Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.08.2020, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.08.2020, Blaðsíða 8
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23.8. 2020 VIÐTAL L eiðin liggur út á Seltjarnarnesið einn sólríkan dag um miðjan ágúst til fundar við Regínu Jensdóttur, mannréttindalögfræðing hjá Evr- ópuráðinu. Hún er nú stödd á æskuslóðum í foreldrahúsum í sumarfríi en Regína býr ásamt manni og sonum í Colmar í Frakklandi; steinsnar frá Strassborg þar sem hún vinnur að mannréttindum barna. Regína býður inn á fallegt heimili foreldr- anna og leiðir blaðamann í allan sannleikann um þau fjölmörgu verkefni sem þarf sífellt að vinna að til þess að tryggja almenn mannrétt- indi um 150 milljóna barna í Evrópu. Ekki lítið verkefni það en Regína er greinilega á réttri hillu og ástríðan fyrir starfinu leynir sér ekki. Á áratuga ferli hefur hún séð margt breytast til batnaðar þó að verkefnin séu óþrjótandi og breytist sífellt, sérstaklega á tímum mikilla tæknivæðinga. Fetaði í fótspor afa Regína er alin upp að mestum hluta á Sel- tjarnanesi en bjó þó um hríð í Bandaríkjunum sem táningur. Við heimkomuna lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í lögfræði í Háskóla Íslands. Hún segist þó hafa þurft að hugsa sig vel um því eins og margt ungt fólk var hún ekki viss um hvað hún vildi verða þeg- ar hún yrði stór. „Ég fór einn dag í tannlækningar, einn dag í listasögu og vaknaði svo upp og ákvað að fara í lögfræði. Það hafði blundað í mér, en afi minn, Sigurgeir Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður, var dómari við mannréttindadómstól Evrópu. Þannig hafði ég alltaf einhverja tengingu við mannréttindi og vissi alltaf á meðan ég var í lögfræði að ég vildi vinna við mannréttindi,“ segir Regína. Það má því segja að hún hafi fetað í fótspor afans, en ekki foreldranna, Kristínar Sig- urgeirsdóttur tannsmiðs og Jens Sigurðssonar Jenssonar tannlæknis. „Já, ég fetaði í fótspor afa. Ég var fyrsta barnabarn ömmu og afa og var mikið hjá þeim sem barn og naut þess því þau voru fullkomin afi og amma sem gagnrýndu okkur aldrei, voru skemmtileg, alltaf til staðar og endalaust já- kvæð.“ Skildi ekki orð Að loknu lögfræðinámi fór Regína í starfsnám hjá Evrópuráðinu en hún hafði skrifað lokarit- gerð sína um ellefta viðauka mannréttinda- samnings Evrópuráðsins sem breytti starfsemi Mannréttindadómstólsins. „Ég fór að vinna með manninum sem skrif- aði þann viðauka. Þetta breytti miklu í starf- semi dómstólsins en það hefur auðvitað breyst síðan. En þetta tengdi mig inn í þennan geira og þarna var ég í fimm mánuði. Það var rosa- lega gaman,“ segir Regína og segist aðeins hafa byrjað að skilja betur frönskuna sem hún hafði lært í MR, en opinber tungumál Evr- ópuráðsins eru franska og enska. „Ég fór svo heim í nokkra mánuði en hafði sótt um að komast aftur til Strassborgar í framhaldsnám í alþjóðarétti. Ég var tekin inn í námið og byrjaði þá um haustið. Ég man ég settist inn í fyrsta tímann og kennarinn fór að tala og ég skildi ekki neitt. Akkúrat ekki neitt. Það var hryllingur. Ég hafði áður fengið stað- festingu á því hjá franska sendiráðinu að ég kynni frönsku, sem var skilyrði til að komast inn, þótt ég kynni greinilega ósköp lítið. Ég þurfti því að lesa allt námsefnið á ensku og á kvöldin las ég það svo allt aftur á frönsku. Þetta var ansi erfitt. Mér hafði fundist ég ágæt í frönsku en greinilega var ég ekki nógu góð til að fara í meistaranám í alþjóðarétti á frönsku. Þetta var ekki alveg eins og að panta sér „cro- issant“,“ segir hún og brosir. Tungumál minnihlutahópa Regína komst þó í gegnum þetta erfiða nám, ein fárra, því helmingur nemenda féll á prófi. „Ég ákvað svo að skrifa ritgerð mína um við- auka við samning Sameinuðu þjóðanna um verndun fiskveiðistofna. Ég skrifaði um veiði á úthafinu, utan lögsögu þar sem engar reglur gilda,“ segir Regína og segist hafa valið þetta viðfangsefni því hún stefndi alltaf heim að loknu námi. „Á sama tíma og ég er að verja ritgerðina mína tók ég inntökupróf í starf hjá Evrópu- ráðinu. Prófið var daginn eftir að ég varði rit- gerðina og ég ákvað bara að slá til, án þess að hafa haft tíma til að undirbúa mig almennilega. En ég komst í gegn og var tekin þarna inn um leið. Ég byrjaði því að vinna hjá Evrópuráðinu vorið 1998,“ segir hún. „Ég var ráðin inn til að setja á laggirnar eft- irlitsnefnd með alþjóðasamningi sem verndar minnihluta- og svæðatungumál í Evrópu. Sá samningur á að sjá til þess að þessi tungumál séu notuð til dæmis í stjórnsýslu fyrir dóm- stólum og séu kennd í skólum. Ég starfaði svo með nefndinni sem var rosalega skemmtilegt starf og fékk ég að ferðast til Rússlands, Bas- hkortostan, Siberíu, Bretlands, allra Norður- landanna, Slóveníu og fleiri landa. Ég hitti þá fólk sem talaði þessi minnihlutatungumál, eins og samísku og gelísku, svo eitthvað sé nefnt. Tungumál eru oft mikið hitamál í Evrópu og oft kveikjan að deilum innan ríkja, eins og á Spáni, Frakklandi og Úkraínu. Það þarf að halda ríkjunum saman en um leið að vernda þessa tungumálaarfleifð minnihlutahópanna. Það var svakalega skemmtilegt og ég skildi það svo vel, frá Íslandi, hversu mikilvægt það er að fá að halda í sitt tungumál og sinn uppruna. Það skiptir fólk miklu máli,“ segir Regína en hún starfaði í nefndinni í sjö ár. Íslensku börnin erlendis Tveimur árum eftir að Regína hóf störf hjá Evrópuráðinu kynntist hún manni sínum, Phil- ippe Keller, en hann er yfirlæknir meltingar- skurðlækninga í Colmar þar sem hjónin búa ásamt tveimur sonum, Jens Marc og Ívan Thor, fjórtán og sextán ára. Regína segist reyna að viðhalda íslenskunni hjá drengjunum en segir þó frönsku vera fjöl- skyldutungumálið. Fjölskyldan ver fríum gjarnan á Íslandi og segir hún þá strákana detta strax inn í íslenskuna en segir hún þetta vera erfiða baráttu. „Ég set mig reglulega í íslenskustellingar úti og tek svona íslenskusyrpur, sérstaklega þegar ég er ein með þeim,“ segir hún og bætir við að sér finnist að íslensk stjórnvöld mættu gera miklu meira fyrir öll þessi íslensku börn sem búa erlendis. „Menntamálaráðherra gæti íhugað að setja á laggirnar einhvers konar dagskrá fyrir þessa krakka sem margir hverjir eru á Íslandi öll sumur. Þá gætu líka þessir krakkar kynnst sín á milli því þeir eru með sams konar áhugamál og sams konar tengingu við landið. Það þyrfti að gefa þeim tækifæri til að læra meira um sögu og menningu Íslands, auk íslensku- kennslu. Þessir krakkar eru íslenskir rík- isborgarar og þeir hafa margt að gefa okkur Íslendingum hér heima. Þeir gætu seinna meir komið mjög sterkir inn í atvinnulífið og þá með önnur tungumál og annars konar menntun. Nú eru krakkarnir ekki hluti af menginu hér heima og hafa oft lítið tengsla- og vinanet. Kerfið gæti skoðað betur þau mörgu tækifæri sem felast í þessum börnum. Þetta eru mörg þúsund ef ekki tugþúsundir barna. Við mætt- um passa upp á að missa ekki þessa krakka. Við erum að fá hingað börn af erlendu bergi sem fá aðgang að sínu tungumáli sem er ofsa- lega jákvætt, en það mætti líka huga að ís- lenskum börnum sem alin eru upp erlendis.“ Barnavænir dómstólar Eftir sjö ára starf við verndun tungumála og menningu minnihlutahópa var Regína gerð að yfirmanni einkamálaréttadeildar Evrópuráðs- ins og tók svo einnig við deild opinberra mála. Þar starfaði hún við gerð alþjóðasamninga, persónuvernd, löggjöf, dómstóla og margt fleira. „Á því tímabili byrjaði ég að skrifa tilmæli um barnavæna dómstóla. Þá kviknaði áhuginn á réttindum barna. Á þessum árum skrifaði ég nýjan endurbættan samning um ættleiðingu barna. Þessi tilmæli um barnavæna dómstóla hafa haft mikil áhrif á 47 aðildarríki Evr- ópuráðsins hvað varðar réttindi barna sem þurfa að fara fyrir dómstóla. Þau hafa breytt öllu lagakerfinu í Evrópuráðsríkjunum. Ég skrifaði líka um réttindi barna til þjóðernis, sem var mikið vandamál á þeim tíma og er það enn í dag. Ég og mínar nefndir höfum skrifað mikið af nýrri löggjöf varðandi réttindi barna,“ segir Regína sem var svo ráðin yfirmaður barnaréttardeildar Evrópuráðsins og samhæf- ingarstjóri. Þar hefur hún nú starfað í yfir ára- tug. „Ég þróa mín eigin verkefni og er með mínar eigin nefndir, eins og eftirlitsnefnd sem heitir Lanzarote-nefndin sem fylgir eftir Evrópu- ráðssamningi um verndun barna gegn kynferð- islegu ofbeldi sem og nýrri stýrinefnd um rétt- indi barna sem þróar ný tilmæli fyrir ríkin okkar til að styrkja mannréttindi barna. Svo stýri ég þróunarverkefnum þar sem ég hjálpa ríkjum að styrkja sína löggjöf sem varða rétt- indi barna.“ Regína segir margt hafa breyst til batnaðar í gegnum vinnu hennar og hennar fólks. „Börn eru heyrð. Nú er hlustað á börn og þau fá nú betri aðgang að dómurum. Nú eru dómarar upplýstir um það að ekki sé hægt að taka ákvarðanir um líf barns án þess að hafa talað við barnið ef það er hægt,“ segir Regína og nefnir að börn geti þurft að koma fyrir dóm vegna skilnaðar foreldra, þegar þau hafa sjálf brotið af sér eða séu fórnarlömb sjálf. „Þetta skiptir miklu máli fyrir réttindi barnsins. Í dag tölum við um mannréttindi barna en ekki eins mikið um barnaréttindi. Þau hafa sömu mannréttindi og fullorðið fólk. Áður en barnaréttasamningur Sameinuðu þjóðanna var samþykktur voru börn oft hunsuð og rétt- indi þeirra ekki tekin til greina,“ segir Regína og bendir á að hugsunarhátturinn hafi breyst mikið á síðustu árum. „Það þýðir þó alls ekki að allt sé í lagi. Fólk heldur oft að starfið mitt sé alltaf svo skemmti- legt en þetta er enginn barnaleikur. Langt frá því. Þetta eru raunveruleg mannréttindabrot sem börn verða fyrir.“ Börn eru ekki eign foreldra sinna Lögfræðingurinn Regína Jensdóttir sérhæfir sig í mannréttindum barna í Evrópu, en vandamálin eru víða og mörg börn verða fyrir mannréttindabrotum og ofbeldi. Regína vinnur að ýmsum breytingum til að styrkja löggjöf 47 aðildarríkja Evrópuráðsins og telur hún afar mikilvægt að raddir barna fái að heyrast. Regína segir íslenska Barnahúsið vera gullmola sem mætti kynna víðar. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.