Víðförli - 01.10.2001, Side 4
4
VÍÐFÖRLI
20. ÁRG. 7. TBL.
Kirkjuþing að sænskum sið
Sænska kirkjan hefur fengið talsvert rými í fjölmiðlum nú í
haust. í september var kosið til kirkjuþings og voru þær
kosningar um margt kirkjusögulegar. Sænska kirkjan sá í
fyrsta skipti sjálf um alla framkvæmdina, en hún hafði
rúmu ári fyrr tekið við stjórn allra sinna mála úr hendi hins
opinbera. Allir sem skráðir eru í sænsku kirkjuna hafa
kosningarétt en hlutfall meðlima mun vera svipað og á Is-
landi. Auk kirkjuþingskosninga var kosið til sóknarnefnda
og ýmissa annarra trúnaðarstarfa innan kirkjunnar. Alls
voru um 100.000 manns á framboði til margvíslegra emb-
ætta innan kirkjunnar.
Kosningarnar byggjast upp með sama hætti og val til
þings þar sem valið er á milli lista. Jafhffamt bjóða helstu
stjórnmálaflokkarnir fram svo tengingin við stjórnlaga-
þingið verður enn ljósari. Að þessu sinni gátu kjósendur
valið á milli 17 lista, bæði á vegum stjórnmálaflokkanna
og einnig svokallaðra „ópólitískra" kirkjulista. Þetta form
má rekja til eftirstríðsáranna. Eðlilegt þótti að þjóðin fengi
að stýra málefnum kirkjunnar og velja þá sem mörkuðu
stefnu hennar. Kirkjan var jafnframt ríkiskirkja og var því
litið til hins pólitíska kerfis að fyrirmynd þegar finna átti
meirihluta þjóðarinnar. Frá þeim tíma hafa stjórnmála-
flokkarnir mótað stefnu kirkjunnar á þessum vettvangi.
Nú er komin hálfrar aldar reynsla á þetta fyrirkomulag,
kosti þess og galla. Augljóslega hefur það haft það í för með
sér að kirkjan hefur verið í nánari tengslum við þjóðlífið og
völd leikmanna ættu að vera nokkuð vel tryggð. Flokkarnir
leggja fram ákveðna stefnuskrá og verður því valið mun
gegnsærra en þegar kosið er á milli einstaklinga. Fólk á að
geta kosið í samræmi við þær væntingar sem það hefur til
kirkjunnar.
Ennfremur gefa kosningar tilefni til að ræða einstaka
málaflokka og leggja svo undir atkvæði. Sem dæmi um
þetta má nefna deiluna um það hvort vígja eigi konur til
prestsembætta innan kirkjunnar. Hér rétt norðan við
Gautaborg, í Bohus-léni, hafa andstæðingar kvenpresta
verið háværir í gegnum tíðina. Þar urðu málefni kven-
presta eitt af „kosningamálunum" og náði flokkur einn, er
berst fyrir réttindum kvenpresta, góðu fylgi. Þarna gáfu
kosningarnar fólki sem ef til vill stendur ekki fremst í
flokki í sóknarnefndum og kirkjulegri pólitík kost á að taka
afstöðu f tilteknu hitamáli.
Þessu fyrirkomulagi er fyrst og fremst ætlað að viðhalda
lýðræði innan kirkjunnar og er ofangreint dæmi til marks
um að sú viðleitni getur borið raunhæfan árangur.
Á því eru hins vegar einnig annmarkar og raunar svo
miklir að draga má t efa hvort kosningarnar séu jafn lýð-
ræðislegar og þeim er ætlað að vera. Fram að síðustu kosn-
ingum hefur þátttaka sjaldan farið yfir 10% svo það býður
þeirri hættu heim að fámennir öfgahópar geti komist til
áhrifa.
Sú varð og raunin í síðustu kosningum en þá bauð
Sænski lýðræðisflokkurinn fram lista. Flokkur þessi er
lengst til hægri í pólitíkinni og hefur það á stefnuskrá sinni
í kirkjupólitík að færa ásýnd sænsku kirkjunnar aftur til
þess horfs er var áður en fólk úr annarri menningu tók að
setjast hér að í ríkum mæli. Margir óttuðust að flokkur
þessi kæmi hópi fólks inn á kirkjuþing og gæti því haft
áhrif á stefnu kirkjunnar í ýmsum mikilvægum málaflokk-
um, svo sem á sviði siðferðis og samskipta við hópa inn-
flytjenda.
Af annarri gagnrýni má nefna að eftir að kirkjan hefur
verið aðskilin frá ríkinu þykir óeðlilegt að hún skuli vera
jafn bundin í klafa hefðbundinna stjórnmála sem raun ber
vitni.
Loks eru kosningar þessar mikið fyrirtæki og á mörkum
þess að vera mögulegar fyrir sjálfstætt starfandi trúfélag.
Samkvæmt upplýsingum í málgagni kirkjunnar, Kyrltans
tidning, kostuðu síðustu kosningar um 150 milljónir
sænskra króna, sem er helmingi meira en í fyrra þegar hér-
aðs' og sveitarstjórnir önnuðust verkefnið. Vafalaust hefði
mátt verja hluta þeirra fjármuna til brýnni verkefna.
Um 80% atkvæðisbærra Svía höfðu svo kost á því að
ganga að kjörborðinu þann 16. september og hafa sín áhrif
á stefnu kirkjunnar. Alls greiddu 14% þeirra atkvæði sitt
sem er með allra mesta móti. Fjölmiðlar eru sammála um
að kirkjan megi vel við una með þátttökuna og ekki síður
að téður lýðræðisflokkur fékk aðeins tvo menn af 251 á
þingið. Kirkjan getur líklega þakkað þeim flokki þessa góðu
kjörsókn því menn voru uggandi um að hann fengi stóran
hluta atkvæðanna.
Sænska kirkjan beitir mjög dýrri og flókinni aðferð til
þess að velja sér fólk til forystu. Aðferðin er að sama skapi
djörf og má færa rök fyrir sú hugdirfska sé óraunhæf. Ára-
tuga reynsla sýnir að aðeins 10-15% kosningabærra nýta
atkvæðisrétt sinn og þótt kirkjan megi ef til vill vel við
una að fá slíkt fylgi í almennum kosningum er það þó undir
þeim mörkum sem ættu að veita réttan þverskurð af áhuga
og vilja þeirra sem henni er ætlað að þjóna. Því hlýtur að
koma að þvf kirkjan taki að leita að einfaldara og ódýrara
fyrirkomulagi.
Skúli S. Olafsson, prestur Islendinga í Svíþjóð
Nýr erkibiskup bandarískra lútherana
Evangelískdútherska kirkjan í Bandaríkjunum hefur
fengið nýjan biskup til forystu. Reyndar tala lútheranar
þar vestra ekki um forystubiskup heldur forsætisbiskup.
Mark S. Hanson hefur tekið við af George Anderson,
sem veitt hefur ELCA forystu síðustu ár. Anderson var
m.a. á Islandi á kristnihátíð og tók þátt í ráðstefnunni
„Framtíðartrú: Trú og vísindi" sem haldin var í júlí
2001. Hinn nýi biskup, Mark S. Hanson, var settur í
embætti 6. október sl.
Sigurður Árni Þórðarson