Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.11.2020, Blaðsíða 24
Dagrún Matthíasdóttir, listakona, myndlistar-
kennari og kattaræktandi, á í dag þrettán
ketti. Þeir eru engir venjulegir kettir heldur
hreinræktaðir Himalayan Persian.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Krúttleikinn
tók yfir
Það er notalegt um að litast ílitla sæta húsinu hennar Dag-rúnar í miðbæ Akureyrar, en
hún býr þar ásamt eiginmanni sín-
um. Heimasætan er flutt að heiman
og býr nú erlendis, en á heimilinu er
líf og fjör. Þar búa nefnilega þrettán
kettir! Yfir góðum kaffibolla ræðum
við um listina en ekki síður um katta-
ástríðu listakonunnar.
Málverk og gjörningar
Dagrún er Ísfirðingur en endaði á
Akureyri og kennir hún nú myndlist
í Oddeyrarskóla. Hún hefur rekið
gallerí í áraraðir; fyrst Dalí og svo
lengi vel Mjólkurbúðina í Gilinu.
Meðfram kennslu sinnir Dagrún
eigin listsköpun og tilheyrir hún
listahópnum Rösk, hópi fjögurra
listakvenna sem vinna að list sinni í
vinnustofum í Gilinu.
„Þetta er sjálfsprottin samvinna.
Við höfum brallað ýmislegt saman,
eins og gjörninga og skúlptúra. Við
erum mikið með viðburði á hátíðum
og svo stundum við einnig hver sína
list,“ segir Dagrún sem er sjálf mik-
ið í málverkinu.
„Ég er í öllum miðlum málverks-
ins og finnst mjög gaman að gera til-
raunir. Ég leita mikið í náttúruna og
snjóinn en svo reyni ég að ögra
sjálfri mér svo ég festist ekki í einu
myndefni,“ segir Dagrún.
„Svo um daginn opinberaði ég
kattakerlinguna í mér í listinni. Ég
framdi gjörninginn Læður í Mjólkur-
búðinni, en það var kattajóga. Ég fékk
til liðs við mig Gerði Ósk Hjaltadóttur
athafnakonu og Önnu Gunnarsdóttur
textíllistakonu. Við vorum í jóga og ég
tók alla kettlingana með mér. Svo
tóku þeir yfir með krúttleikanum. Það
var kannski minna af jóga og meira af
köttum. Við enduðum svo á að
stökkva út í gil og dansa berfættar.“
Alltaf verið dýrasjúk
Um allt hús má sjá rólega, loðna og
afar sérstaka ketti. Þeir eru með
flatt andlit og stór augu og afar
krúttlegir, svo ekki sé meira sagt.
Það fer ekki á milli mála að Dag-
rún er mikil kisukona.
„Núna á ég fimm. Tvö gamal-
menni og þrjá ræktunarketti. Svo á
bænum núna eru átta kettlingar.
Þannig að það fjölgaði upp í þrettán.
Ég er að rækta þessa tegund, en
ekki markvisst. Það eru þrjú ár síð-
an ég var síðast með got,“ segir hún
en tegundin sem um ræðir er
Himalayan Persian.
„Ég hef alltaf verið dýrasjúk. Ég
myndi eiga hund líka ef maðurinn
segði ekki stopp,“ segir hún og hlær.
„Ef ég átti ekki dýr þegar ég var
lítil, þá fann ég þau og bar heim. Ég
kom heim með ketti, fugla og horn-
síli. Ég tróð mér líka alls staðar í
sveit ef ég átti kost á og var í hestum
á tímabili. Ég er mjög forvitin um
dýr og langaði alltaf að verða
dýralæknir og listamaður.“
Með krúttlegra fés
Árið 1995 fékk Dagrún fyrsta persa-
köttinn.
„Ég sá í Morgunblaðinu að hvítir
kettlingar voru auglýstir til sölu.
Konan sagði ekki að þetta væru silf-
ur-persar fyrr en ég hringdi í hana.
Ég sendi vinkonu mína í Reykjavík á
staðinn og bað hana að athuga hvort
allir kettlingarnir væru eins, til að
athuga hvort þeir væru ekki örugg-
lega hreinræktaðir. Og það reyndist
vera og ég fékk einn sendan til mín
vestur,“ segir hún.
„Næsta fress fékk ég 2004 og sá
skoraði mjög hátt á sýningu og var
gott ræktunardýr. Ég fékk svo læðu
og fór þá að rækta nokkrum árum
síðar.“
Dagrún segist hafa farið alla leið
til Ítalíu að sækja ræktunardýr.
„Ég hafði verið í samskiptum við
ræktandann og heillaðist mjög af
því útliti sem hún var með. Það er
kannski sérviska, en af því að
persinn er svo flatur í framan og
með klesst nef, á hann það til að
vera fýldur á svip. Ég vil frekar
hafa þá með opnari svip og krútt-
legra fés.“
Rólegir litlir búddar
Dagrún segir gríðarlega eftirspurn
vera eftir þessari tegund katta.
„Við erum nú þrjár á landinu sem
ræktum persa og önnum ekki eftir-
spurn. Þetta eru í raun okkar gælu-
dýr þannig að það er engin ofur-
framleiðsla í gangi. Þessir kettlingar
sem ég er með núna eru fæddir í júlí,
í tveimur gotum. Ég er búin að finna
þeim öllum heimili og það er langur
biðlisti,“ segir hún og viðurkennir að
það sé mikil vinna að sjá um þrettán
ketti.
„Þeir éta mikið og svo þarf maður
að vera duglegur að skipta um sand.
Þetta eru ekki útikettir. Þeir eru
svifaseinir og mjög slakir. Þetta eru
litlir búddar. Þeir mundu ekki endi-
lega fara af götunni þótt bíll kæmi,“
segir hún og brosir.
„Þessir kettir eru öðlingar, rosa-
lega ljúfir, glaðir og skemmtilegir.
Mjög kelnir. Ef það er opið inn í
svefnherbergi koma þeir allir upp í.
Og þegar það er got er ég eins konar
kisuljósmóðir. Svo þarf að baða kett-
ina og blása af og til.“
Vilja þeir láta blása sig?
„Sumir eru hræddir við blásarann
en þeir láta sig hafa það.“
Er ekkert erfitt að vera með
svona marga ketti?
„Nei, því fleiri gæludýr því meiri
gleði.“
Þrettán kettir af Himalayan
Perisan-tegund búa nú á
heimili Dagrúnar. Átta eru
þó á leiðinni á ný heimili.
Morgunblaðið/Ásdís
Dagrún Matthíasdóttir hefur í nógu að snúast að kenna, vinna að myndlist og
sjá um þrettán ketti. Hún segir langa biðlista vera eftir þessari tegund.
Dagrún er myndlistarkona og tekur
gjarnan þátt í gjörningum á Akureyri.
Þessi hvíti Himalayan er
glæsilegur og stillti sér
upp fyrir myndatökuna.
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22.11. 2020
LÍFSSTÍLL