Tölvumál - 01.01.2018, Síða 26
26 26
Í 120 ára gömlu húsi í Reykjavík hefur höfundur ásamt metnaðarfullum
hópi hugbúnaðarsérfræðinga og sérfræðinga í mennta- og heilbrigðis-
vísindum unnið að því að nýta tæknibyltinguna til að bæta aðgengi að
hjálp. Verkefnið er margþætt enda þjónusta heilbrigðis- og menntakerfis
við einstaklinga bæði flókin í eðli sínu en ekki síður (óþarflega) flókin
kerfislega.
VERÐUR ROF Í HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU?
Allar líkur eru á rofi á markaði sérfræðinga í heilbrigðis- og menntageiranum
á næstu árum. Við höfum séð ótal dæmi um slíkt í öðrum geirum. Allt
frá rofi á leigubílamarkaðnum (Uber), hótelmarkaðnum (Airbnb) og
tónlistarmarkaðnum (Spotify) að breyttri hugmyndafræði með tilurð
verkefna eins og Khan Academy, Coursera og greininga eins og
námsgreiningu (e. learning analytics). Dæmin eru ótrúlega mörg og mikið
hefur gerst á síðustu árum vegna aukinnar tækniþekkingar og framfara
í hugbúnaðarþróun. Mörg þessara verkefna eiga það sameiginlegt að
sneiða framhjá óþarfa milliliðum og koma efninu nær neytandanum. Oftar
en ekki hefur það gríðarlega jákvæð áhrif fyrir neytandann sjálfan og á
það sameiginlegt að vera neytendastýrð þróun.
HIN ÍSLENSKA KARA
Kara (www.karaconnect.com) er byggð upp sem verkvangur (e. platform)
sem veitir annars vegar sérfræðingum rafræna skrifstofu sem dregur úr
óþarfa skrifræði og býður örugga netfundatækni í vafra og hins vegar
einfalda og örugga gátt fyrir skjólstæðinga þeirra til að nálgast hjálp með
netfundi eða spjalli. Verkefnið er ærið og fjölmargar hugmyndir liggja fyrir
til að gera Köru fjölþættari svo hún nýtist sem flestum. Aðgengi að hjálp
og einfaldleiki eru lykilorð í vinnu okkar hingað til sem endranær. Taka
ber fram að Kara fer eftir reglum og lögum er varða vörslu viðkvæmra
gagna og er ekki lækningatæki.
ALLRA HAGUR
Á síðustu árum höfum við hjá Köru lært, lesið og rýnt í hegðun sérfræðinga
sem eru nánast alltaf yfirbókaðir en glíma við frekar erfiðan rekstur ef þeir
reka eigin stofu, m.a. vegna mikilla affalla skjólstæðinga. Hlutfallslega fer
því mikið af tekjum í súginn sem og tími auk þess sem enn í dag eru
flestir sérfræðingar að taka tíma sjálfir í bókhald, bókanir og skráningar
gagna á blöðum sem flest fyrirtæki hafa nýtt tækni til að einfalda. Afföll
eru svipuð eða meiri hjá hinu opinbera. Kara mætir öllum þessum þáttum
og býður sérfræðingum upp á leið til að ná í skjólstæðinga sem forfallast
og/eða innheimta af þeim forfallagjöld. Sambærileg hagræðing felst í
tækninni fyrir skjólstæðinga sem geta sparað mikinn ferðakostnað og
tíma og ekki síst, eins og hefur komið í ljós, losnað við ímyndaða skömm
sem fylgir því að biðja um hjálp.
Hagurinn er ekki síður samfélagslegur. Því fleiri sérfræðingar sem nýta
sér Köru því betra aðgengi verður að ólíkum sérfræðingum með ólíka
sérfræðikunnáttu. Þannig nýtist tími þeirra og þekking betur auk þess
sem jafn aðgangur er óháð búsetu, hvort sem er sérfræðings eða
skjólstæðings. Að sama skapi geta opinberir aðilar lesið gögn um árangur
meðferða og geta rýnt í fjölda skipta á bak við meðferðir. Sérfræðingar í
dreifbýlu sveitarfélagi geta nú nýst óháð staðsetningu ólíkum bæjarfélögum,
t.d. skólasálfræðingur í einum framhaldsskóla getur nýst öðrum.
Auglýsingar eftir 40% stöðu sérfræðings gæti heyrt sögunni til. Ef tæknin
hefur raunveruleg rofáhrif má jafnvel ímynda sér að flæði fjármuna til að
nálgast hjálp hjá sérfræðingum eins og Kara styður við klippi hreinlega
út endalausar greiningar og biðlista og dreifingu fjármuna niður mörg lög
af stjórnkerfi.
STAÐAN Á ÍSLANDI
Fjarheilbrigðisþjónusta á Norðurlöndunum er komin töluvert lengra áleiðis
en hér á Íslandi. Danmörk er með yfirlýsta stefnu um að auka ekki útgjöld
til heilbrigðismála (11%) heldur auka framlegð og aðgengi með
tæknilausnum. Danirnir eru jákvæðir fyrir alls kyns tilraunum til að sjá
hvað virkar og hvað ekki og líta þannig á að slíkar tilraunir verði að eiga
sér stað. Svíar eru komnir langlengst og eru með skýra opinbera stefnu.
TÆKNIN EYKUR
AÐGENGI AÐ HJÁLP
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Köru Connect