Morgunblaðið - 06.06.2020, Qupperneq 6
6 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. JÚNÍ 2020
ismál. Ég held að með því að vera í meira návígi
við umhverfið, því sterkara skynjar maður
þetta.“ Bendir Katrín einnig á mengun hafsins,
sérstaklega plastmengun sem hún segir í raun
skemma auðlindina með því að menga afurðina
sem Íslendingar hyggjast selja úr landi.
En samhliða áskorunum í umhverfismálum
eru mikil tækifæri í greininni á sviði nýsköpunar
að sögn forsætisráðherrans. „Það er margt
mjög spennandi sem hefur verið að gerast í
þessari grein hvað varðar verðmætasköpun úr
ýmsum aukaafurðum, nýjar vörur sem er verið
að vinna úr sjávarfangi sem ekki eru til að
mynda endilega til manneldis. Það er mikið að
gerast í undirgreinum sjávarútvegsins og ef við
horfum til framtíðar þá eru þetta spennandi
tækifæri.“
Auðlindaákvæðið almenn regla
Rætt hefur verið í langan tíma um auðlinda-
ákvæði í stjórnarskrá og telur Katrín það ekki
óeðlilegt. „Það hefur verið gríðarlega mikil um-
ræða, áratugum saman, um ákvæði í stjórnar-
skrá og það er ekkert skrýtið því íslenskt hag-
kerfi er mjög auðlindaháð og auðlindadrifið. Við
erum ekki aðeins að tala um fiskinn í sjónum, við
erum líka að tala um orkuna okkar. Við erum að
tala um ferðaþjónustuna, nýjustu atvinnugrein-
ina okkar sem nú stendur í ströngu, en hún
byggir í raun og veru verðmætasköpun sína á ís-
lenskri náttúru sem er auðlind. Það er þess
vegna ekki skrýtið að þetta hafi verið lengi til
umræðu, það sem er skrýtið er að okkur hefur
ekki lánast að ná saman um slíkt ákvæði. Sér-
staklega þegar við erum
með svo skýra leiðsögn,
hvort sem litið er til þeirra
skoðanakannana sem hafa
verið gerðar í gegnum tíðina
eða þjóðar-
atkvæðagreiðslunnar sem
hér fór fram 2012, um að
þetta sé eitthvað sem er al-
menningi mjög ofarlega í
huga.“
Bendir hún á að formenn
allra flokka á Alþingi hafi setið á sameiginlegum
fundum allt kjörtímabilið í þeim tilgangi að móta
stjórnarskrárbreytingar samkvæmt áætlun sem
forsætisráðherra kynnti við upphaf þess, en í
henni fólst meðal annars að tekið yrði til umfjöll-
unar ákvæði um auðlindir í þjóðareign. „Ég veit
að það verður erfitt að ná samstöðu um slíkt
ákvæði, menn greinir á um það hvort slíkt
ákvæði á fyrst og fremst að vera hin almenna
regla án þess að farið sé í nánari útfærslur eða
hvort skrifa eigi slíkar útfærslur út að einhverju
leyti í ákvæðinu. Fyrir mína parta tel ég mik-
ilvægt að slíkt ákvæði verði að veruleika og mun
gera atlögu að því að leggja slíkt ákvæði fram
næsta haust. Vonandi með stuðningi eins
margra og mögulegt er.“
Er blaðamaður spyr hverju slíkt ákvæði muni
breyta í tilfelli sjávarútvegs í ljósi þess að nú
þegar er ákvæði í lögum
um fiskveiðistjórnun um
eignarhald þjóðarinnar,
svarar Katrín: „Ákvæðið
festir í sessi hugmyndina
um þjóðareign sem hefur
verið umdeild þótt þetta
ákvæði standi í lögum um
fiskveiðistjórnun. Það hef-
ur svo sannarlega ekki ríkt
eining um það. Þannig að
stjórnarskrárákvæði myndi
árétta þennan vilja löggjafans og mikils meiri-
hluta þjóðarinnar gagnvart ekki bara þessari
auðlind heldur þeim auðlindum sem skil-
greindar eru í ákvæðinu og lúta ekki einkaeign-
arrétti.“
Eðlilegur nýtingartími
Þá sé það svo að almennt ákvæði í stjórnarskrá
sé ekki til þess fallið að útkljá með hvaða hætti
einstakar auðlindir eru nýttar, útskýrir Katrín.
„Ég tel mikilvægast að þarna séu mótaðar
grunnreglur um auðlindanýtingu, það er að
segja að við skýrum þær auðlindir sem við telj-
um í þjóðareign og hvaða atriði löggjafinn þurfi
að taka afstöðu til í löggjöf um auðlindir, og að
þær séu nýttar með sjálfbærum hætti til hags-
bóta landsmönnum öllum. Bara þetta skref held
ég að myndi skipta miklu máli fyrir alla um-
ræðu, hvort sem það er um sjávarútveg eða aðra
auðlindanýtingu á Íslandi. Stundum hefur mér
þótt að umræður um þetta ákvæði snúist ein-
göngu um fiskveiðistjórnun, en það má ekki
vera svo. Þetta snýst um auðlindanýtingu al-
mennt.
Eðli málsins samkvæmt, ef auðlindaákvæði á
að fjalla um allar auðlindir, er mismunandi hvað
er eðlilegur nýtingartími, svo dæmi sé tekið.
Eins og ákvæðið er núna er það orðað svo að við
séum ekki að afhenda nýtingarrétt auðlindar
með varanlegum hætti sem gæti þá þýtt að það
sé annaðhvort tímabundið eða uppsegjanlegt
með eðlilegum fyrirvara. Þetta er sú hug-
myndafræði sem ég tel flesta flokka á Alþingi
geta sameinast um.“
Flókið viðfangsefni
Hún kveðst ekki sannfærð um að með stjórnar-
skrárákvæði sé hægt að ljúka umræðum um
auðlindanýtingu þar sem úrlausnarefnið sé flók-
ið.
„Það er flókið að skipuleggja fiskveiðistjórn-
unarkerfi út frá hugmyndinni um sjálfbærni því
það sem til að mynda getur skilað mestum fjár-
hagslegum ábata getur haft neikvæð sam-
félagsleg áhrif, kerfi sem virðir umhverfissjón-
armið best getur sömuleiðis haft áhrif á
samfélagið. Það er þetta með hið vandfundna
jafnvægi sem okkur finnst erfitt að finna.
Við höfum talað gegn of mikilli samþjöppun í
kerfinu og að það verði að horfa til byggðasjón-
armiða. Að það sé eðlilegt að það sé greitt sann-
gjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni. Um leið
höfum við séð að það hefur náðst mikið meiri
stöðugleiki út frá umhverfissjónarmiðum. Það
hefur ýmislegt verið gert til að skapa meira
jafnvægi með tilkomu strandveiða á sínum tíma
og kerfi byggðakvóta.
Þegar samþykkt voru ný lög um veiðigjöld,
sem ég tel að séu til bóta, þar sem skilgreindur
er tekjustofninn og hvað beri að reikna til hans
til álagningar veiðigjalda. Það var af sjálfsögðu
umdeilt í þinginu.
En ég held hins vegar að það hafi verið mikið
framfaraskref, gert innheimtu gjaldanna gagn-
særri, nær okkur í tíma og afkomutengdari, sem
var mikilvægt. En þó að umræðan verði ekki út-
kljáð með breytingum á stjórnarskrá getur auð-
lindaákvæðið lagt grunninn að umræðunni.“
Þá bætir Katrín við að samhliða auðlinda-
ákvæði séu vonir um að leggja megi fram
ákvæði um umhverfisvernd þar sem nánar er
fjallað um sjálfbærnihugtakið og að það eigi að
gæta ýtrustu varúðar við nýtingu náttúru-
auðlinda á Íslandi.
Morgunblaðið/Eggert
Katrín Jakobsdóttir forsætis-
ráðherra segir sjómenn skynja
breytingar í hafinu enda séu
þeir í miklu návígi við það.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram
að „ríkisstjórnin vill halda áfram heildarend-
urskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku
samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta
meðal annars til þess aðferðir almennings-
samráðs“.
Formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi
funda að minnsta kosti ársfjórðungslega til að
leggja stærstu línur um framgang verkefnis. En
endurskoðunin fer fram í tveimur áföngum.
Fyrsti áfangi fer fram árin 2018 til 2021 og eru
tekin fyrir þjóðareign á náttúruauðlindum, um-
hverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæða-
greiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða
minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu
alþjóðasamvinnu, kafli um forseta lýðveldisins
og meðferð framkvæmdarvalds og ákvæði um
hvernig stjórnarskránni verði breytt.
Seinni áfangi á að fara fram 2021 til 2025 og
eru til umfjöllunar kaflar um Alþingi, Alþing-
iskosningar og dómstóla, ákvæði um þjóðkirkj-
una, mannréttindaákvæði og inngangsákvæði.
Endurskoðunin í tveimur áföngum
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gert er ráð fyrir að formenn flokka geti skilað tillögum úr fyrsta áfanga 2021, óvíst er hvort
samstaða náist um tillögurnar og ekki síst hvort þær verði samþykktar af Alþingi.
„Það er þess vegna ekki
skrýtið að þetta hafi verið
lengi til umræðu, það sem
er skrýtið er að okkur hefur
ekki lánast að ná saman
um slíkt ákvæði.“