Morgunblaðið - 10.10.2020, Síða 45
MENNING 45
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. OKTÓBER 2020
Hið langa, trausta og farsælasamband Þjóðleikhússinsog Thorbjörns Egners ersennilega sú hefð sem
áhugafólk um nýsköpun í því húsi
myndi síðast hrófla við. Það er vel.
Auðvitað þýðir það minna pláss fyrir
nýsköpun fyrir börnin, en verðmætin
sem felast í að skapa sameiginlegan
reynsluheim, sameiginlegar leikhús-
minningar fyrir kynslóðirnar eru
ómetanleg. Auðvitað eru Dýrin í
Hálsaskógi og Kardemommubærinn
gallagripir á mælikvarða dramatískra
gæðastaðla. Það fyrra með sinn fallega
siðaboðskap í samhengi þar sem hann
gengur engan veginn upp, hið síðara
harla stefnulaust og ódramatískt. Og
af hverju fannst Egner svo góð hug-
mynd að láta stórafmæli rígfullorðinna
aukapersóna vera hápunkta að hann
notaði hana í báðum verkunum?
Hvað með það? Við viljum öll að
börnin okkar og barnabörnin fái að
heimsækja Hálsaskóg og Karde-
mommuborg eins og við gerðum. Og
svo eru verkin auðvitað bæði bráð-
skemmtileg þrátt fyrir vankanta sem
öllum er á endanum sama um nema
geðvondum gagnrýnendum.
Fyrir utan þá ræktarsemi að sýna
verkin á hæfilega margra ára fresti í
takt við tímans þunga nið þá má hrósa
Þjóðleikhúsinu fyrir að ganga ekki
óhóflega langt í að „fríska upp á“ verk-
in, sleppa hönnuðum og leikstjórum
aldrei algerlega lausum, en gefa engu
að síður svigrúm til að tryggja fersk-
leika og andrými. Það blasir við í svið-
setningu Ágústu Skúladóttur, þeirri
sjöttu frá því bæjarfógetinn Bastían
hóf fyrst upp raust sína í álfahöllinni
fyrir sextíu árum. Það fer vel á því að
láta leikmyndina hverfast um styttu af
Egner sjálfum á bæjartorginu í
Kardemommu á þessum tímamótum.
Leikmynd Högna Sigurþórssonar
stekkur engin heljarstökk frá blænum
yfir teikningum Egners sjálfs en er
engu að síður ómótstæðilegt verk í
sjálfri sér með öllum sínum öngstræt-
um og skúmaskotum og vísunum til
Austurlanda nær, jafnvel alla leið í
hrekkjavökulandið í Nightmare before
Christmas en þó einkum og sér í lagi
vestur um haf til latnesku Ameríku,
varnarþings töfraraunsæisins sem
rúmar þetta ævintýri allt; húsvanin
ljón, talandi úlfalda og páfagauka og
erkinorðurevrópskt persónugallerí og
sporvagn.
Latínublærinn birtist hér og hvar í
litríkum og glæsilegum búningum
Maríu Th. Ólafsdóttur og ekki síst í út-
setningum Karls Olgeirs Olgeirssonar
og frábærlega spilandi hljómsveit
hans á tónlistinni. Langoftast líður
þessum sígrænu lögum vel í salsagall-
anum, þótt sum verði eilítið þunglama-
leg þegar búið er að reima á þau dans-
skóna. Ég saknaði til dæmis
„pattersong“-stemningarinnar í reiði-
lestri Soffíu frænku, sveiflan dró að-
eins tennurnar úr skarexinni ógur-
legu.
Reyndar fór ekki mikið fyrir
hræðslu við skassið meðal bæjarbúa,
vel hefði mátt hugsa sér meiri skjálfta
í hnjám Tobíasar og síðar Bastíans
þegar þeim er att á foraðið. Nógu mik-
ið sópaði að Soffíu í þrautreyndri túlk-
un Ólafíu Hrannar Jónsdóttur með sitt
óbrigðula nef fyrir óvæntum kóm-
ískum tímasetningum. Þórhallur Sig-
urðsson stígur hér á svið eftir (að ég
held) nokkuð langt hlé og var sannfær-
andi Tóbías, hjárænulegur eins og við
á. Ég hefði hins vegar verið til í aðeins
skýrari hugsun í túlkun Bastíans bæj-
arfógeta og frúar hans. Auðvitað var
ekkert upp á þau Örn Árnason og
Ragnheiði Steindórsdóttur að klaga,
en hefði ekki verið hægt að gefa manni
aðeins skýrari mynd af hvað býr að
baki reiðareksstefnu fógetans í mál-
efnum bæjarins. Er hann bernskur,
húmanískur, hippískur eða kannski
bara svona latur? Og hvernig er sam-
bandi þeirra hjóna háttað? Smá nostur
við þetta hefði skilað sér ríkulega.
Minna gerði til þótt þeim Bjarna
Snæbjörnssyni, Gunnari Smára
Jóhannessyni, Hildi Völu Baldurs-
dóttur og Sigríði Eyrúnu Friðriks-
dóttur yrði ekki mikið úr smáhlut-
verkum pylsugerðarmanns, kaup-
manns, sporvagnsstjóra og bakara,
þótt meira afgerandi – segi ekki ýkt –
týpusmíð hefði verið möguleg og ekki
stungið í stúf í þessu mikla sjónarspili.
Unga fólkinu var ágætlega borgið í
höndum Völu Frostadóttur, Jóns
Arnórs Pétursonar og Bjarna Gabríels
Bjarnasonar, en önnur þrenning leysir
þau af í hlutverkum Kamillu, Tomma
og Remós í ströngu sýningar-
prógramminu.
Að Soffíu frátalinni veltur þetta
samt allt á ræningjunum. Og það er
óhætt að segja að þeir Hallgrímur
Ólafsson, Sverrir Þór Sverrisson
(Sveppi) og Oddur Júlíusson standi
undir þeirri ábyrgð að túlka þá
ábyrgðarlausu þokkapilta Kasper,
Jesper og Jónatan. Frábær týpu-
sköpun, fimi og fíflagangur í hárréttu
jafnvægi halda gleðinni gangandi frá
því þeir birtast fyrst, öfundsjúkir utan-
garðsmenn sem langar á bæjar-
hátíðina en þurfa að láta sér nægja að
stela sporvagninum. Þegar heim var
komið í grenið fengu þeir verðskuld-
aðan mótleik hjá fimu og sniðugu ljóni
Ernestos Camilos Aldazábals Valdés,
og Ólafía Hrönn fullkomnaði svo gam-
anið eftir að hún var inn borin. Mitt
uppáhaldsatriði var nú samt undir lok-
in þegar þeir félagar eru lausir úr prís-
undinni, orðnir bæjarsómar eftir
hetjudáðir við páfagaukabjörgun og
ákveða að fá sér langþráðan göngutúr
um miðbæinn, en kunna það ekki. Eitt
af fjölmörgum smáatriðum sem þarf
til að krydda svona viðamikið sjó úr
sundurlausu efni.
Sýningin springur út af krafti þegar
söngleikjaþáttur hennar er í for-
grunni. Ágústa Skúladóttir hefur ein-
stakt lag á að blása lífi í fjörmiklar
hópsenur og lítið hægt að fullyrða um
hvar því framlagi sleppir og hvar
kröftugir og skemmtilegir dansar
Chantelle Carey taka við. Það var til
dæmis sérlega gaman að sjá alla
þorpsbúa hamast við að æfa sig í
hverju skúmaskoti leikmyndarinnar í
aðdraganda bæjarhátíðarinnar. Stóru
dansnúmerin voru glæsileg og frábær-
lega flutt af fjölskipuðum danshóp á
öllum aldri. Það sama má segja um
fjöl- og fimleikanúmerin öll. Það er
óhætt að taka undir með bæjarfóg-
etanum; það er hreint hneyksli að það
hafi ekki verið starfandi fjölleikahús í
þessum bæ fyrr en auðnuleysinginn
Jesper stundi upp úr sér draumum
sínum um sirkusstjórastöðu.
Kardemommubærinn er ansi hreint
losaralegt leikrit frá höfundarins
hendi, en gefur að sama skapi mikla
möguleika í að skapa skrautlegt sjón-
arspil, byggja ævintýraheim og gefa
tilfinningu fyrir hve lífið getur verið
gott þegar fólk hefur tóm og frið til að
lifa og leika sér. Þau Ágústa, Chant-
elle, Högni, María, Karl og Ólafur
tryggja ásamt sínum fjölskipaða hæfi-
leikaher að þeir möguleikar eru vel
nýttir og ný kynslóð minnt á að þegar
allir geta bara lifað og leikið sér þá er
það nákvæmlega það sem gerist.
Gleði í gamla bænum
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Sjónarspil „Kardemommubærinn er ansi hreint losaralegt leikrit frá höfundarins hendi, en gefur að sama skapi mikla möguleika í að skapa skrautlegt
sjónarspil, byggja ævintýraheim og gefa tilfinningu fyrir hve lífið getur verið gott þegar fólk hefur tóm og frið til að lifa og leika sér,“ segir í rýni.
Þjóðleikhúsið
Kardemommubærinn bbbbn
Eftir Thorbjörn Egner. Tónlist og söng-
textar: Thorbjörn Egner. Þýðing leik-
texta: Hulda Valtýsdóttir. Þýðing söng-
texta: Kristján frá Djúpalæk. Leikstjórn:
Ágústa Skúladóttir. Tónlistarstjórn og
útsetningar: Karl Olgeir Olgeirsson.
Danshöfundur: Chantelle Carey. Leik-
mynd: Högni Sigurþórsson. Búningar:
María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Ólafur
Ágúst Stefánsson. Hljóð: Kristinn Gauti
Einarsson. Sirkusstjóri: Nicholas Arthur
Candy. Leikgervi: María Th. Ólafsdóttir
og Valdís Karen Smáradóttir. Höfundar
dýragerva: Högni Sigurþórsson og
María Th. Ólafsdóttir. Grímugerð: Ásta
Jónsdóttir og Mathilde Anne Morant.
Hljómsveit: Birgir Bragason, Haukur
Gröndal, Karl Olgeir Olgeirsson, Samúel
Jón Samúelsson, Snorri Sigurðarson,
Stefán Már Magnússon og Svanhildur
Lóa Bergsveinsdóttir. Leikarar: Hall-
grímur Ólafsson, Sverrir Þór Sverrisson
(Sveppi), Oddur Júlíusson, Ernesto
Camilo Aldazábal Valdés, Ólafía Hrönn
Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteins-
dóttir, Bergþóra Hildur Andradóttir,
Vala Frostadóttir, Arnaldur Halldórsson,
Jón Arnór Pétursson, Bjarni Gabríel
Bjarnason, Hilmar Máni Magnússon,
Örn Árnason, Ragnheiður K. Steindórs-
dóttir, Þórhallur Sigurðsson, Sigríður
Eyrún Friðriksdóttir, Bjarni Snæbjörns-
son, Gunnar Smári Jóhannesson, Snæ-
fríður Ingvarsdóttir, Hildur Vala Bald-
ursdóttir, Hákon Jóhannesson, Hera
Katrín Aradóttir, Rebecca Scott Lord,
Nicholas Arthur Candy, Sindri Diego,
Rebecca Hidalgo, Hafrún Arna Jóhanns-
dóttir, Jórunn Björnsdóttir, Katla Borg
Stefánsdóttir, Mikael Köll Guðmunds-
son, Steinunn Lóa Lárusdóttir, Telma
Ósk Bergþórsdóttir, Hrafnhildur Hekla
Hólmsteinsdóttir, Lísbet Freyja Ýmis-
dóttir, Tinna Hjálmarsdóttir, Vilhjálmur
Árni Sigurðsson, Aron Gauti Kristins-
son, Edda Guðnadóttir, Kaja Sól Láru-
dóttir, Kári Jóhannesarson, Alba Mist
Gunnarsdóttir, Ísabel Dís Sheehan,
María Pála Marcello, Ylfa Blöndal Egils-
dóttir, Jórunn Björnsdóttir, Telma Ósk
Bergþórsdóttir og Auður Finnboga-
dóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóð-
leikhússins 26. september 2020.
ÞORGEIR
TRYGGVASON
LEIKLIST
Sótthreinsi-
þrif
Kleppsmýrarvegur 8 | 104 Reykjavík | 581 4000 | solarehf.is | solarehf@solarehf.is
Hafðu samband og við gerum fyrir þig
þarfagreiningu og tilboð í þjónustu
án allra skuldbindinga.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
gegn inflúensusmiti