Morgunblaðið - 10.07.2020, Qupperneq 12
12
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. JÚLÍ 2020
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
„Bjarni Benediktsson var bæði hug-
sjónamaður og framkvæmdamaður í
stjórnmálum,“ segir Jakob F. Ás-
geirsson rithöfundur sem vinnur að
því að skrifa ævisögu hans. „Hug-
sjón hans var sjálfstæðisstefnan: að
tryggja sjálfstæði landsins og skapa
blómlegt þjóðlíf á grundvelli ein-
staklingsfrelsis og atvinnufrelsis
með hagsmuni allra stétta fyrir aug-
um. Erindi hans í stjórnmálum var
að tryggja þessum hugsjónum fram-
gang og er óhætt að segja að fáir
menn hafi markað dýpri spor í síðari
tíma sögu Íslendinga en Bjarni
Benediktsson.“
Bjarni var fæddur 30. apríl og því
rétt 62 ára gamall þegar hann lést.
Að baki var einstakur ferill. Eftir
lagapróf frá Háskóla Íslands 1930
og framhaldsnám í stjórnlagafræði í
Þýskalandi til 1932 varð hann pró-
fessor við lagadeild Háskólans að-
eins 24 ára gamall. Bjarni ólst upp
við mikinn stjórnmálaáhuga. Faðir
hans Benedikt Sveinsson sat á Al-
þingi og ritstýrði þjóðmálablöðum.
Bjarni gekk til liðs við Sjálfstæðis-
flokkinn og árið 1940 varð hann
borgarstjóri í Reykjavík. Hann
gegndi embættinu í sjö ár. „Þetta
var þegar Reykjavík varð að borg
og miðstöð gróandi þjóðlífs í sjálf-
stæðu landi,“ segir Jakob F. Ás-
geirsson. Og framlag hans sem
fræðimanns til stjórnmála varð
ákaflega þýðingarmikið. „Lög-
fræðilegur rökstuðningur hans var
undirstaða stofnunar lýðveldis á Ís-
landi 1944,“ segir Jakob. Síðar hafi
framganga hans sem utanríkis-
ráðherra á árunum 1947 til 1953
tryggt öryggi og sjálfstæði landsins
á viðsjárverðum tímum með inn-
göngunni í Atlantshafsbandalagið
1949 og varnarsamningnum við
Bandaríkin 1951. Bjarni hafi einnig
haft forgöngu um að leysa þjóðina
úr haftaviðjum árið 1950 og staðið
fyrir hinum miklu efnahagslegu um-
bótum sem kenndar voru við „við-
reisn“ á árunum frá 1959. „Þau
færðu íslenskt efnahagslíf til nú-
tímahátta,“ segir Jakob. „Bjarni
stuðlaði og manna mest að stöð-
ugleika í íslenskum stjórnmálum
með langvinnu og farsælu stjórnar-
samstarfi við Alþýðuflokkinn og
samvinnu við verkalýðshreyfing-
una.“
Jakob F. Ásgeirsson segir að
Bjarni hafi verið afburðamaður að
greind og dugnaði. „Enginn maður
hafði betur í rökræðu við hann.
Hann þótti harður í horn að taka og
sumir, jafnt fylgismenn sem and-
stæðingar, hræddust hann.“
Jakob segir að þótt almenn sam-
staða sé um það nú að nær allt sem
Bjarni barðist fyrir og kom í fram-
kvæmd hafi verið til mikillar far-
sældar fyrir þjóðina, hafi miklir
stormar staðið um hann meðan hann
var og hét. „Hann sætti heiftúðug-
um og ósanngjörnum árásum árum
saman. Slíkt mótar fólk eðlilega og
Bjarni tók fast á móti andstöðu-
mönnum sínum. Samferðamenn
hans segja að skap hans hafi mildast
með árunum og svo mjög að hann
hafi jafnvel verið annar maður sem
forsætisráðherra en hann var fyrr á
stjórnmálaferli sínum. Þetta kann
að vissu leyti að vera rétt, en á hitt
ber að líta að þegar hann er orðinn
forsætisráðherra var hann búinn að
koma helstu hugsjónamálum sínum í
framkvæmd og stjórnmálathafnir
hans urðu annars eðlis en á baráttu-
árunum. Þá kunnu fáir betur að fara
með vald en Bjarni. Eðlislæg rétt-
sýni hans og samúð með lítilmagn-
anum ásamt yfirburðaþekkingu á
lögum og stjórnskipan gerði hann að
mjög farsælum forsætisráðherra.
Við andlát sitt var hann óumdeildur
leiðtogi þjóðarinnar og sannkallaður
landsfaðir.“
Þegar Jakob er spurður hvort
Bjarni hafi verið óskoraður forystu-
maður í Sjálfstæðisflokknum segir
hann að Bjarni hafi notið þess að
starfa lengst af náið með Ólafi
Thors, en þeir hafi verið mjög ólíkir
menn og bætt hvor annan upp. „Eft-
ir að Bjarni tók við formennsku í
Sjálfstæðisflokknum af Ólafi og varð
forsætisráðherra var forysta hans
svo afgerandi að eini hugsanlegi
keppinautur hans um formennsku í
flokknum, Gunnar Thoroddsen, taldi
vænlegra að svala metnaði sínum
um æðsta frama á öðrum vettvangi.“
Oft er talað um ákveðið tómarúm
hafi myndast í íslenskum stjórn-
málum við ótímabært fráfall Bjarna
sumarið 1970. „Auðvitað skapaðist
mikið tómarúm við fráfall Bjarna,
bæði í Sjálfstæðisflokknum og
stjórnmálunum almennt,“ segir Jak-
ob. „Það er ekki tilviljun að áttundi
áratugurinn og fram á þann níunda
varð tími óreiðu og upplausnar bæði
í landsstjórninni og innan Sjálf-
stæðisflokksins“. Hefði þróunin þá
orðið öðruvísi ef Bjarna hefði notið
við? „Mjög líklega,“ svarar Jakob.
„En það er ómögulegt að segja
hvernig. Það voru breytingar í lofti,
ef svo má segja, og í vændum kyn-
slóðaskipti á mörgum sviðum þjóð-
lífsins. Bjarni skynjaði þetta auðvit-
að og ræddi hugmyndir um annað
stjórnarmynstur að loknu Viðreisn-
arsamstarfinu. Hann hafði líka látið
í ljós áhuga á að láta af stjórnmála-
afskiptum og snúa sér alfarið að
fræði- og ritstörfum. Því miður
auðnaðist honum ekki að láta þann
ásetning sinn rætast.“
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Kosningar Bjarni og Sigríður kona hans koma á kjörstað í Sjómannaskólanum í Reykjavík í borgarstjórnarkosn-
ingum 1962. Með er Anna, yngsta dóttir þeirra. Bjarni var borgarstjóri í Reykjavík á árunum 1940 til 1947.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Bjarni Hann var óskoraður forystumaður í íslenskum stjórnmálum sem for-
maður Sjálfstæðisflokksins frá 1961 og forsætisráðherra frá 1963.
Maður hugsjóna og framkvæmda
Tómarúm skapaðist í stjórnmálum við fráfall Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra 1970
Forsætisráðherra var orðinn óumdeildur leiðtogi þjóðarinnar og sannkallaður landsfaðir
NATO Á fundi með leiðtogum Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Reykjavík árið 1968. Lengst t.v. Willy Brandt, kanslari Vestur-Þýskalands, að ávarpa
fundinn, þá Bjarni og t.h. er Manlio Brosio, framkvæmdastjóri bandalagsins. Bjarni undirritaði stofnsáttmála bandalagsins fyrir Íslands hönd árið 1949.
Skömmu eftir ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum brann voru rústirnar hreins-
aðar og tyrft yfir. Gestahúsið var flutt brott. Ári síðar lét ríkisstjórnin reisa þar
voldugan minningarstein úr Þingvallahrauni um hina látnu. Eru á hann letruð
nöfn þeirra. Hér er hann vígður sumarið 1971.
Minnisvarði reistur á Þingvöllum
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Hálf öld frá brunanum á Þingvöllum