Lögmannablaðið - 2016, Qupperneq 22

Lögmannablaðið - 2016, Qupperneq 22
Á LÉTTUM NÓTUM Af Merði lögmanni Árið hafði farið þunglega af stað hjá Merði. Vonbrigðin yfir árangri handboltalandsliðsins sátu í honum, að ógleymdu Borgunarmálinu sem hann hafði eytt ófáum tímum í að reyta hár sitt yfir – var enn eitt góðærið í uppsiglingu þar sem hann fengi ekki að kaupa bestu bitana á tombóluverði? Skjólstæðingar Marðar voru vanir því að þurfa að bíða með að fá svör, enda hlýða lögmál hins júrídíska þankagangs ekki stimpilklukkum eða tímastjórnunaráætlunum. En nú bar svo við að jafnvel hans traustasti kúnnahópur var farinn að ókyrrast og lenga eftir svörum. Mörður ákvað því að grípa til sinna ráða og gera nokkuð sem hann hélt að hann myndi aldrei gera aftur, þ.e. að ráða fulltrúa. Hann auglýsti í helstu miðlum landsins, Lögbirtingarblaðinu, Bændablaðinu og Feyki – héraðsfréttablaði Norðurlands vestra og óskaði eftir vöskum starfskrafti, helst ekki á barneignaraldri. Mikill fjöldi umsókna barst. Mörður reyndi að fara í gegnum þessa bunka eins og hann gat en hafði varla við, slíkur var fjöldinn og þurfti hann fljótlega að taka upp kerfi við að flokka umsóknirnar og bjó til tvo stafla. Í öðrum staflanum voru umsækjendur sem Mörður hafði rökstuddan grun um að væru af Framsóknarættum og í hinum voru umsækjendur sem buðust til að vinna frítt. Þetta var kærkomin breyting að mati Marðar en síðast þegar hann auglýsti eftir fulltrúa hljóðuðu hógværustu launakröfurnar upp á þreföld mánaðarlaun hans sjálfs, þótt það fylgdi með í kaupunum að viðkomandi gæti reyndar aldrei unnið lengur en til klukkan tvö á daginn. Tvær umsóknir stóðu þó upp úr. Önnur var frá ungum laganema sem bauðst ekki bara til þess að vinna lögfræðistörf launalaust hjá Merði heldur einnig að sjá um að þrífa heima hjá honum og elda ofan í hann staðgóðan kvöldverð að minnsta kosti þrisvar í viku. Hin var frá útskrifuðum lögfræðingi sem bauðst til að greiða Merði eina milljón króna, gullúr og nýlegan örbylgjuofn ef hann væri tilbúinn að ráða hann í vinnu. Mörður hallaði sér makindalega aftur og lofsöng í huganum samkeppnina. Þeir skyldu þó aldrei hafa haft rétt fyrir sér þessir smjörsleiktu andskotar með frelsistalið í Sjálfstæðisflokknum? Hann sló til og ákvað að ráða báða. Í starfsviðtalinu við þann fyrri útlistaði Mörður í löngu máli hvernig hann vildi fá kvöldmatinn eldaðan og matseðil vikunnar, svikinn héra á mánudögum, kótilettur í raspi á miðvikudögum og soðið súpukjöt á föstudögum og helst eitthvað með því. Seinna viðtalið fór að mestu í að telja milljónina og máta gullúrið, en það var reyndar svolítið þröngt þannig að fyrsta verkefni fulltrúans var að fara og láta víkka það. Þetta fór vel af stað. Fulltrúarnir unnu nótt sem nýtan dag. Mörður byrjaði á að láta þá klára elstu málin en bað þá reyndar til öryggis um að kanna, án þess að mikið bæri á, hvort umbjóðendurnir væru örugglega enn á lífi. Svo unnu þeir sig hratt og örugglega niður bunkana sem höfðu í gegnum árin staflast upp. Þótt Mörður hefði verið alinn upp við aðdáun á íslenskum vinnugildum, þ.e. dyggðina að vinna sem lengst í einu og við sem verstar aðstæður, óháð afköstum og skilvirkni, þá var jafnvel honum farið að þykja nóg um dugnaðinn enda sváfu fulltrúarnir á gólfinu og notuðu gamlar skjalamöppur sem kodda. Á tólfta degi bað Mörður því fulltrúana um að staldra aðeins við og spurði hvort þeir vildu ekki ná að kíkja aðeins heim til sín, kannski fara í sturtu og hitta fjölskyldur sínar. Fulltrúarnir horfðu í forundran á Mörð, eins og hann væri að leggja fyrir þá gildru og tóku til við vinnuna á nýjan leik, af enn meira kappi en fyrr. Þegar Mörður ítrekaði beiðni sína féllust þeir loks á að stoppa aðeins en höfnuðu því alfarið að yfirgefa vinnustaðinn, enda sögðust þeir þess fullvissir að hópur atvinnulausra lögfræðinga myndi bíða við hurðina og vera búinn að leysa þá af hólmi fyrr en varði. Mörður varð allt að því klökkur að heyra viðbrögðin og kynnast þessu vinnusiðferði á tímum þegar samfélagið var að drukkna í kröfum um nútímalega stjórnunarhætti; styttri vinnuvika, meiri fríðindi, lengri frí, bannað að reka konur á barneignaraldri, má ekki ætlast til þess að unnið sé fram á kvöld og um helgar. Hann hugleiddi jafnvel að dusta rykið af aðildinni í Vinnuveitendasambandinu – hér var hann kominn með lögfræðilega vinnumenn sem víluðu ekkert fyrir sér og myndu fórna sér vinnuveitandann. Þessi sæluvíma Marðar var skyndilega rofin þegar bankað var harkalega að dyrum hjá honum og hurðinni hrundið upp með hvelli. Í dyrunum stóð hópur lögreglumanna og tilkynnti einn þeirra Merði að lögreglan væri mætt ásamt mansalsteymi sínu og sérsveit ASÍ. Hann væri grunaður um stórfellda vinnuþrælkun og að greiða laun langt undir kjarasamningum. Þrátt fyrir mótbárur fulltrúanna, sem hentu sér fram fyrir yfirmann sinn og hófu langt mál um að hann væri einn sá besti yfirmaður sem hægt væri að hugsa sér, var ekki hægt að koma neinu viti fyrir þessa menn og linnti ekki látunum fyrr en Mörður var fluttur út í járnum, færður fyrir dómara og sendur rakleitt í gæsluvarðhald þar sem hann mátti dúsa í fimm sólarhringa. Honum til mikils léttis þegar prísundinni lauk þá virtist málið ekki hafa vakið mikla athygli, enda orðið nokkuð algengt að lögmenn væru settir í gæsluvarðhald og ekki tiltökumál sem slíkt. Með samblöndu af samningatækni og lagaflækjum tókst Merði að sleppa með samkomulag við mansalsteymið um að honum yrði ekki gerð refsing en hann yrði þó að greiða fulltrúunum laun, bæði fyrir lögfræðistörf og það sem honum þótti öllu verra, fyrir nudd og eldamennsku á yfirvinnutaxta. Allraverst var þó endapunkturinn í samkomulaginu – að Mörður samþykkti að sækja 40 klukkustunda námskeið hjá Félagi mannauðsstjóra og nútímastjórnenda um mikilvægi þjónandi forystu og þess að starfsfólki líði vel í vinnunni. Lærir svo lengi sem lifir. Búðu þig undir spennandi framtíð Ferðin frá hugmynd að farsælu fyrirtæki með skýra framtíðarsýn kallar á öflugan samstarfsaðila. Kynntu þér þjónustu okkar á arionbanki.is/fyrirtaeki Fyrirtækjaþjónusta Arion banka 2016 Nú erum við aftur á barmi nýrrar byltingar. Við erum mjög bjartsýn á framtíðina. 1997 Hugmyndin með EVE Online var að búa til geim-tölvuleik sem margir gætu spilað á sama tíma. Þetta var algjör bylting á þeim tíma.

x

Lögmannablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.