Víðförli - 01.10.2001, Blaðsíða 5

Víðförli - 01.10.2001, Blaðsíða 5
OKTÓBER 2001 VÍÐFÖRLI 5 Velkomin til Skálholts Víðförli bað sr. Bernharð Guðmundsson, nýráðinn rektor Skál- holtsskóla, fræðslu- og menningarsetri kirkjunnar, að segja frá fyrstu vikunum í nýju starfi. Hveitibrauðsdagarnir í nýju starfi líða fljótt því að það tekur tíma að verða sæmilega hagvanur og tileinka sér heildarsýn yfir starfsemina. Það hefur verið gott að koma til Skálholts, ekki síst fyrir viðskilnaðar- og viðtökufund sem skólaráðið gekkst fyrir. Fráfarandi rektorar, sr. Kristján Valur Ingólfsson og dr. Pétur Pétursson, settur rektor síð- ustu tveggja ára, skiluðu boðhlaupskeflinu í hendur nýs rektors sem er nú að hefja sinn áfanga í hlaupinu, reynir að missa ekki keflið, ná sæmilegu skriði og komast í mark! Staðarkynning Fyrstu vikurnar hafa farið í markaðsstarf og sérstaklega litið til virku daganna sem ekki hefur reynst auðvelt að nýta í Skálholti. Hef ég því heimsótt um 30 félagasamtök launa- fólks og stofnanir, sérstaklega innan atvinnulífsins, kynnt aðstæður í Skálholti og boðið samvinnu um námskeið, starfsdaga o.þ.h. þar sem staðarkynning og helgihald kirkj- unnar væri innan dagskrár. Slík samvinna fæli í sér nokk- urt samtal milli kirkjunnar og samfélagsins og gæti leitt til frekara samstarfs. I kynningunni hefur verið lögð áhersla á sérleik staðarins, kyrrð hans, sögulegt umhverfi og hina trúarlegu vídd sem felur í sér að ekki hentar öll starfsemi þar. Móttökur þessara aðila hafa verið góðar og hefur kom- ið fram að Skálholt henti vel til þess að hýsa skipulagsdaga og starfslokanámskeið fyrir fólk sem er enn í vinnu eða ný- komið á eftirlaun. Verulegs árangurs er ekki að vænta fyrr en á næsta ári, slík starfsemi er skipulögð fram í tímann en nokkur árangur er þó þegar sýnilegur. Eldri borgarar og önnur þau sem ekki eru bundin í vinnu eru einnig markhópur okkar í þessu kynningarstarfi. Skipulagðir hafa verið fræðsludagar í Skálholti með Sam- bandi eldri borgara og verður fyrsta samveran í októberlok. Hér er um að ræða þriggja daga dvöl og verða áhugaverð umræðuefni til umfjöllunar dag hvem undir leiðsögn kunnáttumanna. Ef þessi tilraun tekst vel verður haldið áfram á sömu braut og jafnvel með öðrum formerkjum líka, söngdagar, leiklistardagar o.s.frv. Kynningarstarfið hefur einnig beinst að erlendum aðil- um, Alkirkjuráðinu og Lútherska heimssambandinu, nor- rænum kirkjusamtökum og lýðháskólahreyfingu, sem þegar hafa brugðist við. Heimsóknir erlendra hópa þyrfti að tengja íslensku kirkjulífi á einhvern hátt. Það er til gagns fyrir báða aðila. Flestar helgar bókaðar fram á aðventu Rætt hefur verið við ýmsa kirkjulega aðila um nýtingu Skálholts, en bókunarlistar sýna að þar mætti vera miklu meira samstarf. Hefur sérstaklega verið hvatt til að halda símenntunarnámskeið fyrir launað starfsfólk stærri safnaða í vikubyrjun og starfsfundi og samveru sóknarnefnda í vikulok. Svörun er allgóð og eru nú flestar helgar bókaðar fram á aðventu. Þær sóknarnefndir sem þegar hafa átt slfk- ar samverur í Skálholti telja það afar góða fjárfestingu, samstarf og áhugi fólks eflist mjög við slíka dvöl. Samvinna hefur tekist með þeim aðilum kirkjunnar sem einnig ann- ast fullorðinnafræðslu, þ.e. Leikmannaskólanum og fræðslusviði biskupsstofu, um nýtingu Skálholtsskóla og aðra verkaskiptingu. Einnig hefur verið rætt óformlega við forystu Löngumýrarskóla. Námskeið fyrir nágrannasveitir Þá er að hefjast samstarf við næsta nágrenni. Biskups- tungnahreppur, Búnaðarsamband Suðurlands og Skálholts- skóli efna til grunnnámskeiðs í tölvunotkun og er mark- hópurinn þau sem mega teljast tölvufælin og gætu þess vegna einangrast á vissan hátt. Siðfræði tölvunotkunar verður þar á dagskrá og áhrif tölvu á hversdagslífið til um- ræðu, auk verklegra æfinga að sjálfsögðu! Ef vel tekst til verða fleiri slík námskeið í boði fyrir fólk í uppsveitum Árnessýslu. Árnesprófastsdæmi áformar ýmis námskeið á næstu mánuðum í Skálholti, m.a. fyrir ung hjón sem og fyrir fermingarbörn og hugsanlega meðhjálpara, eins og áður hefur verið gert með mjög góðum árangri. Samstarf við Háskóla Islands, sem fyrri rektorar hafa þróað undanfarin ár, heldur áfram og verður guðfræðideild ítrekað með stúdentahópa nú á haustmánuðum og einnig verkfræðideild. Siðfræðistofnun er að undirbúa málþing í samvinnu við Skálholtsskóla. Þegar fjárhagur Skálholtsskóla hefur batnað má fara að huga meira að eigin frumkvæði í dagskrá skólans. Það verður að sjálfsögðu innan þess ramma sem þegar hefur verið mótaður enda hefur hér verið fjölbreytt starf á und- anförnum árum. Sérstök áhersla verður á kyrrðardaga og væntanlega reynt að þróa ýmsar gerðir slíkra samvera til að sem flestir finni form við sitt hæfi. Stuðningur við starfslið og sjálfboðaliða kirkjunnar er einnig forgangs- verkefni og þá í formi símenntunar og kyrrðardaga. Þá er starf með börnum og fjölskyldum þeirra, t.d. í formi tón- listarbúða, á vinnuborðinu. Þá vil ég að haldið verði áfram að efla Skálholt sem vettvang umræðna fólks víða að í þjóðfélaginu. Miðlun reynsluarfsins Sótt hefur verið til Kristnihátíðarsjóðs um styrk til verk- efnis til stuðnings ungum foreldrum á nýrri öld: Miðlun reynsluarfsins. Verður það unnið í samvinnu við ýmsar stofnanir Háskólans, fjölmiðla og kirkjulega aðila ef styrk- urinn fæst. Við tökum fegins hendi á móti góðum hugmyndum um aukið starf í Skálholtsskóla til eflingar kirkju og kristni í landinu. Við hvetjum lesendur Víðförla til að nýta sér þær aðstæður og aðstoð sem Skálholtsskóli býður upp á. Verið velkomin í Skálholt, bæði í hópi og sem einstaklingar.

x

Víðförli

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víðförli
https://timarit.is/publication/1510

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.