Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.07.2020, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.07.2020, Blaðsíða 13
12.7. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13 Högg svo hröð þau sjást ekki Sugar Ray Robinson, heimsmeistari í millivigt, var eitt af átrúunargoðum Cassius Clay. Clay byggði hnefaleikastíl sinn á því að stór maður gæti fengið að láni stílinn frá minni manni og þannig sameinað styrk og hraða. Hann var því ólíkur því sem fólk átti að venjast frá þunga- vigtarkappa. „Maðurinn bjó yfir líkamsburðum sem að- eins tveir í sögunni hafa búið yfir. Það voru Ali og Bruce Lee,“ segir Ómar Ragnarsson, fréttamaður, við sunnudagsblaðið. Bruce Lee var sagður svo fljótur það skapaði vandamál fyrir kvikmyndatökumenn í myndum hans. „Þegar högg þeirra eru stúderuð eru þau svo hröð sum að þau nást ekki á mynd,“ segir Ómar. „Hreyfingarnar allar voru svo ofboðslega fallegar hjá Ali,“ segir Ómar. „Þetta er svo fagurskapaður skrokkur. Dansandi fótahreyf- ingarnar voru lykillinn. Þær byrja í tám og ökkla og fara eins og rafstraumur í gegnum skrokkinn, í gegnum mjaðmirnar, axlirnar, handleggina og yfir í hnefana á yfirnáttúru- legum hraða.“ Clay gerðist atvinnumaður í október 1960 og varð fljótt einn sá besti í þungavigtinni. Ferdie Pacheo, læknir Clay, hafði eitt sinn á orði að á fyrstu árum hans sem atvinnumaður hafi hann verið fullkominn líkamlega. „Það var ekki hægt að gera hann betri,“ sagði hann. „Fullkomin samsvörun, fallegur, viðbrögð á ljóshraða og frábær skilningur á íþróttum. Jafnvel þegar hann fékk kvef fór það næsta dag.“ Sting eins og býfluga Þegar Clay fékk loks tækifæri gegn heims- meistaranum Sonny Liston árið 1964 voru fáir sem höfðu trú á honum. Clay hafði litið illa út í tveimur síðustu bardögum sínum, sem hann þó vann, og Liston hafði nýlega gert lítið úr meist- aranum fyrrverandi, Floyd Patterson, í tveim- ur bardögum sem enduðu báðir með rothöggi í fyrstu lotu. Clay vissi hve góður hnefaleikakappi Liston var. Hann hafði horft á bardaga eftir bardaga með honum. En hann vissi hvernig hann gæti haft áhrif á hann fyrir bardagann, látið honum líða óþægilega en á sama tíma vanmetið Clay. Clay hafði flutt til Miami þegar atvinnu- mannaferillinn fór af stað og þar var bardaginn haldinn 25 febrúar. Þegar Liston mætti á lestarstöð í borginni var Clay mættur með fylgdarliði og öskraði, „Aumingi! Stóri ljóti björn! Ég ætla að lemja þig núna!“ Liston var ekki skemmt; bað Clay að hætta þessum fífla- látum. En Clay hætti ekki. Hann hélt áfram þennan dag og mætti jafnvel fyrir utan húsið sem Liston leigði á meðan undirbúningi fyrir bardagann stóð. Morguninn fyrir bardagann fór Clay alla leið. Hann gekk bersersgang, reyndi að ráðast að Liston og héldu margir að hann væri að tapa sér af hræðslu fyrir bardagann. Einhverj- ir héldu að Clay myndi ekki mæta í hringinn seinna um kvöldið. En allt var þetta leikur hjá Clay. „Flögra eins og fiðrildi, sting eins og býfluga,“ sagði Clay um sig sjálfan fyrir bardagann. Hann fylgdi plani sínu fullkomlega í bardaganum. Lét finna fyrir sér en reyndi að þreyta Liston þar til í sjöttu lotu þegar hann lét til skarar skríða. Liston vanmat Clay og var ekki í formi til annars en að rota hann í fyrstu tveimur eða þremur lotunum. Eftir þá sjöttu og þegar sjö- unda lotan átti að hefjast sat Liston sem fast- ast í sínu horni. Hann gafst upp. Þrælanafn Eftir bardagann staðfesti Clay loks að hann aðhylltist kenningar Elijah Muhammad og samtakanna „Nation of Islam“ (NOI). Með- limir NOI, sem stundum voru kallaðir „svörtu múslimarnir“, fylgu kenningum Múhameðs spámanns og tilbáðu Allah. Clay kynntist NOI fyrst árið 1959. Hann var uppnuminn af boðskap þeirra um stolt og að- skilnað. NOI var fylgjandi aðskilnaði svartra og hvítra í Bandaríkjunum og töldu svarta æðsta kynstofninn, aðrir, þar á meðal hvítir, væru komnir af þeim. Þeir voru tortryggnir gagnvart hvítum og töldu þeim ekki treyst- andi. Það sem greip helst athygli Clay var hins vegar boðskapur múslima. Agi og fas þeirra, auk áherslu á stigveldi, manndóm og sjálfsvirð- ingu. Eftir að hafa kynnst lítillækkun vegna kynþáttar síns allt sitt líf gat Clay fundið reisn sína í þessum samtökum. Clay tók hugmyndum um yfirburði svartra og hatur á hvítum ekki eins alvarlega og t.d. Elijah Muhammad, leiðtogi NOI. Hann sagði sig úr samtökunum árið 1976, gerðist súnní- múslimi og varð opinberlega á móti aðskilnaði. Aðallega vildi Clay betri kjör fyrir svarta sem illa var farið með í Bandaríkjunum. Hann vildi láta gott af sér leiða. Og það gerði hann alla ævi. Elijah Muhammad gaf Ali nýtt nafn þegar hann gekk formlega í samtökin. Muhammad Ali varð fyrir valinu en fyrst um sinn vildu frétta- menn og aðrir ekki nota nafnið. „Cassius Clay er þrælanafn. Ég valdi það ekki og ég vil það ekki. Ég er Muhammad Ali, frjálst nafn. Það þýðir elskaður af Guði og ég krefst þess að fólk noti nafnið þegar það talar við mig.“ Ekkert „vofuhögg“ Ali barðist aftur við Liston 1965 og sigraði með rothöggi í fyrstu lotu. Rothöggið var ólíkt þeim bylmingshöggum sem menn voru vanir í þunga- vigtinni. Var það kallað „vofuhögg“. „Ég skil ekki deilurnar út af því, því vofuhögg þetta er þó sjáanlegt á einum myndramma á kjálka Listons,“ segir Ómar. „Höfuð hans hreyfist eld- snöggt og það sést en ekki höggið sjálft því það er í skjóli við höfuðið. Þegar Liston stekkur áfram til þess að ná Ali og fær höggið á sig án þess að sjá það er það því náttúrulega hreint rothögg.“ Ali varði titilinn gegn Floyd Patterson og tveimur öðrum áður en hann mætti Brian London 1966. „Ali rotar hann með tólf höggum í röð á 2,9 sekúndum,“ segir Ómar. „Af þessum tólf höggum er bara eitt sem hittir beint í á kjálkann. Öll hin höggin eru til þess að opna vörnina. Þegar þú horfir á fótaburðinn þegar hann gerir þetta er svo mikil fegurð í þessu að þú steingleymir því hvað þetta er grimm íþrótt. Ali innleiddi fegurð í íþrótt sem fáir höfðu áður hugsað sér að nein fegurð væri til í.“ Ali varði titilinn fjórum sinnum til viðbótar áður en hann neitaði að ganga í herinn 1967. Stuttu seinna var hnefaleikaleyfi hans tekið úr gildi og hann sviptur heimsmeistaratitlinum. Hinn 20. júní var hann dæmdur í fimm ára fang- elsi en áfrýjaði og þurfti því ekki að sitja inni um sinn. Afstaða Alis var innblástur fyrir marga þel- dökka. Hann fórnaði sínum bestu árum sem hnefaleikamaður fyrir gildi sín. William Rhoden skrifaði í New York Times seinna, „Gjörðir Alis breyttu ímynd minni á hvað það þýddi að vera frábær íþróttamaður. Að hafa frábært stökk- skot eða geta stoppað á punktinum var ekki lengur nóg. Hvað ertu að gera fyrir frelsun fólks þíns? Hvað ertu að gera til að hjálpa þjóð þinni að standa við stofnunarsáttmála sinn?“ Árið 1971 var loks dæmt í máli Alis fyrir hæstarétti Bandaríkjanna. Réttindabaráttan hafði þá náð meira vægi auk þess sem stríðið í Víetnam mætti sífellt meiri mótspyrnu og höfðu margir færst á band Alis. Dómnum var því snú- ið við en Ali hafði fengið keppnisleyfi sitt aftur árið á undan. Glímdi við krókódíl Ómar segir Ali hafa misst tæp fjögur af sínum bestu árum þegar hann var í banni frá hnefa- leikum. „Það er margbúið að sanna það að ald- urinn í kringum 25 ára er sá tími ævi manna þar sem bæði líkamlegir og andlegir hæfileikar eru að meðaltali í hámarki.“ Eftir fjarveruna þurfti Ali því að byggja upp nýjan feril og breyta bardagaáætlun sinni. Eftir að hafa barist við marga af þeim bestu, tapað í tvígang, fyrst gegn Joe Frazier í bardaga aldar- innar og seinna gegn Ken Norton, náði Ali loks heimsmeistaratitlinum aftur. Hann sigraði þá George Foreman 1974 í bardaga þar sem For- eman var talinn mun líklegri til sigurs. Ali fór á kostum í aðdraganda bardagans. „Ég hef gert svolítið nýtt fyrir þennan bar- daga,“ sagði Ali. „Ég hef glímt við krókódíl, ég hef barist við hval; handjárnað eldingu, kastað þrumu í fangelsi; bara í síðustu viku myrti ég grjót, meiddi stein, setti múrstein á spítala. Ég er svo vondur að ég geri lyf veik.“ En líkamlegir hæfileikar höfðu dvínað. „Hraðinn var orðinn aðeins minni,“ segir Ómar. „Þá þurfti hann að byggja á nýjum atriðum eins og „Rope-a-dope“ þar sem hann lá aftur á bak í köðlunum og svæfði andstæðinginn; lét hann sóa kröftum sínum í högg sem hann varðist, en laumaði inn einni og einni eitraðri stungu. Þannig varð hann heimsmeistari aftur. Hann lá í köðlunum lotu eftir lotu, og þegar hann rotaði Foreman í lok áttundu lotunnar var það svo ná- kvæmlega gert að það voru aðeins tvær sek- úndur eftir af lotunni.“ Eftir bardagann sagði Ali við fréttamann, „Ég sagði þér að ég væri bestur allra tíma.“ Ári seinna barðist Ali í þriðja sinn við Joe Frazier sem þá var fyrrverandi heimsmeistari. Frazier vann fyrstu rimmuna, Ali þá aðra. Sú þriðja fór fram í Quezon-borg í Manila á Filippseyjum og var kölluð „Tryllirinn í Manila“ („Thrilla in Manila“). Bardaginn endaði ekki fyrr en þjálfari Frazier kastaði inn hvíta hand- klæðinu áður en 15. og síðasta lotan fór fram. Ali hafði þá farið illa með kappann í þeirri 14. en báðir voru þeir uppgefnir og Ali við það að hætta. Ali tapaði titlinum 1978, 36 ára gamall, til Leon Spinks. Hann vann hann til baka frá Spinks sama ár og varð þar með heimsmeistari í þriðja sinn, oftar en nokkur annar á þeim tíma. Hann tilkynnti að hann hefði lagt skóna á hill- una stuttu síðar. Áhrifamesti íþróttamaðurinn Ali átti erfitt með að segja skilið við íþróttina. Hann barðist gegn Larry Holmes um titilinn 1980 og ári seinna við Trevor Berbick. Ali tap- aði báðum viðureignunum og ljóst var að hann hafði mörgu gleymt frá fyrri árum. Ferdie Pacheco hætti sem læknir Ali fyrir bardagana, fannst Ali ætti ekki að berjast aftur. Líklega voru taugaskemmdir Alis farnar að láta kræla á sér á þessum tíma en hann greindist með Parkinson’s-sjúkdóminn 1984. En launa- seðillinn dró Ali og hans menn að. Í upphafi ferilsins fékk Ali sjaldan á sig högg enda eldsnöggur. Það breyttist við endurkom- una 1970. Hann tók á sig miklar barsmíðar, meira að segja í þeim bardögum sem hann vann. Ómöglegt er að segja með vissu en líklega átti þetta hlut í framgöngu sjúkdóms hans þó Ali hafi þvertekið fyrir það. Ali var gífurlega þekktur og vinsæll um allan heim. Tveir milljarðar manna horfu á hann berjast við Larry Holmes 1980 þegar mann- fjöldi í heiminum var um 4,5 milljarðar. „Hann var þekktasti maður í heimi árum saman,“ segir Ómar. Ali var eini íþróttamaðurinn á lista Time yfir áhrifamesta fólk 20. aldarinnar sem kom út árið 1999. Hann sýndi öðru fólki gildi þess að vera stoltur af uppruna sínum og gerði engar mála- miðlanir á þeim gildum sem hann stóð fyrir. Hann var alltaf hann sjálfur. Ali er af mörgum talinn besti þungvigtar- hnefaleikari sögunnar. Hann var uppi á tíma þar sem hnefaleikar voru hvað vinsælastir og ungt fólk leit upp til heimsmeistara í íþróttinni. Hann hafði yfirburði líkamlega. „Ali lék sér að því að sippa tvöfalt hraðar heldur en nokkur annar. Það var ekki nokkur leið að sjá þetta,“ segir Ómar. En það sem skar hann úr var hugurinn. Eins og áður sagði varð hann aldrei hræðslunni að bráð inni í hringnum og utan hans lék hann sér að andstæðingunum. Pirraði þá og fékk þá til að hugsa um annað en það sem var á dagskránni; hnefaleikabardagann. Ali var einstakur. „Það kemur einn svona á öld,“ segir Ómar Ragnarsson um Muhammad Ali sem lést fyrir fjórum árum, 74 ára að aldri. Blaðamenn hópast að Ali eftir að hann neitaði að ganga í herinn og fara í stríð til Víetnam 1967. Ali talar við blaðamenn í aðdraganda bardagans við George Foreman um titilinn 1974. Ali í París á leið sinni heim eftir að hafa sigrað Foreman í Kinshasa í Zaire.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.