Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Blaðsíða 9

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Blaðsíða 9
Á forsíðu Rauða borðans í ár er mynd af armbandi eftir Brynju Sverrisdóttur. Armbandið er hluti af hönnunarlínu Brynju í skartgripum, þar sem hún færir saman hin margbreytilegustu trúartákn og skapar úr þeim eina heild. Brynja færði HIV-Íslandi/Alnæmissamtökunum rautt armband að gjöf og má því líta á þetta rauða armband sem verndargrip samtakanna. Í litlu kveri, er Brynja gaf út fyrir tveimur árum, má lesa að grunnhugmynd verkanna sé sú að gefa færi á sameiningu fremur en sundrun, á táknrænan hátt. Að baki býr löngunin til skilnings í stað afneitunar. Vitneskjan um andstæður í menningu og lífsmáta, sem þó á að vera unnt að umbera - gagnkvæmt. Virðing í stað fordæmingar. Friður gegn ófriði. Viðurkenning þess að ást okkar hvers til annars felst í því hve ólík við erum. Annars væri nú lítið gaman að lifa! Í rauninni mætti nefna verk Brynju: Alltumlykjandi ást! Brynja virðist sækja margt til langafa síns, Erlings Filippussonar, grasalæknis og græðara. Erlingur fæddist 1873 og dó 1967. Hann var um margt á undan sinni samtíð, en um leið hafði hann í farteskinu kunnáttu þeirra er á undan höfðu gengið. Skildi og skynjaði. Þekkti mátt grasanna og vissi að betra er að hafa augun opin en loka þeim fyrirfram fyrir möguleikunum, mátti reyndar hljóta bágt fyrir. Svipað má segja um Brynju og hönnun hennar. Hún lokar ekki augunum fyrir möguleikum sameiningar og kærleika. Henni hugnast það betur en afmarka sig á einum bletti og telja hann öðrum betri - eða jafnvel bestan, eins og mörgum hættir til. Eiginmaður Brynju, Brian Griffin ljósmyndari, segir í bók sinni BRIANGRIFFINFLUENCES, sem hann tileinkar Brynju og Erlingi langafa hennar: Í náttúrunni er enginn valdapíramídi, allt er samtvinnað og tengt. Já, allt er samtvinnað og tengt, við mannfólkið, í öllum okkar margbreytileika, hvað varðar skoðanir og langanir, lífsviðhorf, trú eða trúleysi, hvað þá útlit og athafnir. En eins og grös jarðar ættum við kannski að gera okkur betur grein fyrir því, hve líf okkar er samtvinnað og tengt. Við erum hvert öðru háð og ættum því í auðmýkt að skynja að ekkert okkar er öðru ofar. Embracing Faith Verndargripur Alnæmissamtakanna Brynja Sverrisdóttir Fyrir neðan: Embracing Faith-armbönd Brynju Ljósmyndir: Brian Griffin Texti: Birna Þórðardóttir

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.