smárútum frá
blönduðu kirkjunni að svörtu kirkj-
unni að hvítu kirkjunni og ég var
gjörsamlega úr-
vinda. Klukkan
var orðin að
minnsta kosti níu.
Í þá daga, með
allt ofbeldið og
uppþotin í gangi,
vildi maður ekki
vera seint á ferð-
inni á kvöldin. Við
stóðum á horninu
á Jellicoe Avenue
og Oxford Road, í miðju úthverfi
auðugra og hvítra í Jóhannesarborg
og það var ekki smárútu að sjá. Göt-
urnar voru auðar.
Mig langaði svo að snúa mér að
mömmu og segja: „Sko! Þetta er
ástæðan fyrir því að Guð vildi að við
værum heima.“ En ég þurfti aðeins
að sjá svipinn á henni til að hafa vit á
því að þegja. Það komu þær stundir
þegar ég gat rifið kjaft við mömmu –
en þetta var ekki ein af þeim.
Við biðum og biðum eftir því að
smárúta færi hjá. Undir apartheid
sá ríkið svörtum ekki fyrir almenn-
ingssamgöngum en hvítt fólk þurfti
samt á því að halda að við mættum
til að skúra fyrir það gólfin og þrífa
baðherbergin. Neyðin kennir naktri
konu að spinna og svart fólk kom á
fót sínu eigin samgöngukerfi, óform-
legu neti rútuleiða sem var rekið af
einkasamtökum sem störfuðu al-
gjörlega utan ramma laganna. Þar
sem ekkert eftirlit var með smárútu-
starfseminni var þetta í raun og veru
skipulögð glæpastarfsemi. Mismun-
andi hópar sáu um mismunandi leið-
ir og tekist var á um hver
stjórnaði hverju. Það gekk á með
mútum og almennum hunda-
kúnstum, heilmiklu ofbeldi og tölu-
verðar verndargreiðslur voru látnar
af hendi til að komast hjá ofbeldi.
Eitt af því sem maður gerði ekki var
að stela leið af öðrum. Bílstjórar sem
stálu leiðum gátu átt von á því að
verða drepnir. Þar sem ekkert eftir-
lit var með starfseminni áttu smá-
rúturnar það til að vera mjög óáreið-
anlegar. Þær komu þegar þær
komu. Þegar þær komu ekki, komu
þær ekki.
Við stóðum þarna fyrir utan Rose-
bank og ég var bókstaflega að sofna
standandi. Ekki smárúta í augsýn.
Að lokum sagði móðir mín: „Förum
á puttanum.“ Við gengum og geng-
um og eftir heila eilífð, að mér
fannst, renndi bíll upp að okkur og
stoppaði. Bílstjórinn bauð okkur far
og við klöngruðumst upp í. Við vor-
um ekki komin þrjá metra þegar
smárúta svínaði fyrir okkur og lok-
aði veginum.
Súlú-maður steig út úr rútunni
með iwisa, stórt, hefðbundið vopn
Súlú-manna – stríðskylfu eiginlega.
Þær eru notaðar til að brjóta höfuð-
kúpurnar á fólki. Annar gaur, félagi
hans, kom út farþegamegin. Þeir
komu bílstjóramegin að bílnum sem
við vorum í, tóku í manninn sem
hafði boðið okkur far, drógu hann út
úr bílnum og otuðu kylfunum fram-
an í hann. „Hvers vegna ert þú að
stela af okkur kúnnum? Hvað ert þú
að taka fólk upp í?“
Þeir virtust ætla að drepa mann-
inn. Ég vissi að slíkt gerðist
stundum. Mamma kallaði til þeirra:
„Hey, hann var bara að hjálpa mér.
Látið hann vera. Við skulum koma
með ykkur. Það var jú alltaf ætlunin
til að byrja með.“ Þannig að við fór-
um út úr bílnum og upp í smárútuna.
Við vorum einu farþegarnir í
vagninum. Fyrir utan að vera of-
beldisfullir glæpamenn eru suður-
afrískir smárútubílstjórar frægir
fyrir að kvarta og skammast í far-
þegum. Þessi bílstjóri var sérlega
reiður. Á meðan við ókum áfram fór
hann að skammast í móður minni
fyrir að hafa verið í bíl með manni
sem ekki var eiginmaður hennar.
Móðir mín tók því ekki vel þegar
ókunnugir menn lásu henni pistilinn.
Hún sagði honum að það kæmi hon-
um ekki við en þegar hann heyrði
hana tala xhosa varð hann enn æst-
ari. Staðalhugmyndir um Súlú- og
Xhosa-konur voru jafn rótgrónar og
um karlmennina. Súlú-konur voru
taldar siðprúðar og skylduræknar.
Xhosa-konur þóttu lauslátar og
ótrúar. Og hér var móðir mín, af
óvinaættbálkinum, Xhosa-kona ein
með tvo litla krakka – annar þeirra
meira að segja blandaður. Ekki bara
hóra heldur hóra sem sefur hjá hvít-
um mönnum. „Já, svo þú ert Xhosa,“
sagði hann. „Það hlaut að vera.
Stökkvandi upp í bíla hjá ókunnug-
um mönnum. Ógeðsleg kona.“
Mamma hélt áfram að svara fyrir
sig og hann hélt áfram að kalla hana
öllum illum nöfnum, gargandi úr bíl-
stjórasætinu, veifandi fingri í bak-
sýnisspeglinum og varð sífellt meira
ógnandi þangað til hann klykkti út
með: „Það er vandamálið með ykkur
Xhosa-kerlingar. Þið eruð allar
druslur – og í kvöld færð þú að
kenna á því.“
Hann gaf í. Hann keyrði mjög
hratt og stoppaði ekki, rétt hægði á
sér til að gá að umferð á gatnamót-
um áður en hann brenndi áfram.
Dauðinn var aldrei langt undan hjá
neinum í þá daga. Móðir mín átti á
hættu að verða nauðgað. Við yrðum
jafnvel drepin. Þetta var allt saman
líklegt. Ég skildi ekki að fullu hætt-
una sem við vorum í þá stundina; ég
var svo þreyttur að ég vildi bara fá
að sofa. Og mamma hélt ró sinni.
Hún fríkaði ekki út og því kunni ég
ekki að fríka út. Hún hélt bara áfram
að reyna að koma vitinu fyrir
manninn.
„Mér þykir leitt ef ég hef komið
þér í uppnám, bhuti. Þú getur bara
hleypt okkur úr hér ...“
„Nei.“
„Í alvöru, þetta er fínt hér. Við
getum gengið ...“
„Nei.“
Hann brenndi niður Oxford Road,
göturnar voru auðar, engir aðrir
bílar á ferð. Ég sat næst rennihurð-
inni á bílnum. Móðir mín sat við hlið-
ina á mér með Andrew litla í fang-
inu. Hún leit út um gluggann á
veginn sem þaut hjá og hallaði sér
síðan að mér og hvíslaði: „Trevor,
þegar hann hægir á sér á næstu
gatnamótum, ætla ég að opna dyrn-
ar og þá stökkvum við.“
Ég heyrði ekki orð af því sem hún
sagði vegna þess að þegar hér var
komið sögu var ég steinsofnaður.
Þegar við komum að næstu um-
ferðarljósum hægði hann aðeins á
sér til að líta í kringum sig og gá að
umferð. Móðir mín hallaði sér yfir
mig, reif upp dyrnar, greip í mig og
fleygði mér út úr bílnum eins langt
og hún gat. Síðan tók hún Andrew,
hringaði sig utan um hann eins og
bolti og stökk út á eftir mér.
Þetta var eins og draumur þangað
til að sársaukinn blossaði upp.
Bamm! Ég skall harkalega í gang-
stéttina. Móðir mín lenti rétt við
hliðina á mér og við ultum og rúll-
uðum og rúlluðum. Ég var glaðvakn-
aður. Ég fór frá því að vera hálfsof-
andi yfir í Hvað í andskotanum?!! Að
lokum hætti ég að rúlla og stóð á
fætur alveg ringlaður. Ég leit í
kringum mig og sá móður mína sem
var staðin á fætur. Hún sneri sér við,
leit á mig og öskraði:
„Hlauptu!“
Svo ég hljóp, og hún hljóp, og eng-
inn hljóp eins og við mamma.
Það er skrítið að segja frá þessu
en ég vissi bara hvað ég átti að gera.
Það var eðlishvöt, innrætt í heimi
þar sem ofbeldi var alltaf við það að
brjótast út á næsta leiti. Þegar lög-
reglan réðst inn í bæjarkjarnana í
fullum herklæðum með brynvarða
bíla og þyrlur, vissi ég eitt: Hlauptu í
skjól. Hlauptu og feldu þig. Ég vissi
það þegar ég var fimm ára. Hefði ég
alist upp við annað hefði það líkast
til slegið mig út af laginu að vera
fleygt út úr bíl á ferð. Ég hefði staðið
þarna eins og fáviti og spurt: „Hvað
er að gerast, mamma? Hvers vegna
er mér svona illt í löppunum?“ En
það var ekkert þannig. Mamma
sagði „Hlauptu“ og ég hljóp. Ég
hljóp eins og gasellan hleypur undan
ljóninu.
Mennirnir stoppuðu smárútuna
og fóru út og reyndu að elta okkur
en þeir áttu ekki séns. Við stungum
þá af. Ég held að þeir hafi verið í
sjokki. Ég man enn eftir því að ég
leit um öxl og sá þá gefast upp, utan-
gátta og undrandi á svip. Hvað gerð-
ist eiginlega? Hverjum hefði dottið í
hug að kona með tvö lítil börn gæti
hlaupið svona hratt? Þeir höfðu ekki
hugmynd um að þeir höfðu hitt
margfalda íþróttameistara Mary-
vale College. Við héldum áfram og
áfram þangað til við komum á bens-
ínstöð sem var opin allan sólarhring-
inn og þar hringdum við á lögregl-
una. Mennirnir voru löngu farnir þá.
Ég vissi ennþá ekki hvers vegna
þetta hafði yfirleitt gerst. Ég hafði
hlaupið á hreinu adrenalíni. Þegar
við hættum að hlaupa áttaði ég mig á
því hvað ég fann mikið til. Ég leit
niður og sá að húðin á handleggj-
unum á mér var rispuð og fleiðruð.
Ég var með sár um allt og mér
blæddi alls staðar. Sama átti við
mömmu. Litli bróðir minn var
ómeiddur, ótrúlegt en satt. Mamma
hafði vafið sig svo þétt um hann að
hann fékk ekki eina skrámu. Ég leit
gapandi á hana.
„Hvað var þetta?! Hvers vegna er-
um við að hlaupa?!“
„Hvað meinarðu, Hvers vegna er-
um við að hlaupa?? Þessir menn
voru að reyna að drepa okkur.“
„Þú sagðir mér það ekki! Þú bara
hentir mér út úr bílnum!“
„Víst gerði ég það. Hvers vegna
stökkstu ekki?“
„Stökk? Ég var sofandi!“
„Og átti ég þá bara að skilja þig
eftir svo þeir gætu drepið þig?“
„Þeir hefðu að minnsta kosti vakið
mig áður en þeir hefðu drepið mig.“
Við héldum áfram að kýta. Ég var
of ringlaður og of reiður yfir því að
hafa verið hent út úr bíl á ferð til að
átta mig á því hvað hafði gerst.
Móðir mín hafði bjargað lífi mínu.
Þegar við vorum farin að ná aftur
andanum og biðum eftir að lög-
reglan mætti á svæðið til að keyra
okkur heim sagði hún: „Jæja, við er-
um að minnsta kosti heil á húfi, Guði
sé lof.“
En ég var níu ára og ég vissi
betur. Ég ætlaði ekki að þegja í
þetta sinn.
„Nei, mamma! Þetta var ekki Guði
að þakka! Þú hefðir átt að hlusta á
Guð þegar hann sagði okkur að vera
heima þegar bíllinn fór ekki í gang,
því það er augljóst að Djöfullinn
plataði okkur til að fara út í kvöld.“
„Nei, Trevor! Djöfullinn gerir
ekki þannig. Þetta er hluti af áætlun
Drottins og ef hann vill að við séum
hér, þá hefur hann ástæðu til ...“
Og svona hélt þetta áfram, við rif-
umst um Guðs vilja. Að lokum sagði
ég: „Sko, mamma. Ég veit að þú
elskar Jesú en kannski ættir þú að
biðja hann um að hitta okkur heima í
næstu viku. Því að þetta var alls ekki
skemmtilegt kvöld.“
Hún brosti út að eyrum og skellti
svo upp úr. Ég fór að hlæja líka og
þarna stóðum við, þessi litli strákur
og mamma hans, handleggir og fót-
leggir ataðir blóði og drullu, hlæj-
andi saman þrátt fyrir sársaukann, í
skininu frá bensínstöð við vegar-
kantinn um miðja nótt.
Mamma sagði „Hlauptu“ og ég hljóp
Bókarkafli | Trevor Noah ólst upp í skugga að-
skilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist
hans var glæpur, því samband móður hans og
föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim
tíma. Í ævisögu sinni, Glæpur við fæðingu, segir
hann frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi
sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmt-
anabransanum og trúrækinni móður sem opnaði
fyrir honum heiminn. Helga Soffía Einarsdóttir
þýddi. Angústúra gefur út.
AFP
Vinsæll Trevor Noah hefur notið vinsælda fyrir uppistand og gamanmál en
þessar æskuminingar hans frá Suður-Afríku hafa ekki síður vakið athygli.
Smiðshöfða 9, 110 Rvk. logoflex@logoflex.is 577 7701 www.logoflex.is
Ljósaskilti
fyrir þitt fyrirtæki
LogoFlex sérhæfir sig í framleiðslu skilta, prentunum og
smíði úr plasti ásamt efnissölu á plexigleri og álprófílum