Morgunblaðið - Sunnudagur - 06.09.2020, Qupperneq 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6.9. 2020
LÍFSSTÍLL
Englendingarnir frægu náðu jafntefli
Enskar sparkmenntir hafalöngum verið í hávegum hafð-ar hér við nyrstu voga. Fyrir
vikið varð uppi fótur og fit þegar
fréttist að enska landsliðið myndi
sækja það íslenska heim í júníbyrjun
1982. Um var að ræða vináttuleik en
enska liðið var að búa sig undir þátt-
töku á HM á Spáni, sem hófst örfáum
dögum síðar, en hið íslenska að stilla
saman strengi sína fyrir undankeppni
EM í Frakklandi tveimur árum síðar.
Englendingar höfðu ekki valið end-
anlegan hóp fyrir HM og notuðu leik-
inn til að skoða leikmenn sem voru á
jaðri hópsins; meðan skærustu
stjörnurnar á borð við Kevin Keegan,
Bryan Robson, Ray Wilkins og Peter
Shilton sátu heima. Það kom þó ekki
að sök frá sjónarhóli sparkelskra Ís-
lendinga enda menn eins og Glenn
Hoddle, Phil Neal, Terry McDermott
og Cyrille Regis, sem völdust til verk-
efnisins, einnig fastagestir í stofum
landsmanna. Á móti kom að nafntog-
aðasti leikmaður Íslands, Ásgeir Sig-
urvinsson, var ekki með vegna
meiðsla.
Ekki var síður ástæða til að gleðj-
ast yfir úrslitum leiksins en honum
lauk með jafntefli, 1:1. Í umsögn
Morgunblaðsins daginn eftir kom
fram að leikurinn hefði verið enn einn
stórsigur fyrir íslenska knattspyrnu
og að það hefðu verið Englending-
arnir frægu sem náðu jafntefli við
þetta tækifæri en ekki öfugt. „Ekki
er gott að segja til um við hverju al-
menningur bjóst af íslenska liðinu, en
ekki er ólíklegt að lengst af hafi
frammistaða þess farið fram úr björt-
ustu vonum hinna bjartsýnu. Í fyrri
hálfleik er skemmst frá að segja að ís-
lenska liðið var betri aðilinn og í síð-
ari hálfleik mátti lengi vel vart á milli
sjá. Hins vegar dró nokkuð af ís-
lenska liðinu síðasta stundarfjórð-
unginn, enda tveir af bestu mönnum
liðsins þá farnir út af meiddir, þeir
Arnór Guðjohnsen og Lárus Guð-
mundsson,“ skrifaði Guðmundur
Guðjónsson blaðamaður í inngangi
sínum.
Eins og Guðmundur gat um byrj-
uðu Íslendingar betur og Joe Corrig-
an markvörður Englands þurfti að
vera mun betur á verði en Guð-
mundur Baldursson, kollegi hans.
Fyrsta mark leiksins kom á 22. mín-
útu og var því svo lýst í Morgun-
blaðinu: „Atli Eðvaldsson náði knett-
inum á vallarmiðjunni, lék út á vinstri
vænginn og brunaði fram völlinn.
Lárus var á vinstri hönd, Arnór á
hægri og áður en þeir ensku gátu
spornað við stakk Atli glæsilegri
sendingu inn fyrir vörnina, í veg fyrir
Lárus sem hlaupið hafði í eyðuna.
Lárus lék að endamörkunum og
renndi knettinum út til Arnórs sem
skoraði með þrumuskoti neðst í blá-
hornið. Frábært mark!“
Markið kom víst flatt upp á gestina
sem áttu erfitt uppdráttar fram að
leikhléi. Englendingar byrjuðu seinni
hálfleik betur og Guðmundur varði
vel aukaspyrnu frá Hoddle. Eftir það
sóttu Íslendingar aftur í sig veðrið og
Arnór fékk dauðafæri sem Corrigan
varði meistaralega. „Ég lagði mig all-
an fram við að ná boga á boltann en
um leið að hafa skotið fast. Ég mátti
ekki fara nær því þá hefði ég þrengt
skotvinkilinn um of. Það sem skorti á
skotið var að boltinn var ekki alveg
nógu hár og í of litlum boga,“ sagði
Arnór eftir leik.
Arnór og Trausti Haraldsson kom-
ust í þokkleg færi áður en Englend-
ingar jöfnuðu. „Glenn Hoddle stal
knettinum af íslenskum leikmanni á
miðjum vallarhelmingi íslenska liðs-
ins, óð upp völlinn og sendi knöttinn
síðan til Paul Goddard sem gat vart
annað en skorað, þó svo að Guð-
mundur hafi verið nálægt því að
verja,“ stóð í leiklýsingu Morg-
unblaðsins en Goddard hafði skömmu
áður komið inn á sem varamaður.
Gestirnir voru sterkari aðilinn eftir
þetta og komust næst því að gera sig-
urmarkið þegar miðvörðurinn Rus-
sell Osman átti skalla í þverslá. En
inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan
1:1-jafntefli.
Stórkostlegur leikmaður
Morgunblaðið var á því að besti mað-
ur íslenska liðsins og reyndar lang-
besti maður vallarins hefði verið Arn-
ór Guðjohnsen. „Hann er orðinn
stórkostlegur leikmaður, sívinnandi,
síógnandi, fljótur og teknískur. Einn-
ig má geta Janusar Guðlaugssonar,
Lárusar Guðmundssonar, Arnar
Óskarssonar og Guðmundar Bald-
urssonar. Atli og Karl [Þórðarson]
áttu mjög góða spretti, en vörn liðsins
var hins vegar ekki traust á köflum.
Þegar draga tók af íslenska liðinu
leyndi sér hins vegar ekki hversu
snjall leikmaður Glenn Hoddle er.
Peter Withe og varamaðurinn Paul
Goddard stóðu einnig mjög vel fyrir
sínu. “
Jóhannes Atlason landsliðsþjálfari
var hinn rólegasti þegar Morgun-
blaðið hitti hann að máli í leikslok.
Hann var búinn að kveikja í pípunni
sinni og tottaði hana ótt og títt.
„Ánægður með árangurinn, jú að
sjálfsögðu. Ég er stoltur af þessum
strákum eins og allir Íslendingar
geta verið. Þeir eru satt best að segja
löngu hættir að koma mér á óvart.
Það eina sem ég var hræddur við var
það að þeir keyrðu sig alveg út,“
sagði Jóhannes.
„Það var fyrst og f remst sterk liðs-
heild sem náði þessum góða árangri.
Við börðumst vel og megum vel við
una að ná jafntefli við enska lands-
liðið,“ sagði Arnór Guðjohnsen sem
valinn var maður leiksins og hlaut að
launum 5.000 króna peningaverðlaun
frá fasteignasölunni Húsafelli. Ekki
amalegt!
Arnór Guðjohnsen (hulinn að hluta)
kemur Íslandi yfir gegn Englandi 1982 án
þess að Joe Corrigan fái rönd við reist.
Ljósmynd/Kristján Örn
Enska landsliðið í
knattspyrnu verður
gestur þess íslenska á
Laugardalsvellinum
um helgina í fyrsta sinn
í 38 ár. Síðast skildu
sveitirnar jafnar, 1:1, í
sumarbyrjun 1982.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
„Íslenska liðið lék mjög vel, og
verðskuldaði svo sannarlega
þessi úrslit. Það var ekkert van-
mat hjá okkur til. Við vissum
vel að íslenska liðið var sterkt
og gat leikið vel. Það er enginn
landsleikur auðveldur. Þessi úr-
slit hljóta að verða lyftistöng
fyrir íslenska knattspyrnu,“
sagði goðsögnin Bobby Robson,
sem stýrði enska liðinu í leikn-
um í fjarveru einvaldsins, Rons
Greenwoods.
Sér í lagi var Robson hrifinn
af því hversu sterkur varnar-
leikur íslenska liðsins var í síðari
hálfleiknum en þá varðist liðið
mjög vel.
Miðvörðurinn Steve Perry-
man tók í sama streng. „Þetta
er góður árangur hjá ykkur. Það
er ótrúlegt að svona margir
góðir knattspyrnumenn komi
frá ekki fjölmennari þjóð,“
sagði Perryman. Á móti kom að
honum þótti völlurinn lélegur.
Verðskuldaði úrslitin