Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.11.2020, Blaðsíða 8
TÓNLIST
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22.11. 2020
Lærðu tónlist hvenær sem er, hvar semer, þegar þér hentar!“ segir á vefsíðunnitonlistarkennsla.net sem er námstorg
fyrir aukagreinar tónlistarkennslu. Námsefni
er unnið af þaulreyndum tónlistarkennurum og
hefur verið prófað í þó nokkur ár. Skólar og
einstaklingar ganga inn í sérútbúna áfanga fyr-
ir aukagreinar eins og tónheyrn, tónfræði og
tónlistarsögu.
Maðurinn á bak við námstorgið er Stefán S.
Stefánsson, skólastjóri Tónlistarskóla Árbæj-
ar. Hann kveðst hafa þróað kerfið við sinn
skóla, bæði námsefnið og uppsetninguna, með
góðum árangri. „Það er meira en að segja það
að setja upp kerfi af þessu tagi, þannig að þeg-
ar þetta var komið í gagnið hjá okkur fór ég að
velta fyrir mér hvort ekki væri upplagt fyrir
aðra að nýta sér kerfið líka. Ég hef ekki verið
að auglýsa þetta en látið aðra tónlistarskóla
vita og ásóknin er orðin býsna mikil enda hefur
verið vöntun á þessu efni í tónlistarskólakerf-
inu. Ferlið er býsna tímafrekt og flókið, þannig
að í stað þess að láta hvern og einn skóla finna
upp hjólið fannst mér upplagt að deila þessu
með öðrum,“ segir Stefán og bætir við að
áskriftargjaldið sé hóflegt.
Stuðlar að aukinni samvinnu
Þannig hefur kerfið þegar stuðlað að aukinni
samvinnu milli tónlistarskólanna í landinu en
meðal þeirra sem hafa tekið það í sína þjónustu
eru Menntaskóli í tónlist, Listaháskóli Íslands,
Tónlistarskóli FÍH, Skólahljómsveit Grafar-
vogs og Domus Vox söngskóli.
Hér er um brautryðjandastarf að ræða en
Stefán veit ekki til þess að það tíðkist í öðrum
löndum að margir skólar nýti sér eitt og sama
kerfið.
Tonlistarkennsla.net nýtir nýjustu tækni í
fjarnámi tónlistarnáms. Áfangarnir innihalda
myndskeið, æfingapróf, þjálfunarhugbúnað og
próf. Ekkert þarf að gera, allt er tilbúið í einum
pakka. „Þetta er miðlægt námstorg sem fljót-
legt er að setja upp til að þjálfa nemendur í sér-
hæfðum hlutum og kenna vissa áfanga sam-
kvæmt aðalnámskrá tónlistarskólanna. Við
erum ekki að tala um hefðbundnar kennslu-
stundir á netinu, þannig væri aðeins hálf sagan
sögð,“ segir Stefán en kerfið nær yfir allar
aukagreinar fram að miðnámi en tónlistarnám
skiptist í þrjú stig, grunn-, mið- og framhalds-
stig.
Stefán nefnir sem dæmi miðpróf í verklegum
söng en hann hefur þróað hugbúnað sem nem-
ur sönginn, þannig að nemandinn fær viðbrögð
í rauntíma við frammistöðu sinni, varðandi
takt, tónhæð og fleira. Það er í reynd eins og
nemandinn sé með kennarann sér við hlið.
„Þetta hefur gefist vel.“
Áhugamaður um netlausnir
Stefán hefur lengi verið með kerfið í þróun
enda mikill áhugamaður um netlausnir í
kennslu. „Minn gamli skóli, Berklee College of
Music, er með mjög
þróað kerfi sem ég hef
meðal annars horft til.
Tónlistarkerfið hér
heima er mjög íhalds-
samt, kennarar kenna
eins og þeim var kennt,
sem er alls ekki slæmt,
tónlistarkennsla á Ís-
landi er mjög góð. Við
höfum hins vegar að-
eins sofið á verðinum
gagnvart upplýsingatækninni og ég er ekki í
nokkrum vafa um að þetta tvennt getur unnið
mjög vel saman, ef rétt er haldið á spöðunum.“
Stefán er einnig kerfisstjóri fjarkennslu við
Menntaskólann í tónlist og finnur vel að margir
kennarar vilja halda uppteknum hætti. Það sé
jákvæð íhaldssemi en á hitt beri þó að líta að
unga fólkið sætti sig einfaldlega ekki við að
tónlistarkennsla þróist ekki eins og annað í
takt við tæknina. Hver kannast ekki við fras-
ann: „Hvar finn ég þetta á netinu?“
Víða má nálgast leiðbeiningar á netinu en
Stefán varar við efnisveitum eins YouTube í
þessu sambandi. Engin trygging sé fyrir fag-
mennsku þar. „Maður getur alls ekki treyst
þeim aðferðum sem beitt er þar, sumar þeirra
eru beinlínis rangar, sem stafar held ég örugg-
lega af vankunnáttu frekar en illvilja.“
Jafnar muninn til náms
Stefán er hvergi nærri hættur að þróa kerfið
og stefnir að því að bæta hljóðfærakennslu við í
framtíðinni í þeim tilgangi að gera netnámið
eins innihaldsríkt og skemmtilegt og hægt er.
„Fyrir utan þann ótvíræða kost að nemendur
geta stundað netnámið hvar sem er, hvenær
sem er, þá gefur það tækifæri til að jafna mun-
inn til tónlistarnáms. Þetta er mun ódýrara en
einkakennsla, þar sem kennarinn er á staðn-
um, og sparar nemendum og foreldrum þess
utan sporin og keyrsluna. Allir nemendur geta
nýtt sér þetta.“
Rúsínan í pylsuendanum, að sögn Stefáns, er
sú að allt kennsluefnið
er á íslensku en tónlist-
arkennsla á netinu hef-
ur hingað til átt undir
högg að sækja í þeim
skilningi að sáralítið er
til á hinu ástkæra yl-
hýra.
– Hefur kerfið ekki
farið á flug í heimsfar-
aldrinum?
„Jú, það hefur gert
það. Í faraldrinum hafa skólar áttað sig á því að
þeir þurfa að bjóða upp á fjölbreyttari lausnir í
námi og þá kom sér vel að þetta kerfi var tilbú-
ið til notkunar. Ekki svo að skilja að ég hafi
verið að bíða eftir næstu plágu, það hittist bara
svona á,“ segir Stefán sposkur. „Svona eru til-
viljanirnar skrýtnar en vonandi koma sem
flestir til með að geta nýtt sér þessa lausn.“
Neyðin kennir naktri konu …
Eins grátt og kórónuveiran hefur leikið heims-
byggðina þá hefur hún um leið óbeint eflt þekk-
ingu og skilning okkar flestra á undraheimum
netsins og tækninnar. Stefán segir tónlistar-
kennara eins og aðra í auknum mæli vera farna
að tileinka sér tæknina. Neyðin kennir naktri
konu að spinna og allt það. Burtséð frá tónlist-
arkennslu þá telur Stefán blasa við að fólk
komi til með að nota samskiptatækni á borð við
Zoom og Teams í auknum mæli í framtíðinni,
sérstaklega til að halda styttri fundi. Það spari
bæði tíma og fyrirhöfn. „Auðvitað þurfum við
áfram að hittast til að funda en margt má leysa
gegnum fjarfundabúnað. Höfum við ekki áttað
okkur á því áður þá vitum við það nú.“
Þess má geta að honum eru farnar að berast
ábendingar um efni og útfærslur á kerfinu,
sem hann tekur fagnandi. „Viðbrögðin hafa
verið mjög jákvæð en eins og með alla nýja
hluti hafa verið tæknileg vandamál sem við höf-
um leyst.“
Veitir aukið frelsi
Að dómi Stefáns hefur það stundum reynst enn
meiri áskorun að flétta fjarkennslukerfið inn í
venjulegt skólastarf, heldur en tæknilegar
áskoranir þess. Margir af okkar bestu nem-
endum eru mjög niðursokknir og í mörgu öðru
en tónlist, svo sem íþróttum, dansi og öðru
slíku. „Oft stangast tímar og æfingar á hjá
þessum krökkum og þeir þurfa að velja og
hafna, til dæmis að sleppa tímum í aukagrein-
um í tónlist. Þetta kerfi veitir þeim hins vegar
aukið frelsi til að sinna þessu öllu, á þeim tím-
um sem henta þeim best.“
– Þannig að tónlistarkennsla á netinu er
framtíðin?
„Ég myndi ekki segja að hún væri framtíðin,
heldur nútíðin. Unga fólkið er ofboðslega fljótt
að tileinka sér nýjungar og við kennararnir,
hversu íhaldssamir og vanafastir sem við erum,
verðum að laga okkur að þeim veruleika. Það
eru menn líka að gera. Ég þekki marga tækni-
fælna kennara sem hafa tekið á sig rögg og
þegar þeir komast yfir óttann verður ekki aftur
snúið. Menn eru í auknum mæli að færa sig úr
pappír yfir í stafrænt og einn kennari sagði við
mig um daginn – og ljómaði allur: „Ég fer ekk-
ert aftur í gamla farið!““
Ekki framtíðin, heldur nútíðin
Stefán S. Stefánsson, skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar, hefur þróað námstorg fyrir aukagreinar tónlistarkennslu á netinu sem ís-
lenskir skólar og nemendur færa sér nú í auknum mæli í nyt. Stefán talar ekki um framtíðina í þessu sambandi, heldur nútíðina.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Stefán S. Stefánsson er
mikill áhugamaður um
netlausnir í kennslu.
Morgunblaðið/Eggert
’Í faraldrinum hafa skólaráttað sig á því að þeir þurfaað bjóða upp á fjölbreyttarilausnir í námi og þá kom sér
vel að þetta kerfi var tilbúið til
notkunar. Ekki svo að skilja að
ég hafi verið að bíða eftir næstu
plágu, það hittist bara svona á.