Feykir


Feykir - 09.01.2019, Blaðsíða 10

Feykir - 09.01.2019, Blaðsíða 10
Hér í upphafi skal lesendum Feykis þökkuð samfylgdin á nýliðnu ári og óskað velfarnaðar á árinu 2019. Í skrifum mínum undanfarið hef ég látið hugann reika og tæpt á ýmsu er varðar samfylgd hests og þjóðar. Ég hef nú afráðið að í þessari grein og þeim næstu einskorði ég umfjöllunina við frásögur og fróðleik um hin fjölþættu hlutverk sem íslenski hesturinn hefur innt af hendi í gegnum aldirnar eða nú í dag. Kennir þar ýmissa grasa og æði margt er þar breytt. Hestarnir hafa á öllum öldum Íslandsbyggðar haft sérstöðu meðal búpenings þjóðarinnar og ekkert hús- dýranna stóð manninum nær en hesturinn. Ísland hefði líka vafalaust verið óbyggilegt án hans og var hann því þjóðinni þarfasti þjónninn. Þannig nýttist hann til ferðalaga um veglaust land sem reið- og vinnuhestur, auk þess að vera burðardýr og dráttarhestur eftir að hjólið kom til sögunnar. Hesturinn og þjóðin hafa þannig átt órofa samleið og íslensk þjóðmenning og hestamennska eru samþætt. Jafnframt hefur verið unnið afrek í virkri stofnvernd, þar sem gömlu landkyni eins og íslenski hestur- inn vissulega er, hefur verið fundið nýtt hlutverk í nútímanum og viðgangur þess þannig tryggður til framtíðar. Okkur sem nú lifum er gjarnt að vanmeta margt í fortíðinni og kannski ofmeta annað. Eitt af því sem gjarna er vanmetið eru þau samskiptakerfi sem þó voru, þrátt fyrir allt og allt, til staðar. Jafnframt því að við eigum oft erfitt með að setja okkur í þau spor að fyrri tíðar fólk hafði sínar þrár og langanir, rétt eins og við sem nú lifum. Póstkerfið er eitt þessara samskiptakerfa og hafði meðal annars það hlutverk að fullnægja þrám og löngunum fólks. Og til að póstkerfið virkaði gegndi hesturinn lykilhlutverki. Reglulegt póstskip mun hafa byrjað siglingar milli Íslands og Kaupmanna- hafnar árið 1778 en sett hafði verið konungleg tilskipun um póstþjónustu hér á landi árið 1776. Í framhaldinu var byggt upp skipulegt kerfi póstleiða um landið og fyrsta póstferðin var farin 1782. Póstferðir voru mismargar eftir póstleiðum, oft þrjár til fjórar á ári en á nítjándu öld var þeim fjölgað um helming. Konunglegir embættismenn, svo- kallaðir landpóstar, með lúður og merki sáu um póstflutningana. Starf þeirra var mjög erfitt og krafðist hreysti, seiglu og útsjónarsemi. Þeir urðu að vera ratvísir og áræðnir en um leið hyggnir og skynsamir; kunna að hrökkva frekar en stökkva og hafa andlegan styrk til að bíða af sér veður og ófærð frekar en vaða út í foraðið. Þeir urðu líka að vera traustir, höfðu enda undir höndum einkabréf og ábyrgðarskjöl margvísleg sem fólgin voru í pósttöskunni sem þeir reiddu um öxl og margvísleg verðmæti voru í koffortum hestanna. Síðast en ekki síst urðu þeir að vera hestamenn, ekki í merkingunni að hafa einhvern svaka áhuga á hestum sem slíkum eða vera einhverjir reiðsnillingar, heldur í merkingunni að kunna virkilega vel með hesta að fara, hyggja að og tryggja þarfir þeirra og velferð; í fóðri sem og að varna meiðslum og gæta þess að ofreyna þá ekki, nema líf lægi við og grípa þá til viðeigandi ráðstafana í framhaldinu. Á Sögusetri íslenska hestsins er lítil sýning sérstaklega helguð sögu landpóstanna, þar er m.a. uppi sama myndin og fylgir með grein þessari en hún er af þeim frækna pósti Hans Hannessyni sem fæddur var í Reykjavík 26. október 1867 og lést, „eftir árangurs- lausan holskurð við illkynjaðri garna- flækju aðfaranótt 16. þ. m.“ eins og komist var að orði í minningarorðum sem birtust í Vísi 19. janúar 1928. Þar segir og: „Því kenninafn sitt [Hans póstur] bar hann með þeim heiðri, að engum þarf að vera minnkun að, þó Hans sé nefndur fremstur í flokki þeirra mörgu dugnaðarmanna, sem gegnt hafa erfiðustu pótflutningum, sem nokkurt land í Evrópu hefur af að segja. Mættu póstar þessa lands taka Hans sér til fyrirmyndar um margt.“ Ennfremur segir: „Póstflutninga- mennskan var honum arfur. Hann byrjaði póstferðir innan við tvítugt, sem fylgdarmaður Hannesar pósts föður síns, og í full fjörtíu ár vann hann að þessu starfi, lengst af á eigin ábyrgð.“ Því næst er rakið í minningarorðunum á hvaða póstleiðum Hans póstur starfaði. Fyrst lengi sem póstur norður um land og framan af allt til Akureyrar en eftir að siglingar með póst urðu almennari, s.s. með Faxaflóabátnum upp í Borgarnes, tók hann við póst- leiðum um Suðurland, allt þar til bifreiðastöðvarnar í Reykjavík tóku þá leið yfir vorið áður en hann lést. Í greininni er tíunduð mjög öryggi hans og nákvæmni sem ferðamanns en um leið harðfylgni og ratvísi og sem virðingarverðs pósts; stundvísin, en það heyrði til undantekninga að hann héldi ekki áætlun í póstferðum sínum „og voru jafnan fullar ástæður fyrir slíku,“ eins og segir í téðum minn- ingarorðum. Um ferðahæfileika Hans pósts í heild sinni segir: „Hans póstur má heita fyrirmynd í ferðalögum. Þau voru þau vísindi, sem hann varði æfi sinni til að komast til botns í.“ Þá segir að Hans póstur hafi á hverjum sex árum ferðast áþekka vegalengd og er umhverfis jörðina en það um íslenskar byggðir og óbyggðir, „og á vetri jafnt sem sumri, án þess að nokkurn tíma bæri slys að höndum.“ Ekki má gleyma hestunum en um þann þáttinn segir: „Hans lagði mikla stund á að hafa jafnan duglega hesta, og sparaði aldrei neitt til þess, að aðbúð þeirra væri góð. Söðlasmiðir hér í bæ munu geta sagt frá því, að hann hafi verið vandlátur með hnakka og klyfsöðla.“ Rúsínan í pylsuenda minningar- greinarinnar, er bautasteinn um hinn sanna mann, þar segir: „Hans var hversdagslega fáskiftinn maður, og lét lítið á sér bera. Hann hafði lífsstarfi að gegna, og það var honum svo mikið áhugamál, að hann gaf sig lítt að öðru. Hann var póstur; það nafn vildi hann eiga – og átti.“ Hans er hér nefndur til sögunnar sem „erkitýpa“ landpóstsins, en land- póstar koma víða við sögu í þjóðlegum fróðleik og bókmenntum okkar og frásögur af dugnaði og þreki pósthest- anna eru þar iðulega tíundaðar. Á árunum um og fyrir 1950 kom út ritið Söguþættir landpóstanna í þremur bindum hjá Bókaútgáfunni Norðra á Akureyri. Í fræðiritinu Póstsaga Íslands 1776–1873, sem út kom 1996 hjá Þjóðsögu í Reykjavík, er þessari sögu gerð nákvæm fræðileg skil. Og hvað bókmenntirnar varðar er skemmst að minnast Vestfjarða þríleiks Jóns Kal- mans Stefánssonar þar sem heljamennið Jens landpóstur kemur mjög við sögu. Í Aðventu Gunnars Gunnarssonar er landpóstar getið, ekki er ólíklegt að þeim hinum sama hafi þótt lítið til um ferðaflangs Fjalla-Bensa (hér er að vísu mjög getið í eyðurnar) og í sögunum frábæru af Jóni Oddi og Jóni Bjarna eftir Guðrúnu Helgadóttur er landpósts og getið, en þá mjög í gamansömum háðsstíl og lagt er út frá því náttúruviti að kunna að hrökkva frekar en stökkva. Kappið er gott en gamalt orðatiltæki segir; „Allt kann sá er bíða kann.“ Kristinn Hugason HESTAR OG MENN Kristinn Hugason forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins Landpóstar Póstlest Hans Hannessonar pósts. Ljósmynd: Magnús Ólafsson. 10 01/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.