Feykir


Feykir - 09.01.2019, Blaðsíða 8

Feykir - 09.01.2019, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Bestu þakkir fyrir gamla árið. Enn skal á nýju ári reynt að tína til efni í fjórum línum fyrir lesendur blaðsins. Það mun hafa verið Kristján Ólason á Húsavík er eitt sinn orti svo sanna hringhendu: Ekki þjáist auðnin grá yndisfáa og nauma, heldur sá er ann og á ástarþrá og drauma. Annarri vísu man ég eftir sem Kristján mun höfundur að. Held að hún hafi birst í handbók bænda fyrir margt löngu og lærði ég hana þá. Góða, mjúka gróna jörð græn og fögur sýnum. Hví er alltaf einhver hörð arða í skónum mínum. Á nýbyrjuðu ári er gaman að rifja upp þetta fallega stef skáldsins frá Fagraskógi: Er sálin rís úr svefnsins tæru laug, er sælt að finna líf í hverri taug, og heyra daginn guða á gluggann sinn og geta jafnvel boðið honum inn. Minnir að Ármann Þorgrímsson hafi ort svo eftir að hafa hlustað á nýjustu tíðindi af menntamálum. Er í menntun engin björg ef að vitið þrýtur, við eigum vopn í eldi mörg en ekkert þeirra bítur. Gott er að fara inn í nýja árið með þá vissu að Ingólfur Ómar haldi áfram að yrkja. Örðug þó sé ævitíð elju lífið gaf mér. Marga villu stapp og stríð staðið hef ég af mér. Þar sem hefur nú, sem betur fer, dimmasti dagur ársins liðið undir lok og við, landsins börn, getum farið að hlakka til birtunnar og þorra og góu. Það er Magnús Halldórsson sem yrkir svo í febrúarlok: Setur ryk frá mel og móa moldarblæ á hagana. Þú ert ekki þeysin góa þessa fyrstu dagana. Freistast enn og aftur til þess að fletta upp í huganum perlum eftir Villa frá Brandaskarði. Þó að löngum litlum arði lífið svari af þungu stríði. Bjart er yfir Brandaskarði brekkur klæddar lyngi og víði. Önnur vísa kemur hér eftir Vilhjálm: Efla margt til unaðar inn við hjarta rætur, miklu skarti merlaðar mánabjartar nætur. Sem betur fer er mjög langt síðan næsta vísa Vísnaþáttur 726 var ort, minnir að sá hafi verið Kristján, Fjallaskáldið. Á ævi minni er engin mynd hjá austanvérum slyngum, ég er eins og kláðakind í klóm á Húnvetningum. Af og til birtast fréttir um græðgi byggingar- manna í Reykjarvíkurhreppi þar sem þörf er nú talin á að byggja hótel á gröfum þeirra sem gengnir eru. Guðmundur Arnfinnsson orðar sína athugasemd við þann verknað svo vel. Ört þenst út byggingarbransinn en brátt fer af mesti glansinn, á látinna haugum af lifandi draugum dunar nú hrunadansinn. Sannleikur í vísuformi kemur hér eftir Guð- mund: Meyjar, vín og vakran hest veita unun hreina, jafnan sér í brjósti best bragnar vilja meina. Ingólfur Ómar taldi ástæðu til að bæta annarri vísu við. Eyðir drunga, örvar sál allt vill lífið bæta. Vakur hestur, vín á skál og viljug heimasæta. Minnir að Ármann Þorgrímsson hafi látið frá sér fara svofellda speki: Framtíð aldrei fyrir sjá fáir lesa kverið, en býsna vitrir eftir á alltaf hafa verið. Minnir að Höskuldur Einarsson frá Vatns- horni hafi ort þessa: Ég býst til ferðar á bleikum hesti og biksvart myrkrið hylur veg. Mig vantar allt sem er veganesti og veit að færðin er djöfulleg. Það mun hafa verið Davíð Hjálmar sem orti svo eftir að hafa heyrt af vetrarharðindum í Reykjavíkurhreppi. Bílar í borginni spóla börnin ei komast í skóla, kreppir að rónum sem klúka í snjónum og krapið nær hátt upp á sóla. Gott er þá að enda þennan fyrsta þátt á nýju ári með vel gerðri hringhendu eftir okkar góða vin og listaskáld, Erlend Hansen á Sauðárkróki. Hálfan mána hylur ský horfi fránum augum. Öldur dánar dvelja í djúpum ránarlaugum. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Feykir stóð fyrir kjöri á manni ársins líkt og undanfarin ár og bárust blaðinu níu tilnefningar að þessu sinni. Niðurstaðan var sú að Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka í Hrútafirði hlaut nokkuð afgerandi kosningu lesenda. Í tilnefningu sem blaðinu barst segir: „Ólöf er þvílík gullkona, hún er með Parkinson en það stoppar hana ekki í því að gefa endalaust af sér. Til dæmis saumar hún teppi (bútasaum) og selur og gefur svo allan ágóða til góðgerðamála. Mikil perla.“ Ólöf er fædd og uppalin á Selfossi en hefur búið, ásamt manni sínum Skúla Einarssyni, á Tannstaðabakka við Hrútafjörð frá árinu 1984 en Skúli er uppalinn þar. Þar reka þau kjúklingabú og segir Ólöf stefnuna vera að búa áfram í Hrútafirðinum þar sem samfélagið er gott og einnig tiltekur hún að þar sé til að mynda gott aðgengi að læknum sem ekki sé sjálfsagður hlutur alls staðar. Þau hjónin eiga fjögur Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka er Maður ársins 2018 á Norðurlandi vestra Með Parkinson sjúkdóm og saumar bútasaumsteppi fyrir góðan málstað Maður ársins á Norðurlandi vestra, Ólöf Ólafsdóttir. MYND: FE UMFJÖLLUN Fríða Eyjólfsdóttir uppkomin börn, þrjár dætur og einn son og býr ein dóttirin einnig á Tannstaðabakka með sinni fjölskyldu. Barnabörnin eru orðin átta og það níunda á leiðinni. Fyrir þremur árum greind- ist Ólöf með Parkinson sjúkdóminn en telur að hún hafi verið lengur með sjúkdóminn án þess að gera sér grein fyrir því. Hefur hún vakið athygli fyrir jákvæðni sína og baráttu við sjúkdóminn en meðal þess sem hún tók sér fyrir hendur eftir að hún greindist var að sauma bútasaumsteppi og selja og hefur hún gefið andvirði þeirra til góðgerðamála í Húnaþingi vestra. Ólöf segist hafa farið að taka til í saumaherberginu sínu og hófst handa við að sauma einföld bútassaumsteppi úr þeim bútum sem hún átti afgangs frá fyrri verkefnum. Aðspurð segist hún hafa tekið svolitla törn í bútasaumi og saumað teppi handa börnum sínum þegar þau voru lítil. „En svo er takmarkað hvað eitt heimili þolir af bútasaumi, þú getur ekki verið með þetta upp um alla veggi og út um allt svo þá hætti maður þessu bara,“ segir hún. Þegar Ólöf rifjaði svo upp kynnin við bútana eftir að hún greindist með sjúkdóminn gerði hún nokkur teppi sem seldust fljótt og brátt fóru henni að berast efnisafgangar frá öðru fólki. „Stelpurnar mínar gera grín að því að það er alveg sama þó ég sé að verða búin með 100 teppi, það er alltaf til fullt af efnum. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð,“ segir Ólöf létt í bragði en teppin hefur hún selt á jólamörkuðum á Hvammstanga og sl. sumar seldi hún einnig á hátíðinni Eldur í Húnaþingi. „Teppin eru náttúrulega mjög ólík og ég geri eiginlega aldrei tvö eins og alls ekki í sömu litum. Ég fæ mikið út úr því að setja saman litina af því að þetta getur stundum verið svolítið púsl. Ég held líka að það sé voða gott fyrir hausinn á manni,“ segir Ólöf sem er nú þegar búin að sauma nokkur teppi til viðbótar og ætlar sér greinilega að halda ótrauð áfram. 8 01/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.