Skessuhorn - 13.05.2020, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 13. MAÍ 2020 19
Eins og Skessuhorn greindi frá í
síðustu viku ákvað sveitarstjórn
Reykhólahrepps að ráða Ingibjörgu
Birnu Erlingsdóttur í starf sveit-
arstjóra. Ingibjörg er vel kunnug
starfinu en hún gegndi því frá árinu
2010 til 1018 en ákvað þá að snúa
sér að öðru. „Þegar ég fór frá fyrir
að verða tveimur árum var ég búin
að vera í þessu starfi í átta ár og
orðin aðeins þreytt og langaði að
breyta til og gera eitthvað annað.
En ég áttaði mig fljótlega á að ég
saknaði starfsins og langaði að vera
hér áfram. Það var því ekki spurn-
ing að grípa tækifærið þegar það
gafst,“ segir Ingibjörg í samtali við
Skessuhorn. „Ég tel mig hafa þekk-
ingu sem ég get nýtt í þessu starfi
og mig langar að gera það,“ bæt-
ir hún við. Eftir að Ingibjörg lét af
störfum sem sveitarstjóri árið 2018
tók hún við stöðu framleiðslustjóra
hjá Norðursalti. „Það hefur verið
mjög skemmtilegt starf líka en mig
langar að vera í meiri samskiptum
við fólk, ég nýt þess að vinna með
fólki og fann missi af því þegar ég
skipti um starf,“ segir hún.
„Eins og að setjast
á hjól“
Ingibjörg er fædd á Patreksfirði og
ólst þar upp til fjögurra ára aldurs,
þegar hún flutti til Hafnarfjarðar.
Hún hefur alltaf haft sterkar taugar
vestur og sótti mikið að fara þang-
að í öllum fríum. „Mér leið allt-
af best fyrir vestan og tilfinning-
arnar hafa alltaf verið út á land hjá
mér. Ég þrífst ekki vel í stressinu í
bænum,“ segir hún. Áður en Ingi-
björg flutti til Reykhóla árið 2010
bjó hún í tíu ár í Hvalfjarðarsveit
og vann frá árinu 2006-2010 sem
skrifstofustjóri á skrifstofu Hval-
fjarðarsveitar. Þar kynntist hún vel
öllum störfum sveitarfélagsins og
fékk áhuga á að starfa á því sviði.
Það kom því lítið annað til greina
en að sækja um starf sveitarstjóra á
Reykhjólum árið 2010. En hvern-
ig er að setjast í sætið á ný eftir tvö
ár frá störfum? „Þetta er eins og að
setjast á hjól og byrja að hjóla, það
kemur allt mjög hratt,“ segir hún
og hlær. „Það er í raun eins og ég
hafi ekkert farið frá. Það eru aðeins
önnur mál en líka mörg þau sömu,
ég var vissulega ekki svo lengi í
burtu. En það er þó eitt og annað
nýtt sem ég þarf að kynna mér bet-
ur og koma mér inn í,“ bætir hún
við.
Sauðburður búinn
Ingibjörg er gift Hjalta Hafþórs-
syni, Siglfirðingi, bátasmiði og
framleiðslustjóra hjá Norður-
salti, og saman eiga þau þrjú börn
á aldrinum 15-27 ára. „Við áttum
alltaf húsið okkar í Hvalfjarðarsveit
áfram eftir að við fluttum hing-
að en seldum það svo og keyptum
okkur litla jörð hér í Reykhjóla-
sveit bara á þeim tíma sem ég hætti
sem sveitarstjóri, árið 2018,“ seg-
ir Ingibjörg en þau búa að Kletta-
borg og eru þar með nokkra hesta,
átta kindur, einn hrút og nokkrar
endur. „Sauðburður er búinn hjá
okkur. Það varð smá vesen, hrútur-
inn slapp í haust og þetta fór allt
úr böndunum hjá okkur svo sauð-
burður var snemma,“ segir hún og
hlær. „Það kom sér samt vel, ætli
það hafi ekki bara átt að fara svona
því nú þarf ég ekki að standa í sauð-
burði á meðan ég er að koma mér
inn í þetta starf aftur, með allar
þessar kindur,“ heldur hún áfram
kímin.
Heilsan á oddinn
Aðspurð segist hún afskaplega
spennt fyrir nýja gamla starfinu
sínu en formlega tekur hún til
starfa í næsta mánuði. „Það þarf að
fá einhvern í mitt starf hjá Norður-
salti en ég er samt byrjuð að mæta
á skrifstofuna svona seinni part-
inn, aðeins að koma mér inn í mál-
in. Það er rosalega gott að koma
aftur,“ segir hún ánægð. En hvaða
mál ætlar Ingibjörg að setja á odd-
inn sem nýr sveitastjóri? „Fyrst og
fremst að vinna mína vinnu vel og
í góðu samstarfi við starfsfólk og
íbúa sveitarfélagsins,“ svarar hún.
„En það sem ég hef mikinn áhuga
á að gerist í okkar sveitarfélagi í
dag er að við förum að huga bet-
ur að heilsunni okkar, bæði líkam-
legri og sér í lagi andlegri heilsu.
Ég vil að við setjum þetta á odd-
inn og finnst það í raun mikilvægt
í öllum samfélögum. Heilsan okkar
skiptir svo miklu máli í stóra sam-
henginu og ég held að sem betur
fer séum við alltaf að átta okkur
betur á því, og ekki síður hvað and-
leg heilsa skiptir miklu máli líka,“
segir hún. „Sem betur fer er sveit-
arstjórnin hér núna skipuð fólki
sem veit þetta og er byrjað að taka
fyrstu skrefin í að þeirri vinnu að
gera Reykhóla að heilsusamfélagi.
Ég hlakka til að fara af stað með
fleiri verkefni í tengslum við það,“
heldur hún áfram. Aðspurð segist
hún ekki búin að skipuleggja neina
sérstaka leið að þessu markmiði.
„Þetta er bara verkefni sem ég mun
tækla með mínu starfsfólki. Ég veit
að þessu verður vel tekið og við
munum halda þessu á lofti næstu
misseri. Stress og streita er að hafa
svo mikil áhrif á líf okkar alls stað-
ar, meira að segja grunnskólabörn
eru að upplifa það, og jafnvel niður
í leikskóla. Við þurfum að bregð-
ast við og koma því inn í venjulegt
líf að huga að heilsunni til að við
getum staðist það stress sem sam-
félagið okkar skapar. Þar sem fólki
líður vel er gott að búa,“ segir hún
að endingu. arg
Ingibjörg Birna er sest á ný í sveitarstjórastólinn á Reykhólum. Ljósm. aðsend
„Þar sem fólki líður vel er gott að búa“
-segir Ingibjörg Birna sveitarstjóri á Reykhólum
Menntaskóli Borgarfjarðar, með stuðningi Sóknar-
áætlunar Vesturlands, heldur þann 19. maí stafræna
ráðstefnu undir yfirskriftinni „Menntun fyrir störf
framtíðarinnar“.
Hvernig ætlum við að undirbúa nemendur, skólakerfið
og fyrirtækin fyrir hraðar breytingar næstu ára og hefur
COVID-19 flýtt þessum breytingum?
Fjöldi spennandi fyrirlesara munu halda erindi og hvetja
okkur til að „hugsa út fyrir boxið“. Fyrirlestrarnir verða
stuttir og snarpir og í lokin mun panell ræða saman og
svara spurningum sem berast rafrænt á meðan á ráðstefn-
unni stendur.
Helmingur fyrirlesaranna hefur rætur að rekja til Borgar-
fjarðar auk fjölda annara frábærra gesta:
Hjálmar Gíslason, Hvanneyringur, stofnandi og fram-
kvæmdastjóri GRID og áhugamaður um tækni, fjöl-
miðla, lífið, tilveruna og alheiminn.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, úr Reykholtsdal, kennari við
Stockholm School of Entrepreneurship ofl menntastofn-
anir í gegnum tíðina, curator hjá Hönnunarmiðstöð
Íslands, ráðgjafi í Design Thinking.
Bjarki Þór Grönfeldt, úr Norðurárdal, er doktorsnemi og
aðstoðarkennari í stjórnmálasálfræði við Kent-háskóla í
Bretlandi.
Sigurður Hannesson, Hvanneyringur, framkvæmdastjóri
Samtaka iðnaðarins.
Nánari dagskrá og upplýsingar um fyrirlesarana má nálgast
á https://menntaborg.is/radstefna/
Ráðstefnan er öllum opin og verður streymt af heima-
síðu og Facebooksíðu Menntaskóla Borgarfjarðar.
Menntun fyrir störf framtíðarinnar