Tölvumál - 01.01.2018, Page 32
32
Árið 2020 er spáð að nettengd tæki í heiminum verði fleiri en 24 milljarðar.
Það þýðir að hver einasti jarðarbúi eigi að meðaltali fjögur nettengd tæki.
Öll þessi tæki mynda svo það sem oftast er kallað hlutanet, internet allra
hluta eða Internet of Things (IoT) á ensku.
Internet allra hluta hefur verið tískuorð í okkar fagi nú í mörg ár, margt af
því sem hefur verið lofað hefur ræst en þó er langt í land enda er hinn
almenni notandi ekki komin svo langt í sinni snjallvæðingu né hefur
endilega áhuga á henni. Flest tækjanna í dag fyrir utan hið hefðbundnu
eru í notkun í verksmiðjum, iðnaði og í ýmiskonar rannsóknarvinnu.
Nóg er samt til af snjalltækjum, tækjum sem eiga að leysa eitthvað
ákveðið verkefni sem að við oft vissum einfaldlega ekki að væri
vandamál. Þessi snjalltæki öll kosta svo flest talsvert meira en
ósnjalla útgáfan sem við höfum notað í fjölda ára án vandræða.
En eins og með svo margt eru það svo markaðsöflin sem telja
okkar trú um að þetta verðum við að eignast, rétt eins og með
fótanuddtækin um árið.
Þar sem ég fékk tækniáhugann í vöggugjöf frá föður mínum er
ég þó kominn langt yfir 25 nettengd tæki þegar þetta er skrifað.
Ekkert þessara tækja breyta lífi mínu en þau gera þó lífið
þægilegra á marga vegu en óþarfi er að telja upp þá kosti eða
galla sem snjallvæðingin með sínum snjallsímum og spjaldtölvum
hefur fært okkur. Svo fyrir utan öll þessi ímynduðu þægindi og
einfaldleika finnst mér þetta tæknibrölt bara svo skemmtilegt.
Í dag get ég stýrt nær öllu á heimili mínu, bæði með símanum
mínum, forritanlegum hnöppum nú eða með raddstýringu en því
miður á ensku eins og staðan er í dag. Ég get stýrt ljósum, hitastigi
í ofnum og gólfum, sjónvarpinu og öllum þeim tækjum sem tengjast
því ásamt auðvitað útidyrahurðinni. Fjölmargir nemar hafa svo það
hlutverk að nema hreyfingu, birtu, hita og rakastig og allt talar þetta
fallega saman þökk sé stöðlum sem gera það auðvelt að smíða
keðju atvika sem gera eitt og annað ef ákveðnar forsendur eru fyrir
hendi. Þannig eru útiljósin aðeins í gangi sé ástæða til þökk sé
birtuskynjara sem stýrir útiljósunum, perurnar eru þó ekki snjallar
heldur rofarnir fyrir ljósin. Snjallmyndavélin fer svo aðeins af stað sé
enginn heima og aðeins ef hreyfiskynjarar nema hreyfingu enda algjör
óþarfi að eiga upptöku af mér að grilla eða að vökva blómin. Blómin
auðvitað láta vita þegar að þau þurfa næringu, enda litlir nemar í
moldinni sem segja til um næringarstig hennar og raka.
Ef ég segi svo upphátt að nú ætli ég að horfa á sjónvarpið fer það í
gang ásamt myndlyklinum og sjónvarpið stillir á rétt tengi. Þau ljós
sem ég hef raðað í keðjuna slökkva þá á sér og snjallhátalarinn hættir
að spila tónlist sé hún í gangi og í framtíðinni munu gluggatjöldin síga
niður, það er næst á verkefnalistanum.
Framleiðendur snjalltækja eru þó að framleiða fjölda tækja sem lítil eða
engin not eru af. Það þarf ekki að snjallvæða allt og sumt ættum við alls
ekki að vilja snjallvæða enda þarf alltaf að horfa gagnrýnum augum á
öryggi nettengdra tækja því ekki vill maður að óprúttnir aðilar komist inn
fyrir veggi heimilisins eða í okkar persónulegu gögn sem geymd eru í
skýinu.
Til dæmis er lítill tilgangur í því að snjallvæða hjálpartæki
ástarlífsins, það eru ekki tæki sem maður óskar þess að
tölvuþrjótar hafi aðgang að eða þá að slík tæki séu að
senda gögn upp í skýið þar sem maður getur misst
stjórn á útbreiðslu þeirra upplýsinga. Þau er samt til
og seljast víst ágætlega.
Fyrir nærri tvær milljónir er hægt að kaupa vélmenni sem
er líka fataskápur sem brýtur saman þvottinn, himnasending
fyrir hvert heimili. Hugsa þó að best sé að bíða eftir því að
tæknin þróist og IKEA geri sína útgáfu af þessum skáp
sem eflaust myndi heita Klädrobot.
Heyrnartól sem senda rafmagnsstraum í undirstúku heilans
sem á að svæfa löngun í mat og segir líkamanum að brenna
fitu heldur ekki vatni vísindalega og húðskanninn sem mælir
rakastig húðarinnar, stærð svitahola, mælir hrukkur og
mælir með kremum frá aðeins einum framleiðanda til að
bæta húðina ekki heldur en bæði tækin eru auðvitað í boði
fyrir þá sem vantar slíkt.
Auðvitað er svo nauðsynlegt að eiga litla Keecker vélmennið
sem er með innbyggðum myndvarpa og eltir þig um heimilið
svo að þú missir nú ekki af fréttum eða getir séð leikinn.
Snjallar brauðristar, speglar, inniskór og fullt af öðrum hlutum
hafa verið snjallvæddir með eflaust einhverjum tilkostnaði en í
raun litlum tilgangi. En markaðurinn fyrir snjalltæki þroskast og
þróast enda þessi vörulína ný. Framleiðendur dæla því út sem
flestu og athuga hvað vekur áhuga fólks og hreyfist úr hillum
verslana. Með tímanum verða tækin svo betri og enn fleiri tæki
auðvelda og auðga líf okkar allra.
Ég vona þó innilega að einn daginn geti ég talað íslensku við tækin
mín, ekki mín vegna heldur þeirra kynslóða sem á eftir mér koma,
tungumálið okkar er það sem gerir okkur að Íslendingum. Skref hafa þó
nýlega verið stigin í rétta átt með stuðningi frá yfirvöldum og stofnun
Almannaróms sem mun reka miðstöð um máltækni. Raddstýring er ekki
bara framtíðin heldur hluti af nútíðinni, öll stærstu tæknifyrirtæki heims
veðja á raddstýringu sem hið næsta stóra stökk með hjálp gervigreindar,
vélræns náms og tauganeta.
Framtíðin er því björt, þó að furðuleg og misnauðsynleg snjalltæki fljóti
með.
TÆKJABYLTINGIN
Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi hjá Símanum