Morgunblaðið - 09.09.2020, Blaðsíða 15
UMRÆÐAN 15
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 9. SEPTEMBER 2020
www.alver.is S: 896 4040
LauraStar á Íslandi
Umhverfisvænt
og náttúrulegt
Þurrgufan í LauraStar hreinsar
fötin þín á náttúrulegan hátt án
þess að nota efnavörur.
Meira en 99,999% af bakteríum,
sveppagróðri, rykmaurum
og lykt er útrýmt á
áhrifamikinn hátt.
Þurrgufan hjá LauraStar skilar
fatnaðinum fullkomlega þurrum
og gefur þannig örverum litla
möguleika á að vaxa.
Einn þeirra erlendu
tónlistarmanna, sem
getið er í ágætri bók
Óðins Melsted „Með
nótur í farteskinu“, og
út kom hjá Sögufélag-
inu fyrir nokkrum ár-
um, var dr. Heinz
Edelstein.
Hann fæddist í Bonn
1902, lauk doktorsprófi
í tónvísindum frá há-
skólanum í Freiburg (ritgerð hans
fjallaði um viðhorf Ágústínusar
kirkjuföður til tónlistar) og var
sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Ís-
lands; hafði flust hingað til lands á
stríðsárunum. Árið 1952 stofnaði
hann Barnamúsíkskólann og var
fyrsti skólastjóri hans (Tón-
menntaskóli Reykjavíkur núna).
Þetta var tæpur meðalmaður,
grannur, hvíthærður með gulbrúnt
litaraft, sem oftast klæddur ljós-
gráum alfatnaði.
Það varð hljóðbært í Reykjavík,
að dr. Edelstein væri svo mikill út-
lendingur á Íslandi, að hann hefði
jafnvel steikt skyr.
Kennsla hans fór fram í Vals-
heimilinu fyrst í stað, en fluttist
seinna í húsakynni Gagnfræðaskóla
Vesturbæjar, vestast á Hringbraut-
inni, en sú bygging var seinna kölluð
JL-húsið, kennd við Jón Loftsson.
Tónfræðin
Dr. Edelstein lagði í kennslu sinni
áherslu á hreyfingu eftir hljóðfalli.
Til er ljósmynd af krökkum á gangi
um salinn í Valsheimilinu, í takt við
einhverja hrynjandi. Lært var að
þekkja lengdargildi nótnanna með
því að segja ta-a-a-a við heilnótur,
ta-a við hálfnótur, ta við fjórðaparts-
nótur og ta-tí við áttundapartsnótur.
Líka kom duglega við sögu tonica-
do-kerfið: do-re-mí-fa-so-la-tí-do; og
æfðu krakkarnir sig að lesa hljóð af
blaði, syngja eftir nótum sem kallað
er, og nefna tónana um leið þessum
nöfnum. Jafnframt var spilað á
blokkflautu. Þegar sungið var fylgdi
hverjum tóni ákveðið tákn, sem
myndað var með hægri/vinstri
hendi. Do var krepptur hnefi, sem
haldið var ofan við beltisstað, re var
flatur lófi eilítið ofar og stefndu fing-
ur 45° upp á við, mí
kom næst með flötum
lófa haldið lárétt, fa var
krepptur hnefi með því
fráviki, að vísifingur
benti 45° niður í áttina
að tóninum fyrir neð-
an, so var flatur lófi,
opinn, og stefndi hönd-
in nú nær lóðrétt upp í
loftið, eins og þegar
veifað er í kveðjuskyni,
la var aftur flatur lófi
láréttur, haldið á móts
við hársræturnar, tí
var krepptur hnefi, með vísifingri
bendandi 45° upp á við og loks var
do aftur krepptur hnefi rétt fyrir of-
an höfuðið. Þessi tákn og sá veru-
leiki, sem þau birtu, með stórum og
litlum tónbilum á viðeigandi stöðum,
hafa ekki gleymst síðan, því að hér
var lögð afar ákjósanleg undirstaða
til skilnings á tónstiganum.
Gígjurnar
Þegar forskólanum lauk, og
ákveða skyldi hvort og á hvaða
hljóðfæri krakkarnir skyldu læra,
tók dr. Edelstein af skarið og ákvað,
að lært skyldi á gígju. En hvað var
nú það? Þessi dugmikli hugsjóna-
maður hafði látið koma frá útland-
inu hljóðfæri, sem hér voru ókunn
áður. Þau finnast ekki heldur í upp-
flettiritum, að minnsta kosti ekki í
fljótu bragði. En Þjóðverjar hófu að
smíða þessi hljóðfæri á öndverðri
20. öld með hliðsjón af fornum
instrúmentum. Gígjurnar voru af
tveimur stærðum. Sú meiri var
nokkru minni en knéfiðla, hin tals-
vert stærri en fiðla. Þýskir kölluðu
þessi hljóðfæri „Fidel“ (fiðla hjá
okkur), en fiðlu nefna Þjóðverjar
„Geige“ (sama og gígja á íslensku).
Báðum var gígjunum haldið á milli
hnjánna. Stærri gígjunni var stutt í
gólfið, líkt og gerist hjá sellóleik-
urum; hún var aukin pinna niður úr
sér, sem eftir atvikum var af grímu-
lausri óskammfeilni höggvið ofan í
línoleum-gólfdúkinn (seinna parket).
En sú minni var án þessa prjóns.
Leikið var með boga, sem þó var
frábrugðinn sellóbogum núna;
froskurinn var einfaldari að gerð og
stöngin sveigðist í átt frá hárunum,
eins og gerðist fyrr á öldum. Auk
þess var haldið á þessum bogum
eins og kontrabassaleikarar sam-
tímans gera, þ.e. ef þeir fara eftir
þýska skólanum: lófinn snýr upp.
Gígjurnar voru ljósgular að lit, en
sumar brúnar. Enn er ótalið það,
sem ef til vill var merkilegast við
þessi hljóðfæri, en það voru þver-
bönd úr girni, sem felld voru ofan í
gripbrettið eins og á spönskum gít-
ar. Þetta var gert til þess að auð-
velda hljóðfæraleikaranum að finna
fingrunum réttan stað til þess að
hitta á hreina tóninn.
Söngurinn
Dr. Edelstein var enginn aukvisi í
uppelsisstarfi sínu. Hann leitaði til
íslenskra skálda um kveðskap við
barnamúsík. Það var Þorsteinn
Valdimarsson, sem orti „Fiðlu-
Hansi, komdu á kreik, krakkar vilja
dansa, dansa eftir léttum leik, litla
stund hjá Hansa“. Lagið er aðeins
þriggja tóna, en gladdi allt um það
fyrstu börn Íslandssögunnar, sem
höfðu þá hamingju að hljóta eig-
inlega tónlistarmenntun.
„Heyr, fiðlan hún byrjar“ var
íburðarmeira tónverk en „Fiðlu-
Hansi“. Hér var um að ræða fimm
radda lag, og hafði hver rödd sinn
sérstaka texta. Fyrsta röddin söng
lagið: „Heyr, fiðlan hún byrjar og
fagnandi ómar, heyr, fiðlan hún
byrjar með fagnaðarbrag.“ Önnur
röddin kom þá til skjalanna sem
fylgirödd, á meðan lagið var end-
urtekið: „En klarínettan, klarín-
ettan syngur dúa-dúa dátt og blítt,
en klarínettan, klarínettan syngur
dúa-dúa-dú!“ Þriðja rödd: „Og svo
gellur við trompettinn, ta-ta-ta-
tatara-ta-ta-ta-ta-tatara, og svo gell-
ur við trompettinn o.s.frv.“ Sú
fjórða: „En pákunni er létt um sitt
lag eftir vanda, fimm einn einn einn
fimm fimm fimm, búmm búmm
búmm búmm!“ Og sú fimmta og síð-
asta: „En hornið blæs og hvílir sig,
en hornið blæs og hvílir sig!“
Síðast voru allar raddirnar farnar
að syngja saman og þá var komin
heil hljómsveit. Það er síst ofmælt,
þegar sagt er að börn muni það
lengi, sem þau læra ung. Þetta litla
hljómsveitarverk hefur ekki
gleymst, þótt ekki hafi það heyrst
sungið, síðan krakkarnir í Barna-
músíkskólanum hjá dr. Edelstein
fluttu það.
Fleiri nótur í farteskinu
Eftir Gunnar
Björnsson » Stærri gígjan var
aukin pinna niður úr
sér, sem eftir atvikum
var af grímulausri
óskammfeilni höggvið
ofan í línoleum-gólfdúk-
inn (seinna parket).
Gunnar Björnsson
Höfundur er pastor emeritus.
Móttaka aðsendra greina
Morgunblaðið er vettvangur lifandi umræðu í landinu og birtir aðsendar grein-
ar alla útgáfudaga.
Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota
innsendikerfi blaðsins. Kerfið er auðvelt í notkun og tryggir öryggi í sam-
skiptum milli starfsfólks Morgunblaðsins og höfunda. Morgunblaðið birtir
ekki greinar sem einnig eru sendar á aðra miðla.
Kerfið er aðgengilegt undir Morgunblaðslógóinu efst í hægra horni forsíðu
mbl.is. Þegar smellt er á lógóið birtist felligluggi þar sem liðurinn „Senda inn
grein“ er valinn.