Morgunblaðið - 04.12.2020, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 04.12.2020, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. DESEMBER 2020 ✝ Lilja Dóra Kol-beinsdóttir fæddist á sjúkra- húsinu á Akureyri 20. júní 1972. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 26. nóv- ember 2020. Foreldrar henn- ar eru hjónin Sjöfn Gunnarsdóttir, f. 23.7. 1944, hús- móðir og fyrrv. veitingakona, og Kolbeinn Gunnarsson, f. 6.6. 1945, yfirfiskmatsmaður, d. 9.5.2016. Bróðir Lilju Dóru er Gunnar Kolbeinsson, f. 26.6. 1967, sjávarútvegsfræðingur í Noregi en kona hans er Greta Sö- vik, f. 14.4. 1965, sjávarútvegs- fræðingur og eiga þau fjögur börn. Eiginmaður Lilju Dóru er Nel- son Vaz da Silva, f. 27.11. 1963, vöru- og flutningafræðingur. Dóttir Nelsons og stjúpdóttir ingu menntamála og landsbyggð- arþróunar í Huambohéraði í Angóla á árunum 1996-2001. Ár- ið 2004 fluttist Lilja til Úganda þar sem hún starfaði sem verk- efnastjóri hjá Þróunarsam- vinnustofnun Íslands í Kampala til ársins 2009. Á árunum 2011- 2013 var hún verkefnastjóri við Alþjóðlega jafnréttisskólann við Háskóla Íslands. Frá árinu 2013-2020 dvaldi Lilja í Mósambík (2013-2017) og Malaví (2017-2020) þar sem hún starfaði, fyrst fyrir Þróunarsam- vinnustofnun Íslands og síðar Ut- anríkisráðuneytið, að þróun- arsamvinnuverkefnum m.a. á sviði jafnréttismála og byggða- þróunar. Árið 2019-2020 starfaði Lilja Dóra sem forstöðumaður sendiráðsins í Lilongwe í Malaví og hafði sem slík yfirumsjón með öllu þróunarsamstarfi Íslands í landinu. Útför Lilju fer fram frá Frí- kirkjunni í Reykjavík í dag, 4. desember 2020 kl. 13. Vegna fjöldatakmarkana verður útför- inni streymt á: https://youtu.be/JllS2DvDEjY Virkan hlekk á streymi má einnig nálgast á: https:/www.mbl.is/andlat Lilju Dóru er Arn- dís Amina Vaz da Silva, f. 5.4. 1995. Lilja Dóra ólst upp í Hafnarfirði. Hún lauk stúdents- prófi frá Kvenna- skólanum í Reykja- vík 1992, stundaði nám í frönsku við Université Paul Va- lery í Montpellier 1992-93, lauk kenn- araprófi frá Det Nödvendige Seminarium í Danmörku 1998 og MA-prófi í menntunar- og þróun- arfræðum frá University of East Anglia í Bretlandi 2003. Lilja lauk auk þess námi í verkefna- stjórnun og leiðtogafærni við Endurmenntun Háskóla Íslands 2010. Frá því að Lilja Dóra lauk stúdentsprófi þá dvaldi hún að stórum hluta erlendis við nám og störf. Hún starfaði sem kennari og verkefnastjóri við uppbygg- Elsku Lilja vinkona mín er látin, langt fyrir aldur fram, það er óskiljanlegt og gerir veröld- ina fátæklegri. Lilju kynntist ég fyrir um 30 árum, hún í Kvennó og ég í MH, en örlögin bjuggu þannig um hnútana að leiðir okkar lágu saman og bundumst við órjúf- anlegum vináttuböndum sem ég er ævinlega þakklát fyrir. Minn- ingarnar hrannast nú upp, hver annarri dýrmætari. Lilja dvaldi mikið erlendis frá því að hún lauk menntaskóla, bæði vegna náms og starfa, lengst af í Afríku, m.a. í Angóla, Úganda, Mósambík og nú síðast í Malaví. Hún starfaði fyrir Þró- unarsamvinnustofnun, síðar ut- anríkisráðuneytið, að þróunar- samvinnu við góðan orðstír. Það að Lilja hafi valið sér starf við þróunarsamvinnu var engin til- viljun, hún hafði áhuga á sam- félagsmálum, jafnréttismálum, pólitík, var góður greinandi og hafði skarpa sýn. Maður skynj- aði alltaf að Lilja nálgaðist starf sitt af mikilli virðingu og næmni. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fá Lilju og Nelson heim í frí, þá voru plönuð matarboð, leik- húsferðir, sumarbústaðaferðir og aðrar samverustundir og allt- af var Lilja hrókur alls fagnaðar með sinni góðu og sterku nær- veru. Matarboðin hjá henni og Nelson voru með þeim betri. Þau saman í eldhúsinu eins og vel smurð vél að elda framandi kræsingar, bæði tvö afbragðs- kokkar og höfðingjar heim að sækja, allt eitthvað svo áreynslulaust. Listinn yfir kosti Lilju er langur en mér fannst hún bara eitthvað svo mikil eðalmann- eskja, góð í gegn, greind, hug- rökk, hreinskilin, gjafmild og skemmtileg. Maður gat alltaf treyst á góð ráð og uppörvun, hún var fyrst til að samfagna á gleðistundum og alltaf var hún óspör á hrós og hvatningu. Hún var með eindæmum orðheppin og hitti oft naglann á höfuðið með heimasmíðuðum frösum sem pössuðu eitthvað svo full- komlega í aðstæður hverju sinni. Við vinkonurnar eigum nokkra góða Liljufrasa sem við grípum í þegar við á. Hún átti það til að senda á mig greinar, uppskriftir, tillögur að bókum til að lesa, leiksýningum, námskeiðum eða bara hverju sem er sem hún þóttist vita að ég gæti haft gagn og gaman af, ég kunni svo virki- lega að meta það og oft kom þetta sér mjög vel. Þetta var eitthvað svo henni líkt, alltaf með fólkið sitt í huga. Það var ekki létt verkefnið sem Lilja fékk í fangið vorið 2019 þegar hún greindist með krabbamein sem reyndist óút- reiknanlegt og erfitt viðureign- ar. Haustið 2019 leit út fyrir að hún væri læknuð af meininu og tóku við nokkrir góðir mánuðir. Því miður tók meinið sig upp aft- ur á vormánuðum 2020 og við tóku erfiðir mánuðir. Æðruleysi, hugrekki og baráttuþrek Lilju áttu sér engin mörk í þessari baráttu. Mikið sem ég á eftir að sakna elsku vinkonu minnar, heimur- inn er svo sannarlega fátækari án hennar. Elsku Nelson og Am- ina, Sjöfn, Gunnar og fjölskylda, ykkar missir er mikill. Minning- in um einstaka konu lifir með okkur. Jódís Bjarnadóttir. Í dag kveðjum við kæra vin- konu og samstarfskonu hinstu kveðju. Við minnumst Lilju Dóru með mikilli eftirsjá en jafn- framt þakklæti fyrir öll árin sem við fengum að vera henni sam- ferða og eiga vináttu hennar. Lífshlaup Lilju Dóru var óvenjulegt. Hún hélt ung að ár- um á vit ævintýranna í Angóla í Afríku og eftir það varð ekki aft- ur snúið. Hún tók ástfóstri við álfuna hlýju og dvaldi þar lang- dvölum og starfaði að uppbygg- ingu í þágu fátækra. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að sam- starfsfólk standi saman og treysti hvert öðru, sigli saman í höfn sama hvað á dynur. Einmitt þess- ir eiginleikar voru aðalsmerki Lilju Dóru, traust og samstaða, bæði með þeim sem hún starfaði með og fyrir. Lilja Dóra var knúin áfram af sterki réttlætiskennd. Hún tók sérhverri áskorun hnarreist og úrræðagóð. Hún var einlægur femínisti sem helgaði sig barátt- unni fyrir bættum kjörum fá- tækra kvenna og stúlkna. Hún var líka glaðlynd og gestrisin og laðaði að sér fólk úr ólíkum kim- um samfélagsins í öllum þeim löndum sem hún bjó og starfaði í. Margir leituðu til hennar og allt- af var hún tilbúin að leggja sitt af mörkum til að ræða málin, að- stoða og leita lausna. Lilja Dóra var sterkur per- sónuleik sem hafði jákvæð og djúpstæð áhrif á samferðafólk sitt. Hún var líka íhugul og grein- andi með ríka tilfinningu fyrir rás tímans. Hún gerði sér grein fyrir að sérhver barátta fyrir bættum heimi er langhlaup þar sem kyn- slóðirnar hver á sinn hátt leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Við minnumst Lilju Dóru með þessu ljóði formóður annarrar okkar. Jafnframt sendum við okkar kæra Nelson, Arndísi Am- inu, Sjöfn, Gunnari og fjölskyld- unni allri okkar einlægustu sam- úðarkveðjur. Þegar stormur fer um fold, stórtré bogna, feyskin falla, fögru blómin, prýði valla bliknuð halla höfði’ að mold. En er dauðinn fer um frón enginn maður óhult sefur. Enginn veit hvers næst hann krefur eða hverjir hverfa sjón. Kæra vina! Horfin heim, þú ert nú, í fjöldans fari fagurt skín í geislans ari, minning þín í minnisgeim. Þroski óx þér fljótt um flest, frábrigði svo mátti telja. Ung þann kost þér vannstu velja; starfa þar sem þörf var mest. Dyggðin er sín eigin laun. Ást á skyldu, ást til manna, yfirburði gaf þér sanna. Þér varð of stór engin raun. Þína af hjarta þakka’ eg dyggð, eins og systur minnast minnar, mikinn hluta ævi þinnar vannstu mér með trú og tryggð. Kveðjan okkar hinsta er heit. Hrærir innstu hjartans taugar, hvarma tregatárum laugar. Hvíl nú rótt í helgum reit. (Sigríður Kr. Jónsdóttir) Ágústa og Þórdís. Látin er langt fyrir aldur fram góð vinkona mín til margra ára. Kynni okkar hófust í Kvennaskólanum í Reykjavík fyrir meira en þrjátíu árum og höfum við ávallt haldið góðu sambandi í gegnum árin þó svo að Lilja hafi verið mikið af þess- um tíma búsett í Afríku. Áhugi hennar á Afríku kviknaði fyrst árið 1991 þegar hún fór í skemmtiferð til Gambíu í Vest- ur-Afríku. Það vildi þannig til að við vorum báðar staddar á Kanaríeyjum það árið í ferð með foreldrum okkar yfir jól og ára- mót og Lilja ákvað að skreppa í stutta ferð yfir til Gambíu. Þar vöknuðu hugsanir hjá henni um það hvernig stæði á því að það væri svona mikill þróunarmunur á þessu litla landi og okkar litla landi. Fljótlega eftir þessa ferð hóf hún kennaranám í Danmörku og fór síðan til frekara náms í mennta- og þróunarmálum á Englandi. Lilja lagði mikla áherslu á mannréttindi og umburðarlyndi í samskiptum og skoðanaskipt- um sínum við fólk, og ég naut þess sérstaklega að eiga við hana heimspekilegar umræður um allt mögulegt. Hún var þó ekkert sérlega hrifin af trúar- hita, fannst eins og mörg af vandamálum heimsins tengdust bókstafstrú. Hún deildi því með mér að líklega hefði kona ein sem hún hitti á ferðalagi sínu gefið henni innsýn í ágæta lífs- speki sem hún greip til reglu- lega. Söguna um „The Three Businesses“, Your Business, Ot- her People’s Business, and God’s Business. Mátuðum við hin ýmsu mál í þessa jöfnu og oftar en ekki gekk dæmið upp. Lilja var ráðagóð, hafði sterk- ar skoðanir og mikla réttlætis- kennd án þess þó að fara yfir mörk. Hún var svo vel inni í öllu sem var að gerast, hvort heldur sem var í hennar nánasta um- hverfi eða heimsmálunum. Ekki síst hafði hún gott eyra og hlust- aði með athygli, henni tókst ein- hvern veginn að láta manni líða þannig að maður hefði alltaf eitt- hvað merkilegt að segja, sama hversu lítilfjörlegt það var. Lilja var gestrisin með ein- dæmum og afar góð heim að sækja, hrókur alls fagnaðar í vinaboðum og hafði einstaklega skemmtilegan húmor sem hún fylgdi sterkt eftir með góðum frösum sem skáldaðir voru á staðnum. Við vinkonur hennar eigum svo margar góðar minn- ingar og upplifanir sem tengjast henni og munum ylja okkur við þær um ókomna tíð. Þó svo að hún hafi bara náð að lifa í rúm- lega 48 ár þá lifði hún svo sann- arlega til fulls, ferðaðist mikið og sá miklu meira en margir aðr- ir geta bara látið sig dreyma um. Eftir rúmlega eitt og hálft ár við erfiða baráttu við krabba- mein þar sem hún sýndi mikinn styrk og æðruleysi þá þurfti hún að játa sig sigraða. Þetta verður líklega að skrifast á God’s Bus- iness, því það er mér algjörlega óskiljanlegt af hverju hún fékk ekki meiri tíma hér á jörð. Næg eru verkefnin fyrir þá sem berj- ast fyrir auknum mannréttind- um og þróunarhjálp og þar lagði Lilja svo sannarlega sitt af mörkum. Far vel, kæra vinkona mín, mínar dýpstu samúðarkveðjur til Nelsons, Aminu, Sjafnar og Gunnars og allra þeirra sem sárt sakna vinkonu og vinar. Blessuð sé minningin um Lilju Dóru Kolbeinsdóttur. Heiða Hauksdóttir. Í dag kveður utanríkisráðu- neytið kæran starfsmann og fé- laga, Lilju Dóru Kolbeinsdótt- ur, sem látin er langt fyrir aldur fram. Lilja Dóra var kennari að mennt og lauk einnig meistara- gráðu í þróunarfræðum í Bret- landi. Þessarar menntunar sá víða stað í starfi hennar enda var menntun stúlkna og fullorð- insfræðsla henni ávallt hugleik- in. Hún brann fyrir að opna heim bæði ungra og fullorðinna með læsi og almennri menntun. Lilja Dóra hóf snemma störf í þróunarsamvinnu. Fyrstu árin tók hún þátt í menntaverkefni í Angóla á vegum danskra félaga- samtaka þar sem hún lærði m.a. portúgölsku. Þrátt fyrir að komast nokkrum sinnum í hann krappan ákvað hún að helga líf sitt baráttunni fyrir betra lífi fá- tæks fólks. Hún gekk til liðs við Þróun- arsamvinnustofnun Íslands árið 2004 og starfaði næstu fimm ár í Úganda. Þar tók hún þátt í upp- byggingu í byggðum fátækra fiskimanna í Kalangalahéraði á Viktoríuvatni, þar sem menntun barna og fullorðinna var mik- ilvægur þáttur. Þótt Lilja Dóra hefði ekki gert neitt annað um ævina, þá var árangurinn af þessu verk- efni magnaður minnisvarði um dugnað, elju og þrautseigju Lilju. Við upphaf verkefnisins var árangur nemenda við lok grunnskóla meðal þess versta í öllu landinu en er nú meðal þess besta. Brottfall úr skóla hefur snarminnkað og stúlkur eru nú orðnar heldur fleiri en dreng- irnir. Eftir nokkurra ára hlé, þar sem Lilja starfaði meðal annars fyrir Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, gekk hún á ný til liðs við Þróunarsam- vinnustofnun árið 2013. Nú var vettvangurinn Mósambík þar sem hún stýrði stuðningi við uppbyggingu fiskveiða og fisk- eldis, fullorðinsfræðslu og bygg- ingu á vatnsveitum og hreinlæt- isaðstöðu í fátækum, afskekktum þorpum. Þegar Þróunarsamvinnustofnun sam- einaðist utanríkisráðuneytinu árið 2016 varð Lilja Dóra hluti af þeirri öflugu liðsheild sem gekk til liðs við ráðuneytið. Árið 2017 flutti hún sig um set og tók við verkefnastjórn stuðnings Íslands við Man- gochihérað í Malaví. Þar var menntun barna í forgrunni auk byggingar nýrrar fæðingar- deildar við héraðssjúkrahúsið og uppbyggingar á vatnsveitum. Ári síðar tók hún við starfi sem forstöðumaður íslenska sendi- ráðsins í Malaví og staðgengill sendiherra. Lilja Dóru nægði ekki að vera öflugur þróunarsérfræð- ingur á vettvangi heldur vildi hún miðla af reynslu sinni og þekkingu í fræðaheiminum og var virk í umræðu um þróun- arsamvinnu. Hún var m.a. með- höfundur að fyrstu skýrslu Um- hverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP, um framtíð- arhorfur í jafnréttis- og um- hverfismálum. Hún var að auki virk í félagasamtökum áhuga- fólks um þróunarsamvinnu. Kraftur, eldmóður og fag- mennska einkenndi Lilju Dóru í öllum hennar störfum. Hún var einstaklega ráðagóð og lausna- miðuð í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún átti auðvelt með að skapa góðan anda og samhug og dreif fólk með sér til góðra verka. Hún var þróunar- sérfræðingur í bestu merkingu þess orðs og er sárt saknað. Fyrir hönd starfsfólks utan- ríkisráðuneytisins votta ég fjöl- skyldu Lilju Dóru og vinum mína dýpstu samúð. Martin Eyjólfsson. Ég á erfitt með að trúa því og sætta mig við að Lilja vinkona mín sé fallin frá. Hún sem bjó yf- ir svo miklum lífskrafti og geisl- aði af gleði og hreysti. Mér fannst hún vera ósigrandi. Hún hafði rekið kennaraskóla í Ang- óla á tímum borgarastríðs og þurft að hnipra sig saman inni á baðherbergi til að verjast skot- hríð. Þar hafði hún einnig náð að tala til mann sem skreið inn um glugga á blokkaríbúð þar sem hún bjó og hafði ekkert gott í hyggju. Hún hafði flakkað um heiminn, búið í Afríku um árabil og sigrast á malaríu og öðrum hitabeltissjúkdómum. Hún hafði enn svo miklu að miðla bæði á sínu sérsviði í mennta- og heil- brigðismálum í suðurhluta Afr- íku og til fjölskyldu og vina. Auðvitað myndi hún sigrast á krabbameininu, þó óvenju illvígt væri. Leiðir okkar Lilju lágu fyrst saman fyrir næstum 30 árum, í óhefðbundnum kennaraskóla í Danmörku. Nemendurnir bjuggu á heimavist og tóku þátt í öllum rekstri skólans, hvort sem um var að ræða eldamennsku fyrir tugi manns, þrif eða við- hald á byggingum. Lilja byrjaði ári á undan mér. Hún var ein- staklega drífandi, verklagin, klár og dugleg. Best var þó hvað hún var skemmtileg. Hún átti auð- velt með að sjá spaugilegu hlið- arnar á tilverunni og nennti ekki að taka þátt í neinu kjaftæði eða neikvæðni. Síðasta árinu vörðum við í starfsnám í kennaraskóla í Afríku, hún í Angóla en ég í Mó- sambík. Þarna hófst leið okkar beggja í þróunarmál og ást á Afríku. Við vorum samtíða í meistara- námi í þróunarfræðum í Bret- landi og unnum seinna samtímis fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Hún byrjaði nokkrum árum á undan mér og var í Úg- anda. Þangað fór ég með sam- starfsaðilum úr tveimur ráðu- neytum í Mósambík til að skoða verkefnið sem hún stjórnaði og læra af henni. Ég dáðist að því hversu gott samstarf hún átti við yfirvöld í Úganda og hversu miklu þau fengu áorkað í byggðaþróun í Kalangala-héraði. Ég held að þar hafi miklu ráðið góð blanda Lilju af fagþekkingu, skynsemi, ákveðni, heiðarleika, kímnigáfu, hlýju og auðmýkt. Ég framlengdi ferðina og við fórum m.a. í ógleymanlega ferð að upptökum Nílar. Lilja keyrði jeppann af röggsemi, með barða- stóran hatt, í mjög svo kaótískri umferð Kampala-borgar, á með- an hún fræddi mig um staðhætti. Eftir nám okkar í Bretlandi hittumst við í raun ekki oft. Þá sjaldan sem við bjuggum í sama landi vorum við ekki í sama landshluta. Þegar við hittumst var þó alltaf eins og við hefðum síðast hist í gær og glatt á hjalla. Það var líka gott að eiga Lilju að því hún benti á mig þegar henni fannst einhver geta nýtt starfs- krafta mína. Ég hugga mig við að þó að Lilja fengi allt of stutta jarðvist þá nýtti hún tímann vel. Hún hafði ferðast meira, upplifað fleira og haft áhrif á fleiri í lífi og starfi en margir sem eldri verða. Hún hafði fylgt sinni sannfær- ingu, elt sína drauma, eignast ótal vini, átt ástríkt hjónaband og alið Amínu sína upp frá barnsaldri. Nelson, Amínu, Sjöfn, Gunn- ari, fjölskyldu og vinum votta ég mína dýpstu samúð. Lilja mín, takk fyrir allt. „A luta continua.“ Marta Einarsdóttir. Mig langar að minnast Lilju Dóru, samstarfskonu minnar, með örfáum orðum. Við unnum lengi fyrir Þróunarsamvinnu- stofnun Íslands og síðar utanrík- isráðuneytið, en yfirleitt sitt í hvoru Afríkulandinu. Við vorum málkunnug, eins og sagt er. En á haustmánuðum 2016 fluttist ég Lilja Dóra Kolbeinsdóttir Elskuleg móðir okkar, amma, tengdamamma og systir, SIGRÚN VIGDÍS VIGGÓSDÓTTIR leikskólakennari, Breiðuvík 18, Reykjavík, lést í faðmi fjölskyldunnar 28. nóvember. Útförin fer fram 8. desember klukkan 15 í Grafarvogskirkju. Vegna aðstæðna verða einungis nánasta fjölskylda og vinir viðstödd. Athöfnin verður í streymi á www.mbl.is/andlat. Aðstandendur vilja þakka starfsfólki HERU, 11E og líknardeildar Landspítalans fyrir hlýju og góða umönnun. Þeim sem vilja minnast Sigrúnar er bent á Hugarafl. María Ingibjörg Ragnarsd. Helgi Þór Harðarson Guðmundur Lár Ingason Nanna Björk Bjarnadóttir Ása Sigríður Ingadóttir Svavar Páll Pálsson Viggó Már Ingason Ásta Björk Guðmundsdóttir og barnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.