Morgunblaðið - 31.10.2020, Side 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. OKTÓBER 2020
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Heiðagæs hefur í auknum mæli
numið land á láglendi á síðustu ár-
um. Þekkt var að hún sótti neðar í
Skagafirði, en á síðustu árum hefur
þetta einnig gerst í Öxarfirði, á Út-
héraði, sunnan Vatnajökuls og víð-
ar, að sögn Halldórs Walters Stef-
ánssonar, fuglafræðings hjá
Náttúrustofu Austurlands. Hann
segir heiðagæs vera ótrúlega teg-
und, sem hafi sýnt mikla aðlög-
unarhæfni.
Í um 40 ár hefur verið fylgst með
heiðagæsum á Snæfellsöræfum og
talsverðar rannsóknir hafa verið á
heiðagæsum á vatnasviði Kára-
hnjúkavirkjunar, sem tók til starfa í
lok árs 2007. Þá hafa breskir vís-
indamenn fylgst með fuglinum hér
á landi og settu meðal annars fyrstu
GPS-senda á tvo karlfugla árið
2013. Síðan hafa þeir bætt í og sett
tugi senda á heiðagæsir, ýmist á
vetrarstöðunum í Bretlandi eða vítt
og breitt hér á landi.
Reyndu varp sem næst lóninu
Náttúrustofa Austurlands hefur
gert það sama síðustu ár, en frá
2005 til þessa árs hefur Náttúru-
stofa Austurlands vaktað heiðagæs-
ina í samvinnu við Landsvirkjun.
Sumarið 2017 setti náttúrustofan
senditæki á fimm heiðagæsir á
Vesturöræfum, en fjórar gæsir bera
nú slíka senda.
Meðal niðurstaðna af þeirri vökt-
un var að sögn Halldórs að þegar
byrjað hafi að hækka í Háslóni 2007
hafi flotið yfir um 500 hreiður. Árið
á eftir hafi gæsirnar reynt að verpa
sem næst lóninu, en eftir það flutt
sig upp á hásléttuna í 650-700 metra
hæð yfir sjávarmáli, sem er hátt í
100 metrum hærra en Þjórsárver.
Þarna séu vel gróin svæði, en gæs-
irnar taki talsverða áhættu því
þarna vori um tveimur vikum
seinna heldur en á gamla varp-
staðnum áður en lónið kom.
Aftur og aftur í sömu hreiðrin
Heiðagæs hefur fjölgað mjög á
vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar á
síðustu áratugum og er staðan sú
sama þar og annars staðar. Virkj-
unarframkvæmdir hafa því ekki
haft áhrif til fækkunar. Halldór seg-
ir að spurningar hafi vaknað um
hvort þær gangi of nærri gróðri og
því hafi verið ráðist í gps/gsm-
merkingar á heiðagæsum á svæðinu
og eins varðandi landrof og sandfok.
Gripið hafi verið til ýmissa for-
varna, t.d. með girðingum, sand-
gryfjum, varnargörðum og upp-
græðslu sem tíminn eigi eftir að
leiða í ljós hvernig virka.
Þegar harðindi séu að vori færi
sumar gæsirnar sig neðar og verpi
þá í minni hæð. Þekkt sé að fugl-
arnir leiti aftur og aftur á sömu
svæðin og í sömu hreiðrin, þannig
að fugl sem klekst úr eggi á lág-
lendi sé líklegri til að verpa þá sjálf-
ur á láglendi.
Halldór segir að senditækin hafi
gefið margvíslegar upplýsingar um
ferðir fuglanna og búsvæði, t.d.
hvaða gróðurlendi gæsin nýtir og
hvernig. Eitt af því sem senditæki
hafi sýnt sé að um leið og ungar
verði fleygir fari gæsirnar af
Vesturöræfum og út á Fljótsdals-
heiði og austur fyrir Snæfell. Þar er
lítið varp og geta gæsirnar nýtt sér
að þar hefur lítið verið bitið yfir
sumarið.
Halldór rifjar upp að eitt vorið
hafi Náttúrustofan fengið póst frá
breskum vísindamönnum. Þeir
hefðu haft áhyggjur af heiðagæs
með senditæki og óttuðust að hún
væri dauð, þar sem hún hefði ekki
bært á sér um tíma þar sem hún
var inni í Fljótsdal. Þegar að var
gáð lá gæsin á hreiðri inni í miðjum
lerkiskógi, en heiðagæsir eru ekki
þekktar fyrir að verpa á láglendi
inni í miðjum skógi. Þetta dæmi sé
eitt af mörgum sem sýni hversu vel
heiðagæsin aðlagast.
Gæsirnar sem Náttúrustofan hef-
ur merkt héldu af landi brott í sept-
embermánuði, eftir sumardvöl á
hefðbundnum slóðum á Snæfells- og
Brúaröræfum. Þær bera flestar
nöfn starfskvenna á stofunni og
senda þær Áslaug, Katrín, Erlín/
Elín og Kristín samstarfsfólki sínu
mikilvægar upplýsingar daglega.
Halldór segir að tvær gæsanna hafi
undanfarið verið á mörkum Skot-
lands og tvær norðan við Liverpool,
en allar þvælast þær mikið um.
Aukakrókur hjá Kristínu
Á meðfylgjandi korti má sjá að
ein gæsanna (Kristín) hefur tekið
mikinn hlykk norður fyrir Hjaltland
á suðurleiðinni. Halldór segir það
ekki óvenjulegt því vindstrengir
geti borið þær af leið.
Hann nefnir einnig að þegar ein
af gæsunum, sem Bretar höfðu
merkt, var á leið á vetrarstöðvarnar
eitt haustið hafi ein gæsin villst af
leið. Venjan sé sú að þær taki strik-
ið frá Grænlandi til Íslands og það-
an til Bretlands. Þessi fugl hafi hins
vegar villst af leið og flogið norður
fyrir Ísland og út á reginhaf milli
Íslands og Noregs. Þar hafi hún
verið kyrrstæð á hafinu í þrjá daga
meðan hún áttaði sig á stöðunni.
Eftir hvíld á hafinu hafi hún tekið
stefnuna beint í vestur og hlaðið
batteríin á Fjarðarheiði í vikutíma
áður en hún hélt áfram til Bret-
lands.
Mikil aðlögunarhæfni heiðagæsa
Hefur fjölgað mikið á vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar eins og annars staðar Sendar gefa marg-
víslegar upplýsingar Leita meira á láglendi Ein gæsin hitti ekki á Ísland á leið til vetrarstöðva
Heiðagæsin verpur aðeins á Svalbarða, Grænlandi og Íslandi. Hún er al-
ger farfugl hér og hefur aðallega vetursetu í Skotlandi en einnig í vaxandi
mæli í Englandi. Sameiginlegur stofn Íslands og Grænlands hefur tæp-
lega tuttugufaldast frá 1950. Stofninn var ríflega 500 þúsund fuglar
haustið 2015 og hefur lítið breyst síðan. Á sama tíma og stofn heiðagæs-
ar hefur stækkað hefur grágæs gefið eftir og einnig blesgæs sem fer hér
um vor og haust.
Mikill meirihluti heiðagæsa verpur hér á landi og er Ísland helsta varp-
land hennar í heiminum en flestir geldfuglarnir fella fjaðrir á Grænlandi.
Þjórsárver voru löngum stærsta varpið en nú er það í Guðlaugstungum
norðvestan Hofsjökuls. Það er jafnframt stærsta heiðagæsavarp í heim-
inum. Varpstöðvarnar eru í votlendum hálendisvinjum, meðfram ám og
lækjum, oft í gljúfrum.
Heiðagæs er grasbítur eins og aðrar gæsir og sækir nokkuð í ræktar-
land á vorin, en annars éta þær einkum mýragróður: starir, hálmgresi,
fífu, einnig elftingar og kornsúru. Síðsumars leggjast þær í berjamó og
kornsúrurætur, segir á fuglavefnum.
Hreiður í hálendisvinjum
STÆRSTA VARP HEIÐAGÆSAR Í GUÐLAUGSTUNGUM
Ljósmynd/Halldór Walter Stefánsson
Merkt í bak og fyrir Heiðagæsin Katrín er ein gæsanna sem bera senditæki. Mynd af Vesturöræfum.
Senditæki voru sett á
heiðagæsirnar á Vestur-
öræfum sumarið 2017 af
Náttúrustofu Austurlands
Kortið sýnir leið
fjögurra merktra gæsa
sem lögðu af stað
til Bretlands 15.-23.
september 2020
Ferðalag heiðagæsa
til vetrarstöðvanna
á Bretlandseyjum
ÍSLAND
ÍRLAND
ENGLAND
SKOT-
LAND
NOREGUR
Fleiri tegundir Halldór með helsingja sem merktur
var við Jökulsárlón í júlí fyrrasumar.
Vinna við systurskipin Vilhelm Þor-
steinsson EA og Börk NK er í full-
um gangi hjá Karstensens-
skipasmíðastöðinni í Skagen í Dan-
mörku. Vilhelm er væntanlegur til
Samherja upp úr áramótum, en
Börkur til Síldarvinnslunnar á vor-
mánuðum.
Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er
rætt við Karl Jóhann Birgisson sem
fylgist með framkvæmdum fyrir
hönd fyrirtækisins. Hann segir að
unnið sé alls staðar í skipinu; til
dæmis er byrjað að klæða veggi,
það er unnið í pípulögnum, verið að
koma öllum vindum fyrir og eins er
unnið í rafkerfinu. „Mörg þessara
verka eru umfangsmikil og má
nefna hvað rafkerfið varðar að
lagðir verða 90 kílómetrar af köpl-
um,“ segir Karl Jóhann meðal ann-
ars.
Styttist í komu
systurskipanna
Ljósmynd/Karl Jóhann Birgisson
Nýsmíði Vilhelm Þorsteinsson EA (t.v.) og Börkur NK á athafnasvæði Karstensens í Skagen í Danmörku.