Víðförli - 01.10.2001, Blaðsíða 11
OKTÓBER 2001
VIÐFORLI
ll
Virðingarleysi ríkir í miðbæ Reykjavíkur
Dagur virðingar - málþing í ráðhúsinu
Nú er nóg komið!
Virðing er hátíðlegt orð en virðingarleysi fékk samstarfs-
hópinn Betri borg til að halda málþing í Ráðhúsi Reykja-
vfkur 24. september sl. undir yfirskriftinni „Virðing og
virðingarleysi á degi virðingar“. Þau berja í borðið og segja:
„Nú er nóg komið. Eitthvað verður að gerast, við viljum
breyta virðingarleysinu sem ríkir í miðbæ Reykjavíkur.
Hjálpumst að og setjum virðingarleysinu mörk!“
Stuttmynd Helenu Stefánsdóttur dró upp dapurlega
mynd af tengslaleysi í fjölskyldu þar sem einstaklingarnir
sýna hvert öðru hvorki virðingu né kærleika. Þar er gullna
reglan ekki virt, en sr. Jóna Hrönn Bolladóttir dró hana
fram sem grundvöll mannskilnings okkar. I raun má segja
að þessi regla hafi svifið yfir ráðstefnunni en hugsunin var
klædd í ýmsan búning. Guðmundur Andri Thorsson sagði
t.d. að við þyrftum að líta á annað fólk sem jafningja og
geta sett okkur í spor annarra. Það bentu einnig Antoinette
Gyedu og Guðmundur Magnússon á. Hún er innflytjandi
og hann er bundinn hjólastól. Sjálfsálit okkar felst að hluta
til í hvað öðrum finnst um okkur og hvernig okkur tekst að
komast inni í hús þar sem tröppur virðast vera til að stía
fólki í sundur. Antoinette er frá Ghana og það var mikill
fögnuður þegar hún sagðist stefna að því að verða fyrsta
þeldökka manneskjan á Grund! Margir komu með lifandi
dæmi um virðingarleysi og var saga Arna Gunnlaugssonar
sláandi. Hann gekk fram á brennivínsdauðan útigangsmann
sem margir höfðu séð en ekkert gert fyrir. Uti var kalt og
honum fannst rétt að hringja á lögregluna og það gerði
hann en öðrum nærstöddum fannst það ekki ómaksins vert.
Flosi Ólafsson taldi virðingarleysið í miðborginni stafa
af því að hún væri ekki heima fyrir fólkið sem þar færi um
berjandi og skemmandi. En einhvers staðar yrði íslenska
þjóðin að fá útrás fyrir virðingarleysið!
Mesta athygli mína vakti Sigrún Þorsteinsdóttir grunn-
skólanemandi. Hún var vel máli farin og sagði frá sam-
skiptum unglinga við fullorðna. Þau samskipti lýstu ekki
virðingu fullorðinna gagnvart unglingum og ósjálfrátt spyr
maður sig: „Hvernig eiga unglingar að læra virðingu ef
þeim er ekki sýnd virðing?“
Andardráttur Elísabetar Jökulsdóttur var snjall. Hún
taldi mikilvægt að allir ættu eitthvað sameiginlegt og lét
ráðstefnugesti draga andann í sameiningu og kallaði hann
„hinn virðingarverða andardrátt“.
Að lokum las Helga Kolbeinsdóttir upp frumsamið ljóð
sem snerti alla djúpt. Ljóðið heitir Afganistan og fjallar um
hörmungar og virðingarleysi stríðs sem rænir venjulegt fólk
virðingarverðri framtíð.
Betri borg samanstendur af fulltrúum frá Félagsþjónust-
unni í Reykjavík, Foreldrahúsinu / Vímulausri æsku, Hinu
húsinu, Iþrótta' og tómstundaráði Reykjavíkur, lögreglu-
stjóraembættinu, Miðbæjarstarfi KFUM og K, Rauðakross-
húsinu, Samhjálp og Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar
Rauða krossins. Fulltrúar Betri borgar vildu vekja athygli á
nauðsyn þess að við vöndum framkomu okkar hvert við
annað. Degi virðingar var líkt við slysalausan dag í umferð-
inni. Bent var á mikilvægi þess að hafa slysalausan dag í
samskiptum við hvert annað.
Ragnheiður Sverrisdóttir
Tómasarguðspjall komið út í íslenskri þýðingu
Tómasarguðspjall - orð Jesú sjálfs og annarra
Tómasarguðspjall í íslenskri þýðingu Jóns Ma. Ásgeirssonar
er komið út í útgáfuröð Lærdómsrita Bókmenntafélagsins.
Jón Ma. Ásgeirsson ritar einnig inngang og skýringar.
Einn merkasti handritafundur 20. aldar varð árið 1945
nærri bænum Nag Hammadi í Suður-Egyptalandi, skammt
undan klettagarðinum JabaLal Tarif. Á meðal papírusar-
bókanna sem þar litu dagsins ljós var Tómasarguðspjall
sem hafði verið horfið sjónum manna allt frá því á fjórðu
öld, að talið er.
Ekkert þessara annars merku handrita, sem þama fund-
ust, hafa vakið jafn mikla athygli sem Tómasarguðspjall, en
í því er að finna orð Jesú sjálfs og þeirra sem þegar á fyrstu
öld tóku að túlka þau í heimspekilega átt. Þessa frásögn af
lífi og örlögum Jesú er ekki að finna í guðspjöllum Nýja
testamentisins. Ritið geymir upprunalegustu hefðir, ýmis
ummæli og dæmisögur sem eignaðar eru Jesú frá Nasaret í
Galíleu, margt sem aðeins á sér hliðstæður í elstu heimild-
um að baki guðspjalla Nýja testamentisins eins og við
þekkjum það nú. I ritum kirkjufeðranna svokölluðu er að
finna margar tilvísanir til rita sem ekki hafa varðveist, en
eru aðeins þekkt á okkar dögum af titlinum einum.
Tómasarguðspjall er nú ómissandi þáttur í því að rekja sögu
hins sögulega Jesú og þeirra sem fyrstir tóku að túlka orð
hans og verk á fyrstu áratugum hins kristna tímatals, enda
hefur fundur handritanna leitt til rannsókna á uppruna
kirkjunnar, sögu frumkristninnar út frá forsendum sem ekki
voru kunnar sérfræðingum á sviði guðfræði.
Það fer vel á því að á merkum tímamótum, á 31. útgáfu-
ári Lærdómsrita Bókmenntafélagsins, skuli Tómasarguð-
spjall verða 50. ritið í bókaflokknum. Jafnframt er útgef-
andinn 185 ára. Bókin fæst í Kirkjuhúsinu, Laugavegi 31,
og kostar 2.390 kr.